Aðalsteinn Bernharðsson

Aðalsteinn Bernharðsson (Alli Benna, sjómaður)    

Aðalsteinn Bernharðsson -  Látinn (1998) er elskulegur vinur okkar, Aðalsteinn Bernharðsson, eftir langvarandi og erfið veikindi. Hann barðist eins og hann gat fyrir betri heilsu. Alli, eins og hann var alltaf kallaður, var fæddur á Ólafsfirði 1948 og ólst þar upp.

Hann kvæntist Sjöfn Eggertsdóttir og fluttist til Siglufjarðar árið 1969. Þau eignuðust eina dóttur saman og áður átti Sjöfn dóttur. Það var mikil og góð vinátta milli heimila okkar. Það er svo margs að minnast eftir svona langa vináttu. Í haust var hann einu sinni sem oftar að rifja upp þegar hann, þá ungur drengur í Ólafsfirði, söng einsöng í Tjarnarborg, sem var full af fólki. Hann fór fljótlega út af laginu, en sagði þá: Ég byrja bara aftur, og Freyja systir óskaði sér niður úr gólfinu! Hvað hann hló dátt að tilhugsuninni. Svona var hann, hann gafst aldrei upp, eins og sýndi sig síðustu mánuðina sem hann lifði.

Alli var hrókur alls fagnaðar í góðvinahópi, og það var oft glatt á hjalla hjá okkur. Ekki má gleyma ættarmótunum á sumrin, þar var hann fremstur í flokki ásamt bræðrum sínum, með alls konar grín og uppákomur. Það var stundum erfitt að átta sig á hve veikur hann var, hann kvartaði aldrei og reyndi eins og hann gat að hlífa fjölskyldu sinni. Hinn 20. feb. sl. hélt hann upp á fimmtugsafmæli sitt í íbúðinni á Rauðarárstíg 33 í Reykjavík, þar sem þau hjónin héldu til.

Við gleymum aldrei gleðisvipnum á andliti hans þegar við birtumst öllum að óvörum um kvöldið. Hann var að tala í símann, og við heyrðum hann segja: Eru þau ekki komin, Sverrir vinur minn og Björg! Íbúðin var full af blómum og skreytingum sem Alli hafði fengið sent frá vinum og ættingjum. Á sófaborðinu var stór og falleg blómakarfa frá skipsfélögunum og það leyndi sér ekki hvað Alla þótti vænt um hana. Einnig myndirnar af Siglufirði, og ekki má gleyma fiskinum frá Svövu sem allir hlógu svo mikið að, og svona mætti lengi telja.

Elsku Alli, kvalir þínar og þjáningar eru á enda. Samt er erfitt að sætta sig við að eiga aldrei eftir að sjá þig koma labbandi heim neðan af bryggju þegar þú varst að koma af sjónum, þegar þú veifaðir okkur eða hringdir og bauðst okkur yfir í kvöldkaffi. Við kveðjum þig með sárum söknuði og þökkum þér fyrir allt. Við minnumst síðustu kveðjustundanna, þegar þú faðmaðir okkur að þér í síðasta sinn áður en við héldum norður aftur.