Páll Jónsson, (Sillu)

Páll Jónsson Siglufirði

Páll Jónsson.  Fæddur 21.júní 1912 - Dáinn 18. febrúar 1982

Varnarleysi lífsins gagnvart dauðanum er almælt. Jú, horfa uppá sína nánustu kveðja þennan heim án þess að geta gripið inní atburðarásina, gert eitthvað. Orrustan tapast og þá er máttur mannsins, þessarar voldugu skepnu, smár. Mér verður stirt um stef þegar ég nú stoppa við til þess að skrifa um vin minn og tengdaföður látinn.

Það var veturinn 1962 að kynni okkar Páls Jónssonar hófust umfram það sem gerist og gengur í byggðarlagi eins og Siglufirði, þar sem allir þekkja alla. En þá tók ég að venja komur mínar á heimili hans að sækja heim einkabarnið, skærasta ljósið í lífi þessa manns, sem nú er allur. Páll Sigurvin Jónsson hét hann fullu nafni og var fæddur að Jaðri í Dalvík.

Foreldrar hans voru 

Jóhanna Halldórsdóttir, ættuð úr Hörgárdal og 

Jón Ágústsson, Svarfdælingur.

Páll var elstur 7 systkina, en þau eru: 

Óli Jónsson sjómaður á Dalvík nú látinn, 

Ragnar Jónsson póstmaður á Dalvík, 

Árni Jónsson matreiðslumaður í Reykjavík, 

Almar Jónsson verzlunarmaður á Dalvík, 

Kristján Jónsson matreiðslumaður í Hafnarfirði og yngst systirin 

Sigríður Jónsson húsmóðir að Hofsárkoti í Svarfaðardal.

Hlutverk Páls var, eins og margra í þann tíð, að byrja ungur að vinna fyrir sér og sínum, hjálpa til við að sjá farborða þungu barnmörgu heimili, þar sem heimilisfaðirinn var ekki heilsuhraustur. 14 ára gamall fór hann á sjóinn og var lengstum viðloðandi hann framanaf, ýmist sem sjó- eða landmaður.

Hann var verklaginn svo að í minnum er haft og eftirsóttur til vinnu. Gamlir vinnufélagar hans hafa haft á orði við mig að útsjónarsamari og skemmtilegri verkmaður væri vandfundinn. Sama hvort unnið var við beitingu, flatningu, flökun eða að passa og þrífa vélar og tæki, en við það var hann sérlega laginn og hafði gaman af.

Aðeins 12 ára gamall eignaðist Palli sína fyrztu byssu og varð fljótt afburða góð skytta. Kom það sér oft vel þegar lítið var á borðum hjá fjölskyldunni stóru. Ungur að árum hóf hann trésmíðanám á Akureyri, en hætti fljótt, því aurarnir entust skammt og svo var þörfin brýn fyrir hendurnar heima.

Oft talaði Palli um, að meðan hann var yngri, hefði hann hvorki haft tíma né fjárráð til þess að kaupa sér verkfæri eða annað til þess að gera ýmislegt sem hann langaði til. En svo þegar rýmdist um síðari árin „þá nennir maður engu". Þetta var mat hans á heilsubresti sínum.

Fjölskyldan bjó á ýmsum stöðum áður en hún flutti að Holti við Dalvík, en þar bjó hún lengst af og við þann bæ var Palli oftast kenndur: Palli í Holti.

Eins og áður sagði var hans aðalstarf að vera við báta, og kom m.a. tiI Siglufjarðar og var hér nokkrar vertíðir.

Kynntist hann þá eftirlifandi konu sinni, 

Sigurlaug Sveinsdóttir frá Steinaflötum í Siglufirði. 

Hófu þau búskap á Dalvík, en fluttu til Siglufjarðar 1941.

Árið 1942 fæddist barn þeirra hjóna og var það skírt 

Rannveig Pálsdóttir eftir systur Sigurlaugar Sveinsdóttur frá Steinaflötum í Siglufirði.

Um það leyti festu þau kaup á húsinu nr. 13 við Hverfisgötu og bjuggu þau alla sína tíð þar, í nágrenni við Steinaflatafjölskylduna. Var þar ætíð mikill samgangur og staðið saman í blíðu og stríðu, því að töluverð veikindi áttu eftir að herja á heimilin bæði. Fljótlega eftir að þau hjónin fluttu til Siglufjarðar fór Páll að vinna hjá Síldarverksmiðjum ríkisins, fyrst í verksmiðjunum, en síðan í frystihúsinu.

Um árabil átti Páll við bakveiki að stríða og lá rúmfastur um nokkurt skeið. Það var honum erfitt tímabil. Síðustu 2—3 árin barðist Palli við hinn falda eld, sem að lokum lagði hann af velli, eins og margan góðan og vaskan drenginn. Palli var fróður og stálminnugur og las allt sem hann komst yfir. Hann var mikill náttúruunnandi og voru ófáar stundir barnabarnanna við að hlusta á afa segja frá blómum, dýrum og öllu mögulegu.

Stundum lagði ég við eyrun og það var með ólíkindum hvað hann kunni og vissi um marga hluti, hafandi ekki annað en rúmlega barnaskólapróf uppá vasann. Ekki höfðum við Palli sömu lífsskoðun, né heldur voru allar mínar gjörðir né orð honum að skapi. En aldrei hraut styggðaryrði frá hans grandvara munni til mín fyrir það eða nokkuð annað. Stórt var umburðarlyndi þessa manns.

Hans er nú sárt saknað af fjölskyldu og vinum.

Mikill er söknuður afabarnanna:

Hrannar,

Páls yngra,

Guðnýjar og

Perlu.

Ekki má gleyma langafabarninu, litlu

Rönnu, sem lífsins skilning öðlast senn.

Ég bið hinn hæðsta höfuðsmið sem öllu ræður að varðveita minningu tryggðatröllsins og prúðmennisins Páls Jónssonar.

Sigurður Fanndal

Páll Jónsson