Jón á Hóli
Sagan um Jón á Hóli og Gest Fanndal.
(Sögumaður; Sigurður Fanndal)Gestur Fanndal kaupmaður rak verslun á neðri hæð og bjó á efri hæð ásamt fjölskyldu í húsinu númer 6 við Suðurgötu á Siglufirði, sem hann átti.
Eitt sumar vildi svo illa til að klóak stíflaðist undir húsinu. Gestur hringdi í áhaldahúsið og bað Gísla Þorsteins. bæjarverkstjóra ásjár. Gísli sendi Jón og Alla Valda á beininu á staðinn með kúkasnigilinn og gorminn góða ásmat fríðu föruneyti til að redda þessu. Það var sama hvernig þeir djöfluðust og létu með snigilinn og kúka græjurnar.
Ekkert gekk „Gestur minn, þú verður bara að mölva upp gólfið gegnum húsið, búðirnar þrjár, og skipta um lagnir“ sagði Jón. Með það fóru þeir með græjurnar með sér
Nú voru góð ráð dýr. Þrjár verslanir auk skrifstofu og lagers allt í fullum rekstri, skyldi nú lokað í daga eða vikur um hábjargræðistímann.
Gestur, ekki þekktur fyrir að gefast upp. „Skutlaðist“ (humm) á Land -Rovernum sem hann keypti af Guðmundi Góða, niðrí áhaldahús í Brandarhúsinu gamla og skotið á fundi uppi á kaffistofunni með Gísla og Jóni. „Þetta þýðir ekki neitt Gestur minn sagði Jón“ og Gísli sagði „að hann yrði að skrifa nótu á vinnuna ef hún yrði meiri.“ „Skítt með allar þínar nótur,“ sagði Gestur ákveðinn.
Gísli; „Nú sendir þú Jón og þína menn með græjurnar allar og þið gerið úrslita tilraun til að losa stífluna. Ég skal launa ykkur það, ef tekst.“ sagði Gestur.
Jæja. Nonni, Alli með beinið, Ella Gústa með vindilinn og allt settið suðureftir til Gests í hvelli sama um morguninn.
Og nú skal það ske. Viti menn. Eftir enn einn djöfulganginn, rétt fyrir matinn brestur stíflan. „Bíðiði aðeins strákar mínir,“ sagði Gestur. Gestur „stekkur“ útí áfengis búðina til Gosa, kaupir stærstu og dýrustu koníaks „beljuna“ í vagni sem til var. Hún var eitt gallon, um fjórir lítrar í skrautlegum kassa.
Hugðist Gestur nú rífa upp kassann framan við liðið, skrúfa tappann úr, og veita vinum sínum. Snöggur að hugsa kallar Jón svo um allt heyrist.
„ Nei nei nei Gestur minn við í áhaldahúsinu fáum okkur aldrei í glas fyrir hádegi“.
Gestur líka snöggur: „Nnnnú, drekkiði þá þetta bara eftir matinn!“
Næsta sem fréttist af koníaksgalloninu var, að klukkan eitt þegar Gosi í vínbúðinni opnaði nývaknaður, frekar úldinn eftir hádegislúrinn, skeiðaði Jón inn hallandi gólfið og spurði.
„ Hvað þarf ég að bæta við til að fá fimm brennivín?“.
("Beinið" bar nafn margrómaðrar traktorsgröfu, djásni, sem bærinn átti.)
Sig. Fanndal.
Jón Sigurbjörnsson og Gestur Fanndal; ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson. Jón Frímann Sigurbjörnsson var fæddur: 27-07-1914 Dáinn: 31-10-1987
=========================================
Önnur saga af Jóni Sigurbjörnssyni, og presti.
Eins og fram kom hér fyrir ofan þá þekkti Jón skil á flestum ef ekki öllum skólplögnum bæjarins og vart kallað út lið nema hann væri þar með í hóp þegar einhver lögnin stíflaðist eða fór í sundur á þeim tíma sem hann vann hjá bænum.
Séra Ragnar Fjalar þurfti á aðstoð að halda vegna stíflaðs frárennslis frá prestsetrinu við Hvanneyri. Ekki var lengur hægt að skola niður frá salerni vegna stíflunnar.
Að fyrirmælum Jóns hófu starfsmenn áhaldahússins gröftinn í hallanum upp á hólinn við akbrautina suður af prestsetrinu.
Fljótlega komust starfsmennirnir niður á skólplögnina nákvæmlega þar sem Jón hafði sagt lögnina vera.
Þá greip Jón járnkarl og teygði sig í átt að rörinu sem var steinsteypt 6" rör. Hann stakk járnkarlinum með afli á rörið sem brast undan högginu.
Jón vissi greinilega hvað mundi ske því hann var viðbúinn gusunni sem gaus upp í loftið. Hann slapp þó ekki alveg við óþverrann sem upp úr ræsinu kom, eins og vænta mátti. Hann bölvaði hressilega og beið svo eftir að rennslið frá rörinu minnkaði .
Jón og félagar tók sig til og létu fjöðrina ofan í gatið og losuðu um stífluna sem var neðar .
Á meðan á þessu stóð tók Jón sig til og fór að týna upp ákveðna tegund hluta sem upp höfðu komið með gusunni og raðaði þeim snyrtilega á kantinn ofar við götuna.
Hann tók síðan hrífu og sóp til að hreinsa svæðið af hinu venjulega góssi sem um skólplagnir renna og mokaði því síðan með skóflu smátt og smátt ofan í gatið sem hann hafði brotið á rörið.
Félagar Jóns glottu þegar þeir sáu hvað það var sem Jón hafði raðað við vegkantinn. En þeir urðu hálf vandræðalegir þegar þeir sáu prestinn koma upp brekkuna í átt til þeirra. Prestur sagði brosandi.
"Þið hafið greinilega látið hendurnar standa fram úr ermunum drengir" og tók smá sveig framhjá blautu svæðinu á leið sinni heim að prestsetrinu.
"Já" sagði Jón hátt og snjallt. "Það má nú einnig segja um þig ef marka má þetta" og benti Jón á 12 notaðar verjur sem hann hafði raðað við vegkantinn.
Ekki var að sögn, gott að átta sig hvor voru vandræðalegri presturinn sem flýtti sér framhjá, eða félagar Jóns sem hálft í hvoru ofbauð kímni félaga síns.
En hlógu þó dátt þegar farið var af vettvangi eftir að hafa komið svæðinu í eðlilegt horf.
ES. Ég hefi heyrt tvær aðrar, líkar útgáfur af þessum atburði, en þessi þykir mér best. SK