Árið 1949 - Uppsagnir

Burtrekstrarnir úr SR
og........... Rauðku

Mjölnir 29. júní 1949

Einkennileg ráðstöfun hjá S. R. 

S.R. á Siglufirði hafa nýlega sagt upp vinnu fjölda verkamanna, sem búið var að ráða í verksmiðjurnar og byrjaðir voru að vinna þar niður frá. 

Ráðstöfun þessi mælist að vonum mjög illa fyrir meðal verkamanna, enda eru slíkar aðfarir með öllu óverjandi, og óvanalegar hjá verksmiðjunum á þess um tíma árs. Stjórnendur SR geta ekki afsakað sig með því, að ekki séu nægileg verkefni fyrir hendi hjá verksmiðjunum til að vinna að. 

Nægir í þessu sambandi að benda á, hvernig lóðir SR lita út. Er það mikið verk, sem þar þarf að vinna. Sömuleiðis þarf að klára girðingar, sem byrjað var á í vor, en síðan hætt við. Þá var byrjað að steypa nýtt hús niðri á lóð SR30. Var steypt upp neðri hæðin. Við þessa byggingu hefur ekkert verið unnið í vor, ekki einu sinni slegið utan af húsinu. 

Mörg önnur verkefni mætti benda á, sem verksmiðjurnar beinlínis þurfa að láta vinna, en í stað þess að láta verkamenn vinna þau, eru þeir reknir heim og þeim tilkynnt að engin þörf sé fyrir vinnuafl þeirra fyrr en trygging byrjar. 

Þá er það sérstaklega eftirtektarvert, að fyrir þessari óþokkalegu árás hafa frekast orðið eldri menn og unglingar, sem litla eða enga vinnu hafa haft í vetur, og sýnir það eitt út af fyrir sig hugarfar stjórnenda SR til verkamanna. 

Guðfinnur Þorbjörnsson verksmiðjustjóri -
Ljósm. fenginn frá minnigargrein

Að svo komnu máli skal því ekki trúað, að þessar ráðstafanir séu gerðar með samþykki stjórnar og framkvæmdastjóra SR, en til þeirra hefur ekki náðst síðan uppsagnirnar fóru fram, vegna þess að þeir eru á fundahöldum í Reykjavík.
Það mun nú á næstunni upplýsast hver eða hverjir það eru, sem bera ábyrgð á þessari ráðstöfun, og er áreiðanlegt, að þeim herrum verður ekki gleymt af Siglfirskum verkamönnum.
------------------------------------------------------------------------- 

Mjölnir 17. ágúst 1949

Brottrekstrarnir úr Síldarverksmiðjum ríkisins

Guðfinnur Þorbjörnsson verksmiðjustjóri rekur sex menn, af handahófi úr vinnu hjá S.R. 

Eins og flestum bæjarbúum mun kunnugt af umtali, voru nokkrir fastráðnir verkamenn hjá SR reknir úr vinnu hinn 11. þ.m. Var þeim fyrst tilkynntur brottreksturinn munnlega, en sama dag sent bréf, undirskrifað af Guðfinni Þorbjarnarsyni verksmiðjustjóra. 

Var burtreksturinn staðfestur í þessu bréfi og mönnum gefin að sök vinnusvik. Kemst Guðfinnur þannig að orði í bréfinu:

“Vinnubrögð yðar í vinnu hjá Síldarverksmiðjum ríkisins undanfarna daga hafa verið svo léleg, að vér getum ekki lengur sætt oss við þau, og teljum, að þér hafið með þeim fyrirgert rétti yðar til vinnu hjá oss það sem eftir er tryggingartímabilsins í sumar, þar eð þér hafið ekki tekið leiðbeiningum verkstjóra og flokksstjóra vorra um að bæta vanrækslu yðar við vinnuna".

Verkstjóri og flokkstjóri, sem viðkomandi menn hafa unnið hjá hafa að sögn aldrei gefið þeim neina áminningu fyrir léleg vinnubrögð,og hafa viðurkennt í votta viðurvist, að þeir hafi ekki reynst síðri til vinnunnar en þeir verkamenn, sem með þeim unnu. Hafa samverkamenn þeirra lagt fram vottorð um hið sama. 

Verkstjóri eins þessara manna hefur viðurkennt, að hann hafi tekið misgrip á honum og öðrum manni. Fannst honum ákveðið verk, sem hann hélt, að viðkomandi verkamaður væri að vinna, ganga illa, og er þetta tilefni til brottreksturs þessa verkamanns. 

En þrátt fyrir, það, að verkstjórinn hefir hefur viðurkennt, að hann hafi tekið misgrip á honum og öðrum manni. Fannst honum ákveðið verk, sem hann hélt, að viðkomandi verkamaður væri að vinna, ganga illa, og er þetta tilefni til brottreksturs þessa verkamanns. En þrátt fyrir. það, að verkstjórinn hefur nú áttað sig á misgripum sínum, hefur hinn ranglega brottrekni maður ekki fengið vinnu sina aftur. 

Þess skal getið, að verkstjórinn mun ekki hafa verið ánægður með vinnubrögðin á vinnustaðnum yfirleitt, og látið orð falla á þá leið, að það yrði að byrja á einhverjum með brottrekstrana! 

Þessir brottrekstrarnir hafa mælst mjög illa fyrir. Verkamannafélagið Þróttur hefur nú tekið málið að sér og reynt að fá því framgengt með samningum, að mennirnir yrðu teknir aftur í vinnu, en sú tilraun hefur ekki borið árangur. Mun félaginu í gær hafa borist bréf frá Guðfinni Þorbjörnssyni, þar sem hann heldur fast við fyrri ákvörðun sína. Lítur því út fyrir, að málið verði að ganga lengra.

Guðfinnur Þorbjörnsson, sem mun bera að mestu eða öllu, ábyrgðina á þessum brottreksrum, hefur hlaupið alvarlega á sig. 

Gætinn yfirmaður, sem er óánægður með afköst undirmanna sinna, rekur þá ekki fyrirvaralaust úr vinnunni, eins og hér var gert, heldur áminnir þá fyrst og tilkynnir þeim, hvað við liggi, ef þeir bæti ekki úr. Enn síður er hægt að mæla því bót, að velja bara einhverja af handahófi úr stórum hóp manna til að reka. 

Og að vísa manni úr vinnu í misgripum fyrir annan, og neita að taka hann aftur þegar mistökin upplýsast, mun vera algert einsdæmi, og fáum trúandi til slíks. 

Þess skal getið, að a.m.k sumir þessara manna hafa unnið hjá SR áður, og hefur aldrei verið kvartað um slæm vinnubrögð hjá þeim fyrr en nú. 

Vonandi bæta ráðamenn SR hið fyrsta fyrir þá rangsleitni, sem þessum verkamönum hefur verið sýnd, bjóða þeim að taka upp vinnu sína aftur og bæta þeim upp það tap, sem þeir hafa orðið vegna brottvikningarinnar. Sú lausn á málinu er viðunarleg fyrir báða aðila, og sú eina sem sæmandi er fyrir stjórnendur verksmiðjanna

-----------------------------------------------------

Mjölnir 24. ágúst 1949

GUNNAR JÓHANNSSON

Samskipti SR við verkamenn og verkalýðssamtökin 

Hvaða afstöðu hafa stjórnendur SR tekið gagnvart verkalýðssamtökunum, og hvaða siðferðilegar skyldur telja þeir sig hafa gagnvart verkamönnum? 

Í vor, nokkru áður en tryggingartímabilið hófst i SR, sögðu verksmiðjurnar upp allmörgum verkamönnum, aðallega eldri mönnum og unglingum. 

Var þeim tilkynnt, að þeir þyrftu ekki að búast við neinni vinnu fyrr en trygging hæfist, þ.e. 8. júlí. Stjórn Verkamannafélagsins Þróttar vítti þessa aðferð, og taldi þá, og telur enn, að það sem vakað hafi fyrir ráðamönnum verksmiðjanna hafi fyrst og fremst verið það að reyna að losa sig að fullu við sem mest af eldri starfsmönnum verksmiðjanna. 

Þess skal ennfremur getið, að flestir þeirra, sem sagt var upp vinnunni i vor, voru ekki búnir að vinna þar þá nema sárafáa daga. Nokkrir þeirra, 

sem sagt var upp vinnunni, fóru ekki i verksmiðjurnar í sumar, heldur fengu atvinnu á öðrum vinnustöðvum.

Eftir að þessar uppsagnir fóru fram í SR í vor, hélt fjöldi verkamanna áfram að vinna í verksmiðjunum, enda sýnilega næg verkefni til staðar til að vinna við, svo það var ekki fyrir vöntun á verkefnum fyrir verkamennina til að vinna, að þeir voru reknir heim, heldur af allt öðrum og verri orsökum.

Gömlum starfsmanni í SR á Raufarhöfn sagt upp. 

Á sama tíma og þetta skeði hér á Siglufirði, er eldri manni, sem búinn er að vinna hjá SR á Raufarhöfn í mörg ár, neitað um vinnu við verksmiðjurnar í sumar. 

Maður þessi heitir Grímur Grímsson og er búsettur í Ólafsfirði. Í símskeyti, sem Grímur fékk frá S.R. á Raufarhöfn, er honum neitað um plássið á þeim forsendum, að enginn maður verði ráðinn í hans pláss, þar sem ákveðið hafi verið að fækka mönnum í verksmiðjunni. Þetta mun hafa verið átylla ein, því eftir því sem best verður vitað, var annar maður ráðinn í þetta starf. Þess skal einnig getið, að Grímur Grímsson slasaðist við vinnu í S.R. á Raufarhöfn fyrir nokkru síðan. 

Ef þetta er aðstoðin, sem fyrirtækið veitir þeim mönnum, sem verða fyrir slysum við vinnu hjá því, sem því miður eru ískyggilega mörg, þá er sannarlega ekki hægt að segja, að það telji sig hafa miklar siðferðilegar skyldur við verkamenn sína. 

Flestir atvinnurekendur hafa hingað til talið það skyldu sína að létta undir með þeim mönnum, sem verða fyrir slysum í vinnu hjá þeim, m.a. með því að láta þá hafa vinnu við þau störf, sem þeir geta frekast unnið. 

Hjá S.R. virðist hið gagnstæða hafa átt sér stað, bæði í þessu tilfelli með Grím og fleirum.

Brottrekstrarnir í sumar. 

Nú í sumar voru sex verkamenn reknir úr vinnu hjá SR á Siglufirði. Var þeim gefið að sök, að vinnuafköst þeirra hefðu verið léleg. Verksmiðjastjóri, Guðfinnur Þorbjörnsson, tilkynnti mönnunum þetta fyrst munnlega á mjög dónalegan hátt, og staðfesti það síðan í mjög naglegu orðuðu bréfi. 

Stjórn Þróttar ræddi þessa brottrekstra við verksmiðjustjórann og framkvæmdastjóra S.R., Vilhjálm Guðmundsson. - Óskaði stjórn Þróttar eftir því, að mennúnir yrðu teknir i vinnu aftur, þar sem engar sannanir lægju fyrir um það, að þeir hefðu sýnt sviksemi í starfi, enda sumir þeirra búnir að vinna hjá SR undanfarin ár og aldrei verið fundið að vinnubrögðum þeirra svo vitað sé. 

Eftir margra daga umþenkingar og fjölmarga klíkufundi með ýmsum ráðamönnum fyrirtækisins, kom svar frá herrunum Vilhjálmi og Guðfinni, þar sem þeir tjá sig ekki geta orðið við kröfu Þróttar um að taka mennina aftur í vinnu. 

Stjórn Þróttar skrifaði þá stjórn SR og óskaði eftir áliti hennar i málinu og krafðist þess, að mennirnir yrðu teknir í vinnu aftur. Nú er liðin vika síðan bréfið barst til stjórnar SR., en ekkert svar hefur borist enn og enginn fundur fengist um málið í verksmiðjustjórn. Formaður stjórnar SR, Sveinn Ben., er sagður suður í Reykjavík, en varaformaður telur sig ekki hafa vald til að boða fund í stjórn SR í fjarveru aðalformanns. 

Til skilningsauka fyrir verksmiðjustjórn SR og aðra ráðamenn fyrirtækisins skal það tekið fram hér, að stjórn Þróttar er ákveðin í að knýja fram endanleg úrslit í þessu máli. Það er vitanlega hin mesta ósvífni hjá stjórn SR að liggja á slíku sem þessu, og draga svona að svara bréfi verkamannafélagsins. 

Það er engin afsökun þó herra Sveinn Benediktsson þurft að fara suður til Reykjavíkur. Það eru fjórir stjórnarmeðlimir hér á staðnum, sem hefðu verið einfærir um það að afgreiða þetta mál strax og bréfið barst framkvæmdastjóranum í hendur.

Maður sem virðist vilja illdeilur. 

Ég hef hér að framan minnst á nokkur atriði, sem snúa beint að verkamönnum, sem vinna hjá SR, atriði, sem sýna allvel þann hug, sem ýmsir ráðamenn þessa fyrirtækis bera til verkamannanna. 

Getur verið, að síðar gefist tækifæri til að ræða frekar ýmislegt annað viðvíkjandi rekstri SR og framkomu ýmissa ráðamanna gagnvart starfsmönnum verksmiðjanna. Það er öllum ljóst, að samvinna milli verkamanna og verksmiðjustjórans er allt annað en góð, og er það fyrst og fremst vegna framkomu verksmiðjustjórans gagnvart verkamönnunum, sem við fyrirtækið vinna. Hefur þessi maður, Guðfinnur Þorbjörnsson, gert ítrekaðar tilraunir til að fara í kring um gildandi kaupgjaldssamninga Verkamannafélagsins Þróttar og fá út úr þeim allt annan skilning en þann rétta, og ekki í einu einasta tilfelli spurt um álit stjórnar Þróttar á viðkomandi atriðum.

Það hefur sannarlega ekki verið herra Guðfinni Þorbjörnssyni að þakka, að ekki hafa orðið stórárekstrar milli Þróttar og SR. Þar hafa aðrir en hann lagt sig fram um að miðla málum og jafna ágreininga, sem upp hafa komið.

Gott samkomulag SR. og Þróttar er báðum fyrir bestu. 

Að lokum vil ég óska þess, að stjórn S. R. sjái sóma sinn i því að bæta úr því ranglæti, sem þeir verkamenn voru beittir, sem reknir voru úr SR í sumar, annaðhvort með því að bjóða þeim að vinna áfram í verksmiðjunum það sem eftir er í sumar, og greiða þeim fullt kaup fyrir þann tíma sem liðinn er síðan að voru reknir, eða greiða þeim fulla tryggingu í tvo mánuði, ef stjórnin telur sig ekki þurfa á vinnu þeirra að halda. Þetta eru þær minnstu kröfur, sem Verkamannafélagið Þróttur mun sætta sig við. 

Það er ábyggilega best fyrir báða aðila, að þetta má1 verði leist með góðu samkomulagi þeirra. Með því sýndi stjórn SR að hún vilji gott samstarf við Verkamannafélagið Þrótt, það er áreiðanlega báðum fyrir bestu. 

------------------------------------------------

Neisti 26. ágúst 1949

Burtrekstrarnir úr SR 

Fyrir stuttu var sex verkamönnum sagt fyrirvaralaust upp vinnu hjá Síldarverksmiðjum ríkisins og gefið að sök “léleg” vinnubrögð við grunngröft tunnuverksmiðjunnar nýju. 

Í stað þess að tilkynna trúnaðarmanni verðamannafélagsins á vinnustaðnum, að ef þessir menn bættu ekki vinnubrögð þá, yrðu þeir reknir, eru þessir menn reknir fyrirvaralaust frá fyrirtækinu. Allur málstilbúningur forráðamanna SR, sem standa að þessum burtrekstrum, er með eindæmum og virðist tilgangur þeirra sá einn að fá verkamenn upp á móti sér. 

Nú er ekkert að því að finna, þótt þeir, sem stjórna vinnunni hjá SR, vilji að unnið sé vel. Verkamenn eiga að kappkosta að afreka jafn mikið yfir daginn og mögulegt er, og sjálfsagt er að taka hart á öllum meiriháttar vinnusvikum. En verkamenn geta alls ekki látið það viðgangast, að mönnum sé sagt upp vinnu sökum “lélegra” vinnubragða, nema þessi þunga sök sé sönnuð á þá, sem reknir eru fyrir þessar sakir.

Hafa þeir, sem stóðu fyrir brottrekstri þessum gert það. Við skulum athuga það nokkuð nánar. - Flokksstjóri S.R. við grunngröftinn á nýju tunnuverksmiðjunni hefur gefið fjórum hinna burtreknu eftirfarandi vottorð:

"Það vottast hér með, að Andrés Davíðsson, Skúli Benediktsson, Aðalbjörn Þorsteinsson og Gísli Þórðarson, hafa ekki unnið ver en aðrir í grunngreftri tunnuverksmiðjunnar nýju".

Siglufirði 16. ágúst 1949

Hallur Garibaldarson

(sign.)

Guðfinnur Þorbjörnsson virðist ekki hafa upplýsingar sínar um “léleg” vinnubrögð þessara manna frá flokksstjóra sínum.  

Guðfinnur Þorbjörnsson getur ekki haft upplýsingar sínar frá Sveini Ásmundssyni verkstjóra, er kemur aðeins endrum og eins á þennan vinnustað, enda hefur Sveinn upplýst í viðurvist hinna burtreknu, að hann hafi ekki borið fram kæru um það, að þeir yrðu reknir úr verksmiðjunum. - 

Hvaðan hefur Guðfinnur Þorbjörnsson þá upplýsingar sínar um “léleg” vinnubrögð þessara manna? Þeir sem stóðu fyrir þessum burtrekstri virðast nú vera staðnir að þeirri sök, að hafa rekið þessa menn saklausa. 

Þessir sömu menn hafa ekki viljað viðurkenna yfirsjón sína og taka verkamennina í vinnu að nýju. 

Nú er komið að því, að Siglfirskir verkamenn krefjast þess, að hlutur þessara verkamanna sé tafarlaust réttur, og ekki verði skilið við þetta mál, án þess að hinir burtreknu verkamenn fái fulla uppreisn. 

Þeir, sem stóðu fyrir þessum burtrekstrum munu framvegis verða undir sterkri gagnrýni frá verkamönnum og þarf þá ekki að undra, þótt slíkt verði til þess, að framvegis verði, því miður, miklu verra að semja um þau ágreiningsmál, sem upp kunna að koma á milli þeirra og verkamanna. 

Getur þetta haft alvarlegar afleiðingar fyrir þá sjálfa. Nú er þess að vænta, að stjórn S.R. veiti hinum burtreknu verkamönnum fulla uppreisn, og bæti þannig fyrir óréttlæti verkstjóra síns. 

Jóhann G. Möller

Einherji 6. september 1949

“Brottrekstrarnir” úr SR

Eins og mörgum mun kunnugt og þá sérstaklega vegna skrifa Mjölnis undanfarið, gerðust þau tíðindi hér í bæ í s.l. mánuði, að nokkrum verkamönnum var af verksmiðjustjóra S.R. hér, sagt upp vinnu við Síldarverksmiðjur ríkisins á miðju tryggingartímabili þeirra. 

Þar sem stjórn S.R. hefur nú nýlega fjallað um þetta mál, (samkvæmt ósk Verkamannafélagsins Þróttar) og afstaða einstakra stjórnarmeðlima í þessu máli hefur verið gerð að umtalsefni i blöðum, tel ég rétt að taka fram eftirfarandi: 

Verksmiðjustjóri og tæknilegur framkvæmdastjóri S.R. hafa í bréfi og greinargerð til verksmiðjustjórnar skýrt svo frá, að þeir hafi talið nefnda brottrekstra óhjákvæmilega og eðlilega afleiðingu af lélegum vinnubrögðum hinna brottviknu manna. Áminningum og óskum um betri vinnuafköst hafði ekki verið sinnt. 

Verkamenn þeir, er fyrir uppsögninni urðu létu hinsvegar strax í ljós óánægju sína yfir ákvörðun verksmiðjustjórans töldu sig hafa unnið jafnvel og aðra og um handahófs ráðstafanir væri að ræða hjá verksmiðjustjóra og kærðu þeir til stjórar Verkamannafélagsins Þróttar, með ósk um leiðréttingu. 

Þróttarstjórn reyndi samkomulag við verksmiðjustjórann og tæknilegan framkvæmdastjóra á þeim grundvelli, að mennirnir yrðu teknir aftur. Sú samkomulagstilraun varð árangurslaus. 

Þá var stjórn S.R. ritað af Þróttarstjórn, og farið fram á að mennirnir yrðu teknir aftur. Þessir aðilar áttu síðan vinsamlegar viðræður um þessi mál. - Þróttarstjórn kynnti sér greinargerð þá og bréf, sem minnst er á hér að framan og stjórn S.R. hlýddi á rök tveggja hinna brottviknu manna, sem einnig mættu á nefndum fundi. 

Í ljós kom, að það sem trúnaðarmenn S.R. sögðu hvítt, sögðu fulltrúar nefndra verkamanna svart og svo öfugt. 

Um réttan gang í málinu var ekki unnt að fá við samanburð á fyrirliggjandi greinargerð og framburði gestanna á fundi verksmiðjustjórnar. Var því þessi sameiginlegi fundur styttri en ella. 

Þennan sama dag ræddi verksmiðjustjórnin tilmæli Þróttar nánar. Kom þá í ljós, að tveir stjórnarmeðlima vildu láta greiða hinum brottviknu verkamönnum kaup út tryggingartímann. 

Þetta var fellt. Þrír stjórnarmeðlimir voru þeirrar skoðunar, að ekki væri unnt að verða við tilmælum Þróttar og láta mennina hefja vinnu á ný.

Með því að ég var fylgjandi síðari tillögunni, vil ég hér geta af hverju afstaða mín mótaðist, en það var af þessu þrennu: 

Að lokum skal ég undirstrika það sjónarmið sem fram hefur komið í skrifum Mjölnis, að svo best er atvinnufyrirtækjum borgið að góð samvinna sé milli verkamannanna og trúnaðarmanna fyrirtækisins og gagnkvæmt traust sé fyrir hendi. 

Afstaða meirihluta stjórnar S.R. í umtöluðu brottvísunarmáli er alls ekki þess eðlis að torvelda slíka samvinnu. 

Málið fer fyrir þann aðila, sem getur leitt það rétta fram i málinu. Þá aðstöðu hafði stjórn S.R. ekki.

Jón Kjartansson

----------------------------------------------

Mjölnir 7. september 1949

Búið að segja upp á 3. hundrað manns í S.R. og Rauðku Tryggingartímabilinu lauk í gær, og er nú búið að segja upp flestum verkamönnum síldarverksmiðjanna. - Hvaða ráðstafanir gerir bæjarstjórn til að útvega þessum mönnum atvinnu? 

Tryggingartíma verkamanna hjá síldarverksmiðjunum lauk í gær, og var flestum þeirra sagt upp vinnu frá og með deginum í dag. - Mun það alls vera á þriðja hundrað verkamanna, sem þar hefur misst atvinnu sína og hefur ekkert að gera eins og sakir standa. 

Byggingavinna er nú sáralítil í bænum, þó fjöldi húsa standi ófullgerð. Er það fyrst og fremst að kenna því kreppuástandi, sem skapast hefur í tíð núverandi 

ríkisstjórnar, skorts á byggingarefni, hinum margvíslegu hömlum og höftum, en þó fyrst og fremst vegna lánsfjárskorts. 

Framkvæmdir á vegum bæjarins eru varla teljandi, og líklega lítillar atvinnu að vænta hjá honum í haust, því eins og kunnugt er, hefur hann átt fullt í fangi með að standa undir launagreiðslum til fastra starfsmanna sinna í sumar, og verkamenn hafa oftast átt fjögurra til fimm vikna kaup sitt inni hjá honum. Þó ætti að mega vænta þess, að bærinn geti veitt nokkrum hóp verkamanna stöðuga atvinnu í haust og vetur.

 En eins og áður hefur verið vikið að hér í blaðinu, getur bæjarstjórn ýmislegt gert til úrbáta úr atvinnuleysinu, án þess að það kosti bæinn mikil útlát. 

Hún getur t.d. greitt á ýmsan hátt fyrir bátunum, sem áformað er að gera út á þorskveiðar í haust, t.d. samið við eigendur frystihúsanna um að halda eftir nægilega miklu af beitu handa þeim bátum, sem héðan róa, séð um að salt sé fyrir hendi, útvegað bryggjupláss, húspláss og fleira þess háttar. 

Þá hlýtur það að vera einróma krafa bæjarbúa, að síldarverksmiðjurnar hafi nokkurn hóp manna í vinnu áfram, að haldið verði áfram við byggingu nýju tunnuverksmiðjunnar, að hafin verði vinna í tunnuverksmiðjunni gömlu eins fljótt og unnt er, því eitthvað mun þurfa að framleiða af tunnum fyrir næsta sumar, þó lítil hafi verið söltunin í samar, að Emil Jónsson samgöngumálaráðherra og vegamálastjóri láti nú hefja vinnu við Skarðsveginn eins og þeir lofuðu í vor að gert yrði í sumar, en ekki hefur verið byrjað á enn, og ýmislegt fleira. 

Bæjarstjórn og nefndir hennar hafa haft fjármál bæjarins til athugunar undanfarið. Má búast við, að bæjarstjórnarfundur verði bráðlega haldinn um atvinnumál bæjarins og fleira. Ættu verkamenn og aðrir bæjarbúar að fylgjast vel með því, hvaða tillögur bæjarstjórn hefur fram að færa til að bæta úr atvinnuleysinu, og reyna að sjá svo um, að ekki verði látið sitja við orðin tóm, heldur eitthvað raunhæft aðhafst. 

Fyrir viku var á það bent hér í blaðinu, að vegna þess sérstaka hlutverks, er Siglufjörður gegnir fyrir þjóðarheildina sem miðstöð síldveiðanna, ætti hann heimtingu á því, að þegar sá atvinnuvegur bregst, eins og hann hefur brugðist undanfarin ár, hlaupi hið opinbera undir bagga með bænum og hjálpi honum til að endurskipuleggja atvinnulíf sitt svo að hér verði lífvænlegt. 

En ekki er að búast við því ,að ríkisstjórnin hlaupi til og leggi honum upp í hendurnar atvinnutæki eða fjármagn til að útvega atvinnutæki fyrir. Einnig í því máli verður bæjarstjórnin að hafa forgöngu, og því fyrr, sem hún byrjar á að undirbúa það, því betra. 

En það sem mest ríður á nú í svipinn, er að finna lífvænlega atvinnu handa sem flestum bæjarbúum. Það mál þolir enga bið, heldur verður að hefjast handa um úrbætur næstu daga