Blanda 1879-1899

Bland frétta og fleira frá árinu 1879 -1899 

 Norðanfari 24. júlí 1879

Frjettir innlendar. Veðurátta er hjer enn hin sama og áður, sífeld norðanátt og þurviðri; grasvöxtur því með minnsta móti eptir því sem verið hefir nú um nokkur undanfarin ár, grasmaðkurinn hefir og víða á harðlendi ollað miklum skemdum. Málnyta lítil. 

Fisk- og ísuafli er nú sagður góður hjer utarlega á firðinum þá síld er til beitu og róið verður, en mikill lúðuafli fyrir Siglufirði og hlaðafli fyrir Fljótum af vænum fiski. Lifraraflinn er orðinn mikill, á sumum hákarlaskipum um 13—14 t. lýsis í hlut, aptur lítill hjá sumum.

-------------------------------------------------------

Þjóðólfur 20. ágúst 1879 - Andlátsfregn

   9. þ. m. andaðist hér á sjúkrahúsinu merkiskona norðlenzk, húsfrú Kristín Pálsdóttir (prests Jónssonar á Viðvík), kona óðalsbónda Einars B. Guðmundssonar á Hraunum í Fljótum, og systir Snorra alþmanns á Siglufirði. Hún sálaðist hér eptir miklar þjáningar (meinlæti), fjærri manni og mörgum ungum. börnum, en með stöku mannorði, sem góð og merkileg kona.

Lík hennar á að flytjast norður og jarðsetjast þar.
-------------------------------------------------------

Þjóðólfur 9. febrúar 1880

— Strandmannakostnaður sá, sem Snorri Pálsson kaupm. á Siglufirði krafðist að sér yrði goldinn af hinni þýzku stjórn 1874, er nú loksins greiddur með 632 kr. eptir undanfarna neitun og milliskriptir. —
-------------------------------------------------------

Norðanfari 26. Maí 1880  Þakkarávarp. 

Eins og það er bæði verðugt og i alla staði tilhlýðilegt, að á lopti sje haldið minningu þeirra, er á einhvern hátt skara fram úr öðrum, í einhverju fögru og eptirbreytnisverðu; eigi síður ætti oss að vera ljúft, að minnast þeirra manna opinberlega með pakklæti, er að mörgu leyti alveg óverðskuldað, hafa veitt oss hjálp sína og liðveizlu, í því andstreymi og þeirri örbyrgð, sem svo opt er mannlífinu samfara. 

þannig er mjer sem rita línur þessar sönn ánægja að geta opinberlega hinna mörgu veglyndu hjálparmanna minna, þegar jeg á næstliðnum vetri varð fyrir því mótlæti að missa heilsuna, er hlaut að verða mjer því tilfinnanlegra, sem jeg var fátækur barnamaður, og þegar þar á ofan bættist það hörmulega óhapp,. að á þorranum kviknaði eldur í bænum um nótt, svo að nokkur hluti hans brann til ösku, og nálega allir þeir munir er í þeim húsum voru. 

Voru það þá einkum nokkrir sveitungar mínir er gáfu mjer, og sumir þeirra þó af litlum efnum, en sjerstaklega verð jeg að nefna sómahjónin: Ólaf Guðmundsson og konu hans Ólöfu Eiríksdóttur á Reykjum, og Friðrik Þorsteinsson og konu hans Ólínu K. Árnadóttur á Vatnsenda, er hvorutveggju hafa reynzt mjer í öllu. bæði nú og fyrri eins og beztu foreldrar. 

Mjer er eigi unnt að segja hvað mikið, eða verðleggja, allt það er þau hafa mjer hjálpað og gefið, en get þess eins, að þau hafa í einu og öllu, leitast við af fremsta megni, að gjöra mjer og minum, lifið svo ljettbært og ánægjusamt sem kostur er á. 

Þá verð jeg og að geta þeirra manna, er einkum og sjer i lagi ljetu mjer í tje, alla mögulega hjálp og huggun, í hinum þungu veikindum mínum; þegar jeg um hávetur varð að yfirgefa heimili mitt, konu mína og börn, til þess að nálægjast hinn góðkunna hjeraðslækni vorn herra Helga Guðmundsson á Siglufirði, og kom jeg mér fyrir fyrst um tíma hjá prestinum par, sjera Skapta Jónssyni, og síðan hjá herra Jóhanni bónda Jónssyni á Siglunesi. 

Hjá þessum mönnum dvaldi jeg meðan jeg var undir umsjón læknisins, alls í 5 vikur, og naut allan þann tíma hinnar beztu umönnunar og aðhlynningar á allan hátt, sem framast má verða; og tóku þeir ekki einn eyri fyrir það, Sömuleiðis gaf læknirinn mjer: eigi að eins alla sína fyrirhöfn, heldur líka öll þau meðöl, er jeg brúkaði um tjeðan tíma, og talsvert af meðölum, með mjer, er hann áleit mjer nauðsynleg, þá er jeg fór heim aptur, nokkurnveginn að mjer virtist alheill. 

Við þetta tækifæri skal jeg ekki heldur láta hjálíða að minnast hins mikla velgjörðamanns míns herra verzlunarstjóra Snorri Pálsson á Siglufirði. sem í öllu hefir komið fram — frá því fyrsta við kynntumst — mjertil handa eins og bezti vinur og bróðir i orði og verki, og ávallt reynst mjer bezt þá mjer hefir legið mest á. 

Öllum þessum ofangreindu göfuglyndu ágætismönnum, votta jeg hjer með mitt innilegast hjartans pakklæti og bið hrærður í huga hinn algóða og almáttuga gjafarann, að umbuna þeim ríkulega allar mjer veittar velgjörðir, þá er þeim mest á liggur, og á þann hátt sem hann sje þeim bezt henta. 

Bakka í Ólafsfirði 18 marz 1880. Grímur Eiríksson.

--------------------------------------------------------------

Norðlingur 17. ágúst 1880

Þess skal getið sem gjört er. —

Eg var hér um bil 5 vikur til lækninga í Siglufirði i vetur og veitti herra verzlunarstjóri Snorri Pálsson mér húsnæði og fæði og alla hjúkrun á meðan, og sýndi hann og kona hans mér í því öllu svo nákvæma og alúðlega umhyggju sem beztu foreldrar væru og gáfu mér síðan allan kostnað, sem af því leiddi; en Helgi læknir Guðmundsson, sem veitti mér mjög umhyggjusama lækningu, gaf mér alt það er hann kostaði til að lækna mig. — 

Fyrir alt þetta finn eg mèr skylt að votta öllum þessum velgjörðamönnum mínum opinberlega innilegt pakklæti mitt fyrir áminztar velgjörðir þeirra.,

 Kappastöðum í Sléttuhlíð 14. júní 1880. Ólafur Símonarson.

--------------------------------------------------------------

Fréttir frá Íslandi:  1 janúar 1881 -  

Frá upptalningu um slys og mannlát.

15. október fórst bátur frá Dalabæ við Siglufjörð; fórust par 4 menn, en 1 varð borgið.

--------------------------------------------------------------

Norðanfari 12 febrúar 1881 - Þakkarávarp. 

Á næstliðnu vori tókst herra læknir Helgi Guðmundsson í Siglufirði það stórvirki á hendur, eptir ósk minni, að skera burtu æxli af bakinu á konu minni, sem til margra ára hafði verið að draga sig saman, heppnaðist honum það svo snildarlega, að hún var algróin sára sinna eptir 14 vikur. Æxlið vog 3 pd. 

Allan þenna tíma var hún til fæðis og húsa hjá þeim heiðurshjónum : herra verzlunarstjóra Snorra Pálssyni og húsfrú hans Margrjetu Olafsdóttur, sem veittu henni svo aðdáanlega aðhjukrun og umönnun, sem beztu foreldrar barni sínu. Við þetta ljetu þessi höfðingshjón ekki lenda, heldur gáfu okkur alveg kostnað sinn og fyrir höfn. 

Herra læknirinn Ijet ekki heldur sitt eptir liggja, því hann gaf okkur líka eptir 70 kr. af því sem honum bar. Fyrir þessar höfðingsgjafir vottum við hlutaðeigendum hugheilustu þakkir vorar og biðjum að þeir hjer og síðar uppskeri í ríkulegum mælir laun góðverka sinna. 

Stórubrekku i Fljótum 15.11 1880. Stefán Arngrímsson. Helga Jónsdóttir.

-------------------------------------------------------------

Norðanfari 12 febrúar 1881

 Úr brjefi úr Siglufirði, 5 febrúar 1881. 

«Hjeðan eru engar frjettir nema dæmafáar grimmdar hörkur og frosthríðar; frostið hefir nú um langan tíma verið frá 20-27° á C. 

Hafísinn er mjög mikill því hvergi sjezt auð vök nú af hæztu fjöllum».

-------------------------------------------------------------

Norðanfari 8 apríl 1881

28. f. m. voru hjer 2 menn úr Siglufirði, sem höfðu gengið alla leið þaðan (9-10 mílur) einlægt á hafís og lagís, venjulega skipaleið hingað inná Akureyri og mun það dæmafátt í árbókum vorum að svo mikil ísalög hafi hjer verið.

-------------------------------------------------------------

Ísafold - 16. júní 1881   

Á Siglufirði hafa þeir Snorri kaupmaður Pálsson og Einar B. Guðmundsson á Hraunum komið á fót niðursuðu á kjöti, og er svo að sjá sem það fyrirtæki muni vel heppnast. 

Hafa þeir fundið góðan markað fyrir þennan varning.

-------------------------------------------------------------

Ísafold - 25. ágúst 1881 

Niðursuðufjelagið á Sigluflrði.

Hjá undirskrifuðum fæst niðursoðið í loptþjettar járnþynnudósir:

Nautakjöt í tveggja punda dósum fyrir 1 kr. 40 aura , kindakjöt í »Fricasé« í tveggja punda dósum fyrir 1 kr. 35 a., kæfa í eins punds dósum 1 kr., rjúpur í »Carry» í eins punds dósum (2 rjúpur) fyrir 1 kr. 35a.,

Silungur í olíu í eins punds dósum fyrir 60 a. þeir, sem ef til vill vildu panta þetta ofanskrifaða, fá það kostnaðarlaust sent til sín fyrir tilgreint verð, en hjer á staðnum verður það selt ódýrara.

  

Siglufirði, 11. ágúst 1881. Snorri Pálsson. -- E. B. Guðmundsson.

---------------------------------------------------------------

Þjóðólfur - 18. október 1881   - Hluti af fréttum (bréfi)

Auk þessa hafa þeir saltað nokkuð í tunnur, er þeir geyma í landi. Nú hafa Norðmenn margar þúsundir tunna í vörpum sínum, því þá vantar bæði tunnur og salt  ætla þeir, er fyrstir fóru til Noregs, að senda hingað gufuskip með salt og tunnur til að sækja síld og veiða, ef veður leyfir. 

Enginn Norðmanna tregðast hið minsta við að greiða spítalagjald sitt. Á Eyafirði eru 11 félög búsett. 

Eitt innlent síldarfélag var stofnað á Siglufirði í vor undir forstöðu hins duglega verzlunarstjóra, Snorra Pálssonar. Það hefir keypt öll veiðiáhöld, en hefir eigi flutningsskip, heldur tunnur, salt, nætur, vörpur og önnur veiðarfæri. 

Þegar eg seinast frètti var félag þetta búið að fá í land 7000 tunna, og átti mikla síld í vörpum. Fremur hefir verið þorskfiskilítið það er af er. Ef á alt er litið, er ástand manna allgott, og miklu betra enn á horfðist. Skotar komu fyrst á Húsavík og keyptu at Þingeyingum 2250 sauði, en hér á Eyafirði hér um bil 2450, og eru af því fé um 1400 úr Þingeyarsýslu.. 

Geldsauðir Þingeyinga og fiskveiði Eyfirðinga (síld- og þorskfiski) eru máttkir bjargstafir sveita þessara. Nú eru Akureyrarkaupmenn farnir að selja, sem Gránufélag, varning sinn í góðkaupum ( = stórkaupum): 200 pd. mæsar á 17 kr., 200 pd. grjóna 26 kr., kaffi 65 a:, hvítsykur 36, steinsykur 40, púðursykur 28, ef keypt eru 50 pd. eða meira.

---------------------------------------------------------------

Norðanfari - 5. nóvember 1881 

Verzlunarstjóri Snorri á Siglufirði kvað og hafa kvíað í nótaútgjörð sinni 600 t., er hann saltaði í tunnur og sendi til útlanda.

---------------------------------------------------------------

Þann 14 þ. m. hraktist norskt gufuskip hjer inn á fjörðinn, sem hjet „Bravo". Það hafði gengið sjór í það rúm skipsins, sem gufuvjelin var í, svo að eldurinn dó og vjelin varð ekki notuð. Stýrðu þeir því undan sjó og veðri hjer inn á fjörðinn, og lögðu skipinu hjerum fjórðung mílu austur af Hjálmarsnesi utanverðu. Skipverjar, sem voru 17 alls, fóru frá skipinu á 2 bátum og með farangur á þeim þriðja, og ætluðu að ná landi við Alandssjó vestan við Kálfsnes. 

Þettað tókst svo, að öllum bátunum hvolfdi þegar í brimgarðinn kom, en 8 björguðu sjer með sundi til lands og þeim níunda skolaði hálfdauðum uppá land, sem dó um nóttina eptir, en 8 drukknuðu, og hafa 5 líkin fundist. Meðal þeirra sem druknuðu var skipstjórinn og 2 farþegar íslendingar frá Seyðisfirði til Eyjafjarðar. og er lík annars þeirra ófundið enn, hinn var, sem barzt hálfdauður á land og dó nóttina eptir  Alandi og var mállaus af eymd. 

Norðmenn mundu ekki hvað þessir íslenzku farþegjar hjetu. en af brjefum. sem fundust í vasa þess sem dó á Alandi, virtist að hann hefði heitið þorvaldur Ólafsson frá Siglufirði." Skip þetta var á ferð frá Seyðisfirði til Eyjafjarðar, að sækja síld og flytja tunnur og salt til þeirra sem síldina veiða. Skipið flaut þar sem því var lagt í 2 daga en sökk þriðju nóttina, en þó varð engu úr því bjargað á meðan það flaut fyrir brimi og veðri, það sökk á 10 faðma dýpi, en þó sást á möstrin. 

Sýslumaður kom hjer og hjelt uppboð á skipinu og þvi sem hafði rekið af bátunum með farangrinum og fötum af líkunum, sem fundin voru. Mannmargt var á uppboðinu svo að flest þar fór í fullt verð og sumt í afarverð, nema skipið, sem menn voru ragir að bjóða í það þarna í kafi i sjónum. 

Hæstbjóðandi að því varð sjera Guttormur á Svalbarði; það seldist fyrir 61 krónu og nokkra aura með öllu því sem á því var. Farmur þess hafði verið 900 tunnur tómar og 300 tunnur af salti. Heyrst hefur að í fjelagi með presti að kaupa skipið hafi verið Sveinn steinhöggvri á Sauðanesi, Guðni á Hóli og einhver sá fjórði. 

Eptir 4 daga frá uppboðinu fór að reka úr skipinu bæði tunnur borð, stóla, sofa, dekkplánka og innanbygging úr skipinu, þetta hefir mestallt borizt á Svalbarðs- og Flögu reka og er sagt mörg hundruð króna virði, og hafa nú fjelagsmenn í hyggju að láta halda á því uppboð. og eru í því skyni búnir að senda til sýslumanns, en sendimaður enn ekki kominn aptur. svo ekki er en víst hvað afræðst.

--------------------------------------------------------------

Fréttir frá Íslandi - 1883   — 

4. Október 1883 fórst bátur frá Siglunesi, er ætlaði inn á Siglufjörð; hvolfdi bátnum, og druknuðu 3, en tveim varð bjargað.

--------------------------------------------------------------

Fréttir frá Íslandi - 1883   1. Janúar  - 

Snorri Pálsson, verzlunarstjóri á Siglufirði, andaðist 13. dag febrúarmánaðar. Hann var fæddur 4. febrúar 1840, fór þegar á unga aldri að stunda verzlun, og varð verzlunarstjóri á Siglufirði 1864 og til dauðadags. 

Hann var einn hinn mesti framkvæmdamaður sem var norðanlands, sannur íslendingur og framfaramaður; 1872 stofnaði hann sparisjóð á Siglufirði, og 1880 sjóð til styrktar ekkjum druknaðra manna, og kom á að mestu niðursuðu á kjöti, sem er þar mikil. 

Hann var og öflugur hvatamaður og félagsmaður í öllum fyrirtækjum er til framfara horfðu, var fjölhæfur mentamaður, og studdi fræðslu og mentun hvar sem hann gat. Hann var þingmaður Eyfirðinga um 1 kjörtíma löggjafarpinga, enn vildi eigi lengur.

--------------------------------------------------------------

Norðanfari - 26. október 1883  

Föstudaginn 4 þ. m., er sagt að 5 menn frá Siglunesi hafi farið sjóleiðis eptir salti inní Siglufjörð ,en á heimleiðinni hvolft undir þeim, fyrir hvað hefir enn ekki frjetzt hingað, 3 mennirnir höfðu drukknað en 2 orðið bjargað, en þá orðnir svo langt leiddir, að tvísýnt þótti hvert þeir mundi geta haldið lífi.

--------------------------------------------------------------

Voðaleg mannraun og hraknlngur.

 Í vor einhverntíma höfðu þrír veiðibátar með 5 mönnum hver villzt í þoku frá ensku hvalveiðaskipi einhversstaðar í Grænlandshafi. Eptir 10 daga útivist komst einn báturinn að landi norður á Melrakkasljettu, og var einn maðurinn látinn, en 4 lifðu, mjög skemmdir. 

Annan bátinn fann hákarlaskip af Eyjafirði á rúmsjó fyrir norðan Kolbeinsey, eitthvað um hvítasunnuleytið. Í honum var einn maður lifandi, en rænuIaus og nær dauða en lífi, og ræfill af Iíki annars manns, — annar handleggurinn og hjartað. Manninum var hjúkrað sem bezt og fluttur á land í Siglufirði, en síðan til Akureyrar, til lækningar; var komið drep í báða fætur og skyldi taka þá af. þegar maðurinn fjekk rænuna, sagði hann svo frá, að liðnir væru að hann hjeldi eitthvað 16 dagar frá því að hann og þeir fjelagar fimm saman villtust frá hvalveiðaskipinu, allslausir af matföngum. 

Á 7. degi ljezt hinn fyrsti þeirra úr hungri, og síðan annar og þriðji á 9. og 10. degi. Lík tveggja hinna fyrstu var varpað fyrir borð; en hinn þriðja lögðu þeir félagar tveir, er eptir lifðu, sér til matar. Á fárra daga fresti ljezt annar þeirra, og var handleggurinn og hjartað matarleifar hins, sem á lífi fannst, en þvag sitt hafði hann haft til drykkjar. Til þriðja bátsins hefur ekkert spurzt.

--------------------------------------------------------------

Norðanfari - 27. júní 1884 

Dæmafár hrakningur á sjó.

Hinn 26. maímánaðar þ. á. var hvalveiðaskipið «Chieftain», fra Dundee á Skotlandi hjer í höfunum fyrir norðan ísland. Á því voru 27 menn. þennan dag lögðu 4 bátar frá skipinu til að leita hvala og ætluðu þeir sjer að snúa aptur til skipsins seinni hluta dags.

En um miðjan dag sló yfir þá þoku svo mikilli. að þeir viltust hver frá öðrum og einnig frá skipinu. Í hverjum bát voru 5 menn, en hvorki höfðu þeir með sjer matvæli eða vatn. Einn báturinn flæktist fram og aftur í 4 daga, og höfðu skipsverjar ósegjanlegar þrautir af hungri og kulda. Því að jafnan var frost nokkuð, gátu þeir slökkt þorsta sinn litið eitt á klakastykkjum, en þó enganveginn til hlítar. 

Á fimmta degi dó einn skipverja, og köstuðu þeir, sem eptir voru, líki hans fyrir borð. Skömmu síðar dó annar, og voru hinir 3 þá orðnir svo hálftryltir og aðfram komnir af hungri, að þeir lögðu lík hans sjer til munns. Svo dó hinn 3., og nokkru síðar hinn fjórði. Lifði þá hinn 5. nokkra daga á líkum þeirra; þar til hið eyfirzka hákallaskip Stormur fann bátinn 11. júní. 

Var þá þessi 5. maður lagstur niður í kjöl og bjóst ekki við að eiga annað eptir en gefa upp öndina. í bátnum fundu þeir og beinagrindur og litlar leifar af mannaholdi. Manninn þann, sem lifandi var tóku skipsverjar á Storm og hjúkruðu honum sem þeir máttu og fluttu hann inn á Siglufjörð, og þaðan var hann sendur inná Akureyri. 

Maðurinn heitir James Mackintosh 26 ára að aldri. Þegar hingað kom; var komið bæði kal og drep í báða fætur hans svo læknarnir á herskipinu «Diana> og hinn nýútskrifaði læknaskólakandídat Þorgrímur Þórðarson frá Rv. tóku af honum báða fætur fyrir ofan kálfa 2 dögum eptir að hann kom hingað. Er maðurinn furðanlega hress eptir svo langvinna og hörmulega hrakninga og limalát. En sem minnst vill hann minnast á þessa hrakninga sína; segir hann, að hryllingur komi í sig allan, er hann hugsar til þeirra; enda er eigi að furða, þótt hann þoli naumlega að minnast á þá, par sem bata hans er ekki lengra komið en ennþá er. 

Annað hákarlaskip hafði siðar fundið hvalaveiðaskipið Chieftain. Var það þá að leita að bátum sínum og kvaðst hafa mist 3. Einn báturinn af þeim 4, sem lögðu frá skipinu hinn 26. maí, hefir þá fundist þar aptur. Annar báturinn komst á Raufarhöfn á Melrakkasljettu 2, þ. m. að kveldi. Á honum voru 4 menn allir meira og minna kaldir og búnir að fá skyrbjúg og jafnvel kolbrand. Læknirinn á Húsavík var sóttur þeim til hjálpar, en síðan hefir eigi frjett komið þaðan hingað. 3. báturinn náði landi við Þistilfjörð. 

Á honum voru allir 5 menn lifandi, þará meðal skipstjóri Thómas J. Gellath. Þeir komust til Seyðisfjarðar með norsku fiskiskipi þ. 8. p. m. Á höndum þeirra og fótum var bjúgur og bólga og einn þeirra var lítið eitt kalinn á fótum. Læknir var sóttur. þeir komust fljótt á bataveg, og voru sendir heim með «Thyra» 12. þ. m.

--------------------------------------------------------------

Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar í íslenzkum málum - 1886 

  

1.  janúar 1986  Dómur :

Eptir skipun amtmannsins í norður- og austuramtinu var lögsókn hafin 1882 af sýslumanninum í Eyjafjarðarsýslu gegn Snorra verzlunarstjóra Pálssyni á Siglufirði og hreppstjóra Jóhanni Jónssyni á Höfn út af því, að þeir höfðu leigt útlend skip til fiskiveiða og haldíð þau á fiskiveiðum hjer við land sumarið 1881, en með dómi, sem kveðinn var upp á lögregluþingi Eyjafjarðarsýslu 17. júlímán. 1882, voru hinir ákærðu dæmdir sýknir af kæru hins opinbera. Þessum dómi hefur amtmaðurinn yfir norður-og austuramtinu af hálfu rjettvísinnar áfrýjað til yfirdómsins.

Með eigin játningu hins kærða Snorra Pálssonar og öðrum skilríkjum er það sannað, að hann sumarið 1881 hafi leigt 2 norsk skip til fiskiveiða hjer við land, nefnilega skipið Primus frá Aalesund, skipstjóri Jakob Larsen, og skipið Albine, skipstjóri Stjansen, og hafi maður, að nafni Lars Brekke, leigt þau í Aalesund fyrir hans reikning; skip þessi fiskuðu nefnt sumar hjer við land í landhelgi. Það er einnig með eigin játningu hins kærða Jóhanns Jónssonar og öðrum skilríkjum sannað, hann sumarið 1881 leigði norska jagt, Freyju nefnda, er kom til Siglufjarðar frá Spitzbergen, til fiskiveiða hjer við land. 

Samningur sá, sem hann gjörði við skipstjórann á nefndu skipi, Jóhann Olsen, laut að því, að kostnaður og ábati af veiðinni skyldi hins kærða Jóhanns Jónssonar, og skyldi hann ábyrgjast, að lög ekki væru brotin og að skattar og skyldur yrði greitt.

Lög þau, sem ákæruvaldið álítur að hafi verið brotin af hinum kærðu, eru tilskip. 13. júní 1787, 1. kap., 10. gr. og opið brjef 27. maí 1859, er lög leiðir á íslandi lög 13. septbr. 1855, sem leyfa dönskum skipurum að ráða útlenda menn á skip sín. 

Hið siðar nefnda lagaboð á aðeins við um dönsk skip sem gjörð eru út hjer á landi, en getur ekki komið til greina, þegar norsk skip, sem gjörð eru út í Noregi, eru tekin á leigu afmanni hjer á landi, og geta hinir kærðu því ekki hafa brotið gegn því lagaboði. 

Hin fyr nefnda lagagrein mælir svo fyrir, að þegnar konungs skuli eingöngu nota innlend skip til íslenzkrar verzlunar og fiskiveiða, og að þessvegna skuli útvega handa skipunum íslenzk leiðarbrjef með þeim hætti, sem tilskipun 7. marz 1787 segir fyrir. Að þvi er snertir þessa lagagrein er það athugandi, að verzlun og íiskiveiðar á Íslandi hafa um langan aldur verið sömu kjörum undirorpin; þannig var það, að þegar verzlunin var seld á leigu ýmsum mönnum eða fjelögum, þá var einkarjettur til fiskiveiða látinn fylgja með, og meðan verzlun var rekin á kostnað konungs, var sama um fiskiveiðarnar. 

Þegar verzlunin var látin laus við alla þegna Dana konungs, þá voru íiskiveiðarnar einnig látnar lausar á sama hátt, og eins og öllum þegnum konungs var boðið, að hafa eingöngu innlend skip til verzlunar á íslandi, þannig var þeim einnig boðið að hafa innlend skip til fiskiveiðanna, og til tryggingar því, að ekki væri farið kringum þetta boð, var lagt ríkt á, að öll skip, sem gjörð væri út, hvort heldur til verzlunar eða til fiskiveiða eða til hvorutveggja, jafnframt skyldu hafa íslenzk leiðarbrjef, og mjög ströng skilyrði sett fyrir því, að þessi leiðarbrjef fengjust, sbr. opið brjef 7.marz 1787, 1.—3. gr. 

Fyrirskipunin um að hafa eingöngu innlend skip til verzlunar á Islandi er af numin með lögum 15. apríl 1854, 1. gr.; sömuleiðis er úr gildi fallin fyrirskipunin um, að skip, sem gjörð eru út til fiskiveiða við Ísland, skuli hafa islenzk sjóleiðarbrjef, sem einmitt áttu að vera til sönnunar um þjóðerni skipanna, án þess þó að þessi siðar nefnda fyrirskipun sje með berum orðum af numin (sbr. dómsmálastjórnarbrjef 26. febrúar 1859 ad 5 a, Lovsamling for Island XVII, 413).

Þegar nú er aðgætt, í hve náið samband verzlun og fiskiveiðar innlendra manna hefur verið sett í löggjöfinni, og hve náið samband er á milli þessa hvorutveggja í framkvæmdinni, þar sem sömu skipin, sem höfð hafa verið til vöruflutninga verzlunarinnar vegna, jafnframt hafa verið gjörð út á fiskiveiðar; þegar enn fremur er aðgætt, að tilskipun 13. jún. 1787, opið brjef 16. ágúst 1786, 5. og 7. gr.. og opið brjef 6. júni 1787, 13. gr. bera með sjer, að fyrirskipunin um að hafa innlend skip til fiskiveiða ef ekki eingöngu þá þó einkum og sjer i lagi hefur verið sett til að tryggja verzlunarbannið við útlendinga, og þegar loks er aðgætt, að sú fyrirskipun er úrgild i fallin, að skip, sem gjörð eru út til fiskiveiða við ísland, skuli hafa íslenzk sjóleiðarbrjef til að sanna þjóðerni sitt — en sjó- leiðarbrjefin voru eina tryggingin fyrir að þessu boði væri hlýtt — 

þá verður yfirdómurinn að álíta, að þó fyrirskipunin um að hafa innlend skip til fiskiveiða við ísland ekki sje með berum orðum af numin, þá sje hún óbeinlinis úr gildi fallin jafnframt fyrirskipuninni um íslenzk sjóleiðarbrjef sem sönnun fyrir þjóðerni skipanna. Þar að auki sýnir 5. gr. í tilskipun 12. febrúar 1872 um fiskiveiðar útlendra við Ísland o.fl., að jafnvel útlend fjelög mega hafa útgjörð til fiskiveiða á íslandi og verka þar afla sinn, ef þau að eins eiga þar hús, án þess þeim sje gjört að skyldu að nota innlend skip til slíkra fiskiveiða. 

En þó svo væri, að fyrirskipunin í tilskipun 13. júní 1787, 1. kap., 10. gr. um, að þegnar konungs skuli nota innlend skip til fiskiveiða við ísland, væri enn í gildi, þá er engin hegning lögð við því þó út af þessu sje brugðið, með því að löggjafinn, eins og áður er á vikið, hefur ætlast til, að hin íslenzku sjóleiðarbrjef væru næg trygging í því efni; sjer í lagi getur yfirdómurinn ekki fallizt á þá skoðun, að heimild hafi verið til að beita hegningunni í 4. gr. sama kapítula, sem eptir orðum sínum á aðeins við útlendinga fyrir brot móti 10 gr., því bæði er það, að sú hegning, að skip og vörur skuli upptækt, ekki á allskostar vel við þegar sá, sem brotið fremur, ekki er eigandi skipsins og útgjörðarinnar, enda sýnir 11 gr. tilskipunarinnar, að löggjafinn ekki hefur ætlazt til, að þessari hegning væri beitt við innlenda menn. 

Sama er um tilskipun 12. febrúar 1872 um fiskiveiðar útlendra við Island o. fl., sem breytir tilskipun 13. júní 1787, að því er snertir ólöglegar fiskiveiðar útlendinga, að hegningarákvarðanir hennar verða ekki heimfærðar upp á afbrigði gegn fyrirmælum tilskipunar 13. júní 1787, 1. kap., 10. gr., því að tilskipun 12. febrúar 1872 er sett til að vernda fiskiveiðar innlendra manna fyrir yfirgangi útlendra fiskimanna, en ekki til að tryggja það, að innlendir menn reki fiskiveiðar lögum samkvæmt. 

Samkvæmt því sem að framan er sagt, hlýtur yflrdómurinn að vera á sama máli og hjeraðsdómarinn um það, að sýkna beri hina kærðu af kærum hins opinbera í þessu máli, og ber því að staðfesta hjeraðsdóminn þannig, að málskostnaður í hjeraði greiðist úr opinberum sjóði, og sama skal eptir málavöxtum vera um málskostnað fyrir yfirdómi, þar með talin málsfærslulaun sóknara og svaramanns við hann, 10 kr. til hvors þeirra. 

Rekstur málsins í hjeraði og sókn og vörn þess fyrir yfirdóminum hefur verið lögmætt. Því dæmist rjett að vera : Hinum áfrýjaða hjeraðsdómi í máli þessu skal óraskað. Allur kostnaður af málinu bæði í hjeraði og fyrir yfirdómi, þar með talin málflutningslaun til sóknara og svaramanns við yfirdóminn, málsfærslumannanna Páls Melsteðs og Þ. Jónssonar, 10 kr. til hvors þeirra, greiðist úr almennum sjóði.

----------------------------------------------------------------

   Mannalát og slysfarir. 

Af hákarlaskipströndunum nyrðra í sumarmálahretinu, sem getið er í Ísaf. 4. f. m., er það frekara að segja, að tvö af skipunum, sem strönduðu á Þingeyrasandi, «Vonin» og «Skjöldur», bæði úr Siglufirði, náðust óskemmd út aptur. Hið þriðja, hákarlaskip af Eyjafirði, «Sailor», brotnaði alveg, en menn komust allir af. 

Þá var hið 4., «Pólstjarnan», af Eyjafirði; það steytti á skeri nokkrar vikur undan Vatnsnesi; hrukku þá 3 menn út, en 2 komust upp í skipið aptur, en einn drukknaði; það var formaðurinn, Jón Gunnlaugsson, «mesti aflamaður norðanlands». Á skerinu brotnaði gat á skipið, og er það losnaði, gátu þeir með naumindum komizt á því inn á Miðfjörð, og sigldu því þar á land. 

Menn ætla, að skipið «Akureyrin» sje týnd, þar eð eigi hefir til hennar spurzt. Í fyrra dag týndi sjer kvennmaður hjer í bænum, vinnukona, ættuð ofan af Mýrum. Hún fannst á floti í Eiðsvík; mun hafa gengið i sjóinn þar nærri.

----------------------------------------------------------------

Ísafold - 29. júní 1887 

Strandferðirnar.

 »Laura«, aðalpóstskipið, sem lagði af stað hjeðan 9. þ. m. austur fyrir land og norður, og átti að vera komin hingað aptur 25. þ. m., kom ekki fyr en í gærmorgun. Af því að hún hitti ekki »Thyru« á Seyðisfirði, eins og til stóð eptir áætluninni, beið hún eptir henni á Eyjafirði rúma 2 daga; fór síðan til Siglufjarðar, en þá lokaði hafísinn hana inni í 2 daga; þegar þaðan kom, lenti hún aptur í ískreppu á Hjeðinsfirði í dag; .komst svo á Sauðárkrók, og lá þar 3 daga vegna íss; komst loks þaðan eptir ítrekaðar tilraunir laugardaginn 25. þ. m. og síðan viðstöðulaust alla leið vestur fyrir, nema ekki á Skagaströnd. 

En daginn áður, 24., yfirgáfu þeir hana og hjeldu landveg suður, landshöfðinginn, landlæknirinn, póstmeistarinn og alþingismennirnir; Benidikt próf. Kristjánsson, Jón A. Hjaltalin, Jón Sigurðsson og Július Havsteen amtmaður, og komu þeir hingað um miðjan dag í gær, fáeinum klukkustundum seinna en »Laura«. Með Lauru komu meðal annars alþingismennirnir Gunnar Halldórsson, síra Jakob Guðmundsson, Páll Briem, síra Sigurður próf, Jensson og síra Sigurður Stefánsson. 

Thyra, sem fór fram hjá Vestmannaeyjum á austurleið 8. þ. m., var að berjast við að komast inn á norðurhafnirnar um sama leyti og »Laura« —þær hittust loks á Sauðárkrók —, og hefir það síðast til hennar spurzt, að hún lagði út frá Sauðárkrók að morgni hins 25. þ. m. Hún átti þá eptir að koma á Eyjafjörð og Seyðisfjörð. Á Skagaströnd kom hún aldrei. Camoens tókst og að komast út frá Sauðárkrók 24. þ. m. að kvöldi, eptir ítrekaðar tilraunir, og hefir þá að líkindum komizt áleiðis austur fyrir. Miaca, strandferðaskip O. Wathnes, sem átti að koma hingað um þessi mánaðamót, er ekki væntanlegt: hætt við allt saman vegna íssins.

------------------------------------------------------------------

Norðurljósið - 19. september 1887    -- Niðurlag greinar.

............................ það er óefað að á Norðurlandi (Eyjafirði og Siglufirði) eru Þilskipasmíðar búnar að ná viðunanlegum þroska, bæði hvað lag og byggingarmáta snertir, og að því leyti er að aðrir landsfjórðungar þættust standa ver að vígi með það, (Vesturland var áður fyrri nokkuð á undan með innlenda þilskipaútgerð, en svo virðist, sem lítið hafi verið unnið að þesskonar par síðan Hjálmar Jónsson hætti að smíða) þá væri hægðarleikur fyrir menn þar að fá skipin smíðuð á Norðurlandi, eður að öðrum kosti fá yfirsmiðinn þaðan og láta smíða heima hjá sèr. 

Ritað 16. apríl 1887.

------------------------------------------------------------------

Heimskringla - 22. september 1887      Úrdráttur stærri greinar.

....................... Teitur Ingimundarson kvaðst hafa farið allvíða um landið í vor er leið og heyrt að á Vestfjórðum hefðu dáið úr harðrjetti um 30 manna og í Skagafirði hefði einnig eitthvað af fólki dáið af harðrjetti. Og eptir útlitinu að dæma, þegar hann fór mundi fólk deyja úr hungri á komanda vetri, ef því ekki kæmi hjálp úr einhverri átt. 

Hann gat þess, sem dæmi upp á bjargarskortinn í vor er leið  er Laura, sem hann fór með norður um land og svo suður til Reykjavíkur, hefði hrakið undan ís inn á Hjeðinsfjörð (nálægt Siglufirði). Undir eins og skipið kastaði akkerum, kom um borð bóndi einn og bað um matvæli, sagði að í firðinum væri 5 heimili og öll bjargarlaus. Enga mjólk var að fá og enginn fiskúr fengist úr sjó og fjörðurinn fullur af ís upp í fjöru.

 Á skipinu voru þeir landshöfðinginn, landlæknir, póstmeistarinn, Tryggvr Gunnarsson, Júlíus Havsteen, auk annara stórmenna er allir lögðu saman og gáfu 300 pund af rúgmjöli til þessara 5 heimila !!

-------------------------------------------------------------------

Norðurljósið - 19. desember 1889  -   

Hvanneyrarhreppur.

Hreppurinn skiptist í Siglufjörð og Héðinsfjörð og vestan við Siglufjörðinn utan í landinu móti norðri eru 3 bæir, er sameiginlega kallast „Dalabæir“, og heyra þeir til hreppi þessum. Eins og sjá má á uppdrætti íslands, skerst Siglufjörður norðan í landið vestan Eyjafjarðar. 

Austan fjarðarins yzt er Siglunes. Fjöllin eru báðum megin þverhnípt niður í sjó, inn að Hvanneyri, sem kaupstaðurinn stendur á. Er hún vestan fjarðarins og skerst austur í fjörðinn, vestur af og inn af henni er skipalegan. Innan við fjörðinn báðum megin eru bæir, og niður af þeim fram með fjarðaránni eru grösugar og góðar engjar, en aðeins heldur hallalitlar til þess að taka verulegum umbótum með framræslu, sem þær þó þurfa við. Þar sem þeim hallar, eins og er víða niður af fjallshliðunum milli bæjanna, einkum vestan megin. geta þær tekið stórum umbótum með haganlega lögðum skurðum til að taka uppsprettuvatn það og læki, er hér og hvar koma fram undan fjallshlíðunum og dreifist út um engjarnar. 

Af þessu leiðir að jarðvegurinn er of blautur, kaldur og súr til þess að geta borið arð og hinar betri fóðurtegundir nái að þróast. Skyldu menn svo stífla skurðina yfir engjarnar á haustin, og taka stíflurnar svo eigi úr fyrri en vorkuldar eru um garð gengir. í hreppi þessum var eg 28 daga við jarðabótavinnu og sumarið 1888 var eg þar einnig 21 dag; annað hefir þar eigi verið unnið að jarðabótum, nema í Höfn hjá Jóhanni bónda Jónssyni hefir fyrir nokkrum árum verið sléttaður eigi alllítill blettur i túninu. 

Túnin eru þar víðast mest öll þýfð og ræktarlítil, og er það ræktarleysi mest allt áburðarskorti að kenna, en eigi jarðveginum. Þessi bæði sumur var eg meir en helminginn af tímanum við túnaslèttun, og brýndi fyrir mönnum að leggja yfir höfuð mesta alúð við túnræktina. það er á flestum bæjum þar í firðinum sú arðsamasta jarðabót, sem hægt er að gjöra. Túngirðing er þar, sèr í lagi á sumum bæjum, bráðnauðsynleg og ætti að ganga fyrir sléttuninni. 

Því þótt skepnur séu fáar, þá eru túnin sumstaðar illverjandi fyrir hrossum. þar verður girðingin að sitja i fyrirrúmi, svo að hinar nýju sléttur ekki traðkist strax í sundur og ónýtist. Á Siglunesi var eg 3 daga við túnaslèttun. Þar liggur ágætlega við að koma á æðarvarpi niður á nesinu, en till þess þarf að hlaða vörzlugarð þvert yfir nesið. Þar hefir fyrir nokkrum árum verið byrjað á garði, og ef að hann yrði lagður á sama stað eru það um 25 dagsverk að hlaða garðinn. Það er sárt að sjá fuglinn í hópum þar rètt í kring, en hafa engan arð af honum, bara fyrir framkvæmdarleysi. 

Austan við Siglufjörð er Hèðinsfjörður og skerst í suðvestur. Hann er þröngur, rúm míla á lengd, og fjöllin þverhnípt niður i sjó. Inn af sjónum gengur daldrag með litlu undirlendi, sem ber nafn af firðinum og í því eru 4 bæir; sá 5. er Vik austan megin við fjarðarbotninum, mikil og góð jörð, einkum sjóarjörð. Landið beggja megin fjarðarins liggur undir Vík;  út á firðinum að Vestan er selalátur. og er par töluverð kópaveiði í nætur þegar kemur fram á sumarið. 

Fyrir innan fjörðinn er stöðuvatn allmikið, er ber nafn af firðinum. er í því nokkur silungsveiði; úr því liggur ós út í sjóinn. Innan við vatnið eru aðalengjarnar frá Vík, það eru blautar mýrar hallalitlar. Eg var 3 daga í Vík að gjöra skurði í mýrar þessar og mæla út aðra skurði, er síðar skyldu teknir. Milli sjávarins og vatnsins er æði stór Jarðspilda c. 170—180 faðmar á breidd. og liggur þar mjög vel við að koma á æðarvarpi. Má hafa þar sjálfvarið með því að girða fyrir á einn veginn og er það c. 177 faðmar. 

Án mikillar fyrirhafnar mætti búa til dálitinn varphólma i vatninu rétt við, og styddi það mjög að því, að hæna fuglinn að. Það er almennt í hreppi þessum, að túnin eru arðlítil og i órækt, og er sjálfsagt að tíðarfarið á nokkurn þátt i því, en hitt er líka að túnræktin er á lágu stigi. Þau fá ekki áburð nema lítið eitt í samanburði við það, sem þarf, hann illa hirtan, eins og svo víða við brennur , og þá er ekki von að jörðin gefi manni afrakstur. Hér hagar þó svo til að áburð má hafa bæði mikinn og góðan. 

Svarðartekja er nægileg, svo sauðataðið má hafa til áburðar, jarðirnar eru margar við sjó, svo ef að fiskiúrgangur, þang og þari væri vel hagnýtt, þyrfti ekki að vera áburðarskortur, en her er ekki rúm til að tala um meðferð þess til áburðar. Garðrækt hefir ekkert verið stunduð, fyr en í sumar var á einstöku stað sáð til gulrófna og hefir það heppnast. Aðal atvinnugreinir þeirra er sjóarútvegurinn, skepnurnar eru fáar, en bera góðan arð. Ærin mjólkar t. d. á flestum bæjum allt að 3 merkum í mál fyrst eftir fráfærurnar; er það bæði að þakka landgæðum og landrými, einnig er fé þar fremur lagið til mjólkur en holda.      

 ------------------------------------------------------------------

Þjóðviljinn + Þjóðviljinn ungi - 30. júní 1890 

„I N E L U E N Z A"

Kveflandfarsóttin, sem nú er almennt nefnd útlenda nafninu „Influenza",  virðist munu herja land allt; í Vestmannaeyjum höfðu sýkzt fjórir fimmtu hlutar allra íbúanna, og eptir síðustu fréttum var sóttin töluvert farin að gera vart við sig í Árnes- og Rangárvalla-sýslum og í Reykjavík: 

Nyrðra kvað landfarsótt þessi vera komin á Siglufjörð; þangað komu um miðjan júnímánuð tvö fiskiskip, og var meiri hluti beggja skipshafnanna sýktur; hér í Ísafjarðarsýslu eru kvefveikindin einnig farin að stinga sér niður, og leggjast allþungt á stöku menn. Hér á landi hafa kvef-landfarsóttir áður orðið all-mannskæðar, og er því nauðsynlegt, að menn hvað „Influenza"-veikina snertir, gæti allrar varúðar, með því að veiki þessari fylgja og opt ýmsir hættulegir kvillar t. d. lungnabólga; sérstaklega brýna þeir læknarnir Schierbeck og dr. Jónassen það fyrir almenningi, að gæta hins mesta hreinlætis, bæði utan húss og innan, og þrífa vel allan fatnað, eigi sízt sængurfatnað; þá er það og áiíðandi, að hægt sé að opna glugga, svo að hleyp verði inn hreinu andrúmslopti, en varast skal þó, að súg leggi á sjúklingana; ef veikinni fylgir hitasótt, sem, optar kvað vera, telja læknar sjálfsast að leggjast í rúmið, og verður að varast. að fara of snemma á fætur, með því að hættast er við, að öðrum sjúkdómum slái að, þegar sjúklingurinn er í apturbata.

--------------------------------------------------------------------

Þjóðólfur - 29. ágúst 1890  -

Jón Sveinsson.

Hinn 8. þ. m. andaðist uppgjafaprestur sjera Jón Sveinsson á Nautabúi í Mælifellssókn. Hann var f æddur á Vik í Mýrdal í Skaptafellssýslu 20. nóv. 1815. Foreldrar hans voru Sveinn læknir Pálsson og Þórunn dóttir Bjarna Pálssonar landlæknis. Hann var skikkaður prestur til Grímseyjar 1841 og vígður sama ár, fjekk Hvanneyri í Siglufirði 1844 og síðan Mælifell i Skagafirði 1866; þjónaði hann því, unz honum var veitt lausn frá prestsembætti 1887, og fór svo um vorið 1888 til tengdasonar síns Árna Eiríkssonar á Nautabúi og dvaldi þar það sem eptir var æflnnar.

Hinn 8. maí 1845 gekk hann að eiga yngisfrú Hólmfriði Jónsdóttur prests Þorsteinssonar í Reykjahlíð. Hún lifir eptir og er hjá dóttur sinni á Nautabúi. Þeim varð 8 barna auðið, 5 dætra og 3 sona. 3 af dætrunum dóu í æsku, en synirnir dóu fullorðnir, Stefán, er var prestur á Þóroddstað, Eggert og Jón. Nú lifa að eins 2 dætur þeirra, Steinunn kona Árna Eiríkssonar, sem áður er nefndur og Valgerður kona Þorgríms bónda á Starrastöðum i Skagafirði. Sjera Jón heitinn var skarpur gáfumaður, söngmaður góður, skáldmæltur vel og andríkur kennimaður, vinfastur og tryggur í lund; enda ávann hann sjer hvervetná vinsæld og virðing hjá öllum, er hann þekktu.

---------------------------------------------------------------------

Þjóðviljinn + Þjóðviljinn ungi - 29. júní 1895  -

Skipstrand -

Eitt af kaupförum Gránufélagsins, „Christine" að nafni. strandaði í nánd við Siglufjörð í síðastl, maímánuði, fermt 130 skpd. af saltfiski.

---------------------------------------------------------------------

Austri - 17. apríl 1897  -   Auglýsing:  

Myndir ! 

Hér með tilkynnist, að eg undirritaður kem til Siglufjarðar, að öllu forfallalausu, með fyrstu ferð fjórðungsbátsins norður um land í vor komandi, og ætla eg að verða þar einhvern tíma að taka ljósmyndir. 

Einnig hefi eg í hyggju að ferðast uppí Fljótin í sama tilgangi. 

Eg mun gjöra mér far um að myndirnar séu sem bezt af hendi leystar. 

Helmingur af andvirði myndanna borgist fyrirfram.

Vestdalseyri, 4. marz 1897. H. Einarsson.

-----------------------------------------------------------------------------------

Austri - 18. febrúar 1898 

Kafli úr bréfi úr Siglufirði.

Héðan er ekkert að frétta. Tíð mjög óstöðug. Haustið hefir verið óvanalega snjólaust langt fram fyrir veturnætur; snemma i nóvember sást ekki fönn á fjallatoppum, og þá var Siglufjarðarskarð riðið daglega; og 10. nóv. fór presturinn úr Siglufirði ríðandi yfir Hólsskarð, til húsvitjunar í Héðinsfirði og þykir það nálega eins dæmi, að það skarð sé alveg snjólaust svo seint á hausti.

------------------------------------------------------------------------

Austri - 9. apríl 1898 

Helgidagsbrot eða ekki ?

Einn af hvalaveiðabátum Norðmanna fór út af Siglufirði nóttina milli páskadaganna síðastl. og kom inn aptur seint um kvöldið á annan dag með hval, er hann hafði veitt yfir daginn. Þess skal getið strax, að Norðmenn eru vanir allan þann tíma sem þeir eru hér við hvalaveiðar, að liggja hér inni á firði alla helgidaga, svo þetta mátti álítast sem undantekning frá reglu þeirra. 

Eg áleit þetta helgidagsbrot, og að fátækrahlutur ætti að greiðast af hval þessum, og kærði þetta því tafarlaust fyrir sýslumanni; hann áleit vissara fyrir sig, að ganga ekki beint að hvalaveiðamanninum og heimta af honum fátækrahlutinn, — og sem líka var víst betra að hann ekki gjörði, eptir úrslitunum að dæma—, heldur skrifaði hann amtmanninum Norðan og Austan um þetta mál, og amtmaðurinn Norðan og Austan skrifaði aptur amtmanninum Sunnan og Vestan um málið, og spurði hvort hann fyndi ástæðu til að fyrirskipa próf yfir skipstjóranum og hlutast til um að fátækrahlutur yrði greiddur af hvalnum. 

Nú kemur mergurinn málsins.

Amtmaðurinn Sunnan og Vestan skaut málinu ekki lengra áleiðis, heldur svaraði hinum amtmanninum og segir meðal annars svo: „Útaf þessu leyfi eg mér að tjá yður, að eg get ekki fundið næga ástæðu til þess, að hlutast til um þetta mál, þar sem eg ekki fæ séð, að fyrir liggi helgidagsbrot, þótt hvalurinn hafi verið dreginn á helgum degi í hafi úti, og er eigi fremur ástæða til að saka þessa hvalaveiðamenn um helgidagsbrot en hákallamenn og duggara, sem án efa opt og tíðum hafa úti öngla sína á helgum dögum og hefir þó aldrei verið spursmál um að láta koma fram ábyrgð gegn þeim, fyrir brot móti helgidagalöggjöfinni".

Hér liggur allt svo ekki fyrir neitt helgidagsbrot, eptir skoðun amtmannsins Sunnan og Vestan; ekki þótt maðurinn taki sig upp af höfn aðfaranótt helgidags, veiði hvalinn vitanlega á helgidegi og komi inn með hann að kvöldi, og leggi honum hér á höfninni við festar sínar; og þetta er ekki, eptir hans áliti, neitt saknæmara en það, þótt hákallamenn, sem liggja lengi út í hafi, 4—6 vikur í einu og stundum lengur, kunni að fást eitthvað við veiðiskap á helgum dögum, sem er kannske hægra að segja en sanna. 

Án þess að skrafa meira um málið, skal eg að síðustu geta þess, að mér skjátlaðist hraparlega, þar sem eg bjóst við, að úrslit þessa máls mundu fara í gagnstæða átt.

Siglufirði 1. febr. 1898. B. Þorsteinsson   

-----------------------------------------------------------------

Ísafold - 28. september 1898     Hluti greinarinnar

.......................... Vitastæði rannsökuð. 

Mannvirkjafræðingur vitastjórnarinnar dönsku skoðar strendur landsins.

Fyrst fekk sýslunefnd Eyjafjarðar hann til að skoða vitastæði innan sinnar sýslu. Þar höfðu þrír vitar komið til orða, einn stór, fyrir sjófarendur úti á hafi, á Gjögurtá, og tveir minni, »hornvitar«, í Hrísey og við Oddeyri. Vitastæðin við Hrísey og við Oddeyri telur hann vel fallin. Þar á móti leggur hann eindregið á móti Gjögurtá sem vitastæði. 

Bæði er illt aðstöðu að koma honum þar upp, og svo mundi hann tefja fyrir vitabygging fyrir Norðurlandi, sem meira liggur á og að meira haldi mundi koma. Norður af Tjörnesi liggja sker, sem nefnd eru Mánáreyjar og norður af þeim önnur, sem heita Eyjarbrekka. Þeir staðir eru mjög hættulegir, meðal annars fyrir þá sök, að áttanálin snýr ramskakt í grend við Mánáreyjar. 

Brýn þörf er á vita, sem lýsi yfir þetta svæði, en hann mundi seint verða reistur, ef annar viti kæmi upp ekki lengra burt en á Gjögurtá. Hr. Brinch lízt miklu betur á vitastæði á Siglunesi.

Auk þess sem sá viti gæti lýst á haf út, yrði Siglufirði, sem er fyrirtaks bjargráðahöfn, mikil not af honum.

Af Eyjafirði hélt hr. Brinch til ísafjarðar. Þar var hann fenginn til að rannsaka vitastæði á Arnarnesi og inst í Skutulsfirði. Á Akranesi er afbragðs stæði, segir hann, fyrir stóran vita og mundi hann koma þar að mjög miklu haldi.

Inni í Skutulsfirði væri og hentugt að hafa vita, en það er nágrennið eitt, sem hefir gagn af honum, líkt og af vitunum hér í Reykjavík og af fyrirhugaða vitanum á Oddeyri ..............................

------------------------------------------------------------------------------

Þjóðólfur - 7. október 1898  - 

Þilskipið Helgi frá Siglufirði telja menn vist, að farizt hafi með 8 mönnum í ofsaveðrinu seint í ágúst síðastl., og hefur jafnvel heyrzt. að flök úr því hafi rekið á land þar norður í víkunum. Mjög hræddir eru menn einnig orðnir um þilskipið »Comet« frá Melshúsum á Seltjarnarnesi, með því að ekkert hefur spurzt til þess síðan í ágúst snemma. 

Skipstjóri á því var Oddgeir Magnússon, ungur efnismaður, nýkvongaður, en hásetar 16 alls, flestir af Seltjarnarnesi og nokkrir kvæntir barnamenn.

-----------------------------------------------------------------------------

Af Siglufirði er skrifað 18. f. m.: 

Það er óhætt að herma það, að hákarlaskipið "Helgi" frá Siglufirði fórst í síðastliðnum ágústmánuði og allir mennirnir 8, þar af héðan, en 2úr Fljótum; voru tveir af þeim 6 héðan nýlega komnir. 

Lífsábyrgðarfélagið „Star"annar fyrir 1000kr., þinn fyrir 2000 kr.

Form. áskipinu, Þorvarður Sigurðsson var ungur og efnilegur maður, sonur ekkju hér i firðinum, Guðnýjar Pálsdóttur, og svo gott sem hennar einasta stoð og stytta; skipið var nýtt, og var allt eign þessarar sömu ekkju, og misti hún þar mikinn hluta eigna sinna; og fyrir tæpu ári síðan hafði hún mist mann sinn vofveiflega, mjög duglegan mann; hann varð undir hesti og marðist til bana.

------------------------------------------------------------------------------

Jarðskjálftar. 

Þeirra varð vart 2S.--28. febr. í Eyjafirði; mestir kippir 26. kl. 1 og 28. kl. 6 f. m. 

Mest kvað að jarðskjálftunum á Siglufirði. — Um sama leyti urðu allsnarpir jarðskjálftar norðan til í Noregi.

-----------------------------------------------------------------------------

Skipstrand. 

Tejo , eitt af skipum sameinaða gufuskipafjelagsins, sem átti að fara hjer kríngum landið og taka fisk, strandaði 7. þ, m. í kafaldsbyl, milli Siglufjarðar og Haganesvíkur. 

Menn björguðust allir á skipsbátunum og komust upp til Hagnesvíkur. Þaðan var svo sendur hraðboði til Akureyrar sem náði Víkíngi og sótti hann skipsmennina og fara þeir með honum út nema skipstjóri og yfirstýrimaður, sem urðu eftir til að vera við uppboðið. Það fer fram þessa dagana. Skipið var með 4000 skpd. af fiski, og sagt að aðeins hafi bjargast 130 skpd. 

Skipið átti að koma híngað til Seyðisfjarðar og fara hjeðan beint til Liverpool. Með Tejo var præmierlautenant Kjær, sem á að stjórna Ceres að ári, og var hann með til að kynna sjer leiðina; hann fer nú út með Víkíngi. Hraðskeyti um skipskaðann verður sent til Khafnar með Vaagen, sem fer hjeðan í kvöld beina leið til Skotlands. 

Ekki vissi herra Kjær nein önnur skipströnd fyrir Norðurlandi. 

-------------------------------------------------------------------------------

Gufuskipið „Tejo" (tekó), sem sameinaða gufuskipafélagið sendi hingað í haust auk hinna ákveðnu skipa þess hér við land og tekið hafði mjög mikið af saltfiski bæði héðan og af höfnum vestanlands, strandaði í norðanroki 7. þ. m. 4 kvartmílur fyrir vestan Siglufjörð. 

Mennirnir komust allir á bátum til Haganess í Fljótum. Skipið var fullt af sjó, og ekki útlit fyrir að því yrði bjargað, því steinar voru gengnir upp úr botninum. Í skipinu voru nokkur þúsund skippund af fiski. 

Rétt á eftir var gufuskipið „Víkingur"  þar á ferð, og þykir líklegt að strandmennirnir hafi farið með því skipi, eða að minsta kosti að með því skipi hafi þegar borist fregnin um strandið til útlanda. — 

Daginn eftir að skipið strandaði var gott veður, svo að líkindi eru til að einhverju hafi verið bjargað.

--------------------------------------------------------------------------------

Stefnir - 29. nóvember 1899 

Strandið

Eins og getið er um í síðasta blaði. strandaði gufuskipið „T e j o" vestan við svo nefnt Almenningsnef í Fljótum, skipið kom að vestan, og hafði um 4 þús. skippd. af fiski frá suður- og vesturlandinu, helminginn af þeim fiski átti Zöllner, skipið ætlaði hingað á fjörðinn, og var veður dimmt og landsýn slæm. Kl. 4 um nóttina kom skipstjóri á vörð, en kl. 5 hljóp skipið upp í fjöru með fullri ferð.

Um orsakirnar til þess, að skipið lenti svo nærri landi fara engar sögur, þó er þess getið, að stýrimaður hafi verið ókunnur hjer við land, og skipið hafi verið flatbotnaðra en flest önnur skip fjelagsins, og því hættara við hliðarreki. Sjóliðsforingi Ryder hefir nú stýrt hjer póstskipi sameinaða fjelagsins i þrjú sumur fyrst Thyru og siðast Ceres, var þetta hans síðasta sumar, því foringjar þessir fá vanalega eigi nema þriggja ára fararleyfi úr sjóhernum, þó býst hann við, að koma hjer fyrstu ferð i vor, þessi ár hefir hann áunnið sjer vinsældir og hylli þeirra, er kynni hafa haft af honum, fyrir reglusemi. ötulleik og prúðmennsku. 

Áhugi hans á því, að tilraunir verði gjörðar hjer til skógræktunar lýsa fyllilega velvild hans til lands og þjóðar, sem hann hefir haft gott tækifæri til að kynnast þau ár, er hann hefir verið hjer strandskipsforingi. Þegar það varð kunnugt að skipstj. Ryder var full alvara að gangast fyrir að hjer yrði plantaður skógviðarreitur vildu margir á Akureyri að reitur þessi yrði hjer við bæinn, en Einar Helgason áleit hentugri stað fram í Grundarfjalli, og því var eðlilegt að sá staður væri valinn, þrátt fyrir óskir margra bæjarmanna hjer um að hafa reitinn nær sjer.  

Mestu skiptir að staðurinn sje sem hentugastur, meðan menn eru að fá reynslu með gróðursetning trjánna, sem er miklum vandkvæðum bundin, og misheppnaðist fyrst í Noregi, og hætt er við að eins geti farið hjer", sagði merkur maður við oss. sem vjer áttum tal um þetta við. Mælt er að R y d e r hafi átt góðan þátt í því, að sameinaða fjelagið byrjaði á beinum fiskflutningi til Spánar, og er illa farið, verði þetta slys til þess. að hætt verði við þær ferðir framvegis.

„Víkingi“ gekk ferðin seint en slysalaust vestur á strandið eptir að hann fór hjeðan í annað sinn. Þegar kom vestur undir Fljótin slitnuðu 5 naglar í vjelinni, svo hún stanzaði nokkra klukkutíma meðan þeir voru smíðaðir, og á þeim tíma rak skipið norðaustur í haf, eptir að vjelin komst af stað var haldið til Siglufjarðar, og síðan á Haganesvík, en áður en Eyfirðingarnir komust í land kom miðvikudagsstórviðrið, og varð eigi farið milli lands og skips- í tvo daga, eptir það voru skipbrotsmenn fluttir í Víking nema skipstjón, sem hingað kom landveg. 

Fljótamenn tóku dauft í að flytja Eyfirðingana í land. Þó komust samningar á, þegar Christensen bauð 10 kr. fyrir að fá að fara í land. U p p b o ð á því, sem náðist af fiski (rúmum 100 skpd., af því hafði fullur helmingur blotnað), fór fram hinn 17. þ. m., og er sagt, að verðið á hverju skippd. blautu og þurru muni hafa orðið til jafnaðar 24 krónur, lítil von var til, að meira næðist af fiskinum, er að gagni yrði, eitthvað hafði verið selt af keðjum, seglum, og ýmsu fleiru, en skipið sjálft eigi selt. 

Pósturinn úr «Tejo» mestur en á Siglufirði, brjefin að vísu komin, en blöð og þingtíðindi vestra, búist við að senda eptir því sjóveg.