Sigurður Elefsen

Sigurður Elefsen verkstæðisformaður

Sigurður Elefsen - Fæddur 1. september 1928  - Dáinn 22. maí 1989 

Í dag verður til moldar borinn frá Siglufjarðarkirkju Sigurður Guðberg Elefsen, verkstæðisformaður.

Hann andaðist eftir stutta en stranga sjúkdómslegu í Landspítalanum þ. 22. maí sl.

Sigurður fæddist í Siglufirði 1. september 1928 og var því á 61. aldursári er hann lést. 

Hann var sonur hjónanna

Óskar Berg Elefsen, vélsmiður og konu hans

Sigríður Halldóra Guðmundsdóttir.

Óskar var norskur að ætt og uppruna fæddur 1896 og kom til Siglufjarðar ungur að árum en settist þar fyrst að 1921. Sigríður var ættuð frá Stórafjarðarhorni í Kollafirði á Ströndum. Börn þeirra hjóna urðu fjögur, en tvö þeirra létust í barnæsku.

Sigurður ólst upp í foreldrahúsum í Siglufirði ásamt bróður sínum

Eberg Elefsen, vatnamælingamaður, sem býr í Kópavogi. 

Eins og títt var á uppvaxtarárum Sigurðar fóru unglingar snemma að vinna fyrir sér. Þegar hann var á 15. aldursári fór hann að vinna á pressulofti SR 30 verksmiðjunnar í Siglufirði og vann hann hjá Síldarverksmiðjum ríkisins æ síðan að undanskyldum einum vetri.

Sigurður hóf nám í vélvirkjun 1947 á vélaverkstæði SR undir leiðsögn móðurbróður síns Þórður Guðmundsson og lauk hann sveinsprófi í rennismíði 1951. Veturinn 1951-52 starfaði hann með föður sínum við rekstur vélaverkstæðis á Dalvík, en gerðist síðan starfsmaður vélaverkstæðis SR og árið 1962 tók hann við af Þórður Guðmundsson móðurbróður sínum sem verkstæðisformaður og gegndi hann því starfi til dauðadags eða í 27 ár.

Eins og sjá má af þessari upptalningu eru starfsár Sigurðar hjá SR orðin 46, þegar hann fellur fráum aldur fram, rúmlega 60 áragamall, og sýnir þessi langi starfsaldur kannski best tryggð hans við fyrirtækið. Þessi ár hafa sannarlega verið viðburðarík hjá fyrirtækieins og SR, sem á allt sitt undir sjávarafla.

Reksturinn hefur gengið misjafnlega, stundum illa þegar aflabrestur hefur verið og stundum vel, þegar vel aflaðist og afurðaverð voru góð. 

Í slíku umhverfi reynir oft á þolinmæði og tryggð starfsmanna við fyrirtækið, en þessa kosti átti Sigurður í ríkum mæli. Eftir löng aflaleysistímabil og peningaleysi til nauðsynlegs viðhalds á verksmiðjunum reyndi mikið á starfsmenn vélaverkstæðisins þegar kom að því að láta vélarnar snúast á ný.

Við slíkar aðstæður naut útsjónarsemi og verkkunnátta Sigurðar sér vel. Nauðsynlegir varahlutir voru oft ekki til og varð þá að leysa vandamálin á annan hátt, sem Sigurði var einum lagið.

Var hann oft ótrúlega fljótur að koma með lausn á vandanum, enda skildi hann að fyrir öllu var að láta vélarnar snúast og tíminn var dýrmætur þegar þrær voru fullar og verksmiðjan var stopp vegna vélabilana.

Það var því ekki að ófyrirsynju að tæknimenn hjá SR höfðu oft að orði þegar þeir voru að glíma við margslungin smíðaverkefni og vissu ekki hvernig best væri að leysa þau: "Ja, þetta er einmitt fyrir Sigurð Elefsen."

Sigurður var vel látinn af starfsmönnum sínum, sem flestir voru jafnframt nemendur hans. Hann var góður kennari og leiðbeinandi og eru það ófáir járniðnaðarmenn, sem notið hafa leiðsagnar hans í vélaverkstæði SR. Hann lagði ekki aðeins áherslu á að það verk, sem var verið að vinna væri traust heldur líka að handbragðið væri fallegt og það sjá menn líklega best er þeir ganga um verksmiðjunar í Siglufirði, sem endurnýjuð var að stórum hluta 1985.

Árið 1950 gekk Sigurður að eiga 

Ingibjörg Thorarensen ættaða frá Reykjafirði á Ströndum. 

Börn þeirra eru:

1) Sverrir Elefsen, vélsmiður f. 1950, 

2) Laufey Elefsen, húsmóðir f. 1953, 

3) Óskar Berg Elefsen, vélsmiður, f. 1956 d. 23.2.2010 

4) Elvar Elefsen, rennismiður, f. 1958.

Þau búa öll í Siglufirði og synir og tengdasonur þeirra hjóna, Þorleifur Halldórsson, vélsmiður, vinna allir á vélaverkstæði SR og hafa lært þar iðn sína undir handleiðslu Sigurðar. Þeir eru allir smiðir góðir og eru gott dæmi um hvernig handlagni erfist mann fram af manni. Barnabörn þeirra hjóna eru orðin 10.

Sá sem þessar línur skrifar kynntist Sigurði fyrst fyrir rétt tæpum 20 árum og hefur haft náið samstarf við hann síðan. Ég hef margt af honum lært og ég sakna góðs vinar. Það var alltaf notalegt að koma inn í kompuna til hans á verkstæðinu og ræða málin og það spillti ekki fyrir um ræðunni þegar hann dró út úr skápnum hjá sér hákarlsbita til að bjóða upp á.

Starfsmenn SR kveðja í dag góðan vin og félaga, sem gott varað leita til ekki síst þegar illa gekk.

Fyrir hönd SR þakka ég vel unnin störf og tryggðina og ósérhlífnina, sem hann sýndi fyrirtækinu þau 46 ár sem hans naut við. 

Við, samstarfsmenn Sigurðar, vottum eiginkonu hans Ingibjörgu, börnum þeirra, tengdabörnum og barnabörnum, samúð okkar vegna hins skyndilega fráfalls ástríks eiginmanns, föður og afa.

Jón Reynir Magnússon

Sigurður Elefsen