Jónas Björnsson messi

Minningargrein um góðan dreng

Jónas Björnsson messi.

f. 3. apríl 1949 d. 9. apríl 2022,  aðeins 73ja ára

Jónas vinur minn, vinur allra sem hann þekktu, ávalt brosandi, allt fram á síðustu stund, þrátt fyrir að hann bjó við líkamlega þjáningu síðustu árin.
Aldrei kvartaði hann, og nánast daglega fór hann í  bæjarferð, jafnvel í hríðarveðri og kulda, svo fremi að þríhjóla tryllitæki hans væri fært að flytja hann, og það  kom fyrir að hann festi það í snjó, en lét það  ekki fá á sig, hann bara brosti og eða jafnvel hló af,  þegar hjálpin barst.
Síðasta bæjarferð hans var nokkrum dögum fyrir andlátið.

Ég kynntist Jónasi er hann var messi á síldar og olíu flutningaskipinu Haferninum 1966 -1970, þá var hann í byrjun 14-15 ára gutti. Og nú síðustu  árin vegna samveru okkar í Skálarhlíð.

Hann dvaldi á Dvalarheimilinu Skálarhlíð á Siglufirði og þar naut hann alls sem hann þurfti frá hlýlegu og hjálpsömu starfsfólki ef á þurfti að halda, hann gat þó oftar en ekki séð um sig sjálfur og  ætið bjargað sér, þó svo síðasta árið hafi hann þurft aðeins  meiri aðstoðar við.

Ekki get ég sagt að hann hafi oft orðið mér samferða er við vorum í siglingum erlendir á Haferninum, oft marga mánuði án þess að koma heim til íslands, ma. tvisvar um jól og áramót og einu sinni í heila 5 mánuði án þess að koma heim til Íslands.

En oftast var hann með, þegar hópur skipverja fór saman í land, sem var nokkuð oft.

En með mér og Sigurði Jóns frá Eyri, einum tvisvar eða þrisvar sinnum.
Svo átti hann til að fara einsamall í land, þá stundum prúðbúinn ásamt regnhlífinni góðu sem hann tók oftast með sér, svona til vara eins og hann sagði og brosti breitt og sveiflað gripnum.

Sem messi stóð hann sig sem hetja undir stjórn þeirra Sverris Torfa bryta,  og Jóns Rögnvaldssonar matsveins.
Einn leyndardóm átti Jónas sem fáir aðrir en skipsfélagar hans vissu um, raunar einnig það sama um Jón Sigurðsson háseta (Eyri)
 

En einu sinni tóku þeir upp á því (man ekki hvor þeirra byrjaði) að senda hvor öðrum skilaboð í vísu formi, skrifuðum á WC pappír og viðkomandi miða hengdu þeir á salernis vegginn á mið þilfari, þar sem þeir héngu í rúma viku eða svo, en daglega bættust við 2 á dag og fyrir vikið var þetta salerni einn af fjölsóttustu stöðum um borð, þó oftast til að lesa, og allir höfðu gaman að hinum hnitmiðuðu, grín og ádeilu setningum sem þar komu á blað.
 

Þegar þeir hættu þessu háttarlagi sem ávalt var á vinsamlegum nótum, enda allir um borð góðir vinir. Þá fékk ég leyfi þeirra til að varðveita "skáldskapinn" og kom fyrir í umslagi.
 

Ekki held ég þó að hinir svokölluðu bókmenntafræðingar hefðu talið þetta vera alvöru rýmd ljóðaform eða verðmæti, en í minningunni í mínum huga þá voru þetta verðmæti, sem gott væri að koma á framfæri síðar.
En því miður, þá mun umslaginu hafa verið hent fyrir mistök, er ég og kona mín höfðu tekið þá ákvörðun að koma okkur fyrir í  Skálarhlíð, og við hreinsun í húsi okkar, með aðstoð barna okkar þá má geta sér til um, að þar hafi ljóðin glatast.

En eins og fyrr segir, ávalt brosandi og gerði að gamni sínu.
Góður drengur.

Ég læt þessi fáu orð mín duga um vin minn, og færi eftirlifandi systkinum hans innilegar samúðarkveðjur.

Steingrímur Kristinsson.