Leó R. Ólason skrifar
Beðið eftir jólunum.
Jólasnjór.
Ljósmynd tekin á jólunum 2012: Leó R. Ólason
Beðið eftir jólunum.
Hafa ekki allir upplifað það á sínum æskuárum að þurfa að bíða alveg óralangan dag eftir að jólin byrji? Að vakna eldsnemma á aðfangadag, alveg friðlaus af spenningi og kannski líka eftir svefnlitla nótt, og dagurinn sá er svo lengi að líða að hann er eins og tveir venjulegir dagar að lengd. Eða jafnvel þrír! Hvað er klukkan er spurt aftur og aftur og hvenær ætlar hún eiginlega að verða sex? Ef ég laumast nú til að flýta klukkunni í eldhúsinu og líka stóru veggklukkunni í stofunni, skyldu afi og amma fatta það? Nei sennilega er það ekki góð hugmynd og svo er það ekki mjög jólalegt að hugsa svona, en ég var alinn upp hjá afa mínum og ömmu sem gengu mér í foreldra stað.
Á þessum aldri segi ég, því þegar þetta gerðist var ég ekki nema átta ára, eða var ég kannski ekki nema sjö? Ég er ekki alveg viss því það er svo óralangt síðan, en það breytir nú ekki öllu. Og það var ekki bara matarilmurinn í loftinu sem hafði þau áhrif að ég varð alltaf svona óþreyjufullur þennan dag. Það voru nefnilega líka pakkarnir undir jólatrénu og þeir höfðu sennilega aldrei verið fleiri og stærri. Þeir voru alla vega í laginu og næstum engir pakkar sem voru merktir mér voru þessir linu pakkar sem voru miklu minna spennandi í augum flestra barna, þó að ég vissi vel að þeir voru undantekningalítið bæði gagnlegir og eiginlega alveg nauðsynlegir svona í bland við hina.
„Hvenær koma svo eiginlega þessi jól“ andvarpaði ég og leit á klukkuna.
Það var bara komið rétt fram yfir hádegi og ég andvarpaði aftur. Það var þá sem amma stakk upp á því að ég opnaði einn pakkann núna, en bara einn pakka. Allir hinir yrðu að bíða þangað til eftir matinn.
Ég varð himinlifandi yfir þessari uppástungu, jánkaði henni auðvitað alveg undir eins og leit yfir pakkahrúguna undir jólatrénu.
„Hvernig líst þér á þennan“ spurði amma, þegar hún rétti mér meðalstóran og kassalega pakka og mér leist auðvitað vel á hann.
„Skildi hún vita hvað er í honum“ hugsaði ég.
Síðan hófst þessi athöfn sem var alltaf viðhöfð meðan ég bjó á Hverfisgötunni á Sigló, en það var að taka ákaflega varfærnislega utan af pökkunum. Reyndar svo varlega að það hefði auðveldlega mátt nota pappírinn og skrautbandið utan um pakkana á næstu jólum. Hver hnútur var leystur og hver límandsbútur tekinn svo hægt og varlega af að ekki sá á jólapappírnum sem síðan var brotinn fallega saman. Eins og gefur að skilja tók þetta talsverðan tíma, enda vorum við tvo til þrjá klukkutíma að opna alla pakkana hvert aðfangadagskvöld. Afi sagði stundum að það væri nú lítið gaman og alls ekkert gefandi að ráðast á pakkastaflann eins og villidýr og rífa og tæta utan af gjöfunum á nokkrum mínútum. Standa svo í hrúgunni, vitja jafnvel ekki frá hverjum hvað var og allt gamanið búið allt of snemma.
En ég fékk sem sagt að opna einn pakka þarna eftir hádegið og ég byrjaði auðvitað að lesa á merkisspjaldið. Pakkinn var frá henni Böldu sem átti heim uppi á Hávegi 12b og margir kölluðu Böldu litlu sem var auðvitað vegna þess hve hún var bæði mjög grönn og lágvaxin, en ákaflega góð manneskja. Eftir talsverðan tíma var ég búinn að opna pakkann og kom þá í ljós nokkuð sem bæði kætti huga minn, var í senn eitthvað sem var alveg nýtt fyrir mér og í leiðinni nokkurs konar áskorun. Stærðarinnar hreindýr í mörgum missmáum hlutum sem átti eftir að líma saman, en ég hafði aldrei áður límt saman módel.
„Ég held að það sé til svona módellím hérna einhvers staðar“ sagði amma sem hafði verið að gefa mér auga.
Ekki vissi ég hvers vegna það var til módellím á heimilinu þar sem aldrei hafði komið módel áður, en ég áttaði mig auðvitað löngu seinna á því sem er nú önnur saga. Ég var ákaflega hamingjusamur yfir því að það skyldi vilja svo undarlega til og tók við túbunni fegins hendi, en svo var sest yfir það mikla samsetningarverk sem hlaut að fylgja. Ég gleymdi mér auðvitað og það sem eftir var af deginum hreinlega flaug áfram. Það stóð á endum að þegar ég lauk verkinu var kominn tími til að fara í kirkjuna með afa, en það var fastur liður allt fram yfir unglingsárin. Þegar við komum þaðan var jólamaturinn kominn á borðið og það var sest að þeim krásum sem hún amma hafði galdrað fram á meðan við afi hlýddum á messuna.
Svo gerðist það sama og gerst hafði árið áður og líka árið þar áður og átti eftir að gerast fáein ár í viðbót. Útidyrnar opnuðust skyndilega og einhver virtist koma inn, eða það fannst mér, en svo gerðist ekkert meira.
„Hvað var nú þetta“ spurði ég en fékk engin svör. Þau bara horfðu hvort á annað og svo á mig. Ég spratt á fætur til að aðgæta hver væri á ferðinni á þessum tíma, en frammi í forstofunni var ekki nokkur sála. Þar var hins vegar stóreflis pakki merktur mér frá Gáttaþef. Ég varð ennþá meira hissa og bar pakkann fram í eldhús og sýndi afa og ömmu, en mér fannst þau taka þessari undarlegu uppákomu með stóískri ró og jafnvel brosa lítllega út í annað.
Það var ekki fyrr en einhverjum árum síðar að ég áttaði mig á að þarna hafði hún Silla frá Steinaflötum nágrannakona okkar verið á ferð. En barnatrúin sem samtvinnaðist þarna jólasveinasögunum fékk mig til að halda allt annað á þessum tíma og auðvitað var ákaflega spennandi þó það tæki pínulítið á taugarnar að trúa á ævintýrin um Grýlu, Leppalúða, jólaköttinn og jólasveinana.
Strax eftir matinn var alltaf vaskað upp því það var auðvitað lítið gaman að eiga það eftir þegar leið á kvöldið, en vegna aldurs var mér ekki gert að taka þátt í því og mér fannst í annað sinn þennan dag að tíminn væri alveg ógnarlengi að liða. Loksins tók það verkefni enda og þá var hægt að byrja að taka upp alla hina pakkana. Það var auðvitað bæði gaman og spennandi, en pakkinn frá henni Böldu stóð þó alltaf upp úr í minningunni frá þessum jólum og hreindýrið mikilfenglega stóð á áberandi stað á hillu sinni árum saman.