Georg Pálsson

Georg Pálsson skrifstofustjóri

Georg Pálsson Siglufirði, var fæddur að Vestdalseyri við Seyðisfjörð þann 21. desember 1908. d. 25-08-1957

Foreldrar hans voru

Soffía Vigfúsdóttir frá Hellu á Árskógsströnd og

Páll Andrés Pálsson, kaupmaður í Seyðisfirði.

Georg ólst upp ásamt fjórum bræðrum hjá foreldrum sínum í Seyðisfirði en fjölskyldan fluttist síðar til Akureyrar. Við tók nám í Gagnfræðaskóla Akureyrar og þaðan lauk hann Gagnfræðaprófi vorið 1928. Árin sem hann var í skólanum stundaði hann sjóróðra frá Skálum á Langanesi í þrjú sumur en sumarið næst á eftir frá Hrísey.

Í ársbyrjun 1929 réðist Georg til Kristján Kristjánsson á Akureyri, sem afgreiðslumaður á Bifreiðastöð Akureyrar og starfaði þar til vorsins 1938, fyrri árin ýmist sem afgreiðslumaður eða bifreiðastjóri en síðari árin sem bókhaldari ,- en bókhald lærði hann hjá föður sínum, sem verið hafði á verslunarskóla í Kaupmannahöfn.

Sumarið 1938 starfaði Georg við síldarsöltun á svonefndri Malmquiststöð í Siglufirði en frá ármótum og fram á sumar við Laxárvirkjun í Þingeyjarsýslu, sem þá voru hafnar framkvæmdir við en réðist þá til Friðrik Guðjónsson útgerðarmaður í Siglufirði og var bókhaldari við útgerð hans, síldarsöltun og einnig hjá Hrímni hf. til 1947. Georg gerðist þá skrifstofustjóri hjá skipaafgreiðslu og vátryggingarskrifstofu  Þormóður Eyjólfsson hf. og starfaði þar þau ár sem hann átti eftir lifað.

Sumarið 1948 starfaði Georg fyrir Óskar Halldórsson útgerðarmaður við sölu á beitusíld í færeysk og norsk fiskiskip sem fjölmörg stunduðu þorskveiðar með línu fyrir Norðurlandi það sumar. Jafnframt keypti hann fyrir Óskar nokkur þúsund tómar síldartunnur af norskum og sænskum síldveiðiskipum en Óskar taldi sig sjá fyrir verulega verðhækkun á næstu síldarvertíð og varð sú raunin. Framsýnn maður Óskar. 

Fram til ársins 1953 fékkst Georg lítið við félagsstörf  og hafði ekki afskipti af opinberum málum en það ár var hann kjörin í bæjarstjórn Siglufjarðar og átti þar sæti í ýmsum nefndum á stjórn bæjarins. 

Hinn 15. nóvember 1930 kvæntist Georg 

Hólmfríður Ingibjörg Guðjónsdóttir fædd 19. júlí 1907,

Foreldrar hennar voru

Guðjón Helgason frá Vopnafirði

og konu hans Kristín Árnadóttr, -  bónda að Hörghóli í Vestur Húnavatnssýslu.

Börn þeirra Georgs og Soffíu eru

Soffía Georgsdóttir 15. apríl 1931.,

Kristinn Georgsson 31. des. 1933 og

Ingvar Georgsson 26. ágúst 1943.

Georg Pálsson lést á Landspítalanum í Reykjavík þann 25. ágúst 1957 eftir veikindi og er jarðsettur í kirkjugarðinum í Siglufirði.

Ingvar Georgsson

899-2155

ingvar@gmail.com   +_ http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=341655  

----------------------------------------- 

Georgs Pálssonar minnzt á bæjarstjórnarfundi. 

Á bæjarstjórnarfundi, sem haldinn var 5. sept. s.l. minntist forseti bæjarstjórnar í upphafi fundarins hins látna bæjarfulltrúa. Risu bæjarstjórnameðlimir síðan úr sætum í virðingarskyni við hinn látna. Forseta bæjarstjórnar, Baldri Eiríkssyni, fórust þannig orð:

 „Síðan vér héldum seinasta bæjarstjórnarfund, hefur einn úr vorum hópi, Georg Pálsson bæjarfulltrúi, látizt. Hafði hann svo sem kunnugt er, legið sjúkur syðra og gengið þar undir holskurð, en um bata, sem þó var vonast eftir, var ekki að ræða. Hann lézt að morgni hins 25. ágúst, aðeins 48 ára að aldri. Hafði hann átt heimili hér undanfarin 20 ár og gegnt hér ýmsum trúnáðarstörfum og síðustu árin fulltrúi hjá fyrirtækinu Þormóður Eyólfsson h.f. I bæjarstjórn var hann kosinn 31. jan. 1954 og átti því sæti í henni rúm 3 ár.

Lét hann sig einkum varða hafnarmál Siglufjarðar, enda átti hann alla tíð sæti í hafnarnefnd, en reyndist og jafnframt tillögugóður og glöggskyggn á önnur mál bæjarstjórnarinnar, og lét þar af hendi mikil og ágæt störf. Áhugamaður mikill um öll framfaramál Siglufjarðar og lagði þeim lið svo sem hann taldi rétt og nauðsynlegt. Hirti minna um aukaatriði og smáatriði, því hann sá ætíð kjarna hvers máls og aðalatriði og kom þar fram hin skarpa greind hans og ljósa hugsun, og velvilji hans til allra.

Skapmaður var hann, en kunni vel með að fara, og þéttur á velli og þéttur í lund. Hann var drengur hinn bezti í hvívetna og hvers manns hugljúfi. Vinum sínum var hann traustur og hollráður og bar hlýan hug til samborgara sinna. Óvildarmenn átti hann engan eða fáa. — Hann var í fáum orðum sagt mannkostamaður og með honum er hniginn óvenju starfshæfur maður og vel gerður, langt fyrir aldur fram.

Það er sérhverju bæjarfélagi mikill missir að hverjum borgara og enn meiri, þegar um er að ræða mikla hæfileikamenn, sem mikið starf beið og voru vaxandi menn í störfum og trausti því, sem borið var til þeirra og mest þeirra, er sárast eiga um að binda. Vér sendum ástvinum hans öllum kveðjur samúðar og hluttekningar. Jafnframt því, sem ég þakka honum mikil og góð störf fyrir bæjarfélag vort og í því, bið ég yður, háttvirt bæjarstjórn, að votta hinum látna virðing yðar með því að rísa úr sætum".

+ Minnigargrein í Siglfirðing: 

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=341655&pageId=5369437&lang=is&q=Georg%20P%E1lsson

Georg Pálsson -

Ljósmynd: Kristfinnur