Árið 1939 - Rauðka-05

"Endurbygging “Rauðku”                     Mjöl og Lýsissaga - Allt efni hér

Mjölnir, 14. júní 1939.

“Rauðka gamla” eins og Siglfirðingar segja, er elsta Síldarverksmiðja á öllu landinu, enda er hún svo útslitin, að hún verður ekki rekin fleiri sumar nema með stórkostlegri aðgerð eða réttara sagt, endurbyggð. 

Við þessa verksmiðju vinna 36 menn fastir og þar að auki margir lausamenn, samtals greiddi verksmiðjan s.l. sumar ca. 80.000 kr. í vinnulaun, en hagnaður af rekstrinum varð mörg þúsund krónur. 

Á síldarvertíðinni í fyrrasumar sýndi það sig að tilfinnanleg vöntun er a síldarverksmiðjum, því flotinn tapaði tugum eða jafnvel hundruðum þúsunda mála af síld vegna þess hve mikið hann varð að bíða eftir löndun, t. d. biðu stundum allt upp í 45 skip eftir löndun hjá Ríkisverksmiðjunum. 

Nú eykst flotinn um ca.30 snurpunætur í sumar og sennilega verður aukningin ennþá meiri fyrir næsta sumar. 

Það er því öllum ljóst, að það er beinlínis lífsnauðsyn fyrir síldarútveginn að afköst síldarverksmiðjanna verði aukin. Það er óumdeilanlegt, að lóðin sem Rauðka stendur á er heppilegasta, lóðin á öllu Íslandi fyrir síldarverksmiðju. 

Það er líka vitanlegt að verksmiðjustjórinn hjá Rauðku, herra Snorri Stefánsson, hefir mesta reynslu af öllum núlifandi Íslendingum við síldarbræðsluiðnaði. 

Að öllu þessu athuguðu var það ekki að furða þú mikill áhugi kæmi upp hér á Siglufirði fyrir því að endurbyggja Rauðku og stækka hana um leið svo afköst hennar yrðu 5.000 mál á sólarhring, i stað 10 til 12 hundruð mál eins og nú er. 

Ný 5.000 mála verksmiðja myndi ýta undir virkjun Fljótaár og sú virkjun ætti að tryggja að þegar lýsisherslustöð verður byggð á Íslandi kæmi hún hvergi nema á Siglufirði, en við slíka stöð yrði margra manna vinna yfir veturinn. 

Eftir nokkrar umleitanar barst bæjarstjórn tilboð um mjög hagkvæmt lán til að endurbyggja og stækka Rauðku upp í 5.000 mála afköst á sólarhring og samþykkti bæjarstjórn með öllum atkvæðum að undanskyldu atkvæði Þormóðs Eyjólfssonar, að sækja um leyfi ríkisstjórnarinnar til endurbyggingarinnar. 

Síðan hefir það gerst i málinu að verkamannafélagið Þróttur hefir með öllum atkvæðum á fjölmennum félagsfundi skorað á ríkisstjórn að veita leyfið, um 1.200 Siglfirðingar hafa með undirskrift sinni lýst sig fylgjandi ákvörðun bæjarstjórnar og skorað á ríkisstjórn að veita leyfið, um 60 útgerðarmenn hafa sömuleiðis skorað á ríkisstjórnina að veita leyfið og Fiskimanna og farmannasamband Íslands hefir ennfremur sent ríkisstjórninni samskonar áskorun. 

Jafnframt hefur það komið í ljós að Þormóður Eyjólfsson hefur gert allt sem í hans valdi hefur staðið til að spilla fyrir málinu og klíka sú sem hann stendur í nánustu sambandi við í Framsóknarflokknum, Hriflu-Jónasarklíkan, hefur gert það sama, t. d. stóð eftirfarandi klausa í Tímanum 23. maí síðastliðinn: 

"Kommúnistar eru i meirihluta um stjórn Siglufjarðar nú sem stendur. Þeir hafa fengið skrítna bandamenn í atvinnumálum. Svavar Guðmundsson á Akureyri og Helgi Guðmundsson í Reykjavik eru svo hrifnir af fyrirhyggju og framsýni kommúnista í fjármálum, að þeir vilja, þótt af veikum mætti sé, reyna að efla þá til að koma upp nýrri síldarverksmiðju á Siglufirði, þó að sú verksmiðja myndi kosta þjóðina meira en hálfa miljón króna fram yfir að stækka verksmiðjur ríkisins á Siglufirði. Sennilega fá þessir tveir dánumenn Lenínorðuna."­ 

Í þessari klausu er vísvitandi farið með hinar herfilegustu blekkingar, í fyrsta lagi er þetta engan vegin  sérmál Sósíalistafélagsins eða “kommúnista” eins og Tíminn segir, það sýna áskoranir þær, sem yfir ríkisstjórnina hafa dunið og Tímanum eru kunnugar, í öðru lagi er það uppspuni einn að ríkisverksmiðjurnar gætu byggt hjá sér verksmiðjuna fyrir ½ miljón krónum minna en Siglufjarðarkaupstaður, sennilega yrði verksmiðjan engu ódýrari hjá þeim. 

Ýmsir af aðalmönnum Framsóknarflokksins hér hafa sýnt mikinn áhuga fyrir málinu og reynt að vinna því gagn, og sama er að segja um Sjálfstæðisflokkinn. 

Það er því ekki neitt sérmál Sósíalista og Alþýðuflokksmanna, heldur er þetta mál Siglfirðinga í heild, þó Þormóður Eyjólfsson sé því andvígur og hamist gegn því með offorsi og frekja eins og honum er lagið. 

Tæpir tveir mánuðir eru liðnir síðan bæjarstjórn sótti um byggingarleyfið til ríkisstjórnarinnar, en ekkert svar hefir komið ennþá og atvinnumálaráðherra Ólafur Thors tetur sig og ríkisstjórnina ekki geta gefið svar fyrr en um miðjan ágúst, en það er sama og nei, því að bæjarstjórn verður að svara fyrir 15. júní hvort hún ætlar að nota lánstilboðið. 

Að vísu hefur Ólafur Thors sagt að hann myndi reyna að fá frestinn framlengdan, en þegar tekið er tillit til að i fyrstu átti að svara fyrir 10. maí og svo var fresturinn framlengdur til 1. júní og svo til 15., þá eru litlar líkur til að enn fáist framlenging. 

Hvers vegna er ekki þegar komið játandi svar við eins sjálfsagðri málaleitun? 

Ástæðan getur ekki verð önnur en sú, að ráðherra sá sem málið heyrir undir, Ólafur Thors eða ríkisstjórnin, vilji ekki veita leyfið, en þori ekki að segja nei af ótta við réttláta reiði Siglfirðinga og aura þeirra sjómanna og útgerðarmanna, sem málinu eru fylgjandi. Hvar eru stóru loforðin um aukna framleiðslu í landinu hjá “þjóðstjórninni”? 

Jú, það mun eiga að byggja síldarverksmiðju á Siglufirði seinna meir. En ýmsir fróðir menn telja að Ólafur Thors og Hríflu Jónas vilji ekki að aðrir byggi síldarverksmiðjur en Kveldúlfur og Ríkisverksmiðjurnar svo þessi fyrirtæki verði ekki fyrir neinum óþægilegum samanburði. 

Ef þetta er ástæðan, er hér um eitthvert hið svívirðilegasta hneyksli að ræða, sem fyrir hefir komið í Íslenskum stjórnmálum, ef sjálfur atvinnumálaráðherra landsins ætlar að leyfa sér að misnota ráðherraembætti sitt þannig sér og fjölskyldu sinni til fjárhagslegs framdráttar. 

Hér er sannarlega ástæða til að heimta kortin á borðið, þegar málið er komið á þetta stig varðar það ekki bara Siglfirðinga, heldur alla heiðarlega menn í landinu. Þáttur Þormóðs Eyjólfssonar í máli þessu er athyglisverður. 

Þormóður er bæjarfulltrúi hér og bundinn því drengskaparloforði að vinna að hagsmunamálum bæjarbúa, en í þessu stærsta hagsmunamáli kaupstaðarins hefir hann verið hinn argasti fjandmaður hans og gert allt, sem hann getur til að spilla fyrir málinu og nú þegar er hann farin að tæpa á því hverju bæjarstjórn myndi svara ef gott kauptilboð kæmi í Rauðku, eða með öðrum orðum verið að leita fyrir sér um hvort það gæti gengið af hávaðalaust að Ríkisverksmiðjurnar fengju Rauðku og lóðina keypta. 

Hans afstaða er að ná verksmiðjunni og lóðinni af bænum í hendur Ríkisverksmiðjanna, með það fyrir augum að þar verði einhvern tíma byggð ný verksmiðja og hvernig sem á því stendur, gengur  þrálátur orðrómur um það, að Ríkisverksmiðjustjórnin sé að reyna að sölsa undir sig lánstilboð Siglufjarðarkaupstaðar. 

Einhverjir spyrja nú kannski hvort áhættuminnst væri ekki fyrir bæinn að selja lóð sína t.d. Ríkisverksmiðjunum, ef þær skuldbinda sig til að byggja þar verksmiðju, þeim skal sagt frá rekstursáætlun, sem Þráinn Sigurðsson birti í “Siglfirðingi”. 9. maí s.l. 

Gert er ráð fyrir 250 þúsund mála vinnslu á kr. 6.50 málið og lýsisverði £ 12,5 pr. tonn, en mjölverði £  9,5 pr. tonn. Kostnaður er mjög vel í lagður. 

Þó verður hagnaður um 866 þúsund krónur, en eftir er þá að draga frá vexti og afborganir stofnlána. Væri það reiknað 300 þúsund, er samt sem áður eftir all álitleg fúlga sem hreinn gróði. 

Greinarhöfundur mælist til að Ríkisverksmiðjustjórnin reyni að hrekja áætlun sína ef hún geti, en ekki hefur verksmiðjustjórn orðið enn við þeim tilmælum, enda verður þessi áætlun ekki hrakin með rökum, því hún er byggð á niðurstöðum Snorra Stefánssonar og annarra sérfræðinga í þessum rekstri. 

 Síldarverksmiðjurekstur er mjög arðvænlegt fyrirtæki eins og nú standa sakir, og það er ekki að furða þó Siglfirðingar vilji láta bæinn eignast arðberandi fyrirtæki þegar ranglát útsvarslöggjöf er að sliga bæjarbúa og ríkið hagar sér við kaupstaðinn eins og stórveldi við nýlendu. 

Siglfirðingar eru lengi búnir að hugsa þetta mál og nú gildir að enginn skerist úr leik og allir sem einn maður fylki sér um verksmiðjumálið, hvað sem á dynur. 

Það verður auðvitað sett á stað heil herferð af lygum og rógi gegn Siglfirðingum i málinu, en það má enginn láta á sig fá og mennirnir sem á móti standa eiga að stimplast sem fjandmenn okkar bæjarfélags og þó verður sökin mest hjá þeim sem telur sig Sigfirðing en níðist svo á hagsmunamálum Siglufjarðar. 

Það eru enn þá eftir einn dagur af frestinum til að svara lánstilboðinu og þennan dag verður að nota til að heimta réttlátt svar af ríkisstjórninni. Það kemur auðvitað til að reyna töluvert á þolrifin í heiðarlegum Sjálfstæðis- og Framsóknarmönnum, sem nú eru sviknir af foringjum sínum, en því verður í lengstu lög að treysta að þeir láti hagsmuni bæjarfélags síns sitja í fyrirrúmi fyrir pólitískum flokkshagsmunum. 

O.S.