Sigurgeir Þórarinsson

Sigurgeir Þórarinsson - (Geiri Gústa)

Sigurgeir Þórarinsson - Minning Fæddur 29. júní 1917 Dáinn 17. mars 1994 

Sigurgeir var fæddur hér í Siglufirði, ólst hér upp og starfaði alla stund hér í firðinum fagra.

Foreldrar hans voru 

Þórarinn Ágúst Stefánsson og 

Sigríður Jónsdóttir, sem var þekkt kona hér í bæ fyrir dugnað og hjartahlýju.

Sigurgeir var fjórði í röðinni af átta börnum sem komust á legg, tvö börn dóu í æsku, drengur og stúlka. Ungur að árum missti Sigurgeir föður sinn, en Sigríður móðir hans hélt vel á öllu og hélt heimilinu saman með dyggri aðstoð barnanna. Kom þeim öllum vel til manns. Þess ber að geta að faðir Sigríðar aðstoðaði dóttur sína, þó fatlaður væri, til að halda í horfinu.

Snemma beygist krókurinn sem verða vill. Ungur að árum fór Sigurgeir að vinna fyrir sér, fyrst í SR 30 og eftir að SR 46 var tekin í notkun þá vann hann þar. Síðast vann hann í íshúsi Þormóðs ramma allt til að hann varð að hætta vinnu sökum sjúkleika.

Ungur fór Sigurgeir að stunda íþróttir, á vetrum voru það skíðin, hann keppti í öllum greinum skíðaíþrótta og vann til verðlauna í þeim öllum, göngu, stökki og svigi. Á sumrin tók við knattspyrna og keppti Sigurgeir með KS og urðu þeir norðurlandsmeistarar í þeirri grein í gamla daga. Sigurgeir tók einnig þátt í fimleikum.

Þá er eftir að geta um þann félagsskap sem hann starfaði lengst í, en það var Karlakórinn Vísir, einnig var hann í Kirkjukór Siglufjarðar og um tíma í tvöföldum kvartett. Sönggyðjan fylgdi honum lengst.

Mesta gæfuspor Sigurgeirs var þegar hann gekk að eiga 

Salome Gestsdóttur, ættaða frá Ísafirði. Þau kynntust hér á síldarárunum upp úr 1950 en gengu í hjónaband 18. apríl 1953.

Þau hófu búskap í Lækjargötu 7, en byggðu síðan sitt eigið hús að Ártúni 2. 

Þá flutti Sigríður móðir hans til þeirra hjóna ásamt Einari, bróður Sigurgeirs, sem var yngstur þeirra bræðra. Þeim hjónum varð þriggja barna auðið, sem eru: 

1) Þóra Sigurgeirsdóttir, búsett hér í bæ, gift Kjartani Ólafssyni, eiga tvær dætur; 

2) Auður Sigurgeirsdóttir er í föðurhúsum, ógift og barnlaust. Yngstur er 

3) Guðmundur Sigurgeirsson, 

maki Guðrún Guðnadóttir, búsett í Kópavogi, eiga tvo drengi og fósturson.

Sigurgeir var vel á sig kominn hvar sem á hann var litið. Prúðmenni bæði í leik og starfi.

Fyrir nokkrum árum veiktist Sigurgeir og lá á Sjúkrahúsi Siglufjarðar þar sem hann lést 17. mars sl. Þann tíma sem Sigurgeir lá á sjúkrahúsinu sýndi Salome Gestsdóttir hversu mikill persónuleiki hún er. 

Á hverju kvöldi var hún mætt til að vera hjá eiginmanni sínum til að stytta honum stundir eftir því sem hægt var. Nú eru jafndægur á vori, sumarið tekur senn völdin

Sigurgeir Þórarinsson