Um gluggana í Siglufjarðarkirkju
Grein eftir Sverri Pál Erlendsson
Sverrir Páll Erlendsson -
Mynd tekin frá Facebook síðu hans og inn settur bakgrunnur (sk)
Ég hafði lengi velt því fyrir mér hvers vegna steindu gluggarnir í Siglufjarðarkirkju væru gerðir af þýskri listakonu en ekki íslenskri, ekki síst vegna þess að ein þekktasta glerlistakona Íslands er Siglfirðingur. Með góðra manna hjálp og ábendingum komst ég að þessu og segi nú agnarögn frá.
Í safnaðarblaðinu Kirkjuklukkunni á Siglufirði frá desember 1973 er sagt að Safnaðarnefnd hafi ráðist í að endurnýja gluggana til að koma í veg fyrir skemmdir á kirkjuhúsinu. Haft hafi verið samband við fyrirtækið Oidtmann í Þýskalandi af því að gluggarnir ættu að vera myndarlegir og til fegurðar og yndisauka. Fyrirtækið hafi fengið þekkta þýska listakonu, Mariu Katzgrau (1912-1998), til að teikna gluggana og safnaðarnefndin hafi samþykkt teikningarnar. Gluggarnir voru svo gerðir og settir í árið 1974.
Oidtmann-feðgar eru vel þekktir hér á landi og hafa verið afar mikilvirkir við uppsetningu alls kyns listaverka vítt og breitt um veröldina, meðal annars hérlendis, þar sem þeir hafa til dæmis sett upp mósaikmyndina stóru eftir Gerði Helgadóttur á Tollstöðvarhúsið í Reykjavík og kirkjugluggana í Kópavogskirkju. Í grein safnaðarnefndarinnar í Kirkjuklukkunni er hins vegar ekki minnst orði á starf þeirra feðga með öðrum íslenskum listamönnum, til dæmis Höllu Haraldsdóttur, sem er ásamt Leifi Breiðfjörð einn þekktasti og afkastamesti glerlistamaður á Íslandi. Og Siglfirðingur að auki.
Ég neita því ekki að þessi áhugi minn á tilurð kirkjugluggana kom til af því að mér var nánast óskiljanlegt að nafn Höllu Haraldsdóttur skyldi hvergi hafa verið nefnt í þessu sambandi og ég hafði einhvern veginn á tilfinningunni að eðlilegt hefði verið að sóknarnefndin leitaði til hennar um að gera gluggana. Skýringar á því fann ég síðar.
Ég heimsótti Höllu Haraldsdóttur, þar sem hú bjó í Garðabæ, og hún sagði mér að skýringin á því af hverju hún hefði ekki gert gluggana í Siglufjarðarkirkju væri einfaldlega sú að hún hafi ekki verið byrjuð að vinna svona glerlistaverk þegar þetta var gert 1973-74. Þegar Oidtmann-bræður hefðu komið til að setja upp gluggana 1974 hefðu þeir búið heima hjá Ólafi lækni. Um það leyti hefði Gerður Helgadóttir verið nýlátin og þeir bræður hefðu verið að svipast um eftir öðrum íslenskum listamanni til að vinna með. Ólafur hefði sýnt þeim verk eftir sig, meðal annars myndina sem Halla gerði fyrir Sjúkrahúsið. Þeir hefðu hrifist af þeim verkum sem þeir sáu og sett sig í samband við hana og boðið henni að koma í nám til þeirra í Þýskalandi. Hún hafi ekki verið tilbúin, fullorðin kona, að fara i 3 ára nám til útlanda, en sagði að þeir bræður hefðu sent sér gjafir og kveðjur um hver jól og þremur árum seinna boðið henni og Hjálmari manni hennar í heimsókn. Þá hefði hún ekki staðist freistinguna og farið og lært hjá þessum mönnum.
Halla sagðist hafa kynnst fólki víða að úr heiminum á árunum þegar hún var í Þýskalandi, meðal annars Mariu Katzgrau, sem gerði gluggana í Siglufjarðarkirkju, sérlega indælli og góðri konu. En það hefði svo verið afskaplega skemmtilegt að alllöngu síðar hefði Halla gert tvo glugga, sem eru uppi á lofti í Siglufjarðarkirkju, meðal annars gluggann á vesturstafninum á kapellunni - svo hún ætti eftir allt verk í gömlu kirkjunni sinni - en á kirkjuloftinu var hún auðvitað í gagnfræðaskóla. Þetta mál var sem sagt þar með leyst.
Helga Pálmadóttir, fósturdóttir sr. Óskars J. Þorlákssonar og Elísabetar konu hans, var skólasystir Helgu Haraldsdóttur og sat með henni 2 vetur í skólanum á Kirkjuloftinu. Hún minntist þess að Helga hefði verið sérlega leikin við að teikna og og hjálpað sér við þá iðju, og talað um það líka hvað sig langaði til að fara til útlanda að læra að teikna og mála. Það hefði þó ekki orðið fyrr en löngu, löngu seinna að sá draumur hefði ræst.
Halla Haraldsdóttir fæddist á Siglufirði 1. nóvember 1934, dóttir Harldar Sölvasonar og Guðrúnar Brynjólfsdóttur. Eiginmaður hennar var jafnaldri hennar og skólabróðir, Hjálmar Stefánsson, en þau fluttust á Suðurnes og bjuggu þar lengi. Síðast bjó Halla í Garðabæ og lést 23. nóvember 2023, 89 ára að aldri.
Heimildir:
Siglufjarðarkirkja 1932-1982
Íslendingabók
Helga Pálmadóttir
Sigurður Ægisson
Sverrir Páll