Alþýðuhúsið brennur

Þessi mynd af Alþýðuhúsinu birtist með fréttinni frá Verkalýðsblaðinu

Samkomuhús kommúnista í Siglufirði skemmist mikið af eldi.

Verkalýðsblaðið 18 október 1935

Alþýðuhúsið á Siglufirði brann í nótt

Hefir verið kveikt í því eins og reynt var með gamla Verkalýðshúsið?  -- Réttarhöld í dag

Siglufirði í morgun. Alþýðuhúsið brann í nótt og gjöreyðilagðist, með öllu sem í því var. Húsið sjálft var vátryggt, en allt sem í því var, innanstokksmunir, borð, stólar, eignir verklýðsfélaganna, bækur, fánar, upplag Verkamannsins og Verklýðsblaðsins, sem allt brann til kaldra kola, var óvátryggt.

Enginn veit um upptök eldsins. En eftir hina landfrægu tilraun fasistanna til að kveikja í gamla verkalýðshúsinu og þar sem þorparar þessir voru hvattir til frekari illverka, með því að láta þá sleppa við refsingu, dettur alþýðu Siglufjarðar ýmislegt í hug. Siglfirzki verkalýðurinn er nýbúinn að koma sér upp þessu prýðilega húsi með frábærri fórnfýsi og dugnaði. Allur verkalýður landsins mun votta siglfirzku félögunum samúð sína, eigi aðeins í orði, heldur líka í verki.
-----------------------------------------

Alþýðublaðið 19 október 1935

Enn einn húsbruninn á Siglufirði. Samkomuhús kommúnista brann i fyrri nótt.

Í fyrri nótt kviknaði í Alþýðuhúsinu" á Siglufirði, samkomuhúsi kommúnista þar. Brann að mestu leyti vesturhluti hússins, og eyðilögðust innanstokksmunir ásamt leiktjöldum. Húsið var nýlega byggt steinsteypuhús og var með stærstu samkomuhúsum á Siglufirði. Var vesturhluti þess tvílyftur, en austurhlutinn einlyftur.

Á þriðja tímanum um nóttina gekk maður framhjá húsinu, og sá hann þá, að eldur var uppi í vesturhluta hússins. Kvaddi hann þegar slökkviliðið á vettvang og hafði það slökkt eldinn kl. að ganga sex um morguninn. Kommúnistar höfðu setið á fundi í húsinu um kvöldið, og hafði húsvörðurinn yfirgefið húsið síðastur allra um ellefu-leytið um kvöldið.

Húsið var vátrygt hjá Brunabótafélaginu fyrir 30 þúsund krónur, en innanstokksmunir voru óvátrygðir.
---------------------------------------------------------------

Morgunblaðið 19 október 1935 - EINKASKEYTI TIL MORGUNBLAÐSINS

Eldsupptök eru enn ókunn.

Siglufirði í gær. . Í nótt kom upp eldur í samkomuhúsi Kommúnista hjer í bænum. Vesturhluti hússins eyddist að mestu og varð mikið tjón á innanstokksmunum, og leiktjöldum. Hús þetta var alment kallað „Alþýðuhús" og stóð neðarlega á Eyrinni við Ránargötu.

Þetta var annað stærsta samkomuhús bæjarins, bygt í fyrrahaust. Húsið var bygt úr steinsteypu og var því þannig háttað að austurhluti þess var einlyftur, en vesturhluti tvílyftur. Í austurhlutanum var stór samkomusalur. En í vesturhlutanum var minni samkomusalur, leiksvið, eldhús, fata- og snyrtiklefar og andyri.

Eldsins verður vart

Klukkan að ganga 3 um nóttina, gekk maður fram hjá húsinu og tók hann þá eftir því, að eldur var í vesturhluta hússins og hafði eldurinn breiðst út á báðar hæðir. Gerði hann slökkviliðinu aðvart og kom það fljótt á vettvang. Trygt var hjá Brunbótafjelagi Íslands fyrir 30 þúsund krónur. 

Upptökin ókunn. Rjettarhöld voru haldin hjer i dag út af brunanum, en ekkert upplýstist um upptök eldsins. J .