-Neisti 29. júlí 1949 minningargrein
Neisti 29. júlí 1949 minningargrein
Helgi Björnsson frá Skútu. Minningarorð
Laugardaginn 16. júlí s.l. (1949) var til moldar borinn Helgi Björnsson frá Skútu.
Helgi heitinn var fæddur að Leyningi hér í Siglufirði 14. júlí 1883. Foreldrar hans voru Björn Einarsson og Steinunn Magnúsdóttir.
Þegar Helgi var á fyrsta ári fluttust foreldrar hans að Garði í Haganesi .
Var Helga nokkru síðar komið til fósturs hjá Ingunni Magnúsdóttur, er varð honum sem móður upp frá því.
Ingunn var góð kona, enda minntist Helgi hennar alltaf í viðtölum við menn og talaði um hana sem „mömmu".
Á unga aldri varð Helgi fyrir slysi, og var ekki sami maður upp frá því.
1922 fluttist Ingunn Magnúsdóttir og Helgi hingað til Siglufjarðar og settust að í Skútu, var Helgi upp frá kenndur við Skútu.
Tveimur árum seinna fluttust þau í bæinn. (Siglufjörð)
Um Helga frá Skútu væri mikið og margt hægt að segja og skrifa, þrátt fyrir það, að hann væri ekki neinn af heldri borgurum þessa bæjar.
Eins og fyrr frá greinir varð Helgi á unga aldri fyrir slysi, enda bar hann aldrei sitt barr upp frá því.
Það sem einkenndi Helga einna mest var trúlyndið. Það sem honum var falið að gera, leysti hann af hendi með trúskap og samviskusemi.
Nú kunna margir að álíta, að Helgi hafi vegna lasleika síns, ekki getað fylgst með því sem gerðist. En það er algjörlega rangt.
Oft innti hann eftir því, hvenær fundur yrði haldinn í Verkamannafélaginu, og þá fundi sótti hann betur en flestir aðrir félagar. Helgi frá Skútu átti við mikla vanheilsu að stríða undanfarna mánuði. Nú er Helgi horfinn samferðamönnum sínum. Fyrir handan hafið eilífa dvelst hann nú í ró og friði hjá gæskuríkja skaparanum og „mömmu".
Blessuð sé minning Helga frá Skútu.
Helgi Björnsson frá Skútu
Ókunnur ljósmyndari.- Gömul og óskörp ljósmynd löguð AI - sk
Helgi þar sem hann situr á tröppum efrihæðar við Túngötu 1, þeirra Þorgeirs og Ingibjargar. (Verslun þeirra var á neðri hæðinni)
******************************************
Siglfirðingur 30. tbl. 27. júlí 1945
Helgi Björnsson frá Skútu varð 62 ára 14. þ. m.
******************************************
Neisti 8. júlí 1949
Aðfaranótt þriðjudags 5. Júlí, lést í Sjúkrahúsi Siglufjarðar,
Helgi Björnsson, frá Skútu. Helgi heitinn hefði orðið 66 ára 14. Júlí n.k.
*******************************************
Neisti - 15. júlí 1949
Jarðarför Helga Björnssonar frá Skútu fer fram á morgun kl. 5 e. h., og hefst með húskveðju frá heimili hans, Hlíðarveg 23.
*******************************************
Mjölnir 20. júlí 1949
Jarðarför Helga Björnssonar
frá Skútu fór fram s. 1. laugardag. Fylgdi honum mikill mannfjöldi til grafar og er víst, að
hlýjar hugsanir annarra Siglfirðinga, sem ekki voru viðstaddir, hafa fylgt þessum kunna, gamla manni, síðasta spölinn.
*****************************************
Neisti - 22. júlí 1949
ÞAKKARÁVARP
Innilega þökkum við öllum þeim, er auðsýndu samúð og hluttekningu, einnig með komum og skeytum, við fráfall og jarðarför HELGA BJÖRNSSONAR
Ólöf Bessadóttir og Símon Márusson
**********************************************************
Samtíningur frá Mjölnir 20. Júlí 1949 og Siglfirðingur - Engar upplýsingar hjá www.gardur.is
Helgi Björnsson, í Skútu (Helgi í Skútu) Hlíðarveg 23. Siglufirði f. 14. Júlí 1833 - d. í júlí 1949
Jarðarför Helga Björnssonar frá Skútu fór fram Laugardaginn 16. júlí 1949 Fylgdi honum mikill mannfjöldi til grafar og er víst, að hlýjar hugsanir annarra Siglfirðinga, sem ekki voru viðstaddir, hafa fylgt þessum kunna, gamla manni, síðasta spölinn.
******************************************************
Óljóst man ég undirritaður eftir Helga, en hann virtist í mínum hug vera talsvert eldri en hann var í raun. Hann gekk hnokinn og stundaði ýmsa verkamannavinnu sem til fjell. Hann var greinilega fátækur maður miðað við klæðnað hans.
Vinalegur við börn, sem ekki óttuðust hann. Hann átti marga góða velgjörðamenn, ma. Andrés Hafliðason og konu hans Ingibjörgu Jónsdóttir, Þorgrím Brynjólfsson og konu hans Ingibjörgu Jónsdóttur (Verslunin Túngata 1) og fleiri, sem ég man ekki nöfnin á. Hann var frekar hlédrægur að mínu mati, en virtist mjög góðlegur karl.
Steingrímur