Árið 1920 - Hugleiðingar

Hugleiðingar

Grein úr Fram, 22. maí 1920

Það er verið að spá því af ýmsum, nær og fjær, að Siglufirði muni fara að hnigna - eða að minnsta kosti að hann sé búinn að ná fullum þroska. 

Aðrir vilja eigi heyra um neina hnignun talað, en eru hófsmenn um framtíðarvonir bæjarins - telja hann hafa full skilyrði til að halda sér við eins og hann nú er, og ef til vill smáþroskast eitthvað áfram og upp á við. 

Enn aðrir eru bjartsýnir og fullir eldmóðs, telja bæinn á ótakmarkaðri framfarabraut og sjást lítt fyrir um framfaravonirnar og framtíðarspárnar. En eitt er það sem allir eru þó sammála um. Framtíð og viðhald og gengi bæjarins er komið undir duttlungum síldarinnar. 

Bregðist síldin þá - já þá eru mikil líkindi til að rætist hrakspár afturhaldsmannanna. Haldist hún nokkurn veginn við, og verðlag svari til reksturskostnaðar eða meira,  þá hafa "hófsmennirnir" á réttu að standa - þeirra vonir rætast þá allar og ríflega það. En það þarf sannkallað kraftaverk til að "öfgamennirnir" - sjái drauma sína rætast að fullu. Það er því best að segja þá úr sögunni, en athuga málstað hinna tveggja nokkru nánar. 

Síldin hefir skapað -- ef svo má að orði kveða - ýmis þorp hér á landi. Nægir þar að benda á Akureyri og Seyðisjörð. Akureyri er alt af að smá vagsa þó hægt fari. Gerir þar mikið að síldin hefir eigi algjörlega brugðist henni, þó með  öðrum hætti sé en fyrrum; þá er og önnur útgjörð, sem lyftir undir og sem eflst hefir á seinni árum en helsta lyftistöngin undir framfarir bæjarins mun þó verslunin vera. - Akureyri er hafnarbær og Verslunarmiðstöð stórra og öflugra landbúnaðarhéraða,  það gjörir gæfumuninn. 

Seyðisfjörður þaut upp á fáum árum. Þá veiddist þar svo mikið af síld að svo mátti segja að einsdæmi væri í þá daga. 

En svo brást síldin alt í einu eða því sem næst. Fólkinu fækkaði, það hafði hlaupið ofvöxtur í bæinn. Þátt fyrir það, þó hann eigi hið blómlega og þéttbýla Fljótsdalshérað að baki, fólksmargar fjarðasveitir á báðar hendur og hagfeldar og greiðar samgöngur, bæði við útlönd og Reykjavík, nægir honum þó ekki þetta allt, til að halda í horfinu. Það smádregur af honum síðan síldin brást. 

Enda er Reyðarfjörður orðinn honum skæður keppinautur um sveitaverslunina og útgjörð þar er í kalda koli. Það segja ýmsir að síldargöngurnar séu að breyta sér, enda mun það og satt vera. 

Síldin er að verða langsótt héðan hjá því sem áður var - hún færist vestur á bóginn segja menn. Það fer að verða ógjörningur að stunda síldarveiðina héðan á seinskreiðum mótorfleytum ef fjarlægðin á miðin eykst úr því sem var síðastliðið sumar, og þá fara útgjörðarmenn að flytja stöðvar sínar vestur á bóginn. Það er ekki nema eðlileg afleiðing. 

Og fari nú svona, eins og hálfpartinn eru horfur á, að síldarmiðin fjarlægist Siglufjörð, og mestur hluti síldarútgjörðar flytjist héðan, hvað á þá þessi bær til bragðs að taka til þess að halda í horfinu?  

Það er sjálfsagt von allra Siglfirðinga, að þetta, er nú hefir verið drepið á, reynist hrakspár og Siglufjörður verði hér eftir eins og hingað til aðalstöð íslenskrar síldarveiði. 

En það er ekki hyggilegt að reiða sig eingöngu á þessa von, Síldarstöðvarnar vestur á Ströndunum og á Ísafirði eru orðnar býsna öflugar og þaðan gengur fjöldi veiðiskipa. 

Um göngu síldar munu skoðanir mjög á reiki, en þó er það ætlun þeirra er best vita, að síld sú, er hér veiðist yfir sumarmánuðina "gangi"  vestan fyrir land - elti krabbarek það er Norðmenn kalla rauðátu, en það berst með straumunum vestan um land og norður fyrir og safnast saman í ótölulegum grúa fyrir Norðurlandi yfir júlí, ágúst og september. Þá er því eðlilegt að Vestfirðingar verði fyrst varir við síldargöngurnar. 

Þeir flykkjast þá eins og eðlilegt er á móti göngunum til að ná sem fyrst í björgina og er þá eigi ólíklegt að allur slíkur gauragangur trufli göngu síldarinnar, svo hún fari eigi einis ákveðið ferða sinna á eftir rekinu eins og fyrrum er hún var svo að segja í næði á "göngu" sinni. það sem sleppur svo framhjá Vestfirðingum og gengur austur með, mætir þá venjulega á miðri leið skipaþvælunni frá austurstöðvunum og er þá enn hætt við að afar sem fyrr, að gangan truflist og tvístrist út í buskann, svo lítið komist austur á miðin okkar. 

Þó þetta sé nú kannski ekki algjörlega rétt skoðun, þá mun þó sönnu nær að eitthvað sé hæft í þessu, að veiðiskipin sem mæta göngum á miðin trufli þær og tvístri þeim. 

Og ef þetta væri nú rétt, þá megum við fullkomlega búast við að nálægustu síldarmiðin okkar leggist í auðn, og mest allur síldarútvegurinn færist vestur á bóginn. 

Og þá um leið er úti um Siglufjörð sem miðstöð Íslenskra síldarveiði. En hvað á þá til bragðs að taka? 

Geta Siglfirðingar haldið sér við á öðrum  veiðiskap ? Eða geta þeir haldið sér við, eftir sem áður á síldarveiði ? 

Margir eru þeirrar skoðunar, að bæjarmenn ættu að stunda þorskfiski að miklum mun meira en verið hefir, og hákarlaveiði lengur fram eftir sumri en nú tíðkast. Þó er það meiri erfiðleikum bundið hér en víðast hvar annarstaðar að stunda þorskveiði sökum hins mikla dýpis, sem hér er á ystu fiskimiðum. 

Og það segja mér gamlir fiskimenn, að þorskur gangi hér nú orðið sjaldan á grunn. Hafa þeir fært til þá ástæðu einna helst, að menn fari of fljótt á móti fiskigöngunni á vorin og beri niður beituna á djúpmiðunum, en þar stöðvist vænsti fiskurinn og gangi þá trauðla grynnra. þessir hinir sömu menn þykjast og hafa veitt því eftirtekt að sé ótíð og ógæftir er fiskur er að ganga, svo eigi verði komist á sjó, þá hafi þorskurinn verið kominn uppá grunnmið áður en menn vissu af. 

Þetta hið sama hafa margin góðir og reyndir austfirskir fiskimenn sagt mér. Ef þetta er nú rétt skoðun, eins og engin ástæða er til að efa, þá ætti það að margborga sig fyrir útgjörðarmanninn að bíða svo sem vikunni lengur með að róa ef það yrði til þess að fiskurinn gengi að miklum mun grynnra; ekki síst yrði þetta mikill sparnaður nú, er olía er í gleypiverði og yfir höfuð allt er að útgjörð lýtur, því miklu áhættuminna er, vegna veiðarfæranna, að stunda fiskiveiðar á grunnu vatni en djúpu Það er engum efa undirorpið, að hér mætti stunda þorskfiski með góðum árangri miklum mun meira en gjört er. 

Það getur verið hættulegt fyrir Siglfirðinga að reiða sig eingöngu á síldina. Hún veitir þeim að vísu afar mikla atvinnu, en þegar tillit er tekið til þess hve stuttur tími það er, sem veiðarnar standa yfir, er það allmikil áhætta fyrir fátækan fjölskyldumann að setja alt sitt traust á þær. 

Og hver veit nema fiskveiðar á smábáta gæti verið hér arðvænleg atvinna yfir sumarið? Hefir sú veiði verið reynd hér að nokkrum mun í seinni tíð? Þá væri gott ef menn vildu athuga þetta mál nánar. 

Tilgangur minn með þessum línum er aðeins sá að beina huga Siglfirðinga að því, að þeir verði að vera á verði um sinn hag -- ef svo færi að síldarveiðin hér brygðist eða gengi til þurrðar. 

Kannski hamingjan gefi að svo verði eigi, en allur er varinn góður, og eigi mundi það verði bænum til neinna óhappa, þó hugir íbúanna hneigðust að fleiri en einum veiðiskap, eða þó meiri áhersla væri lögð á fiskiveiðar framvegis en hingað til hefir verið. 

En eitt er nauðsynlegt og ómissandi ef hér ætti að verða stunduð þorskveiði af kappi -- það er frystihús. Það er einkennilega hljótt um það mál, jafn afar mikilsvert og það væri þó bænum að eiga hér slíkt hús. 

Ég vænti þess fastlega að "Fram" veki menn af dvalanum um mál þetta, og berjist fyrir því með kappi og forsjá að því verði sem fyrst hrundið í framkvæmd, eða að minnsta kosti rætt í blaðinu svo almenningi gefist kostur á að kynna sér það. Þá vaknar áhuginn og þá koma framkvæmdirnar fyrr en varir  (engin undirskift, ef til vill ritstjórinn ?)