Brunar 1954-1955

Nokkrar stuttar frásagnir af bruna á Siglufirði 1954-1955

Morgunblaðið 26 febrúar 1954 - Siglufirði, 25. febr.

Leikfimihús barnaskólans á Siglufirði stórskemmist af eldi 

LEIKFIMISHÚS barnaskólans hér í bænum skemmdist mikið í nótt er eldur kom upp í því. Mun leikfimiskennsla falla niður um ófyrirsjáanlegan tíma af þeim sökum. 

UM MIÐNÆTTI 

Eldsins varð vart um miðnætti, en leikfimishúsið er áfast við barnaskólann. — Leikfimissalurinn brenndist allur og sviðnaði að innan. Þá urðu allmiklar skemmdir í búningsklefum og snyrtiherbergjum. Einnig eyðilögðust öll leikfimiskennsluáhöld. 

GAS ÆSTI ELDINN 

Grunur manna hér er að gas hafi myndazt út frá ullardýnum, sem lágu ofaná rafmagnsdælu, sem dælir vatni í miðstöðvar kerfi hússins. Hafi sprenging orðið í gasinu og eldurinn þá magnast mjög, en um eldsupptök er ókunnugt. 

Slökkviliðið, sem var kallað á vettvang tókst skjótt að ráða niðurlögum eldsins og aldrei komst hann í sjálft skólahúsið. Þar urðu nokkrar reykskemmdir og eins af vatni. Kennsla í skólanum getur ekki farið fram fyrr en eftir helgi. — Stefán. 

-----------------------------------------------  

Mjölnir 4 mars 1954

Bruni í Barnaskólanum s.l. miðvikudagskvöld á tólfta tímanum kom upp eldur í leikfimihúsi Barnaskóla Siglufjarðar. Eldsins mun hafa orðið vart svo að segja strax og kom slökkviliðið á vettvang eftir örstutta stund. Tókst því fljótt að ráða niðurlögum eldsins. Leikfimihúsið brann og sviðnaði innan svo að það er algerlega ónothæft, og verður ekki notað meira í vetur. Áhöld öll, sem þar vöru, gereyðilögðust.

Einnig urðu miklar skemmdir í kjallara gamla hlutans af skólahúsinu og gangar og stofur skólans fylltust af reyk. Farið hefur fram undirmat og yfirmat á þeim skemmdum, sem urðu á húsinu, og er niðurstaða yfirmatsins samt kl. 92.500,00. — Skemmdir á áhöldum voru metnar 64 þús. kr. Rannsókn vegna brunans er nú lokið, og er talið, að kviknað hafi í út frá rafmagni. Kennsla í skólanum hefur legið niðri síðan bruninn varð, en hefst að nýju einhvern næstu daga.

-----------------------------------------------

Siglfirðingur 11. mars 1954 (frétt)

Leikfimihús Barnaskólans og áhöld  skemmdust af eldi

Miðvikudagskvöld 24. febrúar. síðastliðið, kom upp eldur í leikfimihúsi  Barnaskóla Siglufjarðar. Fljótlega mun hafa orðið eldsins vart. Slökkvilið bæjarins kom strax á  vettvang og tókst fljótt að ráða  niðurlögum. eldsins.

Leikfimihúsið skemmdist mikið,  og verður ekki nothæft í vetur. Öll áhöld eyðilöguðust alveg.  Skemmdir urðu talsverðar í  kjallara gamla hluta skólahússins. Einnig fylltust gangar og stofur  skólans af reyk.

Framkvæmt var mat á skemmdunum, en af hálfu vátryggingarfélags var beðið um yfirmat, og  er niðurstaða yfirmats kr.  92.500,00 fyrir hús, en skemmdir  á áhöldum voru metnar á kr  64.000, 00. 

Rannsókn á brunanum er lokið- og talið, að kviknaði hafi í út  frá rafmagni. Engin kennsla fór fram í skólanum eftir brunann, en er nú  hafin að nýju.

-------------------------------------------------

Alþýðublaðið 17 september 1954

Brunarústir í stað leikfimihúss fyrir siglfirzk skólabörn

Enn hefur leikfimishúsið er brann á Siglufirði, ekki verið endurbyggt. Fregn til Alþýðublaðsins SIGLUFIRÐI í gær.

ALLT ÚTLIT er fyrir að skólabörn á Siglufirði geti ekki stundað leikfimi á vetri komanda. Er enn ekki hafin endurbygging fimleikahússins er brann s.l. vetur. Ekki hefur heldur farið fram nein viðgerð á hinum gamla fimleikasal og vantar siglfirzk skólabörn því tilfinnanlega húsnæði til að geta stundað leikfimi á komandi vetri.

EKKERT BYGGT Á ÞESSU ÁRI. 

Litlar horfur eru á því að hafin verði endurbygging leikfimishússins á þessu ári. Mun bæjarstjórnar meirihlutinn á Siglufirði hafa undirbúið málið mjög illa og viðræður hafizt seint við fræðslumálastjóra og íþróttafulltrúa. Liðu 3 mánuðir þangað til viðræður hófust við fræðslumálastjóra og íþróttafulltrúa, en síðan var málið í athugun hjá þeim í 2 mánuði og þar að auki tæpan mánuð hjá menntamálaráðuneytinu. Varð niðurstaðan af öllum athugunum sá að útilokað væri að hefja endurbyggingu leikfimihússins á þessu ári.

TILLAGA UM VIÐGERÐ TIL BRÁÐABIRGÐA.

Er sýnt var í hvert óefni var komið var með mál þetta  báru minnihlutaflokkarnir í bæjarstjórn fram eftirfarandi tillögu: Bæjarstjórn láti rannsaka jafnframt því sem undirbúningur er hafinn um endurbyggingu og viðgerð barnaskólans, hvort til bráðabirgða sé hægt að gera leikfimihúsið svo úr garði að leikfimi yrði kennd þar á vetri komanda. Ekki sá þó þessi tillaga náð fyrir augum meirihlutans og verða því siglfirz skólabörn að láta sér nægja brunarústirnar einar í stað leikfimishúss í vetur.

Ath sk 2017: Synd væri að segja að embættismannakerfið hér á Siglufirði og þarna hjá þeim í 101 fyrir sunnan hafi verið lipurt og vel smurt.

-------------------------------------------------

Alþýðublaðið 12 júlí 1955 Fregn til Alþýðublaðsins, Siglufirði í gær

Eldsvoði á Siglufirði í gær: 

8 ára telpa með 10 mánaða barn slapp með naumindum úr bruna. 

Íbúðarhæð gereyðilagðist í eldinum.

ELDSVOÐI varð hér á Siglufirði í dag, Gereyðilagðist heil íbúðarhæð í eldinum og 8 ára gömul telpa er var í húsinu með 10 mánaða gamalt barn slapp með naumindum, Eigandinn, Ólafur Gíslason, verkamaður, varð fyrir tilfinnanlegu tjóni. 

Eldurinn kom upp um 3-leytið í dag. Voru þau hjónin Ólafur og kona hans úti að vinna bæði, en heima voru tvær 8 ára gamlar telpur og gætti önnur þeirra 10 mánaða gamals barns. Eldurinn breiddist mjög snögglega út og fyrr en varði var íbúðin orðin alelda. Kom mikið fát á telpurnar og hlupu þær út snöggklæddar. Gerði önnur þegar viðvart um eldinn. Og kom slökkviliðið fljótlega á vettvang.

INNBÚIÐ ÓNÝTT

Húsið var tveggja hæða timburhús og gereyðilagðist efri hæðin eins og fyrr segir. Innbúið mun einnig hafa brunnið að mestu, en það mun hafa verið tryggt. Eigandi hússins, Ólafur Gíslason verkamaður, hefur þó orðið fyrir tilfinnanlegu tjóni við eldsvoðann. 

S S.

-------------------------------------------------

Tíminn 12 júlí 1955 Frá fréttaritara Tímans í Siglufirði

Íbúðarhús brennur í Siglufirði

Í gær stórskemmdist íbúðarhús í Siglufirði í eldi. Var það húsið Túngata 9, sem er timburhús, 1 hæð og ris með steyptum kjallara. Eigandi þess er Ólafur Gíslason. Bjó hann í húsinu með konu sinni og börnum. Þegar eldurinn kviknaði var húsfreyjan við síldarsöltun, en húsbóndinn við vinnu sína hjá síldarverksmiðjunum.

Heima var átta ára dóttir þeirra með 10 mánaða barn. Henni tókst að forða sér er eldsins varð vart. Segir hún eldsupptök þau, að hún hafi haft rafmagnsofn í sambandi, sem líklega hefir staðið það nærri glugga, að eldur komst í gluggatjöldin. Innbú eyðilagðist allt að kalla í eldinum og íbúðarhæðin brann að mestu. Húsið var vátryggt fyrir 120 þús. kr. Húsið er um 70 ferm. að stærð.

-------------------------------------------------

Siglfirðingur 15 júlí 1955

Húsbruni í Siglufirði íbúðarhús Ólafs B. Gíslasonar, Túngötu 9, skemmist mikið af eldi. Allir innanstokksmunir, fatnaður og eldhúsáhöld brunnu eða skemmdust af eldi, reyk og vatni. 

Klukkan rúmlega 3 síðd. á mánudag 11. júlí síðastl. kom upp eldur í húsinu nr. 9 við Túngötu hér í bæ, sem er eign Ólafs B. Gíslasonar. Húsfaðirinn var við vinnu í síldarverksmiðjum ríkisins og húsmóðir og elzta dóttir voru í síldarsöltun.

Heima voru 3 litlar telpur og ungbarn. Tveir menn áttu leið um götuna og sáu eldinn blossa út um einn gluggann og hlupu inn í húsið. Telpurnar, sem voru í næsta herbergi, þustu út og tóku ungbarnið með sér. Á svipstundu hafði eldurinn læst sig um allt húsið. Slökkviliðið kom skjótt á vettvang og tókst eftir hálfa klukkustund að ráða niðurlögum eldsins. Húsið er einlyft timburhús á kjallara úr steini.

Má svo heita, að öll skilrúm og innrétting hafi brunnið, en eldur náði ekki til þaks eða kjallara. Allir innanstokksmunir og fatnaður brunnu. Er þetta mikið tjón og tilfinnanlegt fyrir fátæka fjölskyldu að verða fyrir slíku. Er full þörf á, enda viðeigandi, að Siglfirðingar rétti þessu fólki hjálparhönd, og bæti því að einhverju leyti það tjón, sem það hefur orðið hér fyrir.

Fréttzt hefur, að margir hafi brugðið fljótt og vel við og bætt úr sárustu þörfinni og væri vel að fleiri kæmu á eftir. Að öllum líkindum verður samskotalisti látinn fara, og eru það vinsamleg tilmæli, að fólk taki honum vel og láti eitthvað af hendi rakna. 

-------------------------------------------------

Mjölnir 21 júlí 1955   

HÚSBRUNI

Verkamannafjölskylda missti  heimili sitt.

Um kl. 3 e.h. mánudaginn 11.  þ.m. kom upp eldur í húsi Ólafs  B. Gíslasonar, Túngötu 9. Voru  bæði hjónin og elsta dóttir þeirra  við vinnu úti, en heima var ungbarn og litlar systur þess, sem  gættu þess. Húsið varð fljótt alelda, en  slökkviliðinu, sem kom fljótt á  vettvang tókst eftir h.u.b. hálfa  klukkustund að ráða niðurlögum  eldsins.

Húsið er einlyft timburhús á steinkjallara. Brann það  að mestu leyti að innan, svo og  allir innanstokksmunir fjölskyldunnar, fatnaður og áhöld.

Engum blandast hugur um, að  tjón þessarar fjölskyldu er mikið.  Þótt eigur fátækrar verkamanns fjölskyldu leggi sig ekki á upphæðir, sem um þyki talandi á  fjármálasviði dagsins í dag, þá  eru þær þó það verðmætasta og  besta, sem hún á. Missir þessara  eigna er því þyngri en tölum  taki, þótt þær að einhverju leyti  fáist bættar.  

Fyrir nokkrum árum átti þessi  fjölskylda heima í nýrri íbúð í  verkamannabústöðunum við  Hvanneyrarbraut, þar sem hún  undi vel og vildi búa áfram. En  hin óöruggu lífskjör verkamannsins hafa bitnað hvað harðast á  henni. Vanheilsa húsbóndans um  tíma og langvarandi atvinnuleysi  urðu þess valdandi, að hann gat  ekki staðið í skilum með greiðslur vegna íbúðar sinnar og  neyddist til að láta hana af hendi  og fluttist þá í þetta hús, sem nú  varð eldinum að bráð.  

Þegar svona vill til, er það  skylda samborgaranna að rétta  hjálparhönd, enda munu margir  hafa gert það þá strax og bruninn hafði skeð. Þá er einnig vitað, að á nokkrum söltunarstöðvum tóku konur sig saman um að  láta eitt merki af söltun eins  dags frá hverri renna til konu  Ólafs. Er þetta til fyrirmyndar  og ættu konur á öllum söltunarstöðvum að gera slíkt hið sama. 

Þá hefur skrifstofa Þróttar sent  söfnunarlista á öll plön og stærri  vinnustaði, og er þess vænst, að  verkamenn sýni bróðurhug sinn  með framlögum til styrktar  Ólafi og fjölskyldu hans.