Eyþór Hallsson

Eyþór Hallsson, skipstjóri, útgerðamaður, forstjóri. 

Eyþór Hallsson Siglufirði -  Fæddur 4. águst 1903 Dáinn 4. febniar 1988 -

Einn af beztu, hollustu og traustustu vinum mínum frá Siglufjarðar árum mínum 1952—1966, sá sem einna bezt var til að leita, þegar mikið lá við, Eyþór Hallsson, forstjóri og skipstjóri, er látinn á 85. aldursári. Hann andaðist í Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 4. þ.m. en þangað hafði hann verið fluttur fársjúkur frá Siglufirði örfáum dögum áður þar sem var gerður á honum hættulegur uppskurður. 

Við þennan heiðursmann stend ég í svo mikilli þakkarskuld, að ekki má minna vera en að ég minnist hans nú, þótt ekki væri til annars en að þakka honum liðnum fyrir tröllatryggð hans og vináttu í minn garð allt frá upphafi kynna okkar og tilþrifamikinn stuðning hans við mig á örlagastundum. Eyþór Jóhann Hallsson, eins og hann hét fullu nafni, fæddist á Hofsósi í Skagafirði 4. ágúst 1903 og voru foreldrar hans

Hallur Einarssonar bátaformaður og

Friðrika Karín Jóhannsdóttir, sem þar bjuggu. Systkini Eyþórs eru Jakobína, ekkja í Borgarnesi, Sigurlaug, sem nú dvelur á dvalarheimili aldraðra á Sauðárkróki, 

Einar, býr á Hofsósi, og Kristján, áður kaupfélagsstjóri á Hofsósi, nú látinn. Eyþór tók kornungur að árum að stunda sjóinn, fyrst með föður sínum og síðan á ýmsum skipum og var raunar ekki nema 11 ára þegar sjómannsferill hans, sem varð langur, hófst. 

Hann gekk í Stýrimannaskólann í Reykjavik og lauk þaðan fiskimannaprófi 1927. Fljótlega að prófi loknu gerðist hann skipstjóri og fór með ýmis skip allt til ársins 1945, er hann varð að láta af því starfi vegna tímabundins heilsubrests. 

Á árum síðari heimsstyrjaldarinnar sigldi hann nær þrotlaust með afla sinn til Englands, en á þeim hættutíma voru slíkar ferðir ekki heiglum hentar, en aldrei mun Eyþóri hafa verið brugðið um heigulshátt — þvert á móti þótti hann alla tíð djarfur og áræðinn, áreiðanlega með ósvikið víkingablóð í æðum. Eftir að f land kom lagði Eyþór á margt gjörva hönd, fékkst m.a. við síldarsöltun, umsjón með skipum, erlendum og innlendum, var um 6 ára skeið forstjóri Bæjarútgerðar Siglufjarðar og síðar meðeigandi og framkvæmdastjóri fyrir m.s. Siglfirðing um alllangt skeið. 

Umboðsmaður Olíufélagsins Skeljungs á Siglufirði gerðist hann svo haustið 1957 og gegndi því starfi til dauðadags. Öll þau störf, sem Eyþór lagði stund á, hvort sem var á sjó eða landi, leysti hann af hendi með myndarskap. Lengst af var Eyþór búsettur á Siglufirði og þar var hans starfsvettvangur. Þá var hann á árunum 1928—1930 búsettur á Akureyri. Ég kynntist ekki Eyþóri Hallssyni fyrr en hann var kominn um eða yfir miðjan aldur. Hafði ég þó oft heyrt hans getið, er ég dvaldi á Siglufirði á sumrum á námsárum mínum, sem aflasæls og dugmikils skipstjóra og útgerðarmanns. — 

Fór þá mikið orð af honum sem einum af „síldarkóngum" á aflaskipum á síldarárunum miklu á Norðurlandi á 3., 4. og fram á 5. áratug þessarar aldar. Ég minnist þess einnig að hafa séð Eyþór á Siglufirði á þessum árum. Kom hannmér fyrir sjónir sem fyrirmannlegur og höfðinglegur maður, sem allir vildu við ræða og blanda við geði. — 

En skemmst er frá því að segja, að eftir að ég fluttist til Siglufjarðar og tók þar til starfa árið 1952 tókst fljótlega með okkur hinn ágætasti kunningsskapur sem innan skamms þróaðist í einlæga og trausta vináttu. Fann ég það fljótlega, að ötulli og ósérhlífnari liðsmaður í hinni pólitísku baráttu varð naumast fundinn, maður sem alltaf og hvernig sem á stóð var reiðubúinn til að „ganga í slaginn", djarfur og harðskeyttur baráttumaður, jafnvígur í sókn og vörn. Minnist ég frá þessu tímabili margra ánægju- og gleðistunda, sem bundnar eru við Eyþór Hallsson. 

Einnig utan við alla pólitík, minnist ég margra ánægjustunda með Eyþóri, því að hann var maður ræðinn og skemmtilegur í viðræðum og hafði frá mörgu að segja. Allt þetta gerir manninn Eyþór Hallsson mér ógleymanlegan, — það finn ég bezt nú, er mér er ljóst, að okkar fundir verða ekki fleiri hérna megin hafsins mikla. Eftir að ég og fjölskylda mín fluttumst frá Siglufirði fækkaði fundum okkar mjög — því miður. Jafnan vissum við þó hvor um annan og fagnaðarfundir urðu er fundum okkar bar saman. 

Eyþór Hallsson var maður myndarlegur ásýndum, hár vexti, grannur og spengilegur, bar sig vel og var hispurslaus og ákveðinn í framgöngu allri. Ljós var hann yfirlitum og hánorrænn á yfirbragð. — Bauð hann af sér góðan þokka hvar sem hann kom. Hann var ágætlega máli farinn og hafði sig talsvert í frammi á mannfundum. Hrókur var hann alls fagnaðar á mannamótum, hnyttinn i tilsvörum, fyndinn og skemmtilegur í viðræðum, svo sem áður var frá greint, enda fróður vel og ágætlega greindur. 

Eyþór Hallsson tók allmikinn þátt í félagsmálum, aðallega á Siglufirði, og var oft til kvaddur þar sem ráða þurfti ráðum sínum, sat t.d. í niðurjöfnunarnefnd Siglufjarðar um árabil, sat í stjórn skipstjóra- og stýrimannafé- lagsins Ægis á Siglufirði um skeið, var í stjórn Lífeyrissjóðs verkalýðsfélaga á Norðurlandi vestra frá 1970 til dauðadags, var um skeið varamaður í stjórn Síldarverksmiðju ríkisins og fleira og fleira mætti til telja. 

Ræðismaður Norðmanna á Siglufirði var hann frá 1958—1984 og var sæmdur St. Olavs orðunni fyrir þau störf. Einnig var hann á sínum tíma sæmdur gullpeningi Sjómannadagsins. Hann var maður vinnusamur -og kunni því lítt að hafa ekkert fyrir stafni. Var hann svo lánsamur að geta gengið til starfa nálega fram á efsta dag. — Þótt ekki yrði annað á Eyþóri Hallssyni séð í framgöngu og fasi en að hann væri allra manna heilsuhraustastur svo hress í anda og lífsglaður sem hann var, var það þó svo, að á vissum tímabilum æviskeiðs síns átti hann í höggi við erfiðan og skæðan sjúkdóm. 

Honum tókst þó að vinna bug á þeim sjúkdómi og efast ég ekki um, að kjarkur hans og bjartsýni hafi átt sinn þátt í því. Hann var hreinskiptinn og hreinskilinn í samskiptum við aðra menn og gat þegar því var að skipta, sagt hug sinn allan og stundum tæpitungulaust við hvern sem var, jafnt háa sem lága. Að jafnaði var hann þó, ef ekki reyndi á annað, hlýr og vingjarnlegur í viðmóti og manna sáttfúsastur var hann, ef í brýnu hafði slegið. Í einkalífi sínu var Eyþór Hallsson hamingjumaður. 

Hann kvæntist árið 1927

Ólöf Jónsdóttir frá Rifkelsstöðum í Eyjafirði. Hún var kona mikillar rósemi og andlegs jafnvægis. Bjó hún manni sínum notalegt heimili og reyndist honum sú stoð og stytta, sem um munaði í erilsömum og oft erfiðum störfum hans bæði á sjó og landi. Síðustu æviár sín var hún mikill sjúklingur. 

Veiktist hún á árinu 1978 og var eftir það rúmliggjandi í sjúkrahúsi Siglufjarðar. Annaðist Eyþór þá konu sína sjúka af fágætri umhyggjusemi og ástúð. Hún andaðist í sjúkrahúsi Siglufjarðar 13. febrúar 1984. Varð konumissirinn Eyþóri  mikið áfall og syrgði hann hana mjög, en það var lán hans að eiga góða að þar sem voru fósturdóttir hans og tengdasonur, sem önnuðust hann, eftir fráfall konu hans, af mikilli umhyggjusemi og má segja, að hjá þeim hafi síðan verið hans 

Eiginkona hans var Ólöf Jónsdóttir frá Rifkelsstöðum í Eyjafirði. Þau ólu upp fósturdóttur, annað heimili.

Þau Eyþór og Ólöf áttu ekki börn, sem upp komust, en ólu upp sem dóttur sína af umhyggjusemi og kærleika

Karólínu Friðriku Hallgrímsdóttur,

sem gift er Haraldur Arnason á Siglufirði, sem verið hefir um árabil samstarfsmaður Eyþórs við rekstur umboðs Skeljungs á Siglufirði og hægri hönd hans í því starfi. —

Mikið ástríki var einnig með þeim Eyþóri og Ólöfu, meðan hennar naut við, og börnum þeirra Karólínu og Haraldar, þeim

Dvöldu þau systkinin oft langdvölum á heimili afa síns og ömmu. Eyþór Hallsson taldi sig alltaf fyrst og fremst vera sjómann, enda hafði hann áratugum saman stundað sjóinn að staðaldri og fór aldrei dult með samúð sína og samstöðu með sjómannastéttinni. — Eins og svo margir eru, sem lengi hafa verið á sjó, var hann trúaður maður og trúrækinn og trúði staðfastlega á framhaldslíf að lífi loknu hér á jörð. 

Hann hefur nú leyst landfestar f síðasta sinn og snúið fari sínu til hafs. Ég óska þessum góða vini mínum og forna samherja, sem ég á svo mikið og margt að þakka, velfarnaðar á hinztu siglingu hans yfir farið mikla og góðrar heimkomu á landinu handan hafsins, því að ég efast ekki um, að honum hafi orðið að trú sinni og hafi eygt land fyrir stafni þar sem bíða vinir í varpa. Öllum ástvinum hans sendi ég innilegar samúðarkveðjur. 

Einar Ingimundarson 

--------------------------------------------------

Eyþór Hallsson útgerðarmaður andaðist 4. febrúar sl. og var jarðsunginn frá Siglufjarðarkirkju  laugardaginn 13. febrúar. Eyþór kvaddi nokkuð snögglega og hygg ég að það hafi verið honum að skapi. Eftir áratuga vináttu vil ég kveðja hann með nokkrum orðum. Eyþór fæddist á Hofsósi 4. ágúst 1903, elstur fimm systkina, sonur Halls Einarssonar útgerðarmanns og konu hans, Friðrikku Jóhannsdóttur. Eyþór sagði mér að hann hefði snemma byrjað að stunda sjó- inn auk annarra starfa sem fylgdu þvi að alast upp á þessum stað og tíma. 

Eignaðist hann kornungur sinn fyrsta bát, sem varla hefur verið nema prammi. Aflann, sem hann saltaði og spyrti, seldi hann í vöruskiptum við bændur, þannig létti hann strax undir með heimilinu og fékk ungur traust og tiltrú á samstarf þeirra sem við sjóinn bjuggu og bændanna í sveitinni. Það sem ekki gekk út f þessum vöruskiptum keypti Kristján Gíslason kaupmaður á Sauðárkróki af honum og minnist hann ætíð þeirra viðskipta með þakklæti. 

Eftir því sem árin liðu og hann efldist að kjarki stækkuðu bátarnir sem Eyþór eignaðist, fyrst 4 manna far, síðan sex manna og loks 12 tonna bát á móti öðrum. Fór hann með þann bát til Siglufjarðar til línuveiða, en vertíðin brást og fór hann á „hausinn" eins og kallað er af þeim sem ekki virða áhættusama útgerð, svo notuð séu hans eigin orð. Eyþór naut barna- og unglingafræðslu sem kostur var á þessum stað og fermdist frá Hofskirkju um leið og móðir mín, en milli þeirra var ætíð hin besta vinátta. Hugur Eyþórs stóð til fleira en til boða stóð í þessari fámennu byggð og árið 1926, fór hann alfarinn úr heimahúsum, en áður en hann fór samdi hann um allar skuldir föður síns við Sameinuðu verslunina.

Eyþór fór til Akureyrar og dvaldi hjá Einar Einarsson útgerðarmaður og konu hans, Guðbjörg Sigurðardóttir.

Þennan vetur lærði hann reikning og undirstöðuatriði í siglingarfræði hjá Aðalsteini Magnússyni skipstjóra og ensku hjá Hannesi O. Bergland. Veturinn eftir fór hann í Stýrimannaskólann í Reykjavík og lauk skipstjórnarprófi um vorið, og var stýrimaður hjá Barða Barðasyni skólabróður sínum um sumarið. 

Næstu árin var Eyþór mikið við eigin útgerð og skiptust þá á skin og skúrir. Ég man að eitt sinn sagði hann mér af viðskiptum sínum um sölu á saltfiski um 1930, en þá var sá fátækastur sem átti mest af fiski, allt óseljanlegt í kreppunni.

Árið 1936 ræðst hann til bræðranna Gunnlaugs og Ingvars Guðjónssona og tekur við aflaskipinu Björn EA 396. Sumarvertíðin brast og útlitið svart, en hann fór með skipið á reknet um haustið og var með langmestan afla. Þetta skip var hann með árið eftir og þá gekk allt vel. Eyþór sá mjög eftir því að hætta hjá þeim bræðrum, en hann tók við aflaskipinu Bjarki. Á þessum árum var hann með eftirsóttustu og aflahæstu skipstjórum landsins. 

Hann var mörg ár með ms. Rikard frá Ísafirði og sigldi öll stríðsárin. Eyþór mat mjög þá lífsgleði og speki sem hann varð aðnjótandi við kynni sín af athafnamönnunum svo sem Ingvari Guðjónssyni, Óskari Halldórssyni, Björgvin Bjarnasyni og Gisla Magnússyni, sem hann taldi með mestu máttarstólpum þjóðfélagsins á þessum tíma. Að njóta samskipta við þessa menn og fleiri var í hans huga eins og margra ára háskólanám.

Eyþór var mikill gæfumaður, hann og skipshöfn hans áttu því láni að fagna að bjarga þrisvar sinnum skipi og skipshöfn. Eitt sinn strandaði skip hans við Gjögra en skipshöfnin komst lífs af, og einu sinni missti hann út mann af mb. Reynir, en það var Einar bróðir hans, og bjargaðist hann.

Í lífi hans voru einnig skuggar. Árið 1945 var hann fluttur úr brúnni af bv. Sigríður RE á Vífilsstaðahæli þar sem hann var viðloðandi næstu misseri, einnig varð hann að leita lækninga í Noregi við berklum. Eftir að Eyþór hætti á sjónum og náði heilsu tók hann til við síldarsöltun með 0.Henriksen, auk þess sem á hann hlóðust allskonar opinber störf. Hann var í stjórn Bæjarútgerðar Siglufjarðar og fyrsti framkvæmdastjóri hennar frá 1947-53.

Hann var varamaður í stjórn SR í mörg ár fyrir Svein Benediktsson, auk fjölmargra trúnaðarstarfa fyrir Siglufjarðarkaupstað. Hann beitti sér fyrir því að fyrsti skuttogarinn var byggður fyrir íslendinga, var það fjölveiðiskipið Siglfirðingur sem hann átti í félagi við skipstjórnarmennina Pál Gestsson og Axel Schiöth og vélstjórana Agnar Þór Haraldsson og Jóhann Friðleifsson og Kaupfélag Siglfirðinga. Fylgdist ég mjög vel með þegar á þessari framkvæmd stóð, bæði var það að ég rak þá fyrirtæki sem sá um við- gerðir á rafbúnaði og fiskleitartækjum og Sigurður Sigfússon móðurbróðir minn var með umboð ásamt Magnúsi Jenssyni fyrir skipasmíða stöðina Ulstein Mek. Verksted í Noregi.

Þannig var Eyþór, vakandi í starfi, á þessum tíma hafði hann tekið við umboði fyrir Skeljung hf. á Siglufirði, sem sá um mikla olíusölu til skipa og á þeim tíma til húshitunar. Eyþór var norskur ræðismaður á Siglufirði og sá hann um fyrirgreiðslu fyrir útgerðir skipa bæði frá Noregi og Færeyjum, þar sem hann átti fjölda vina og kunningja auk íslenskra útgeðarmanna, sem fengu hann til þess að leysa úr allskonar vandamálum sem upp komu. Ég man að þegar ég kynntist honum virtist mér hann alltaf vera á ferðinni hvort sem var á nóttu eða degi.

Hann hringdi eða leitaði mann upp á ólíklegustu tímum og stöðum ef hann þurfti á aðstoð manns að halda, gerði miklar kröfur en greiddi reikninga athugasemdalaust. Þannig voru okkar fyrstu kynni og á þau bar aldrei skugga. Eftir að ég naut þjónustu hans með olíuviðskipti til Rafveitu Siglufjarðar voru sömu viðskiptareglur hafðar. miklar kröfur við erfið skilyrði, en reynt að greiða reikninga á réttum tíma. Skrifstofa hans var í Útvegsbankanum við hlið skrifstofu rafveitunnar.

Oft kom Eyþór í molasopa og þá voru málin rædd tæpitungulaust. Þegar Sigurður Finnsson stofnaði fyrirtækið Togskip hf. með útgerð Dagný SI 70 og Sigurey SI var Eyþór með, var hann endurskoðandi félagsins og fundarstjóri á aðalfundum, á ég góðar minningar um hann sem röggsaman fundarstjóra og félaga. Eyþór mat menn eftir orðheldni og áreiðanleik í viðskiptum, hann skildi betur en margur annar vandamál daglegs lífs til lands og sjávar; og að ekki væru alltaf til reiðu peningar til greiðslu reikninga á gjalddaga.

Í þeirri stöðu vildi hann hvers manns vanda leysa, en ef menn fóru á bak við hann og sögðu hlutina á annan veg en var, voru hinir sömu ekki hátt skrifaðir. Eyþór hreifst mjög af samvinnuhreyfingunni og eignaðist fjölda vina og kunningja sem störfuðu innan hennar. Að málum fylgdi hann hinsvegar Sjálfstæðisflokknum, þótt honum hafi ekki allt líkað sem forustan framkvæmdi. Eyþór sagðist sjálfur blendinn í stjórnmálum og sagðist rekast illa í flokki, hann trúði á sjálfan sig og dugnað en taldi jafnframt að stærri málum yrði best komið í höfn með samvinnu fleiri aðila eins og hann sýndi með kaupum á Siglfirðingi.

Hann vildi sjá veg útgerðar og fiskvinnslu sem mestan og hafði verulegar áhyggjur af því hvernig nú er komið fyrir mörgum stærstu fyrirtækjum okkar í sjávarútvegi. Við náðum ekki að ræða það ástand sem nú er að skapast á Hofsósi, fæðingarstað hans, en þar er nú búið að segja upp öllu starfsfólki í frystihúsinu og svart útlit með framtíðina, en mér segir hugur að hann hefði haft einfaldar skýringar til lausnar á því máli.

Eitt sinn þegar hann var staddur í viðræðum við Jón Árnason bankastjóra Landsbankans, og erindið var að fá aukið rekstrarfé til togara Siglfirðinga sem hann veitti forstöðu, en peningar lágu ekki á lausu, og Eyþór hefur trúlega gert hvatlega athugasemd um hvar peningarnir væru, gekk þá Jón með honum út að glugga og benti á íbúðarhúsin (steinsteypuna) í Reykjavík og sagði: Þarna geymum við fé þjóðarinnar. 

Þetta var á árunum 1947—53, síðan er búið að steypa mikið en útgerðin og fiskvinnslan eiga undir högg að sækja eins og oft áður. Eyþór var einstaklega vinnusamur, vann hann oft um helgar á skrifstofu sinni og var þá að koma öllum málum sem að honum sneru á hreint, hann var einstakur skilamaður og þoldi ekki neinskonar óreiðu. Hann var vinmargur og vinfastur tryggur vinum sínum. Eftir að Snorri Stefánsson verksmiðjustjóri missti sjónina, var Eyþór hjá honum flesta sunnudaga eftir að messu lauk, og ræddi við Snorra um dægurmálin. Hann var trúaður og kirkjurækinn, tilfinninganæmur en með harða skel.

Eyþór kvæntist árið 1947 Ólöfu Jónsdóttur Jónassonar bónda á Kjarná í Eyjafirði. Var hún alin upp hjá móðurafa sínum. Þau hófu búskap í Reykjavík en bjuggu lengst af á Siglufirði. Þau eignuðust einn dreng sem þau misstu. Þau tóku í fóstur á unga aldri Karólínu Friðrikku Hallgrímsdóttur. Hún er gift Haraldi Árnasyni, sem unnið hefur með Eyþóri hjá umboði Skeljungs um árabil. Eiga þau fimm börn, sem hafa orðið afa sínum til mikillar gleði í gegnum árin. Eftir að Ólöf féll frá árið 1984 átti hann athvarf hjá Karólínu og Haraldi en hélt sínu heimili áfram. 

Siglufjörður hefur misst einn af sínum dugmestu íbúum, sem sárt er saknað. Hann var vissulega bú- inn að skila sínu ævistarfi, sem er að mínu mati óvenju mikið og árangursríkt fyrir þjóðfélagið. Siglufjörður verður svipminni eftir. Ég tel að þessi umskipti verði honum ekki erfið. Hann mun sigla að ókunnri strönd eilífðarinnar og mæta þar ástvinum sinum. Hans ævistarfi var hér lokið, og fyrir samfylgdina vil ég þakka. Við hjónin færum Karólínu og Haraldi ásamt börnum þeirra og aðstandendum hugheilar samúðarkveðjur á þessari sorgarstundu.

Blessuð veri minning Eyþórs Hallssonar. 

Sverrir Sveinsson.

Eyþór Hallsson -

         Ljósmynd: Kristfinnur