Árið 1942 - Hugleiðingar um SR

Hugleiðingar um ríkisverksmiðjurnar.     

Siglfirðingur 18. september 1942 

Síldarverksmiðjur ríkisins eru sem kunnugt er, stærsta iðnfyrirtæki landsins, og þær eru að því er ég hygg, stærsta iðnafyrirtæki sem til er í síldariðnaðinum. 

Þær eru ríkiseign. Þýðing þeirra fyrir eina höfuðgreinina í atvinnulífi þjóðarinnar, síldveiðarnar, er feikna mikil og gróði eða tap, sem orsakast af góðri eða lélegri stjórn slíks risafyrirtækis, getur oltið á miljónum ár hvert. Þess vegna er það augljóst mál, að á miklu veltur um það, að þeir sem veita slíku fyrirtæki forstöðu, hafi til að bera hvorttveggja, þekkingu og hæfileika, og eigi síður næma ábyrgðartilfinningu fyrir mikilvægi starfs síns. 

Það er einnig augljóst, að þessum stórfellda iðnrekstri ríkisins ber siðferðileg skylda til þess, að hafa forgönguna í hverju því, sem verða má til þess, að bæta og fullkomna síldariðnað vor Íslendinga, t.d. með því að taka til afnota nýjar uppfyndingar á sviði tækninnar, og að láta rannsaka og gerprófa nýjar hugmyndir, sem líklegar eru til gagnsemi. 

Einnig tel ég að verksmiðjurnar ættu að rannsaka og gera tilraunir um fleira á sviði síldariðnaðarins en lýsi og mjöl, t.d. frystingu síldar til útflutnings, niðursuðu síldar, framleiðslu fiskimjöls o.fl. 

Mikil óánægja hefir fyrr og siðar verið ríkjandi hjá síldarútvegsmönnum og síldveiðimönnum yfir ýmsu í rekstri verksmiðjanna, sérstaklega þó löndunarskilylyrðum og hinum tíðu veiðistöðvunum í sambandi við þau. - Það hefir allmikið verið ritað um þessi mál. Það greindarlegasta, sem ég hefi lesið af því, eru greinar Jóns Fannbergs, sem mig minnir að birtust í Morgunblaðinu í fyrra. 

Nú í sumar hefir óánægjualdan risið hæst. Þann 28. f.m. héldu skipstjórar síldveiðiskipa, 62 að tölu, fund með sér á Raufarhöfn, og samþykktu þar vantraust á stjórn og framkvæmdastjóra verksmiðjanna og er lítt stillt í hóf aðfinnslunum. - 2. þ.m. birtist í Morgunblaðinu grein um líkt efni, eftir Ísfirskan sjómann, Guðmund frá Góustöðum.

Sú grein er hóflega rituð. Bæði Raufarhafnarsamþykktin og grein Guðmundar eiga það sammerkt, að í þeim er ekkert tillit tekið til málsbóta fyrir þá, sem á er deilt, né neitt fundið þeim til afsökunar, svo og hitt, að á fátt er bent til úrbóta því, sem að er fundið. - Hinsvegar skal það fúslega viðurkennt, að ýmsar af þeim misfellum, sem þar ræðir um, og sem deilt er á stjórnendurna fyrir, hafa þungvæg rök að baki sér. 

Tilgangur greinar þessarar er ekki sá, að halda uppi vörn fyrir stjórn og framkvæmdastjóra síldarverksmiðjanna, hvorki þá núverandi né fyrrverandi, - né heldur að deila á þá. Hitt er tilgangurinn með línum þessum, að ræða hér öfgalaust tvö atriði í sambandi við rekstur verksmiðjanna framvegis, þessi atriði eru:

Vissulega hefir framleiðsla verksmiðjanna tekið miklum framförum til hins betra hin síðari árin og æ minna farið forgörðum af verðmætum hráefnum, en á fyrstu árum þeirra. Þó tel ég að mikið skorti enn á, að vel sé hvað hið síðara snertir. 

Enn rennur stanslaus straumur í sjóinn af úrgangsefnum, meðan verksmiðjurnar eru í gangi, og það er augljóst hverjum manni, að þessi úrgangur inniheldur mikil verðmæti. - Það skiptir eflaust hundruðum smálesta af verðmætum efnum, sem þannig fer til spillis árlega. 

Sjórinn hér í firðinum er, sem kunnugt er, þykkur af framburði úrgangs þessa. Utan á öllum bryggjum í bænum löðrar þessi óþverri og allar fjörur umhverfis fjörðinn eru þaktar þykku lagi af lýsi og grút. Ég er ekki fær um það að fullyrða neitt um, hve mikið verðmæti fer þannig forgörðum, en mér er ljóst, að það er mikið og að það mundi hafa verulega þýðingu fyrir fjárhagsafkomu verksmiðjanna, að þetta yrði hagnýtt. En svo er önnur hlið á þessu máli, sem beinlínis snýr að Siglufjarðarbæ og okkur, sem hann byggja. 

Bærinn og plássið allt fær af þessu á sig þann óhugnanlegasta stimpil sóðaskapar og óþverra, og er okkur bæjarbúum til skapraunar og stórra óþæginda. Og í augum aðkomumanna er bærinn okkar einn sóðalegasti bær landsins um síldveiðitímann, og er það mikið þessu að kenna. Þetta er ekki sagt af neinum tepruskap, en ég bendi á það, að ef afköst síldarverksmiðja þeirra, sem nú eru hér, verða aukin um helming á næstu árum, þá geta menn gert sér hugmynd um það, að ástandið í þessum efnum verður óþolandi. 

Framfarirnar á hinu tekniska sviði hafa verið stórfelldar hina síðustu áratugi, og sérstaklega hefir ill nauðsyn hin síðari ár knúið ófriðarþjóðirnar til þess að gera nýjar og nýjar uppfyndingar, til þess að nýta sem best þau hráefni, sem þær hafa yfir að ráða. - þ.á.m. allskonar úrgang, sem áður taldist ónýtur. - 

Í þessum úrgangi vitum við að felast verðmæti, en verksmiðjurnar skortir þær vélar, sem megna að vinna þau. Ég vil óska þess, að takast megi sem alla fyrst að finna ráð til þess að gera þennan úrgang verðmætan, og jafnframt að losa Siglufjörð við sóðaskapinn og óþægindin, sem af honum stafar. Og verksmiðjurnar verða að leggja allt kapp á, að þetta megi takast í náinni framtíð. 

Það var margt vanhugsað í fyrirkomulagi ríkisverksmiðjanna frá upphafi og eflaust mörg víxlsporin stigin í framkvæmdum við byggingu þeirra, en þó er líklega það einna lakast, hve skipulagslaust mannvirki þeirra eru sett á hina stóru og verðmætu lóð, er þær fengu til umráða frá Siglufjarðarbæ. Það má næstum segja svo, að mannvirkjum þeirra sé hreytt út um lóðina líkt og áburði á tún. - 

Eitt meðal annars af því tagi er það, að síldarþró S.R.'30 er sett niður langt uppi á plássinu, góðan spöl frá sjó og snýr svo endanum fram að sjónum. - Þróin hefði átt að byggjast fremst í fjörunni, eða jafnvel framveggur hennar fram í sjó, og snúa hliðinni að sjónum, og liggja þann veg þvert fyrir bryggjum verksmiðjanna, þar sem síldinni er skipað upp. Þetta hefði stytt uppkeyrslu síldarinnar í þróna um þriðjung, eða allt að helmingi Auk þess gaf það dýrmæt pláss ofan við, til þess að byggja við þróna, þegar séð var að hún var of lítil, eða þá til annarra nota. En þróin var nú einu sinni sett þarna, og er vist ekki hægt að saka núverandi stjórn né framkvæmdastjóra um þetta, né heldur með sanngirni að krefjast þess, að þeir flytji þróarskömmina. 

Löndunaraðferðin við ríkisverksmiðjurnar hér er löngu úrelt, og það er síst að undra, þótt sjómenn séu gramir yfir henni. Hún er bæði seinleg og hin mesta þrældómsvinna. Úr þessu hefði mátt bæta fyrir löngu með því, að setja dráttarbönd á bryggjurnar. Það var nóg pláss fyrir þau á neðri bryggjunum, sem ekki er annað gert með en að ganga um þær fram að skipunum. Með því hefði sjómönnunum verið sparað langerfiðasta hlutverkið við síldveiðarnar. Og það er mjög eðlilegt að þeir séu gramir, er þeir hugleiða það, að ný tækni hefir stöðugt verið tekin í þjónustu þeirra við að ná síldinni úr sjó í skipin, en úrelt aðferð og kyrrstaða látin sitja að völdum við að ná henni úr skipunum. 

Með dráttarböndunum, hefði þó sporið ekki verið stígið nema til hálfs. Fullkomin lausn þessa máls fæst ekki nema með sjálfvirkum löndunartækjum, líkum þeim, sem Rauðka notar og nokkrar aðrar verksmiðjur. En af slíkum löndunartækjum verða ekki not annarsstaðar en þar, sem legupláss skipanna meðan þau eru losuð, er alveg varið fyrir sjógangi. Engin hreyfing má vera á skipinu meðan það er losað, ella getur stafað stórhætta af löndunartækinu. 

Það er alkunna, að þótt höfn sé góð hér, er þó oft nokkur ókyrrð í sjó við bryggjurnar austan á Eyrinni. Það er eflaust ástæðan til þess, að ríkisverksmiðjurnar hafa ekki fengið sjálfvirk löndunartæki. - 

En það má enginn ætla, að hraðvirkari löndunaraðferðir einar útaf fyrir sig, geti bætt úr veiðistöðvunum síldveiðiflotans, sem svo mikilli óánægju hafa valdið. Til þess að bæta úr því, getur að minni hyggju tvennt komið til álita: 

a) Að fundin verði aðferð til að geyma síldina óskemmda, og þarf þá jafnframt að byggja stórar þrær 

b) Að byggja nýjar verksmiðjur, og auka afköst þeirra sem fyrir eru. 

Um fyrra atriðið þarf víst ekki að ræði. Því er “forkastað" af stjórn og framkvæmdarstjóra verksmiðjanna og eflaust með rökum. En benda vil ég á það, að skyldugt er það, að vera vel á verði um allar nýjungar í þá átt, að geta varðveitt síldina óunna, því fljótséð er það, hvílíkt hagræði það væri, að geta látið verksmiðjurnar vinna þótt ekki væri nema 1-2 mánuði lengur en nú er.

Vaxtabyrði af stórfé sem í þeim stendur, yrði þeim með því stórum léttari, og atvinna þeirra, sem við þær vinna, miklum mun betri. 

Verksmiðjustjórnin hefir þegar horfið að því ráði að stækka síldarverksmiðjurnar hér að byggja nýjar verksmiðjur annarsstaðar. Um framkvæmdir á öðrum stöðum verður hér ekki rætt að sinni, en aukning verksmiðjanna hér var brýn nauðsyn. En jafnframt afkastaaukningu verksmiðjanna, verða að koma við þær sjálfvirk löndunartæki. En um leið verða að skapast þau skilyrði, að þau nýtist þar. Þau skilyrði skapast með því eina móti, að hafnargarðurinn verði lengdur inn og austur, svo langt, að hann verji bryggjur verksmiðjanna fyrir öllum sjógangi að utan. 

Það verk eiga Síldarverksmiðjur ríkisins að framkvæma bænum að kostnaðarlausu.

Ríkisverksmiðjurnar hafa notið svo margháttaðra hlunninda hjá Siglufjarðarbæ, að þetta er sanngjarnt, enda langmest fyrir þær sjálfar gert. Það, sem þegar hefir verið byggt af hafnargarðinum, og sem hefir kostað Siglufjarðarbæ stórfé, hefir fyrst og fremst orðið ríkisverksmiðjunum að notum.

J.J.