Hætti en kom aftur

Til vinnu hjá SR 1950 + Drukknun ! + Raufarhöfn 1959 + SeyðisfjörðurLöndunarbryggjan Langa töng + Ýmislegt heima á Sigló + Hætti en kom aftur  + 

Ýmsar ljósmyndir tengdar SR + Sigló Síld + Starfsmenn SR og fleira + Myndir SR Raufarhöfn + Myndir SR Seyðisfjörður 

Hætti hjá SR og kom aftur

Árið 1956 bauðst mér föst vinna með árssamning, sem á þessum tíma var ekki auðfengið. 

Það var hjá Georg Fanndal; Veiðarfæraverslun Sig Fanndal.  Það tímabil varði í um tvö ár sem og voru mjög lærdómsrík, Georg átti lengda jeppabifreið sem notuð var vegna verslunarinnar jafnhliða til hans einkanota.   

Ég hafði allvíðtæk persónuleg afnot af bifreiðinni, heim í mat og fleira.  Ég kynntist mörgum sjómönnunum og háttum þeirra auk annarra viðskiptavina sem voru margir. Þetta var þó oft og tíðum nokkuð erfitt starf, ekki síst þar sem Georg var fatlaður á hendi og var lítill til átaka við tilfærslur á þungum kössum, kaðalrúllum og fleiri þungavörum sem verslunin hafði á boðstólum. 

Það létti þó vel á, þegar frændi Georgs var ráðinn aðstoðarmaður í versluninni yfir sumartímann, en það var sonur Gests Fanndals, Sigurður Fanndal sem þá var um 12-13 ára polli. 

Harðduglegur og góður félagi en þó stundum nokkuð þreytandi vegna ótæmandi spurningaflóðs um þetta og hitt sem tilheyrði vöruúrvalinu í versluninni. Sem dæmi, til hvers er þetta og hitt osfv. 

Sumu gat ég ekki svarað sem varð til þess valdandi að farið var að leita uppruna þess sem spurt var um. Georg átti margar handbækurnar auk þess sem Georg var sjálfur vel inni í sínu fagi sem verslunareigandi veiðafæraverslunar.  

Á þessu lærðum við báðir og nutum þess fróðleiks síðar, en Sigurður tók síðar við Veiðarfæraversluninni eftir lát Georgs.

Við Sigurður tengdumst góðum vináttuböndum sem enn lifa.

Aftur til S.R.

Ég ákvað að hætta hjá Georg Fanndal sumarið 1958, eftir að mér hafði boðist loforð um sumarpláss í lögreglunni og góða von um framhalds starf þar.  

Páll G Jónsson byggingameistari hjá S.R. lagði fyrir mig stærri tálbeitu og betri tekjumöguleika við trésmíðar og fleira, sem ég gat ekki hafnað og réði ég mig til hans.

Hann lofaði mér mikilli vinnu og launum vel yfir almennan launataxta verkafólks. Ég byrjaði hjá Palla vorið 1958.

Fyrsti dagurinn hjá Palla var nokkuð viðburðarríkur, nokkuð öðruvísi en ég og Palli höfðum reiknað með.  

Ég hafði byrjað klukkan 7 á  laugardagsmorgni, vinnutíma mæting sem var almenn venja á meðal verkafólks og iðnaðarmanna á þeim árum.  Fyrsta verkefnið var ásamt fleiri Pálsmönnum var að flytja mikið magn af vörum frá Hafnarbryggjunni og setja framan við húsið þar sem gamla netastöðin hafði verið. Unnið hafði verið að því að breyta húsinu í soðkjarnaverksmiðju. 

Varningurinn sem kom frá Hafnarbryggjunni voru ýmsir hlutir sem smíðaðir höfðu verið hjá Landsmiðjunni í Reykjavík fyrir verksmiðjuna.

Hlutverk okkar Pálsmanna var að aðstoða við flutninginn sem mestmegnis var  þungavara og annað innpakkað í stóra trékassa. 

Búið var að tilkynna að unnið yrði einnig daginn eftir á sunnudag vegna þessara flutninga.  

Það var komið undir kvöld er Vilhjálmur Guðmundsson tæknilegur framkvæmdastjóri S.R.kom á staðinn.
Hann hafði verið að koma í bæinn og fylgdist þarna með. 

Ég sá útundan mér að hann horfði grannt á mig og fór síðan til Palla og ég sá ekki betur en að þar hitnaði í hamsi án þess þó eða ég vissi af hverju.  Klukkan 11 um kvöldið þegar vinnudegi lauk kom Palli til mín og spurði mig beint.  "Hvað hefurðu gert á hlut Vilhjálms ?“  

Ég hváði og áttaði mig ekki á hvað hann átti við. Þá sagði hann mér að Vilhjálmur hefði komið að máli við sig og sagt sér að reka mig á stundinni. Vilhjálmur væri hans yfirmaður og honum bæri að hlíða. 

Eitthvað mun Palli hafa maldað í móinn og beðið Vilhjálm um ástæður þessara fyrirmæla en ekki fengið beinar upplýsingar um það.

Eftir smá stund nefndi Páll við mig einhver málaferli þar sem S.R. hefði tapað í einkamáli, þá áttaði ég mig á málavöxtum.  

En frést hafði af málaferlum þar sem Andrés Þorsteinsson vélsmiður kenndur við Hjaltastaði. Lögfræðingur hans hafði farið fram á að mjölrörin sem lágu að hluta til yfir verkstæðisbyggingu hans við Vetrarbraut yrðu færð. 

Samkomulag mun hafa náðst við Andrés um að mjölrörin yrðu á sama stað áfram án tilfærslu. Og Andrés hætti við frekari málarekstur eftir að hafa fengið einhverja fúlgu til málmiðlunar.
Vilhjálmur fékk skammir frá stjórn verksmiðjanna vegna málsins þar sem það var í hans verkahring að sjá til þess að tæknileg mál og öryggi væru í lagi. En „vitnisburður“ minn sem sagt er frá í kaflanum “Mjölrörin“ hér á undan, vó þungt í þessu máli. 

Ég sagði Palla að ég teldi mig ekki hafa gert neitt rangt eða ólöglegt og sagði að ég mundi ekki sætta mig við þetta ég væri búinn að afsala mér lögreglustarfinu sem mér hafði boðist.  Páll sagði að hann hefði nógan starfa fyrir mig næstu vikur amk., við störf utan verksmiðjunnar ef ég gæti sjálfur leyst úr málinu.   

Strax daginn eftir á sunnudagsmorgni, fór ég á fund Sigurðar Jónssonar framkvæmdastjóra heima hjá honum við Túngötu 43 þar sem hann bjó þá. 

Ég óskaði eftir að fá að ræða við hann, hann bauð mér inn og gaf mér kaffi inni í stofu.  Hann spurði mig hvað væri svona brýnt sem gæti ekki beðið til morguns.

Ég sagði honum hvað skeð hefði. Vilhjálmur hefði látið reka mig og að ástæðan væri sennilega áðurnefndur vitnisburður minn.   

Hann hlustaði hljóður á mig og spurði svo um framkvæmd yfirheyrslunnar hjá fógeta og fleira. Hann sagði af svörum mínum loknum eitthvað á þá leið að ég skyldi fara í þessa prívatvinnu á vegum Páls, hann mundi svo kippa málinu í lag ef forsendur væru fyrir hendi.   

Vilhjálmur hefði ekki forsendu til að reka mig vegna fyrrgreinds atviks og ef það væri ástæðan þá mundi hann láta Vilhjálm sjálfan persónulega endurráða mig og biðja mig afsökunar, það er ef áðurnefnd grunsemdir mínar um ástæður brottrekstrarins stæðust.

En hann sagðist fyrst þurfa að heyra hvað Vilhjálmur hefði að segja um málið. Það skildi ég vel.  

Ég hringdi í Pál og sagði honum fréttirnar en hann bað mig að klára fyrir sig það sem hann var búinn að skipuleggja og láta sig svo vita þegar Vilhjálmur hefði samband við mig.   

Ekki hafði Vilhjálmur samband við mig en Palli sagði mér að hann hefði sagt sér rétt fyrir helgina þar á eftir að hann gæti kallað á mig til vinnu án þess þó að hann hefði skýrt það frekar.  

Ég mætti svo aftur til vinnu hjá S.R. eins og ekkert hefði í skorist eftir að hafa lokið áðurnefndu verkefni fyrir Pál.  

Tæpu ári síðar, í mars 1959 þá á hafnarbryggjunni á Raufarhöfn við landgang strandferðaskipsins Esju, þá bað Vilhjálmur mig afsökunar á frumhlaupi sínu sem hann nefndi svo. (Um það má lesa síðar: Brottför, frá Raufarhöfn.)