Árið 1944 - Rauðka - 1

Rauðka

Mjölnir 15. mars 1944

Aftur er Rauðkumálið á dagskrá hér á  Siglufirði. Eins og sagt er frá á öðrum stað í blaðinu, hefur bæjarstjórn samþykkt með öllum greiddum atkvæðum að stækka og endurbyggja verksmiðjuna og veita verksmiðjustjórn heimild til að annast þær framkvæmdir. 

Nú liggur fyrir frá innlendri verksmiðju, Héðni, um smíði á vélum, allar teikningar eru til og áætlun um byggingarkostnað og rekstur. Hefur Snorri Stefánsson verksmiðjustjóri gert áætlanir þessar og teikningar allar og er honum manna best trúandi til þess því hann mun vera einna færastur af hérlendum mönnum á þessu sviði, sökum reynslu sinnar og skarpskyggni. 

Það útaf fyrir sig er gleðiefni og merkilegt tímanna tálkn, að íslens vélsmiðja skuli ver reiðubúinn til að taka að sér smíði á svona verksmiðjuvélum. Það sýnir að við Íslendingar erum að færast í þá áttina, að vera sjálfum okkur nógir. 

Takmark okkar hlýtur að verða það að við getum sjálfir, smíðað okkar framleiðslutæki, hvort sem það eru skip, verksmiðjur eða annað. 

Við höfum því sérstaka ástæðu til að vera stoltir af Rauðku okkar, takist ekki illum öflum einu sinni enn að hindra stækkun hennar. 

Enginn getur sagt með vissu, hvað það hefði kostað Siglufjarðarbæ, að Rauðka var ekki endurbyggð á sínum tíma, þegar ekki stóð á neinu nema samþykkt Ólafs Thors atvinnumálaráðherra. 

En það má þó óhikað fullyrða, að það eru nokkrar miljónir króna. Það mætti því ætla, að ekki væru til þeir Siglfirðingar nú, sem berðust gegn endurbyggingu verksmiðjunnar, þegar fyrir liggur glæsileg rekstraráætlun, sem óhætt er að treysta, og ennþá furðulegra er að slíkir menn skuli bjóða sig fram til trúnaðarstarfa, fyrir bæjarfélagið. 

Hinn gamli fjandmaður Rauðku, Þormóður Eyjólfsson, er þó enn ekki af baki dottinn. Honum nægir það ekki að kjósendur Framsóknarflokksins sýndu honum þá andúð að færa hann niður í þriðja sæti,  á listanum við seinustu bæjarstjórnarkosningar. 

Með bellibrögðum tókst honum þá að flæma vinsælan mann  úr bæjarstjórninni og komast sjálfur að sem annar maður. Allir vita að það var fyrst og fremst fyrir afstöðu sína í Rauðkumálinu, sem flokksmenn Þormóðs veittu honum þessa ráðningu í kosningunum, og nú eftir að hann hefur á ný tekið upp sinn fyrri fjandskap, eiga menn bágt með að trúa því að þetta verði ekki síðasta kjörtímabilið sem hann situr í bæjarstjórn Siglufjarðar. 

Þormóður hefur að vísu orðið undir í flokki sínum, nú í þessu máli, en nógu margir voru þó hans fylgjendur þar til þess að fara þurfi niður í 7. til 8. sæti listans til þess að finna menn sem hefðu sem hefðu heilbrigða afstöðu í málinu.

það kann nú einhver að segja sem svo, það geri lítið til þó Þormóður fjandskapist við Rauðkumálið úr því að það var  samþykkt með öllum greiddum atkvæðum í bæjarstjórn. En það er mesti misskilningur. Að vísu er nú fengið leyfi atvinnumálaráðherra til stækkunar verksmiðjunnar, en annað er komið þar til sögunnar. 

Þegar lánin voru fengin til Skeiðfossvirkjunar, voru allar eignir bæjarsjós, þar með talin Rauðka, veðsett fyrir láninu. Til þess nú að hægt verði að fá fé til endurbyggingar verksmiðjunar, þarf að fá hana leysta úr þessum veðböndum. Á því getur byggingin strandað, ef það fæst ekki.  

Þarna er því enn undir högg að sækja. Að vísu verður það að teljast furðuleg skammsýni svo ekki sé meira sagt, ef  því yrði neitað. Endurbygging Rauðku mundi fyrsta lagi tryggja Skeiðfossvirkjuninni stórauknar tekjur fyrir selt rafmagn, auk þess yrðu eignir bæjarins meiri og hann færari um að standa við skuldbindingar sínar gagnvart lánadrottnum. 

En þrátt fyrir þetta verður þó ekkert fullyrt. Við Siglfirðingar erum orðnir ýmsu vanir frá æðri stöðum og höfum ástæðu til þess að vera tortryggnir. Það er einmitt með tilliti til þess, að um slíka andstöðu gegn málinu geti verið að ræða, sem afstaða Þormóðs Eyjólfssonar og þeirra er honum fylgja, getur verið hættuleg, það sem getur verið erfitt, ef allir Siglfirðingar eru einhuga, verður mun auðveldara þegar hér eru menn sem beita sér gegn málinu. Það er gamla og nýja sagan um kvislingshlutverkið. 

Á meðal almennings hér í bænum eru ekki skiptar skoðanir í þessu máli. Allir sem bera hag og heill bæjarfélagsins fyrir brjósti, eru hiklausir fylgjendur þess. Allir sem  einhvern snefil hafa af framsýni sjá það, að þessi bær á því aðeins framtíð fyrir höndum, að hér verði blómlegt atvinnulíf. Á því er heldur enginn vafi, að allskonar fiskiðnaður á framtíð fyrir sér hér á landi og á það ekki síst við um síldarverksmiðjur. 

Enda heyrist enginn tala um það að síldarverksmiðjur muni ekki vera arðbær fyrirtæki hér á næstu árum, en hafi nokkur verksmiðja skilyrði til að bera sig og sýna góða afkomu. Þá er það endurbyggð Rauðka. 

Við Siglfirðingar höfum að ýmsu leiti farið á mis við þá velsæld sem verið hefur hér á landi á undanförnum “ástandstímum.” 

Hér hefur engin setuliðsvinna verið, heldur jafnvel atvinnuleysi á köflum eins og áður. En við vonum það að eftir stríðið, þegar heilbrigt ástand skaðast, þegar hagsældin fer að byggjast á framleiðslu nauðsynja, þá séu tímar Siglufjarðar komnir. Þá eiga að hefjast hér stórfelldari atvinnuframkvæmdir og blómlegar athafnalíf heldur en nokkru sinni áður. 

En við þurfum að búa okkur undir þá tíma. Skeiðfossvirkjunin verður þar mikilvægur þáttur, því á rafmagns getur ekki nútímaiðnaður þrifist. 

ENDURBYGGING RAUÐKU verður engu ómerkari þáttur, því það er einmitt á slíkum iðnaði, sem framtíð þessa bæjar byggist. 

Það ríður á, að allir Siglfirðingar séu á verði og láti engum skemmdarvörgum haldast uppi að bregða fæti fyrir þetta mál einu sinni enn. Munum að sigur í þessu máli byggist að miklu leyti á því, hve vel við erum samtaka sjálfir.

------------------------------------------------------------------------------

Mjölnir 5. apríl 1944

Rauðka 

Eins og áður hefur verið geti um í blaðinu hefur bæjarstjórn nú samþykkt með öllum atkvæðum að ráðast í byggingu síldarverksmiðju, 5.000 mála á Rauðkulóð.

Nú liggur fyrir leyfi ríkisstjórnar, en eins og menn muna þá var það á þessu leyfi sem stækkun Rauðku stranda 1939 og engu öðru. Ný hindrun er nú komin, sem verður á vegi þessa máls. Bæjarstjóranum hefur orðið það á, að veðsetja allar eignir kaupstaðarins ríkisstjórninni vegna ábyrgðar hennar á virkjunarlánunum. 

Engin vill svo lána til Rauðku, nema ríkisstjórnin veiti veðleyfi er hleypi þeim lánum fram fyrir virkjunarlánin. Með því að gefa ríkisstjórninni svona veð í öllum eignum bæjarins er bæjarstjórn í raun og veru svift fjárráðum. Hún getur engum eignum ráðstafað, ekki selt þær, ekki veðsett, ekki endurbætt eða byggt að nýju á lóðum sínum, nema fá til þess leyfi ríkisstjórnarinnar. 

Bæjarstjórinn hefði aldrei átt að taka það í mál að veita ríkisstjórninni veð í öllum eignum bæjarins. Þetta hefur enginn bær gert á Íslandi og þetta er þvert ofan í það, sem alþingi hafði hugsað sér. Vilji alþingis hefur nú komið ótvírætt fram, og hann er sá, að ríkisstjórnin hafi eingöngu veð í virkjuninni sjálfri og rafveitu kaupstaðarins og ekkert annað. 

Þrír menn hafa verið sendir suður til að fá veðleyfi hjá ríkisstjórninni og til að útvega lán til stækkunarinnar. Þessir menn eiga að krefjast þess, að ríkisstjórnin gefi þegar eftir það veð, sem hún hefur fengið í öðrum eignum bæjarins en virkjuninni og rafveitunni. Ef ríkisstjórnin ekki gerir það tafarlaust, þá er hún beinlínis að brjóta fyrirmæli alþingis í þessu efni. 

Allir Siglfirðingar vona að árangur verði af för þremenninganna til Reykjavíkur og að þeim takist að yfirstíga þær tálmanir sem hindra stækkun Rauðku Og óneitanlega er það gremjulegt ef stækkunin skyldi nú stranda á því, að bæjarstjórnin skyldi láta hafa sig til þess að veðsetja allar eignir bæjarins.