Blaðið Einherji

Glefsur úr Einherja 1932

Einherji 11. febrúar 1932

Gott fólk! 

Ýmsum kann að þykja, að verið sé að bera í bakkafullan læk, að stofna til nýrrar blaðútgáfu. Má vera að svo sé. En oss, er til þessa blaðs höfum stofnað, finnst, að hér sé full þörf á blaði, er ræði mál þjóðarinnar og bæjarins hlutdrægnislaust. En það teljum vér ógerning í pólitísku blaði, sem er einskorðað við kreddur og „trúarbrögð" sérstaks flokks. Oss finnst næg reynzla fengin fyrir því, bæði hér og víðar, að hjá slíkum blöðum kafna eigi sjaldan skynsamleg rök og umræður nauðsynjamálanna í pólitísku hnútukasti og persónulegum svívirðingum. Slíkt er, sem geta má nærri, engu máli til gagns, en þeim, er hlut eiga að, og þjóðinni í heild til vanvirðu. Af þessum orsökum vill blaðið engum pólitískum flokki ljá sitt lið til einhagsmuna. Með þessu er hinsvegar eigi sagt, að útgefendurnir séu ekki sæmilega pólitískir persónulega. 

En það er þeirra prívatmál, og finnst þeim, sem þjóðin muni standast aðsteðjandi hörmungar, þótt þeir tilkynni ekki háðtíðlega sitt pólitíska innræti í opinberu blaði. Það verða nógir til samt, er láta ljós sitt skína í þeim efnum, sjálfum sér og landslýðnum til uppbyggingar. Við höfum leyft oss að nefna blaðið Einherja. Höfðum vér þá eigi í huga forna, goðræna merkingu orðsins, heldur hitt, að með því nafni mætti vel tákna aðstöðu blaðsins, er það er einstætt í baráttu sinni, óstutt af pólitísku flokksfylgi og pólitísku flokksfé. En hins ber eigi að dyljast, að vér ætlum vorn hlut eigi minni fyrir það, né vorn „flokk" rýrari að heldur. Skulum vér nú í stuttu máli drepa á hið helzta, er oss leikur hugur á að ræða í blaði voru. 

Skal þá fyrst telja, að vér álíta það helgustu skyldu blaðsins að hlynna að öllu, er glæða má áhuga landsmanna fyrir íslenzkum iðnaði og efla á allan hátt, er í þess valdi stendur sjálfsbjargarviðleitni þjóðarinnar. Í því sambandi viljum vér leiða af* því athygli þeirra, er starfa að íslenzkri iðnaðarframleiðslu og sölu íslenzkra afurða, að vér bjóðum þeim auglýsingarúm t blaðinu fyrir þriðjungi lægra verð en öðrum. Vitanlega verða bæjarmálin næst á dagskrá blaðsins. Þessi bær er í örum vexti og mörg eru málin, sem kalla að, og krefjast skjótrar úrlausnar. Og óvíða ætlum vér meiri þörf fyrir hlutlaust málgagn en hér, þar sem hver höndin er upp á móti annari og allt virðist ætla að kafna í pólitískri illkvittni og argaþrasi. 

Ætti þetta blað að geta verið vettvangur þeirra manna í þessum bæ, og þeir eru ærið margir, er langar til að líta á málin öðruvísi en gegnum lituð flokksgleraugu. Enda hefir sú orðið raunin á, að margir mætir menn hafa beiðzt eftir rúmi í blaðinu fyrir áhugmál sín og heitið því drengilegum stuðningi. Það hefir litla þýðinga að fara að telja hér uppeinstök mál, er blaðið ætli sér að berjast fyrir. Það verða vitanlega þau dægurmál, er efst eru á baugi og mest aðkallandi í þann og þann svip. Og auk þeirra ýms mál, er stöðugt verða aðsópsmest í hugum manna um ófyrirsjáanlega langan tíma eins og t. d. úrlausn hafnarmálanna, raforkumálsins, atvinnubótanna, heilbrigðismálanna, mennta- og menningarmála, útgerðarinnar o. s: frv. Nægir þetta til þess að sýna, að verkefnin eru ærin og margháttaðri en margan grunar. 

Og allar líkur virðast benda til, að enda þótt flokkapólitíkin sé hér í algleymingi, þá sé allur vitrari þorri bæjarbúa þeirrar skoðunar, að sú verði tryggust úrlausn málanna að ræða þau rólega og öfgalaust á hlutlausum grundvelli. Enn sem komið er getum vér eigi með vissu sagt um það, hve oft blaðið muni koma út, en það verður svo oft sem ástæður leyfa, og eigi sjaldnar fyrst um sinn en á hálfsmánaðarfresti. Og tilgangurinn er sá, að það komi vikulega er líður fram á vorið. Vér heitum á alla góða menn að styrkja Einherja með gagnlegum greinum og láta hann verða aðnjótandi auglýsinga að öðru jöfnu, því varla mun skorta á útbreiðslu hans í bænum og víðar. Má í því sambandi geta þess, að blaðið hefir fasta útsölumenn í öllum kaupstöðum landsins. En eitt viljum vér taka fram einu sinni fyrir allt: „Pólitískum" greinum, eða greinum með illkvittni og hnútukasti um menn og málefni verður eigi veitt viðtaka.

-------------------------

Fátækramál. 

Í „brakka" hr. Hinriks Thorarensens, þeim sem hr. útvegsmaður Ólafur Guðmundsson í Reykjavík hefir á leigu hér í bænum, hafa búið í vetur hjónin Gestur Sölvason og Kristjana Ingimundardóttir, með tveim börnum sínum kornungum. Eru þau fátæk mjög og höfðu leitað hjálpar hjá bænum sér til bjargar, og var hún veitt eins og lagaskylda er til. Ennfremur hafði Gestur (að sjálfs hans sögn) ítrekað óskað þess, að fátækranefnd léti skoða húsakynni, þau sem hann bjó í, því þeim þóttu þau lítt viðunandi. Hvergi var hægt a.ð loka hurðum og fleira ábótavant, en því var enginn gaumur gefinn. Síðast í janúar þurfti Gestur að fara til Eyjafjarðar í atvinnuleit, og var þá konan ein eftir í húsinu með börnin, og bað hann menn að líta til hennar.

Á laugardaginn 30 jan. s. l. kom konan til hr. Sig. Fanndal, fátækranefndarmanns og tjáði honum, að hún treysti sér ekki til að búa ein með börnunum í nefndum „brakka", og bað um, að sér yrði útvegaður kvenmaður til þess að sofa hjá sér. En engan árangur bar þessi málaleitun hennar. Að vísu hafði hr. Fanndal (að sjálfs hans sögn) talað við tvær konur um þetta, en er hvorug þeirra hafði tök á að sofa hjá Kristjönu, var tilraunin lögð á hylluna. Varð því konan að vera ein í húsinu áfram. — Á Mánudagsmorguninn 1. febr. kom Gestur Guðmundsson frá Bakka til Kristjönu til þess að vita hvernig henni liði. 

Var þá herbergishurð hennar bundin aftur að innanverðu og kúfort og kassar fyrir hurðinni og er hann kallaði og bað um að Iokið yrði upp, fékk hann ekkert svar frá Kristjönu, en eldri drengurinn sagði, að mamma sín væri veik og gæti ekkert. Reyndi barnið samt að draga kúfortið frá hurðinni og komst Gestur loks inn. Var þá þannig umhorfs þar inni, að konan lá mállaus og rænulaus af blóðmissi í rúminu með yngri drenginn á brjósti, en blóð flaut um gólfið, því svo hafði farið, að konunni hafði leyzt höfn um nóttina, vafalaust vegna hræðslu og leiðinda við að búa þarna með tveim ungbörnum í stóru húsi allangt frá öðrum mannahíbýlum, en illhægt að loka að sér nokkurri hurð. Geta menn leitt sér í hug þessa aðkomu og ástandið þarna inni og er það meðal einsdæma. — 

Fátækranefndar var nú leitað og hún beðin að veita konunni og börnunum forsjá og hjálp, og fékkst það að vísu, en með semingi þó og fullyrðum vér að fátækranefndin sýndi þá, eins. og áður gagnvart hjónum þessum, ámælisvert tómlæti og skal saga þeirra viðskifta nánar rakin síðar hér í blaðinu ef tilefni gefst. Má vera að afsakandi ástæður hafi. verið til þess fyrir fátækranefnd, að konan var látin sofa þarna ein, þrátt fyrir beiðni sína um hjálp — og beiðni Gests áður um að húsakynnin væri skoðuð — en ekki þekkjum vér þær, — né getum leitt að þeim getur, en þeir menn, sem hér eiga hlut að máli, munu sjálfsagt skýra sína aðstöðu. 

Konan og yngri drengurinn eru nú komin á spítalann, og heilsast eftir vonum, en eldri drenginn tóku hjón hér í bænum, Þórarinn Hjálmarsson og kona hans, til fósturs meðan úr rætist um björg og heilsufar fjölskyldu Gests. En að svona vel er komið málum fyrir hinni veiku konu og börnunum má óhikað hvað mest þakka einarðri og göfuglegri framkomu Guðbjargar Kristinsdóttur ljósmóður.

----------------------

„Frjálsar ástir" 

heitir bæklingur sem seldur hefir 'verið á götum bæjarins undanfarna daga. Er það fyrirlestur, sem frk. Katrín Thoroddsen læknir í Reykjavík flutti í Útvarpið í fyrra, en A. S. V. gefur út. Ræðir þar um takmörkun barneigna og önnur feimnismál svokölluð, og er höf. hreinskilinn og bersögull. — Marga mun fýsa að lesa pésann.

--------------------------------

Talið þér þýsku

heitir mynd sú sem Gamla-Bíó í Reykjavík sýndi á jólunum s.l. og eru Litli og Stóri aðalleikendurnir. Myndin er tekin af þýsku filmfélagi og mjög til hennar vandað, enda er sagt að þetta sé skemmtilegasta myndin sem Litli og Stóra leika í og er þá mikið sagt, því þeir eru meðal hinna vinsælustu gamanleikara í heimi. Efni myndarinnar er það, að alþjóðaflökkumannaþing er háð í Berlín og þar mæta hinir frægu flækingar Litli og Stóri vitanlega. Aðal umræðu- og viðfangsefni þingsins er að fá ráðna bót á hinni miklu og háskalegu umferð á öllum þjóðvegum, sem öllum flökkulýð er til mikils trafala. 

Litli og Stóri eru eftir þjark nokkurt kosnir til þess að bera fram umbótakröfur stéttarinnar. Þótt sá ljóður sé á þeirra ráði að þeir kunna ekki þýsku. Síðan fá þeir sér kennara í málinu, en það er auðvitað ástleitin piparkerling sem ólm vill klófesta Litla-karl. Hann lætur samt ekki „plata" sig, sá stutti, heldur stinga báðir félagarnir af, lenda síðan hjá öðrum kvenmanni — yndislegri stúlku — og þá er nú ekki um að spyrja — þar lenda þeir í ýmsum skringilegum æfintýrum ... Nýja-Bíó hér hefir nú fengið myndina og mun hún verða sýnd bráðlega. Mun margan fýsa að sjá. 

Spectator. 

Karlakórinn „ Visir" æfir nú af kappi. Hefir verið farið þess á leit við kórinn af hálfu Ríkisútvarpsins, að hann syngi nokkur lög á grammófónplötur fyrir félagið. Er kórnum þetta mikill sómi. Má vænta þess, að brátt hefjist samningar milli Ríkisútvarpsins og karlakórsins um þessi mál. 

Átta menn fóru upp á Strákhyrnuna í gær til að skyggnast um eftir hafís. Skyggni var allgott og varð hvergi eygður ís svo langt er sá.

Tunnusmíðin

Tunnuverksmiðjan er nú tekin til starfa. Vinna þar 45 menn. Er unnið allan sólarhringinn í þrískiftum vökum. Áætla tunnugerðarmenn, að smíðaðar verði 360-390 tn. á sólarhring þegar allt er komið í fullan gang. 

Slys. 

Þorkell Svarfdal, formaður slasaðist síðastliðna þriðjudagsnótt. Var hann að vinna í tunnugerðinni. Lenti hann í vélasöginni með vinstri hendina og sagaðist upp í milt handarbak milli græðifingurs og löngutangar. Liggur hann nú á sjúkrahúsinu og líður eftir vonum. 

Skemtun hélt kvennfélagið „Von" í húsi sínu í gærkvöld. Var þar leikinn „Apakötturinn", og öskupokauppboð og dans á eftir. Skemtunin var vel sótt og verður endurtekin aftur í kvöld. 

Merktur fugl. 

Jón Sigurðsson frá Eyri skaut straumönd (anas histrionica)  

Var hún merkt P. Skovgaard Kristján A Jakobsson. V. 7349.

--------------------------------------------------------------------------------- 

Einherji 26. febrúar 1932

Ársreikningur björgunarsveitarinnar „Siglufjarðarsveit"

Siglufirði 1931. Tekjur: 

1. Innheimt hjá fyrv. stjórn 170,00 

2. Æfitillög 3ja fél. kr. 50,00 150,00 

3. Ársrilliög 160,00 

4. Gjafir 11,00 

5. Sala Árbókarinnar 35,00 

6. Tekjur af björgunaræfingu 168,00 

7. Fjársöfnun (Happdrættir) 600,00 

                                                   Kr, 1 294,00 

Gjöld: 

1. Sendir peningar til S. í. 170,00 

2. Húsnæði augl o.fl. 49,00 

3. Símsent til S. Í 1000,00 

4. Í sjóði hjá gjaldkera. 75,00 

                                     Kr.1294,00 

Siglufirði, 1. jan. 1932 

Eyþór Hallsson p,t. gjaldkeri.

------------------------------

ATHS. 

Þegar aðalfundur björgunarsv. „Siglufjarðasveit" var haldinn síðast liðið haust, þá gat eg undirritaður ekki lagt fram ársreikning sveitarinnar sökum þess, að innheimtan hafði gengið fremur illa og ennfremur voru ekki komnir inn peningarnir sem inn komu fyrir sölu happdrættismiðanna. Eg lofaði þá, að eg skyldi láta birta ársreikninginn í blaði hér í Siglufirði og að sjálfsögðu verður hann einnig birtur í Árbók Slysavarnarfélagsins. Nú gefst ykkur á að lita hvernig fjármálunum hefir verið varið s.l, ár. Og þá leynir það sér ekki, að um framför er að ræða fá því sem áður var, en betur má afduga skal.  

Mestu örðugleikarnir við innheimtuna hafa stafað af því, að margir þeirra, sem innrituðu sig sem félaga 14. apríl 1929, virðast alls ekki muna eftir því að þeir séu félagar enn þá, heldur standa þeir í þeirri meiningu að þeir hafi gefið S. Í. peningana, sem þeir þá lögðu fram, í eitt skifti fyrir öll og að þeim beri því ekki að borga gjöld á hverju ári. Þetta er vitanlega hinn mesti misskilningur, því allir félagar, nema æfifélagarnir verða að greiða árstgjöld sín í þessu félagi ekki síður en öðrum. Vænti eg að þessi misskilningur hverfi hér eftir og í hans stað komi fullur skilningur og áhugi fyrir þessu mikla umbóta- og nauðsynjamáli og vaxi vilji og aðgerðir manna til styrktar og eflingar allri starfsemi S. 

Í. í lok janúarmánaðar s. l. gekk 9 manns frá Siglunesi í einu í deildina hér. — Þetta sýnir áhuga og fylgi við gott málefni og gefur vonir um að fleiri munu á eftir fara. Siglfirðingar! Styðjið Slysavarnarfélag Íslands. Á þessu ári þurfum við að safna handa félaginu 2000 krónum, — það er það allra minsta — og það getum við vel, ef góður vilji og samhugur kemur til. Vinnum að því að útrýma sjóslysum og efla tæki og útbúnað til bjargar mönnum úr sjávarháska. Það er göfugt starf, og miklar hvern sem það vinnur. 

Eyþór Hallsson.

--------------------------

Enn um fátækramál

Í greininni „Fátækramál" í síðasta blaði, er ekki að öllu leyti rétt frá skýrt um tildrögin og atburðinn, sem þar var frá sagt. Fátækranefnd hefir upplýst það, að rangt sé, að Gestur Sölvason hafi leitað til hennar um skoðun íbúðarinnar og kveður hann jafnvel hafa látið vel af henni. En hvað sem því líður, þá var þetta réttilega haft eftir Gesti og ennfremur er íbúðin sannanlega illhæf til vetrardvalar, m. a. lekur niður í herbergin í úrkomu. Þá höfum vér og sannfrétt, að það var ekki herbergishurðin, sem aftur var bundin, heldur útidyrahurðin, ekkert kúfort eða kassi var fyrir hurðinni og konan var ekki mállaus og rænulaus, en mjög máttfarin. — 

þetta skiftir að vísu ekki svo miklu máli, að því er oss virðist, en það er bezt að hafa það, sem sannara reynist. — Þá" hefur fátækranefnd upplýst það, að hr. Sigurður Fanndal hafi gert ítrekaðar tilraunir til þess að fá stúlku til þess að sofa hjá Kristjönu. — Vér sögðum í nefndri grein, að hann hefði reynt við tvær, en eftir þessu hafa þær verið fleiri. — Ennfremur upplýsti nefndin, að hr. Fanndal hefði sent mann einu sinn til konunnar sunnudaginn 31. jan. (daginn eftir að hún bað um aðstoðina) til Less að vita hvernig henni liði, og hún hefði þá ekki verið orðin veik, og að hr. Fanndal hafi brugið við skjótt, er hann heyrði að mánudagsmorguninn hvernig komið var fyrir konunni og útvegað, með óaðfinnanlegum hraða, lækni og hjúkrunarkonu. Er gott til þess að vita og er oss ljúft að upplýsa allt það, sem hr. Fanndal eða nefndin hafa vel gert í þessu máli. Það, sem vér sögðum um, að  fátækranefndin hefði sýnt ámælisvert tómlæti og hjálpað með semingi, leiðréttist því, að svo miklu leyti, sem hér er upplýst um frekari aðgerðir nefndarinnar eða hr. Fanndals. 

Herra Sigurður Fanndal, kaupmaður og fátækranefndarmaður hefir beðið oss að birta eftirfarandi yfirlýsingu: 

„Undirritaður þakkar fátækranefnd Siglufjarðarkaupstaðar, fyrir hjálp þá og liðlegheit sem hún hefir látið okkur hjónum í té í vetur. Sérstaklega vil eg taka fram, að eg hefi ætið haft kurteislega, lipra og góða afgreiðslu hjá. sérhverjum nefndarmanni, mér hafa ætíð verið afgreiddar fyrstaflokks vörur vel úti látnar. — Eg- ávíta því harðlega blaðið „Einherja", sem út kom 11. febr. og ritstjóra þess fyrir hina óverðskulduðu og ósvífnu árás á fátækranefnd Siglufjarðarkaupstaðar og þau ummæli blaðsins, sem það hefir eftir mér um fátækranefndina, er tilhæfulaus tilbúningur og uppspuni einn, gjörður, að líkindum í þeim eina tilgangi, að spilla fyrir okkur við háttvirta fátækranefnd þessa bæjar. 

Siglufirði 20. febrúar 1932 Gestur Sölvason. Sign. 

Viljum vér í sannleika samfagna hr. Fanndal með hinn góða vitnisburð um afgreiðslu, vöru gæði o. fl. sem í vottorðinu getur. 

En sérstaklega teljum vér þó gleðilegt er hann hefir hér fengið slíkan ágætis málsvara sem Gestur er og má vel hér heimfæra orð skáldsins: 

„Fyrst svona er aumasti húskarlinn hans ó, hvílíkur mun hann þá sjálfur"! 

Ávítur og aðdróttanir hr. Gests Sölvasonar látum vér oss i léttu rúmi liggja og vísum, um sannleiksgildi þeirra, til vottorðs á öðrum stað í blaðinu. Lesendurnir dæma svo um málstaðinn, hans og vorn. En þessvegna birtum vér ofangreinda yfirlýsingu, að oss fannst ekki vert að firra þann eða þá ánægjunni, sem hann virðast hafa af þessu.

----------------------- 

Vottorð. 

Að gefnu tilefni, vottum við undirritaðar, að við heyrðum Gest Sölvason segja, í viðtali við Kristján Jakobsson, að hann hefði beðið Sigurð Fanndal að láta skoða íbúð þá er hann var í. Þetta var nokkru áður en Gestur fór til Eyjafjarðar og kona hans varð veik. 

Siglufirði, 24. febrúar 1932 

Olga Þórhallsdóttir. Sign.  

Ólína Hansen. Sign

--------------------------------------------------------------------------

Einherji 2. apríl 1932

Styðjið innanbæjar iðnað

Bý til Dívana, fjaðradýnur. stoppdýnur, rúllugardínur, bílasæti, stoppaða stóla og önnur stoppuð húsgögn. Tek til aðgerða alla vega stoppuð húsgögn. Pantanir afgreiddar gegn póstkröfu út um land. Vönduð íslenzk vinna. Sanngjarnt verð. Leitið eigi útúr bænum um það, sem hægt er að fá hér. 

Dívanavinnustofa Siglufjarðar. Lækjargata 5, Jóhann Stefánsson.

-------------------------------------------------------------------------- 

Einherji 19. maí 1932

Prófum er nú lokið í barnaskólanum og var skólanum sagt upp föstud. 13. þ. m. Hæstu einkunnir í einstökum bekkjum hlutu þessi börn: í 

1. b. Páll Á Guðmundsson 8,57 - 

2. b.A Jón Ferdinandsson 8,68 - 

2. b.B. Guðrún Guðmundsdóttir. 8,41 - 

3. b. Anna Friðbjarnardóttir 9 - 

4. b. Jóhann Möller 9,13

5. b. Sesselja Jóhannsdóttir 8,96 - 

Lestrardeild Þorleif Hólmkelsdóttir og Ólafur Jóakimsson 8,00. 

Hæstu einkunn í skólanum hlaut Jóhann Möller

Alls tóku próf í skólanum 163 börn og 65 gengu undir lestrarpróf. 

Handavinnusýning Barna skólans var sunnudaginn 1. maí. Var þar til sýnis handavinna barnanna, teikningar og skrift. Var margt af þessu prýðilega unnið og bar vott um mikið starf og góða framför barnanna. (leturbreyting: sk)

-------------------------------------------------------------------- 

Einherji 15. júní 1932

Hinrik Thorarensen hefir sett hér á stofn hressingarskála er hann nefnir „Bristol“ Þar má jafnan fá keypta ódýra málsverði, soðin egg, mjólk, smurt brauð, öl o. m. fl. Slíkir hressingarskálar tíðkast nú mjög víða um heim, og þykja hvarvetna til mestu þæginda, sérstaklega fyrir ferðamenn og verkafólk eigi sízt. Þarna er alltaf á boðstólum næringarmiklar og ódýrar skyndimáltíðir, sem að næringargildi svara fullkomlega til dýrari máltíða á hótelum. Vér viljum mæla hið bezta með þessu fyrirtæki og leiða athygli aðkomufólks og verkafólks að augIýsingu hressingarskálans í blaðinu í dag. 

Skíðakofa, eða sæluhús fyrir skíðamenn, er nú verið að byggja uppi undir Siglufjarðarskarði. Hafa skíðaíþróttavinir unnið kappsamlega að því að flytja efni á staðinn nú undanfarið Er öll slík vinna lögð fram endurgjaldslaust. Er þetta hið þarfasta fyrirtæki og íþróttamönnunum Skíðafélaginu til sóma. 

Mjólkurbúið á Hvanneyri. 

Hinn 5, þ. m. tók Mjólkurbú Hvanneyrar til starfa. Það hefir 21 kú mjólkandi og er öll mjólkin seld og hefir Mjólkurbúið ekki getað fullnægt eftirspurninni. Verður bráðlega bætt við 4 kúm. Mjólkin þykir afbragðsgóð, enda er meðferð hennar öll á þá lund, að kaupendum er ábyrgzt góð mjólk og hrein með 3,5 prc. fitumagni.

---------------------------------------

Bæjarfréttir:

Mann tók út af mótorbátnum „Þór" frá Ólafsfirði 10. þ. m. og drukknaði. Maðurinn hét Kristinn Jónsson. Hann var 45 ára að aldri, ógiftur og barnlaus. Afli er nú sæmilega góður. Eru bátar um 16—20 tíma í róðri og hafa fengíð allt uppí 12—15 þús. pund. 

Tíðin hefir verið umhleypingasöm síðustu daga og kaldara í veðri en áður. Síðastliðinn föstudag var norðaustan-snjóbleytuhríð og snjóaði mikið í fjöll og varð alhvítt niðir í sjó. 

Atvinnuleysi er almennt nú í bænum og illar horfur um slíkt framundan. Nú munu vera rúmlega 200 karlmenn skráðir hjá ráðningarstofu Verkamannafélagsins hér, og fáir eða engir af væntanlegum síldarsaltendum farnir að ráða til sín kvennfólk til síldarverkunar. Mun allt vera enn mjög á reiki um síldarsöltun í sumar. Saltendur geta illa ákvarðar sig, því mjög mun flest vera á hverfanda hveli um síldarmarkaðinn. 

Frá Höfninni

5. júní: E.s. Kirkholmen, norskt línuveiðiskip, kom með veikan mann. 

6. júní: E.s. Njörður, kom inn af lúðufiski, hafði fengið 7 tonn af lúðu og 60—70 tonn af þorski. Var á heimleið. 

8. júní: Frakknesk fiskiskúta, Saint Jehan frá Gravelines kom hér í höfn. Hún var með veikan mann, er lagður var hér á sjúkrahúsið. 

11. júní: „Silver Bell" færeysk fiskiskúta, kom með veika skipshöfn af inflúenzu. Skipið vár sett í sóttkví og hefir engin sambönd haft við land. 

Fór á mánudagsnótt.

Gullfoss og Ísland voru hér bæði á ferð í áætlunarhraðferð um og eftir helgina. 

Nova var hér í gær á suðurleið. Hún kom með mikið byggingarefni, timbur og steinlím til ýmsra hér í bænum. Með henni kom heim úr kynnisför Erlendur Þorsteinsson bæjarfógetafulltrúi og frú hans.

9. júní hafði Sigurjón járnsmiður Benediktsson dvalið hér í bænum 25 ár. Sigurjón þekkja allir Siglfirðingar, vinnuelju hans, dugnað og reglusemi. Er bæjarfélaginu mikill styrkur og sómi að hverjum þeim borgara, er rækir störf sín jafn samviskusamlega og Sigurjón. Penna sama dag átti afmæli Páll S. Dalmar, sonur hans. Einherji óskar báðum feðgunum til hamingja.

Jarðarför frú Unu Símonardóttur, er lézt 3. þ. m , fór fram á mánudaginn. Hún var kona Daníels Bjarnasonar frá Skarðdal.

Óðum er nú að lagast í bænum hvað þrifnaðinn snertir. Er nú víða verið að fylla upp lóðirnar og tyrfa bletti í kringum húsin. Verði svona haldið áfram framvegis, verður þess eigi langt að bíða, að Siglufjörður hafi að miklu leyti rekið af sér slíðruorðið um óþrifnaðinn. 

Veghefil hefir bærinn nú fengið með Novu. Hyggur veganefnd, að með honum takist að jafna og slétta göturnar. — Væri að því mikil bót ef vel reyndist. 

Heitu laugarnir á Skútudal

Eigendur jarðarinnar Efri-Skútu hafa samþykkt að gefa bæjarbúum laugalstæði og heitt vatn ef í það næst. Nokkrir ungir menn hafa grafið á laugasvæðinu 3 holur c. 1 m. á dýpt og náðist þegar í 65 gr. heitt vatn. Er mjög auðvelt að fá þarna haganlegt laugarstæði og er þangað stutt leiðsla. 50—100 metra frá laugunum.

Einherji vill hvetja bæjarbúa til þess að fylgjast vel með þessu máli og styrkja eigendurna til þess að vinna að rannsókn þessari frekar, en enn er orðið. Verður það bezt gert með því, að leggja til vinnu við að grafa þarna til vatns. Annars væri vel við eigandi að bærinn legði fram einhvern styrk til rækilegra rannsókna um þetta mál, því líklegt er, að þarna sé miklu meira af heitu vatni í jörðu en margan grunar og getur slík rannsókn haft afarmikla þýðingu fyrir bæjarfélagið í heild. Í kvöld ættu þeir, er áhuga hafa fyrir þessu og vilja vinna að því að grafa, að gefa sig fram. Lagt verður á stað frameftir á bíl frá Lyfjabúðinni kl. 7½. En menn verða að hafa með sér skóflur. 

17. júní kvað eiga að halda hátíðlegan með íþróttasýningu. Standa að henni Knattspyrnufjelag Siglufjarðar og íþróttafélag Verkamanna. Merki kvað eiga að selja til ágóða fyrir íþróttavöll. Hamli veður verður mótið sennilega næsta helgan dag.

-------------------------------------------------------------

Einherji 28. júní 1932

Úti á Strönd. 

Veðrið var gott og yndislegt, glaðasólskin og blíðalogn. Eg fór tímanlega á fætur, eins og eg var vanur, gekk suður á Aðalgötuna, upp eftir henni og spölkorn eftir Suðurgötu. Eg skimaði í kringum mig en sá ekkert nýstárlegt, eða markvert, aðeins örfáar hræður á götunum, deyfð yfir öllu og drungi, líkt og allur bærinn svæfi ennþá, þótt sólin kallaði á menn til fótaferðar. Eg gekk heim til mín heldur álútari en þegar eg fór á stað. Mér var það ljóst,. að bærinn hafði ekkert að bjóða mjer til hressingar þennan fagra sunnudagsmorgun og tók eg því það ráð, að yfirgefa hann um stundarsakir og labbaði af stað út á Strönd. 

Þegar eg kom útfyrir Bakka fór undir eins að lifna yfir mér. Eg fór út af götunni og leit ofar í jörðina við og við, þar sá eg ýmsa gamla kunningja mína frá æskudögunum: Holtasóley, Jakobsfífil, Lambagras, Steinbrjót, Maríuvönd, Týsfjólur og marga fleiri. Á mölinni gleymast þessir vinir og þeir sem á mölinni eru fæddir og lifa á henni alla sína æfi, læra margir hverjir aldrei að þekkja þá vini, og fara mikils á mis. Leið mín lá framhjá hinu mikla mannvirki, sem þarna er úti á Ströndinni; eg gaf því engan gaum, það hverfur á sínum tíma, eyðilagt af tímans tönn, eins og öll mannaverk, það deyr og þeir, sem það hafa unnið, en Holtasóleyarnar á börðunum í kring um það munu lifa.

Eg hélt áfram leið minni þangað til eg var kominn hátt , upp í hlíðina fyrir ofan tóptirnar fyrir sunnan Selgil. Þar valdi eg mér ofurlitla laut, þakta ljónslappa, og setti mig niður. Nú var bærinn mér horfinn, að mestu leyti, aðeins nokkrar bryggjur teygðu gómana framundan hæðinni fyrir sunnan mig. Eg leit í kringum mig og varð hrifinn af því sem eg sá. Á bak við mig, til norðvesturs, gnæfðu við loft klettadrangarnir í Strákafjallinu, hrikalegir en tilkomumiklir, í norðri og norðaustri var hið víða, spegilslétta haf og sást Grímsey yzt við sjóndeildarhringinn, þar sem hafið rann saman við himininn. 

Nesið teygði sig eins og útréttur armur frá Núpnum, armur, sem verndar Siglufjarðarhöfn og bæ, og sem tekur á móti hnefahöggum Ægis þegar hann er reiður. Í austri teygðu fjallatindarnir sig hátt upp í heiðríkjuna, skygndust yfir láð og lög, traustir og rólegir, með þúsundir ára að baki. Svipur þeirra er í dag hinn sami og hann var, þegar Þormóður rammi sigldi skipi sínu inn að eyrinni, er blasir við þeim. Hver veit nema jörðin hafi meðvitund, og ef svo væri, mundi fróðlegt að vita, hvort fjallatindarnir austan við Siglufjörð horfa nú með meiri velþóknun á menningarbæinn Siglufjörð en þeir á sínum tíma horfðu á eyri þá, ósnortna af mannahöndum, er Þormóður rammi lenti skipi sínu við. Fyrir framan mig lá fjörðurinn. Hann var þarna hreinn og tær. 

Óhreinindin frá handaverkum mannanna inni í bænum náðu ekki þarna úteftir. Vélbátar voru á hraðri ferð út á fiskimiðin; vonandi hafa sjómennirnir verið lundléttir og kátir í góða veðrinu, þó er ekki víst að svo hafi verið, það er ekki æfinlega, að náttúrufegurðin nái valdi yfir mönnunum og getur margt ollað því. Eg sat þarna lengi; gleymdi öllum þægindum lífsins nokkrar klukkustundir. Loks varð mér það á að líta á klukkuna, hún var hálf tólf, og um leið sagði maginn til sín, þessi ráðríki höfðingi, sem ekkert stoðar að standa uppi í hárinu á. Eg hélt heim á leið. Hún er ekki, eða virðist ekki vera, fjölskrúðug, Ströndin hérna ytra, en í þetta skipti hafði eg mikla ánægju af að heimsækja hana. Eg býst við að bjóða sjálfum mér heim til hennar oftar í sumar, en næst þegar eg hefi tíma ætla eg fram á fjörð, og þá segi eg ykkur ef til vill eitthvað af því ferðalagi. 

s. m.

-----------------------------

Holræsi er nú verið að leggja í efri hluta Þormóðsgötu og yfir mýrina milli hennar og Austurgötu. Vinna þar við svo margir bæjarmenn er þar komast að. Er skift um menn vikulega til þess að sem flestir fái notið vinnunnar. Ennfremur mun unnið að undirstöðu Grjótmulningsvélarinnar og vegagerð í sambandi við hana.

-------------------------------------------------------------

Einherji 6. júlí 1932

Sjómannastofu, hefir Jóhannes Sigurðsson, sem hér stýrði sjómannastofu í fyrra, nýlega opnað í húsi Steingríms Sigurðssonar málara, Íslandsfjelagshúsinu svo kallaða, í suðurenda hússins niðri. Sjómannastofa þessi er mjög þörf, og er sjómönnum það einkar þægilegt að geta setið þar í næði og skrifað bréf sín, eða lesið blöðin, en þau munu flest eða öll vera þangað send. Enda koma þeir margir, t. d. voru send frá sjómannastofunni hér um 2000 sendibréf. Samkomur heldur Jóhannes í kirkjunni á hverju sunnudagskvöldi kl. 8½

--------------------------------------------------------------

Einherji 19. júlí 1932

Í gær, 18. júlí voru liðin 25 ár frá því Sören Goos hóf starfsemi sína hér í Siglufirði. Því miður eru ekki þær ástæður fyrir hendi, er með þyrfti, til að rekja hér starfssögu þessa atorkumanns. Þó skal þess getið, að hann hefir notið vinsælda hér, jafnt verkafólki sem annara, kaupgreiðslur hafa jafnan verið í bezta lagi af hans hálfu og enginn einn maður hefir greitt jafnmikið fé til þessa bæjar og hann, bæði í verkalaunum og opinberum gjöldum. Hefði verið gaman að geta sýnt þær upphæðir hér, en þess er ekki kostur. Sören Goos dvelur hér í bænum nú og vill Einherji flytja honum heillaóskir í tilefni af þessari aldarfjórðungs starfsemi hans.

Fjölda steinhúsa er nú verið að húða utan. Eru það mest aðkomumenn er þau verk vinna. Líklega stafar það af því, að Siglfirðingar eru ekki svo hagir að þeim sje trúandi fyrir því starfi. Aðrar ástæður er lítt hugsanlegar.

------------------------------------------------------------------ 

Einherji 27. júlí 1932

Sundlaug og dagheimili fyrir börn í Skútudal

Fyrir skömmu komu nokkrir áhugasamir ungir menn til mín og beiddu mig um að koma með sér inn í Skútudal og líta þar á sundlaugarstæði í sambandi við heita uppsprettu sem þar er. Eg hafði aldrei fyr komið þarna inneftir, en heyrði þessarar uppsprettu getið, fyrst eftir að eg kom hingað sumarið 1929, voru það mennirnir við grjótmulningsvélina sem töluðu um skilyrði fyrir sundlaug á þessum stað. Nú, eftir að hafa séð staðinn, blandast mér ekki hugur um, að þar eru möguleikar fyrir Siglufjarðarbúa, til þess að útbúa sér ýmsar nytsemdir og þægindi. Skal hér að eins bent á, auk sundlaugarinnar sem íþróttamennirnir ætla að koma þar upp, dagheimili fyrir börn og unglinga. Það þarf ekki að lýsa því ítarlega hvert ágæti það væri fyrir börnin og unglingana að geta leikið sér þarna, bæði á grasinu og í volgu vatninu og þannig notið þess, sem mest er sókzt eftir handa börnum allra landa, sólar og vatns og frjálsræðis til leika í andrúmslofti lausu við uppgufun og óhollustu bæjanna. 

Þessar línur eiga aðeins að vera til þess að vekja athygli bæjarbúa á þessum möguleika þarna, svo hafist verði handa til þess að rannsaka málið, og gerðar séu ítarlegar áætlanir um það, sem gera þarf í þessu skyni, svo framkvæmt verði ef gerlegt þykir. Vegalengdin þarna inneftir er ekki löng og vegstæði fyrir bílfæran sumarveg fremur gott. Vetrarveg þarf ekki til þess, að Iaug og skýli komi að fullum notum. Hér kunna svo margir unglingar og fullorðnir á skíðum, að trú mín er sú, að fjölmennt yrði þarna og á vetrum. Færi þá vel á, ef börnin nytu staðarins á sumrum en fullorðnir sumur og vetur. Bezt tel eg ef hægt væri að koma þessu í framkvæmd með frjálsum samtökum. 

Þorkell Þ. Clementz.

----------------------------

Nýtt veitingahús, „Dettifoss" er Pétur Jónsson frá Brúnastöðum að setja á stofn í Aðalgötu 31. Húsakynni eru þar góð, ný máluð og veggfóðruð og að öllu leyti hin viðkynnilegustu.   

(ath; sk: á þessum tíma voru fyrstu númer húsanna talin frá vestri til austurs. Líklega er þetta hús í dag númer 2 við Aðalgötu (?))

Bilferðir um Siglufjarðarskarð

Þeim málum er nú komið svo langt, að um síðustu helgi komst bíll alla leið uppundir Skarðbrekku. Um næstu helgi mun verða unnið að því af sjálfboðaliðum að laga svo veginn vestur yfir Skarðið, að þar verði fært með bíl. Telja þeir, er vit hafá á þessura málum, mjög litla fyrirhöfn kosta að gera veginn færan alla leið til byggða í Fljótum. Gæti þetta máske orðið til þess að koma mönnum í skilning um það, og þá ekki sízt stjórnarvöldum landsins og Alþingi, að ekki þyrfti vegagerð þessi að kosta hálfa miljón ef framtaksemin og trúin á gott málefni væri næg. Þeir er að þessu standa eiga mikla þökk skilið, því nú er heldur að birta yfir með það, að skammt verði að bíða þess, að Siglufjörður komist í samband við sveitirnar vestan Skarðsins. Þetta vegamál er eitt af allra stærstu framfaramálum Siglufjarðar og nærsveitanna að vestan. 

Ættu allir aðilar að leggja lið sitt fram til þess að fær verði gerður vegurinn um Skarðið til Fljóta.

--------------------------------------------------------------- 

Einherji 3. ágúst 1932

Ný ljósmyndastofa er opnuð í Aðalgötu 26 uppi á loftinu yfir Sparisjóðnum. Þar eru teknar nýtízku ljósmyndir, copieraðar myndir og framkallaðar. Vönduð vinna! Fljót og greið afgreiðsla! Lítið í sýningarkassann! 

V i g n i r .

-------------------------------------------------------------

Einherji 10. ágúst 1932

Skemtiferðaskip hafa komið óvanalega mörg til landsins í sumar. Ekkert þeirra hefir þó komið til Siglufjarðar, sem ekki er heldur að vænta, er hér líka lítið markvert að sjá en nóg af óþrifum, svo sem margra ára gamla síldarhauga við eina af aðalgötum bæjarins, uppfyllinguna dæmalausu við sömu götu, illa umgengna og óþrifalega síldarpalla, úldnar fýlutjarnir, mykjuhauga og margt af líku tæi. 

Á fjárhagsáætlun standa 500 kr. til skógræktunar, eða eitthvað þessháttar, fram í firði. Skyldi þeim krónum ekki vera eins vel varið til að bæta eitthvað úr óþrifum þeim, sem beinlínis heyrir undir bæjarstjórn að ráða bót á? 

Sú breyting er orðin hér við barnaskólann, að nú eru börn hér skyld til skólagöngu frá 7 ára aldri. Léttir þessi breyting áhyggjum og kostnaði af heimilum þeim er hafa þurft að kaupa kennslu fyrir börn á aldrinum frá 7—10 ára.

Um skólastjórastöðuna hér munu margir hafa sókt og misjafnlega hæfir, eins og gengur. Veltur það á miklu fyrir framtíð barnaskólans hér, að skólanefnd velji viturlega í þá stöðu.

-----------------------------------------------------------


Einherji 17. ágúst 1932

Lík Guðm. sál. Skarphéðinssonar fannst hér í höfninni sunnudagsmorguninn síðasta. Líkið var allmög skaddað, þar sem eigi hlífðu föt, en eigi var neinn í vafa um, sá er til þekkti, að þarna væri um jarðneskar leyfar Guðm. sál. að ræða, þekktust bæði föt hans og annað það er í vösum var, svo sem lyklar, er gengu að peningaskáp hans og öðrum hirzlum. úr, sjálfblekingar, peningabudda o. fl.

-------------------------  ----------------------------- 

Einherji 24. ágúst 1932

Ý m i s l e g t. 

Oss minnir, að samþykkt væri í bæjarstjórninni hérna í vetur seint eða vor, að banna öllum skipum að „pípa" frá kl. 11 að kvöldi til 7 að morgni. Eigi höfum vér orðið þess varir að þessu hafi á nokkurn hátt verið reynt að framfylgja. Að minnsta kosti hafa skip blásið eftir sem áður. Og verksmiðjurnar ekki síður. Enda náði samþykkt þessi víst ekki til þeirra þótt undarlegt megi virðast. Því ástæðulaust er að þola þeim þann hávaða er þessum heimskulega blæstri fylgir. Bæjarstjórnin sá það réttilega, að allur þessi eimblástur og djöflagangur er í raun og veru algjörlega óþarfur. En á hinn bóginn eru þeir, er að samþykkt þessari standa, gerðir að athlægi, et henni er ekki framfylgt. Sama máli er að gegna um bann hafnarvarðar við því að skip þeysi á fullri ferð fram hjá bryggjunum á inn- og útsiglingu. Þessu banni er ekki sinnt. Og ekkert við því sagt þótt það sé þverbortið. Gæti þó svo farið, að af slíku framferði skipa hlytist alvarlegt slys og tjón. 

Hvenær á að fara að malbika Hafnarbryggjuna?  Það verður að minnsta kosti á næstunni eitthvað að gera til þess að bryggjan verði eigi alveg óhæf til notkunar fyrir for. Það þarf ekki að lýsa því nánar hvernig bryggjan lítur út þegar rigning er og blautt um. Þetta er að verða bæjarskömm og þarf að að lagast sem fyrst. 

Hvar get eg fengið vatn að drekka? 

Þessi spurning heyrist oft á dag á Hafnarbryggjunni hérna. Þar vinna svo að segja daglega tugir manna erfiðisvinnu. En þótt fjórir vatnstökustaðir séu á bryggjunni fyrir skip, þá er hvergi til að flýja fyrir þyrsta og þreytta erfiðismenn né aðra, er vatns þurfa, Það virðist vera lítill kostnaðarauki þótt að lagður væri í þuml. rörstúfur upp úr annari hvorri bryggjuleiðslunni með hentugum krana á. Væri þar með lítilli fyrirhöfn bætt úr mikilvægum óþægindum.


Knattspyrnu þreytti Knattspyrnufélag Siglufjarðar við menn af norska eftirlitsskipinu Fridthjof Nansen síðast liðinn sunnudag. Fór sá leikur þannig, að Siglfirðingar unnu með með 11 á móti 2.

-----------------------------------------------------------


Einherji 8. september 1932

Siglufjörður Eítir Nils Bohlin . 

Grein þessi er eftir sænska blaðamanninn Nils Bohlin, sem er einn af starfsmönnum Göteborgs-Tidningen. Hann kom hingað að gamni sínu til að kynnast Siglufirði og sjá með eigin augum þenna höfuðstað síldarinnar, sem hann hafði svo oft heyrt frá sagt og margt misjafnt. 

Bohlin er afbragðs teiknari og teiknaði hann margt af því, er hér bar fyrir augu. Ætlar hann að skrifa í blað sitt, er heim kemur, greinar um Siglufjörð og birta þá líka teikningar sínar. Hefir hann lofað Einherja að senda honum þessi blöð og má vera, að Einherji birti eitthvað meira eftir hann. Þessa grein ritaði hann fyrir Einherja áður en hann fór. Kveður hér við dálítið annan tón en þegar íslenzku blaðamennirnir sumir, og ferðamenn, hafa verið að ausa Siglufjörð og íbúa hans svívirðingum. Virðist það og enn vera ýmsra manna áhugamál að hafa Siglufjörð að fótaskinni — ausa þar upp fé. og hrækja svo á staðinn á eftir. Bohlin kom hingað með Iitlu, sænsku flutningaskipi, „Ilse," og fór með því aftur heimleiðis.

Það var nótt þegar eg sá Siglufjörð í fyrsta sinn. Eg stóð á stjórnpalli „Ilse". Ljósin í bænum tindruðu í kolsvörtu myrkrinu og spegluðust í lognsléttum firðinum. Þessi sjón var hvorttveggja í senn fögur og óvænt. Eg hafði fyr þenna dag séð dálítið sýnishorn af landinu, er við komum úr hafi undir Langanes og vestur með ströndinni, og það sem eg sá þá, gaf fyrirheit um margt fagurt og stórhrikalegt. En það datt mér aldrei í hug, að sjá langar rafljósaniðir tindra í faðmi þessara bröttu, hrikalegu fjalla, þar eð svo má segja, að sjálft íshafið freyði við rætur þeirra. Það var sannarlega óvænt. Er„Ilse" var lögst við akkeri út á höfninni heyrðust glöggt stunur og skrölt í vélum frá landi, og háir verksmiðjureykháfarnir þyrluðu kafþykkum reykjarmekki og eldglæringum út í nóttina. 

Við þetta blandaðist baulið í flutningabílunum, og köll og hróp í fólki, sem var önnum kafið þótt nótt væri. Mér lá við að spyrja skipstjórann, hvort áttavitaskekkja eða prentvillur í logaritmatöflunum hans hefðu eigi orðið þess valdandi, að „Ilse" litla væri komin í allt aðra höfn en ákveðið var. Hvernig gat þetta verið Siglufjörður — svolítil síldarsöltunarstöð norður undir heimskautsbaug? Hérna uppi á ströndinni framundan okkur var allt á þá lund, að það minnti á -stórborg. En það hlýðir ekki fyrir landkrabbann að spyrja sjómanninn. Eg beið aftureldingar með mikilli eftirvæntingu. Og eigi varð eg síður undrandi, en um nóttina, á því er fyrir augun bar, er sólin var að koma upp út við Siglunesið. Hvað var þetta? Húsaþyrpingin uppi á ströndinni, skipin á höfninni — þar á meðal hún „Ilse" okkar — allt var svo aumkvunarlega lítið og smátt.

 Tunnuháfermið á „Ilse," sem virtist vera svo mikilfenglegt í Haugasundi varð nú hér að óverulegri smákútahrúgu. Og svo var mér sjálfum gengið, að mér fannst eg vera eins og Tumi þumall á meðal jötna. Hvað var þetta, sem svo skyndilega umhverfði öllum stærðarhlutföllum í augum mínum? Eg gat ekki almennilega áttað mig á þessu fyrst í stað. En þegar eg hafði náð í teiknibókina mína og fór að teikna sýnina á blaðið, þá skildist mér fljótt, að það var hinn Voldugi, stórkostlegi fjallahringur, er lukti um okkur, er þrýsti öllu saman og minnkaði allt. Eg hafði enga hugmynd haft um það, hve stór bær Siglufjörður var. 

Og í hreinskilni sagt, þá veit eg það ekki enn, enda þótt eg hafi dögum saman reikað um bryggjurnar, verksmiðjuportin og göturnar. En grunur er mér á, að Siglufjörður verði eigi metinn og mældur á sama mælikvarða og aðrir vanalegir bæir. Íbúatalan, húsafjöldinn, lengd gatnanna o. s. frv. gefa enga hugmynd um bæjarins raunverulega mikilleika. Það liggur einhvernveginn í loftinu, að þessi staður er afar þýðingarmikill. Hvíldarlaus, eirðarlaus er starfsemin. Hér er miðstöð starfseminnar yfir síldveiðitímann. Og sú miðstöð lætur finna til áhrifa sinna um land allt og víða um heim, og eigi sízt í mínu eigin föðurlandi, Svíþjóð. Og þegar maður hefir nú átt þess kost, að sjá hina stórkostlegu starfsemi með eigin augum og finna hana brima og svella kringum sig, skilzt manni, að Siglufjörður hafi ekki ennþá haft tíma til þess að þvo sér og hafa fataskifti. 

En vinnuföt er sá eini klæðnaður, er engum fer illa. Og nógur verður sjálfsagt tíminn til þess í framtíðinni að hugsa fyrir „fínum" götum og „flottari" húsum. Vinnugleðin, sem allstaðar mætir manni, gefur um það fögur fyrirheit. En það liggur ekkert á þessu. Eins og Siglufjörður er nú, þá hefir hann óendanlega margt og mikið fagurt og fróðlegt að sýna ókunnum ferðamanni. Eg hefi því miður ekki haft tíma til að dvelja hér nógu lengi, og fjöldi nýrra áhrifa eiga eftir að setjast að í hugskoti mínu. En um alla hluti fram lýsir í minningunni af gestrisni og vingjarnlegu viðmóti Íslendingsins. Það er löng ferð frá Svíþjóð til Íslands, en er þangað kom, fann eg greinilega, að eg var kominn til kærra vina og ættingja, sem væri synd að heilsa ekki uppá oftar. Og eigi Siglfirðingar eftir að koma til Gautaborgar, sem líka er starfseminnar bær á ströndum hafsins, vona eg, að þeir mæti samskonar viðmóti og gestrisni og eg hjá þeim. Verið velkomnir þangað, Siglfirðingar! og kæra þökk fyrir kynninguna!

-------------------------------------------------------------------------

Einherji 14. september 1932

Tilkynning frá Siglufjarðar-Bíó

Þar sem ómögulegt hefir reynst, þrátt fyrir marg ítrekaðar tilraunir, að fá börnin til að tala ekki saman og vera ekki með hávaða meðan á sýningu stendur, neyðumst vér til að hætta sölu barnaaðgöngumiða að öllum kvöldsýningum. Á sunnudögum og fimtudögum kl. 6 verða sýningar fyrir börn, og verða aðgöngumiðar barna aðeins seldir að þeim sýningum.

-------------------------------

Einherji 21. september 1932

Aðkomumenn, innlendir, Svíar, Danir, Norðmenn og Þjóðverjar, hafa, eins og farfuglarnir, flogið á brott nú undanfarið. Við brottför þessa fólks verður harmur sár og bitur í brjóstum þeirra er ástfóstri hafa tekið saman yfir sumarið, en verða nú að skilja. Minnir sá skilnaður á fjárréttir á haustin, að því undanskildu, að ekki ber eins mikið á jarminum. Við Íslendingar erum vanir að bera harm okkar í hljóði. Við höfum tvö orðtæki er sýna allvel skapferli okkar: „Grátum ekki, munum heldur", og „Altaf má fá annað skip og annað föruneyti". 

Milli 10 og 20 báta, smærri og stærri, alla ónýta, má sjá við pláss það, hér sunnan á eyrinni, er eitt sinn var kent við „Ramma". Eru sumir þessara báta í sjónum, aðrir hálfir á landi og hálfir í sjó og sumt af þeim sett upp svo nærri Gránugötu, að umferð er hindrun að, Enginn hirðir um þessa bátaræfla og enginn tekur sig fram um að fjarlægja þessa grútlöðrandi svívirðingu frá augum bæjarbúa og aðkomumanna. Líklega er engin „nefnd" til í bænum, sem þetta viðkemur.

Mögnuð taugaveiki, geysar nú í Ólafsfirði. Óskandi er að sá vágestur komi ekki hingað. Má vænta að til þess verði þær ráðstafanir gerðar er með þarf. 

Óþarfa leikur er það, sem börn og unglingar, hér hafa valið sér, nú undanfarið, að skjóta með teygjusnúrum hvert á annað. Er skammt á að minnast, að barn á Akureyri fékk eitt slíkt skot í augað og misti sjónina. 

Gæftir hafa verið hinar bestu, nú um skeið, og afli dágóður. 

Unglingaskólinn starfar í vetur í tveimur deildum, er efri deildin skipuð þeim er í skólanum í fyrra. Nokkrar umsóknir hafa komið til yngri deildar en þó færri en búast mætti við í svo mannmörgum bæ. Kennslan við skólann reyndist mjög góð í fyrravetur og er nám það, sem á unglingaskólanum er hægt að fá, ágætt til undirbúnings undir æðri skóla. Barnaskólamenntun ein, þótt góð sé, er lítið veganesti fyrir allt lífið. Margir munu þeir, er á fullorðinsárum harma það sárt, að þeir lítillar eða engrar menntunar nutu í æsku. Nú eru breyttar ástæður við það sem áður var. Nú er til nóg af skólum og þeim bæði góðum og ódýrum, að stunda nám við. Unglingar, sem ekkert eða litið hafa að gera hér heima á veturna, ættu að notfæra sér unglingaskólann hér. Ekki er kostnaðurinn til fyrirstöðu, aðeins nokkrar krónur til bókakaupa. 

Einherji hefir ekki viljað meina háttv. höf. pláss fyrir grein þá, er hér birtist fremst í blaðinu, þótt blaðið hinsvegar sem slíkt telji sér deilu þessa óviðkomandi.

(ath; sk: Langloka sem ég birti ekki hér)

------------------------------------------------------------------------------- 

Einherji 5. október 1932

Siglufjörður 

Siglufjarðarkaupstaður er nú á fjórtánda ári, aldurinn er ekki hár, og væri um lifandi persónu að ræða, mundi svo sagt, að gelgjuskeiðið væri að byrja, þetta skeið mannsæfinnar, sem er milli bil milli bernsku og fullorðinsáranna. Það mun ekki fjarri sanni að bærinn sé nú á þessu gelgjuskeiði. Framanaf, meðan hann var barn að aldri, gekk margt vel, þá átti hann sæmilega góða forsjármenn, er skildu þarfir barnsins, og þótt þeir gætu ekki veitt því allt, et það óskaði eftir, og því reyndar var nauðsynlegt, þá voru þeir þó undra glöggir á hvað sitja skildi í fyrirrúmi. Nú er nokkuð brugðið frá því sem áður var og á það rót sína að rekja til þeirrar flokkaskiftingar, og þá um leið sundrungar, sem nú ríkir hér í bænum. Má svo segja, að nú sé hver höndin upp á móti annari meðal þeirra manna er ráða eiga málum bæjarins. 

Þegar svo er verður tæplega búist við að vel fari og má sjá þess glögg merki í ýmsu því, er framkvæmt hefir verið, eða látið ógjört, að um úrslit málanna hefir meira ráðið kapp en forsjá. Á þessum liðugum þrettán árum, sem við höfum ráðið okkur sjálfir, hefir mikið verið gert hér til framfara, og skal síst úr því dregið, en rnargt er það þó sem ógert er og brýn nauðsyn kallar eftir að hrundið sé í framkvæmd. Hefir áður verið minnst á nokkur atriði hér í blaðinu og skal það ekki endurtekið að þessu sinni. Þó skal minnst á það að þrifnaðarmál öll eru hér í megnasta ólagi og er það á allra vitorði, að Siglufjörður er alræmdur, ekki einungis um allt land, heldur og í nærliggjandi löndum fyrir sóðaskap. Ekki vantar þó að til séu reglugerðir hér að lútandi, en lítt er hirt um að þeim sé framfylgt. 

Þegar talað er um hve margt er ógjört af því, sem nauðsyn er fyrir bæinn að fá framkvæmt, hefir jafnan verið, og er enn, viðkvæðið: Það er ekki hægt að gera allt í einu. Þetta er hverju orði sannara, en það er fávíslegt að fálma eitthvað út í loftið og grípa af handa bófi eitt eða annað og hrinda því í framkvæmd án þess að athuga nákvæmlega, hvort það, sem tekið er fyrir, er það, sem nauðsynlegast er í það sinn, og án þess að gæta þess hvort það stendur í sambandi við áður gerðar framkvæmdir svo að samhengi sé í. Það sem þarf að gera er að skipuleggja framkvæmdir bæjarins um ákveðið áraskeið, halda áfram ábyrjuðum framkvæmdum og taka fyrir nýar eftir þeirri röð sem nákvæm athugun leiðir í ljós að hentugt sé. Ekki er það nema eðlilegt, að misjafnt verði álit manna um það, hvað sitja skuli í fyrirúmi þegar ráðist er í nýar framkvæmdir. En þess er að vænta og þess er að krefjast af forráðamönnum bæjarins, að þeir ræki störf sín af samviskusemi og láti meira ráða um afskifti sín af bæjarmálum, sannfæringu, rólega athugun og góðan vilja, en stórpólitík, öfund eða nágrannakrit.  (væntanlega skrif ritstjórans)

---------------------------

Eins og eg hefi áður auglýst bið eg þá sem vilja fá mig til að hringja við jarðarfarir að láta mig vita minnst daginn áður. 

Gjaldið er 2 kr. Þeir, sem skulda mér fyrir hringingar, eru vinsamlegast beðnir að borga mér nú þegar. 

Ásgrímur Þorsteinsson Kambi.

--------------------------

Gamla kirkjan hefir nú verið seld Sveini Þorsteinssyni, skipstjóra, fyrir kr. 1600,00. Hefir hann leyfi til að láta hana standa þar sem hún er þar til haustið 1934. 

Leikvelli barnaskólans hefði þó ekki veitt af að fá nú þegar til viðbótar það pláss er kirkjan stendur á.

----------------------------------------------------------------- 

Einherji 12. október 1932

Sprengingar miklar fara nú fram daglega hér úti í fjallinu. Leika jafnvel rambyggðustu steinhús á reiðiskjálfi og rúður gnöllra í gluggum. Mætti álíta að þar væru jötnar og hrímþursar að verki, en svo mun þó ekki. Mennskir munu þeir vera er vinna þarna.

---------------------------------------------------------------- 

Einherji 19. október 1932

Hjúkrunarnámskeið á að halda hér nú bráðlega. Er það fröken Sigríður Backmann, yfirhjúkrunarkona Rauðakross íslands er þar verður kennari. Þeir, er fyrir námskeiðinu standa, sjá um húsnæði til kennslunnar, og annað er þar að lýtur. Hver nemandi greiði 5 kr. fyrir kennsluna. Námskeiðið stendur yfir í viku. 

Heyrst hefir að unglingaskólanemendur fái ókeypis aðgang að námskeiðinu. Þeir, er að þessu standa, vinna með þessu þarft verk. Hér er sannarlega þörf á öllu því, er fellur í menningaráttina og þá ekki sízt á sviði heilbrigðis- og hreinlætismálanna. 

Afli hefir verið afbragðs góður hjá mörgum bátum undanfarna daga. Sjóveður hafa verið hin beztu, en all langt mun þurfa að sækja til þess að ná góðum afla.

--------------------------------------------------------------------------

Einherji 26. október 1932

Þóroddur Guðmundsson kom heim með „Íslandinu" síðast. Hana hefir dvalið í Rússlandi við nám í rúm tvö ár. Hefir hann víða farið og kann frá mörgu að segja úr hinu volduga Sovjetveldi. Hefir hann lofað Einherja pistlum um ýmislegt úr þjóðlífi Rússa og frá ferðum sínum um landið. Þóroddur hyggst að halda fyrirleslur um Rússland á sunnudaginn. 

Unglingaskólinn var settur fyrsta vetrardag. Hann starfar í tveim deildum í vetur. Þessi skóli ætti í raun og veru að vera orðinn tveggja vetra gagnfræðaskóli eins og lög standa til. En í stað þess er skólinn, enn sem komið er, hvorki fugl né fiskur þrátt fyrir það, þótt hann sé svo heppinn að hafa nú fengið ágælan skólastjóra.............

------------------------------------------------------------------

Einherji 2. nóvember 1932

„Morgunn lífsins", skáldsaga eftir Kristmann Guðmundsson. 

Kristmann er nú orðinn frægur maður víða í útlöndum fyrir skáldsögur sínar.-er hann allar hefir ritað á norsku og er þetta fyrsta bók hans, er út. kemur á íslenskri þíðingu. Bókina hefir Guðmundur G. Hagalín þýtt. Í þessari bók segir Kristmann hispurslaust frá lífinu eins og það er lifað af því fólki sem hann lýsir. Það er kröftugt fólk og frumlegt og ástríðuríkt. Bókin er 327 blaðsíður að stærð í stóru broti og kostar 8 krónur. :

------------------------------------------------------------------

Einherji 9. nóvember 1932

Bæjarstjórnin og rotturnar. 

Rotturnar veita mörgum þungar búsifjar. Þær eyðileggja allskonar matvörur er þær ná í, naga sundur trjáverk í húsum og jafnvel steinsteypu. Þær flytja sýkla og eru skaðlegar heilsu manna. Þær eru yfirleitt hinn mesti ófögnuður. Allstaðar í bæjum og þorpum, sem nokkur mannsbragur er á, er hafin herferð gegn þessum skaðsemis dýrum. Þykir þeim peningum vel varið er til þess ganga. Mun heldur ekki þurfa mikla hagfræðinga til þess að reikna út, að eyðilegging sú, er rotturnar valda árlega, nemur tugum þúsunda króna í bæ eins og Siglufirði. Ekki lítur samt svo út, að bæjarstjórn Siglufjarðar álíti að skaðinn sé svona mikill, því ekki telur hún nauðsyn til að fækka rottum. Mega þær hennar vegna gera allan þann usla, er þær geta á stað komið, henni dettur ekki í hug að verja einni krónu til útrýmingar þeirra. 

Fyrir nokkrum árum voru útgjöld til rottueitrunar talinn sjálfsagður liður í fjárhagsáætlun  bæjarins, og var sá útgjaldapóstur vel liðinn af gjaldendum og betur en margt það sem nú hefir verið sett í hásæti sem útgjöld. En nú um nokkurra ára bil hefir. þeim, er með fjármál bæjarins fara, ekki fundist ástæða til að amast við rottum. Eitt af skáldum vorum hefir sagt að leyniþráður tengdi saman menn og dýr og mun það rétt vera, en því munu fáir trúa, að svo náið samband sé milli bæjarstjórnarinnar og rottanna, að þessvegna sé ekki við þeim hreyfi. Annars eru menn yfirleitt allt of afskiftalausir af gjörðum bæjarstjórnar. 

Fulltrúarnir eru kosnir í vitleysu og blindni eftir pólitískum litarhætti og minna um hirt, að valdir séu til svo ábyrgðamikilla starfa beztu og nýtustu menn. Þegar svo málum bæjarins, er miklu varða, er stefnt í óefni, þá urra menn aðeins hver í sínu horni um stundarsakir, en þegar næst kemur til kosninga er allt gleymt og pólitískar grútartýrur hafðar til vegs og valda. Þess skal þó getið að í núverandi bæjarstjórn finnast nýtir menn. En svo vér snúum oss aftur að rottunum, þá skal hér með skorað á bæjarstjórn að veita ríflegs fjárupphæð til rottueitrunar. Gjaldendur bæjarins og borgarar allir eiga heimtingu á þessu og munu bregðast illa við, ef ekki er aðgert.

------------------------------------------------------------------

Einherji 24. nóvember 1932

Siglufjörður; titla vartan á Norðurlandi, er farinn að taka sér til fyrirmyndar stóra æxlið á Suðurlandi, Reykjavík; hefir nú á síðustu tímum brytt hér á þjófnaði, húsbrotum og slagsmálum. Frekar er þó hljótt um þessi mál, hér eru menn ekki vanir að baka sér aukaerfiði, hvorki í hugsun né framkvæmdum, þótt eitthvað smávægilegt komi fyrir.

-------------------------------------------------------------------

Einherji 1. desember 1932

Vitinn á Sauðanesi

Eins og kunnugt er, meðal annars af allítarlegri grein í síðasta tbl, Siglfirðings, var reistur blikviti á ofanverðu Siglunesi 1908. Þessi viti var þó, og hefir verið síðan eini landtökuviti allra skipa, er hafnar leita til Siglufjarðar. Strax þá, bentu vitrustu og beztu sjómenn fjarðarins, og fleiri, á það, hve óheppilega vitinn væri settur til þessarar notkunar. En hvorttveggja er, að í mörg horn hefir verið að líta fyrir vitamálastjórnina, enda hefir hún að þessa daufheyrzt við kröfum sjómanna í þessu efni. Hafa þó eigi, eins og von er til, skort háværar raddir, er krafizt hafa nýs vita vestan Siglufjarðar. Tómlæti vitamálastjórnar, og reyndar landsstjórnar líka, er þeim mun óskiljanlegra, sem hér lá í raun og veru að baki krafa allrar íslenzku sjómannastéttarinnar (sbr. síldveiðarnar.) 

Það þarf meira en meðalþrjózku og skilningsleysi til þess, að sjá ekki, eða þykjast ekki sjá, svo brýna nauðsyn og hér hefir kallað að um þetta mál síðastliðinn aldarfjórðung og lengur þó. Kemur þarna enn til greina bölvun flokkapólitíkurinnar, sem spillir framgangi allra góðra mála. Siglufjörður er nú orðinn, og hefir reyndar lengi verið, ríkissjóði sú tekjuuppspretta, að ætla mætti, að fjárveitingavaldið og vitamálastjóri hefðu af sjálfsdáðum séð nauðsyn á að auka öryggi þessarar langstærstu veiðistöðvar landsins. En það er alveg eins og á þessar kröfur hafi að þessu verið litið eins og bitlingafrekju og hreppapólitískan oflátungshátt af hálfu Siglfirðinga. Er eigi ólíklegt, meðal annars, að hér valdi eigi litlu um, að Siglfirðingar hafa aldrei átt neinn aðsópsmikinn talsmann á Alþingi. Hefir þar miklu fremur kennt óvildar í garð Siglufjarðar og jafnvel hafa verið viðhöfð svívirðileg orð um bæinn og íbúa hans í sölum Alþingis og kröfum bæjarins lítt sinnt. 

Er slíkt lítill sómi viðkomandi þingmönnum, og-stór hneysa fyrir Alþingi íi heild. Þó ekkert væri annað, er þó skrokkurinn af Vardö á Siglunestánni talandi tákn þess, að ekki hefir þar Siglunesvitinn verið einhlítur. Og enn er skammt á að minnast, er E.s. Ísland á síðastl. sumri, renndi á grunn við Siglanes í þoku. En af því blíða var og ládeyða varð ekki slys og tjón að. Hefði þá verið þokulúður eða hljóðmerkjastöð á Sauðanesi, mundi þetta eigi hafa komið fyrir. Og enn ætti landsmönnum að vera í fersku minni 19. nóvember síðastliðinn, þá er nærri lá, að mörg stórslys yrðu einmitt sakir þess, að vitalaust var vestan fjarðar. Það væri gaman að vita, hve margir sjómenn í þeim mikla hópi, er þá var í Heljargreipum. hefðu sett traust sitt á, og vil að eiga líf sitt undir leiðbeiningum Siglunesvitans! 

Á fjárhagsáætlun Hafnarsjóðs eru nú veittar 20 þúsundir króna til byggingar vitans á Sauðanesi. Nú er eftir að vita hvort vitamálastjóri og landsstjórn eru farin að vitkast svo i þessu máli, að fé verði veitt úr ríkissjóði svo ríflega og eigi tekið aftur og loforðið svikið eins og síðast, að vitinn komist upp í sumar. Og ef svo ólíklega fer að þingið felli fjárveitingu til vita og hljóðmerkjastöðvar á Sauðanesi, eða svik eiga sér stað eftirá, munu þeir herrar enn á ný verða minntir á 19. nóvember 1932. Hver veit nema þeir rumski þá og vakni til með vitundar um nauðsyn vitans á Sauðanesi.