Guðmundur Bjarnason, eldri
Morgunblaðið: Miðvikudagur 6. september.1944
80 ára:
Guðmundur Bjarnason, Bakka á Siglufirði
Einn af elstu borgurum Siglufjarðar, Guðmundur Bjarnason í Bakka, verður áttræður í dag.
Guðmundur er fæddur að Brennigerði, Skagafirði, 6. sept. 1864 og voru foreldrar hans þau hjónin, Bjarni Guðmundsson, ættaður úr Skagafirði, en móðir hans Þóra Jónsdóttir var ættuð frá Siglunesi.
Árið 1870 fluttist Guðmundur með foreldrum sínum til Siglufjarðar og settust þau að í Bakka, er var tómt hús utan Hvanneyrar og hafði fyrst verið byggt þar nokkrum árum áður eða 1866.
Guðmundur ólst upp í Bakka og hefir átt þar heima alla tíð síðan.
Guðmundur Bjarnason í Bakka og kona hans Halldóra Björnsdóttir
Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson
Árið 1889 kvæntist hann Halldóru Björns dóttur frá Þernuskeri á Látraströnd (f. 1863) hinni mætustu konu og búa þau enn í Bakka, ásamt sonarsyni þeirra hjóna, er ber nafn afa síns.
Og þrátt fyrir háan aldur eru þau hin ernustu. Þau eignuðust tvo syni,
Bjarna og Gest, sem báðir eru látnir fyrir nokkrum árum. En sonur Guðmundar, er hann eignaðist áður en hann giftist er nú búsettur í Færeyjum. Á yngri árum sínum stundaði Guðmundur sjó á hákarla og fiskiskipum og hafði hið mesta yndi af öllum veiðiskap, enda þótti hann hin mesta afla kló og selaskytta var hann talinn ágæt. Á árunum 1893-1923 eða full 1930 ár vann Guðmundur við lifrarbræðslu hjá verslun Gránufélagsins áí Siglufirði, í tíð sex verslunarstjóra og hafði á þeim árum góða aðstöðu til þess að fylgjast með skipum og aflabrögðum.
Eftir að Óskar Halldórsson, hóf útgerð í Bakka, vann Guðmundur hjá honum við lifrarbræðslu um 10 ára skeið, en síðan keypti hann og bræddi lifur fyrir eigin reikning í nokkur ár, eða fram til ársins 1939.
Það má segja um Guðmund í Bakka, að hann hafi lifað tvenna tímana hér á Siglufirði. Þegar hann kom hingað var Siglufjörður fátækur útkjálki og örfá hús og kofar á Eyrinni, þar sem nú er kaupstaðurinn. Nú er Siglufjörður meðal stærstu bæja landsins og einn hinn þýðingarmesti í atvinnulífi þjóðarinnar.
Hér er ekki staður til þess að rekja þá sögu. en Guðmundur kann frá mörgu að segja í sambandi við þróun bæjarins, að fornu og nýju. Einna ánægjulegast þykir Guðmundi að minnast áranna 1924—30, þegar útgerð Óskars Halldórssonar í Bakka stóð með mestum blóma. Og þó að dauft sé nú yfir Bakka, er Guðmundur ekki vonlaus um að þar kunni að birta yfir aftur. Flestir sjómenn, einkum þeir eldri, kannast við Guðmund í Bakka og mörgum hefir hann gert greiða um dagana.
Færeyingar höfðu lengi mikil viðskipti við hann, og fyrir allmörgum árum veitti danska stjórnin honum heiðurspening og viðurkenningarskjal, sem þakklætisvott fyrir margskonar fyrirgreiðslu við færeyska og danska sjómenn, er leituðu til Siglufjarðar. Guðmundur og Halldóra í Bakka eru gestrisin og trygg í lund og eiga marga vini og kunningja, bæði í Siglufirði og víða um land, er munu hugsa hlýtt til þeirra í dag, á þessum merkisdegi í lífi Guðmundar, og óska þess að ævikvöld þeirra megi verða fagurt og friðsælt.
Óskar J. Þorláksson