Andrés og Ingibjörg

Morgunblaðið  17. ágúst 1991  -- Ragnar Fjalar Lárusson.

Hjónaminning: Andrés Hafliðason og Ingibjörg Jónsdóttir

Andrés Hafliðason og Ingibjörg Jónsdóttir  -- Ingibjörg fædd 12. nóvember 1890 dáin 26. maí 1961  - Andrés fæddur 17. ágúst 1891 dáinn 6. mars 1970

Þegar ég lít til baka og minnist þeirra ára, sem ég var prestur á Siglufirði, hlýnar mér um hjartarætur, því að þetta voru góð ár með góðu fólki.  Margir af samstarfsmönnum mínum og vinum frá þessum árum eru nú horfnir úr hópnum, en minningin um þá lifir. Meðal þeirra, sem hæst ber í þessum hópi eru merkishjónin Ingibjörg Jónsdóttir og Andrés Hafliðason, og það er markmið þessarar greinar að minnast þeirra, því að í dag eru liðin hundrað ár frá fæðingu Andrésar.

Hann fæddist á Siglufirði 17. ágúst 1891. Foreldrar hans voru hjónin Hafliði Guðmundsson, hreppstjóri og kona hans Sigríður Pálsdóttir, bæði voru þau ættuð af Suðurlandi og fædd í Reykjavík. Hafliði Guðmundsson fluttist til Siglufjarðar 1877, mun það hafa verið fyrir áeggjan Snorra Pálssonar verslunarstjóra Gránufélagsins, en hann var mikill framfaramaður á sinni tíð, hefir honum eflaust litist vel á hinn unga mann. Hafliði varð brátt einn af forystumönnum hreppsins, var lengi hreppstjóri og gegndi mörgum trúnaðarstörfum, og heimili þeirra hjóna var þekkt fyrir gestrisni og myndarskap.

Andrés ólst upp á heimili foreldra sinna, voru systkinin fimm er náðu fullorðinsaldri og voru öll hið mannvænlegasta fólk. Helgi var kaupsýslu- og útgerðarmaður á Siglufirði um langt skeið, Guðmundur var lögregluþjónn og hafnarvörður og systurnar Kristín og Ólöf voru giftar ágætum mönnum og lengi húsfreyjur á Siglufirði við rausn og myndarskap.

Andrés fór snemma að stunda verslunarstörf, fyrst við verslun Helga bróður síns og síðan við Gránufélagsverslunina, og þar kom, að hann stofnaði eigin verslun, sem hann rak í nokkur ár. Síðar gerðist hann umboðsmaður Olíuverslunar Íslands á Siglufirði og hélt þeim starfa ævilangt. Andrés tók virkan þátt í félagslífi og bæjarmálum Siglufjarðar. Hann var í bæjarstjórn um skeið, í skólanefnd og fleiri trúnaðarstörfum gegndi hann, hann var sæmdur riddarakrossi fyrir félagsstörf sín. Eitt þessara starfa hans ber þó lang hæst í huga mínum: Það var starf hans í þágu kirkjunnar. Hann átti sæti í sóknarnefnd um margra ára skeið, lengst af formaður nefndarinnar og hann var meðhjálpari í Siglufjarðarkirkju hluta af þessum tíma. Það er óhætt að segja, að hann hafi verið einskonar "kirkjumálaráðherra" á Siglufirði um margra ára skeið. Áhugi hans á þessum málum var mikill og einlægur. Hann var stjórnsamur mjög og minnti mig á hundraðshöfðingjann, sem sagt er frá í guðspjöllunum og tjáði sig á þessa leið: Ég segi við þennan: Far þú og hann fer, og við annan: Kom þú og hann kemur, og við þjón minn: Gjör þú þetta og hann gjörir það.

Þannig var Andrés: stjórnsamur og stundum skipandi, en þó svo hjartahlýr og mildur í lund. Andrés unni kirkjunni sinni. Óþreytandi var elja hans fyrir hana. Stundum gaf hann henni góðar gjafir. Ef ég man rétt þá liggur á altari Siglufjarðarkirkju biblía í glæstu skinnbandi með fagurri silfursmíð. Það er gjöf hjónanna Ingibjargar og Andrésar. Og hlut átti hann að máli, er afkomendur Hafliða hreppstjóra Guðmundssonar gáfu kirkjunni fagran hátíðarhökul.

Og þá kem ég að öðrum þætti þessa máls, en það eru minningar mínar um frú Ingibjörgu Jónsdóttur. Hún var fædd á Akureyri 12. nóv. 1890, og var því nokkrum mánuðum eldri en Andrés. Foreldrar hennar voru hjónin Jón Jónsson, verslunarmaður og Jóhanna Gísladóttir, búsett á Akureyri, og voru þau hjónin skagfirsk í ættir fram. Var í ætt hennar margt merkra manna og landskunnra, m.a. sr. Friðrik Friðriksson, stofnandi KFUM, Jón Stefánsson. listmálari, Jón Sigurðsson, alþingismaður frá Reynistað o.fl.

Ingibjörg ólst upp á heimili foreldra sinna til tvítugsaldurs ásamt systkinum sínum, en þau voru: Gunnlaugur Tryggvi, sem um langt skeið rak bókaverslun á Akureyri, Helga, sem gift var Skafta Stefánssyni, útgerðarmanni á Siglufirði, Alfreð, verkamaður á Akureyri, og hálfsystir Guðrún, sem húsfreyja var í Eyjafirði.

Leiðir Ingibjargar lágu til Siglufjarðar, hún gerðist aðstoðarstúlka frú Sigríðar, konu Hafliða hreppstjóra og varð dvöl hennar á þessu heimili lengri en ungu stúlkuna óraði fyrir. Segja má að þarna hafi hún stigið sitt gæfuspor. Andrés og Ingibjörg gengu í hjónaband 4. desember 1915. Þau stofnuðu heimili sitt að Aðalgötu 19. Heimili þeirra var í huga mínum arftaki heimilis Hafliða hreppstjóra og þar bjuggu þau hjónin saman þar til Ingibjörg lést 1961. Ég átti mörg spor inn á heimili þeirra. Það var staðsett í hjarta bæjarins og stóð öllum opið til greiða og gestrisni. Í huga mínum er sérstakur blær yfir heimili þeirra, einhver gömul reisn, einhver höfðingsblær, sem vermdur var af hjartahlýju húsbændanna.

Ingibjörg stóð dyggilega við hlið manns síns í öllum störfum hans. Hjartahlýja hennar og greiðasemi var rómuð. Hún mátti ekkert aumt sjá. Hún var kona góð, sem hafði hjartað á réttum stað. Já, hún var allra kvenna greiðugust og hugulsömust við þá, sem bágindi steðjuðu að. Henni var það mikið ánægjuefni, að geta borið birtu og yl til þeirra, sem í skugga sátu.

Ingibjörg var bókhneigð kona og vel að sér um marga hluti. Hún tók fyrr á árum virkan þátt í ýmsum félagsskap kvenna, var m.a. stofnandi að líknarfélagi, sem starfaði á Siglufirði um skeið og síðar í Kvenfélaginu Von.

Þeim hjónum varð þriggja barna auðið: Hafliði, fulltrúi í Reykjavík, hann er látinn, hann var kvæntur Guðrúnu Eiríksdóttur, næst er Jóhanna Sigríður, búsett í Hafnarfirði, var gift Vigfúsi Sigurjónssyni skipstjóra en hann er látinn og loks Hinrik, umboðsmaður á Siglufirði, hann er kvæntur Margréti Pétursdóttur.

Nú er öld liðin síðan þau fæddust blessuð hjónin Ingibjörg og Andrés. Við, sem kynntumst þeim blessum minningu þeirra og við þökkum þeim og öðrum, sem gengnir eru af þeirra kynslóð fyrir það, að skila landinu betra en við því var tekið.

Ég vil að þessar línur flytji bestu kveðjur okkar hjónanna til allra Siglfirðinga. Í þessari norðlægu byggð, í skjóli hárra fjalla áttum við hjónin að sumu leyti okkar bestu ár, fyrir það erum við þakklát.

Guð blessi Siglufjörð um ókomin ár.

Ragnar Fjalar Lárusson