Árið 1945 - Rauka - 7

Erlendur, fógetinn og Rauðka

Siglfirðingur 2. nóvember  1945

Fyrir tæpum tveim árum síðan birtust í Alþýðublaðinu svæsnar árásargreinar á bæjarstjórn Siglufjarðar.
Fyrirsagnirnar voru feitletraðar á fremstu síðu og var allskonar orðalag á þeim: “Megnasta öngþveiti ríkir í bæjarstjórn Siglufjarðar," “Bæjarstjórn Siglu­fjarðar óstarfhæf,” “Það hljóta að fara fram nýjar kosningar á næstunni” o.s.frv.
En það er síður en svo, að árásum þessum hafi linnt, heldur hafa þær fengið á sig persónulegri blæ. 

Er þess skemmst að minnast að í fyrra urðu allir fulltrúar bæjarstjórnarinnar fyrir persónulegum árásum þessa blaðs (nema auðvitað fulltrúar Alþýðuflokksins) í sambandi við ýmis mál, er fyrir bæjarstjórn komu. 

Skrif þessi hafa mælst illa fyrir. Voru á tíma uppi háværar raddir um, að bæjarstjórnin léti stefna Alþýðublaðinu fyrir rógburð, en úr því varð þó aldrei.

Aage Schiöth - Ljósmynd: Kristfinnur

Má nærri geta um það, hvort slík skrif sem þessi séu til þess fallin að auka hróður bæjarbúa út á við eða létta þeim fulltrúum starf það, sem vinna fyrir bæjarfélag sitt. 

Ég fór heldur ekki varhluta af narti Alþýðublaðsins (þótt um smámuni væri að ræða samanborið við annað) og fékk blaðið dæmt í 400 kr. sekt og ummælin dæmd ómerk.

Þótti Neista litla þetta hart að gengið og tók nú upp samskonar baráttu og stóri bróðir í Reykjavík. Hefir hann undanfarið haldið uppi látlausum rógi um menn og málefni og jafnvel þjófkennt heiðarlega borgara þessa bæjar, sem ekkert hafa til saka unnið annað en það að vinna ósleitilega, og af mikilli fórnfýsi, fyrir hagsmunamálum bæjarins. 

Hafa greinar þessar ýmist verið nafnlausar eða undirritaðar af Erlendi Þorsteinssyni, - en vitanlega kannast hann ekkert við óhróðurinn í sunnanblöðunum - segir hann sjálfur. 

I.

Hinn “ólöglegi” formaður og hin “ólöglega” stjórn Rauðku. 

Það virðist óneitanlega hart fyrir lögregluyfirvaldið á staðnum og fyrrverandi fulltrúa hans og settan bæjarfógeta, að þurfa að vera síkveinandi undan ofbeldi því, sem ég, þessi “ólöglegi” formaður beitir þá. Finna þeir enga leið til þess að ná rétti sínum með aðstoð dómsmálaráðuneytisins, sem þeir þó ávallt skýrskota til og þykjast hafa á sínu bandi? Hvað veldur, eru þeir farnir að vantreysta málstaðnum? 

Ég hefi fyrir mér álit hinna færustu lögfræðinga um:

Fógetinn segir að vísu: “Ekki vildi Lárus Jóhannesson t.d. lána nema gamla Rauðkustjórnin skrifaði upp á lánið líka.“ Lárus lánaði þó aldrei neitt, hann var milligöngumaður milli lánveitanda og lántaka, því að fyrrverandi formaður Rauðku, herra Guðmundur Hannesson varð að leita til hans þegar hann var búinn að hoppa, árangurslaust milli láns- og peningastofnana í Reykjavik í heilan mánuð, í þeim tilgangi að útvega fé til endurbyggingu verksmiðjunnar. 

Lárus, sem ekki hafði aðstöðu til að fylgjast með Rauðkudeilunni, sendi afrit af reikningsskilum vegna lántökunnar til gömlu stjórnarinnar og bað um kvittun fyrir. Þetta er það, sem fógetinn kallar “að skrifa upp á lánin.” 

II.

”Ég skrifaði undir,”  segir fógetinn, “áskorunarskjal til ráðuneytisins um að leyfa endurbyggingu Rauðkuverksmiðjunnar 1939.” Þetta a nú að sanna hve heill hann var í Rauðkumálimi þetta árið.

Það er sjálfsagt rétt, að hann veigraði sér við því að ganga í opinbera andstöðu við jafnmikið hagsmunamál bæjarfélagsins eins og endurbyggingarmálið var þetta ár og hefir verið síðan, en honum var vel kunnugt um, að þetta mál mundi vera drepið á hærri stöðum og gerði því undirskrift hans og annarra hvorki til eða frá.

Mergurinn málsins er sá, að hann rótaði hvorki legg né lið málim, til framdráttar, og hann lét þrásinnis í ljósi, að ekkert vit væri í því að endurbyggja verksmiðjuna. Öllum bæjarbúum er það kunnugt, að Framsóknarflokkurinn hér í bæ var nærri því óskiptur á móti málinu og var það síðast drepið hjá ríkisstjórninni, þar sem tveir Framsóknarráðherrar máttu sín meir en einn ráðherra Sjálfstæðisflokksins. -

 

Hinu eru bæjarbúar ekki búnir að gleyma, að það hefir kostað bæjarfélagið allmargar milljónir króna, beint og óbeint, að ekki tókst að endurbyggja verksmiðjuna 1939. Þá var áætlað, að endurbyggingin mundi kosta 1½ milljón krónur miðað við 5.000 mála afköst og fé til þessa mannvirkis var fyrir hendi.

 

Í viðleitni sinni til að gera litið úr starfi mínu sem formanns Rauðku, telja þeir Erlendur og fógeti, “að búið hafi verið að ganga frá flestum lánum”, þegar ég tók við stjórnarformennskunni 20. apríl. Þetta, eins og svo margt fleira í greinum þeirra er ósatt.

Það var ekki byrjað á því að taka ríkisábyrgðarlánið á þeim tíma, en það sem meira var er það, að fyrrverandi formaður var ekki heldur farinn að tilkynna Lárusi, að ríkisábyrgðarheimildina þyrfti að nota að fullu. Ennfremur var þá ótekið miljón krróna lán í Sparisjóð Siglufjarðar. (Svo sem kunnugt er, hefur Erlendur orðið sér til athlægis með því að telja heimildina 2 milljónir, en hún er 1½ miljón krónur) 

III.

Afskipti mín og Erlendar af Rauðkumálinu 

Erlendur segir, að með því, að ég hafi neitað að árita rekstrarvíxil fyrir Rauðku 1938, hafi hann orðið að leita til bæjarstjórnar og fá hjá henni sérstaka samþykkt til þess, að víxillinn væri seljanlegur. 

Þessi framkoma mín, sem Erlendur fordæmir, var í fullu samræmi við skoðun okkar Sjálfstæðismanna, að á meðan verksmiðjan væri ekki endurbyggð væri óráðlegt fyrir bæinn að reka hana, en hitt gleður mig óneitanlega, að Útvegsbankinn skuli hafa borið það traust til mín, að hann tók ekki meirihluta stjórnarinnar, með Erlend í fararbroddi, gildan, en krafðist meirihlutasamþykkis bæjarstjórnar í minn stað. 

Þá heldur hann því fram, að ég hafi lagt niður formennskuna 1941 af því, að ég hafi ekki fengið fógetann með mér sem “barnfóstru” til Reykjavíkur. Virðist Erlendar með þessu vilja benda á, að þetta starf henti honum vel, og hefir hann sjálfsagt persónulega reynslu í þeim hlutum. En ástæðan var nú allt önnur og hún var þessi: 

Á tveim fundum, sem haldnir voru um það, hvernig skyldi haga ferðum til Reykjavikur í þarfir verksmiðjunnar var hver tillagan á eftir annarri felld með jöfnum atkvæðum (2:2) af því, að einn nefndarmanna, Sveinn Þorsteinsson, sat hjá við atkvæðagreiðslu um allar þær tillögur, sem ég og aðrir fluttu til þess að komast að niðurstöðu í þessu máli, án þess að leggja sjálfur fram nokkra tillögu í málinu. Með slíkum meirihluta, taldi ég og tel enn, að ógerlegt sé að ráðast í önnur eins stórræði og endurbygging Rauðkuverksmiðjunnar er.

En fógetinn var slyngari en ég. Þegar hann var orðinn formaður fékk Sveinn fría ferð til Reykjavíkur og málið var leyst. 

Erlendur heldur því fram, að þegar aprílkosna stjórnin tók við, hafi endurbygging verksmiðjunnar verið það langt komin, að starf þessarar nefndar hafi ekki getað verið annað en auvirðilegt og lítið. Starfið hefir gengið vel, það játa ég, en það er af því, að stjórnin hefir átt að fagna velvild og greiðvikni hjá báðum peningastofnum bæjarins, og get ég þess hér, þeim til verðugs hróss. - Þá má ekki gleyma því, að stjórnin hefir losnað við þá menn, sem berastir eru að því að nota undirferli og baktjaldamakk í starfi sínu, og tel ég tel það vel farið að ýmsu leyti. 

Stjórnin hefir ekki þótt þurfa að halda uppi væmnu auglýsingastarfi fyrir sig í blöðum bæjarins, eins og sumir aðrir, og væri í því sambandi fróðlegt að heyra nafnið á hinum norska vini Erlendar, er hann segir, að hafi bent sér á lánsmöguleikana í Noregi 1938 og hann, Erlendur, síðan brugðist vel við og komið endurbyggingarmálinu á framfæri. 

Ég veit nú ekki betur en, að það hafi verið Svavar bankastjóri Guðmundsson, sem útvegaði lánstilboðið frá exportkredit í Noregi, auk þeirrar hálfrar miljónar íslenskra króna. sem talið var, að mundi nægja til endurbyggingarinnar. Bankastjórinn, sem var vel kunnugur rekstri verksmiðjunnar tók sér á hendur ferð til Noregs, og þessi varð árangurinn. Hvatti hann eindregið bæjarstjórnina til þess að ráðast í endurbygginguna, en hún fórst fyrir, svo sem kunnugt er, og skal það mál ekki rakið að sinni. 

Um afskipti Erlendar af Rauðkumálinu skal ég svo ekki fjölyrða, en vil að lokum benda á, að í fundargerðarbók þeirri, sem fógetinn heldur ólöglega fyrir hinni löglegu Rauðkustjórn og neitar að afhenda, er bókuð tillaga í þrem liðum, sem Erlendur flutti, að mig minnir í janúar mánuði 1944. Af skiljanlegum ástæðum get ég ekki birt þessa tillögu, en hún mun vissulega verða birt, þótt síðar verði. Hefði tillaga þessi verið samþykkt væri Rauðkuverksmiðjan áreiðanlega í sama ástandi eins og hún var veturinn 1944. En sem betur fór var tillaga þessi felld og var samþykkt að beina endurbyggingarstarfinu inn á aðrar leiðir og hefir það borið sýnilegan árangur. 

Í ellefu dálka grein þeirri, sem Erlendur sendir mér, og sem krydduð er klámsögu og allskonar þvættingi, fer hann að minnast á glerhús. Á hann sjálfsagt við það, að margt sé fallvalt í þessum heimi ekki hvað síst á þessum tíma öryggisleysis, sem við lifum á. 

Mér er, nú sagt, að t.d. í Ameríku sé nú farið að byggja stálbent glerhús, sem kváðu vera síst ótryggari en önnur hús, en um þetta er mér ókunnugt. Hitt veit ég fyrir víst, að árið 1934 var með lögum sett á stofn fyrirtæki, sem heitir Síldarútvegsnefnd. í kringum starfsemi þessarar stofnunar hafa verið reist talsvert mörg glerhús, en þau eru ekki stálbent, og ekki örgrannt um að þeim muni vera talsvert sprunguhætt. 

Erlendur hefir lengst af verið starfsmaður þessarar stofnunar og kannast kannski við eitthvað af þessu. Er hætt við, að ef glerhús þessi yrðu fyrir aðkasti mundi grilla í gegn um sprungurnar í ýmislegt, sem almenningi þætti fróðlegt að kynnast, “fjölskyldusjónarmið” og margt annað. - En þetta getur allt beðið betri tíma.

IV.

Minnimáttarkennd eða hvað?

Erlendur Þorsteinsson hefir oft gert sér tíðrætt um “sérréttindamenn,” Vil ég stinga upp á því, að hann skýri þetta hugtak nánar og birti helst lista yfir þá menn, sem hann telur að falli undir þetta hugtak t.d. hér í bæ. Væri fróðlegt að sjá hvort hann teldi sig eiga sæti á þessum lista, þennan “fátæka og stéttvísa sjómannsson”. 

Skyldi sá maður, sem til fleiri ára hefir starfað sem háttlaunaður framkvæmdarstjóri hjá stofnun, sem að mestu hefir legið niði í undanfarin stríðsár,  komast á þennan lista? 

Skildi það nokkuð geta hækkað hann í röðinni, að sami maður tekur gott kaup fyrir starf sitt í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins, hjá Nýbyggingarráði og hjá Síldarverksmiðju Siglufjarðarkaupstaðar, Rauðku, fyrir lítið sem ekkert starf, svo ekki sé nú minnst á fleira? - Fróðlegt væri að fá álit Erlendar á þessu. 

Eftirfarandi klausa, sem á undanförnum árum hefir verið uppistaðan í pólitískum ræðum og ritgerðum Erlendar, birtist í 17. tbl. Neista: 

“Vellaunuðu stöðurnar eru að þínu áliti ekki fyrir menn af mínum uppruna. Að þínu áliti eru það synir efnamannanna og sérréttindamannanna í þjóðfélaginu, sem þær eiga að fá.

Þér þykir það óviðurkvæmilegt, að sonur fátæks sjómanns, sem alinn er upp á snauðu verkamannsheimili, skuli hafa fengið vellaunaða stöðu. Það gengur glæpi næst. En þó sárnar þér kannski enn meir, að ég skuli ekki hafa brugðist stétt þeirri, sem ég er sprottinn úr.“ 

Hvort er þetta minnimáttarkennd eða hræsni, eða hvorttveggja?" 

En hvað um það, hvar og hvenær er hefir Erlendur heyrt eða séð mig halda þessari firru fram? 

Fyrir á að giska 80 árum síðan voru bræður tveir fluttir sveitaflutningi frá Eyjafirði til Reykjavíkur. Þeir voru þá börn að aldri, urðu síðar mikilsvirtir menn, annar framúrskarandi embættismaður og ráðherra, hinn viðurkenndur vísindamaður, og prófessor, við erlendan háskóla. 

Þrátt fyrir óréttlæti og fátækt, tókst þeim með dugnaði og atgjörvi að hafa sig áfram í lífinu. En þess eru líka dæmi, að synir efnaðra foreldra, sem allir vegir virtust færir, hafa liðið skipsbrot í lífsins ólgusjó, og peningarnir hafa orðið þeim hefndargjöf, en það er fásinna ein að halda því fram, að sá maður sé óstéttvís, sem ekki leitar inn á starfssvið föður síns. 

Eða er það óstéttvísi, að synir okkar Erlendar stunda sjómennsku? Nei, Erlendur, þú gerir of mikið úr dómgreindarleysi almennings að bera slíkt á borð.

Það er nú einu sinni svo, að menn leita að þeim starfa, sem þeim hentar best og er það ekki á valdi Erlendar eða mínu, að fá því breytt, en hinu má svo bæta við, að þess eru því miður dæmi, að menn fara með þær trúnaðarstöð­ur, sem hefðu verið betur settar af öðrum. 

V.

Niðurlag

Erlendur átelur það, að ég skuli ekki birta neinar tölur úr reikningum verksmiðju bæjarins. Stjórn Rauðku telur, að henni beri að standa bæjarstjórn reikningsskap gerða sinna og er það svo á valdi hennar hvort hún vill birta þessar tölur eða ekki. Eða hvort telur Erlendur, að hann hafi heimild til að birta tölur úr rekstrarreikningi Síldarútvegsnefndar án vitundar og samþykkis Síldarútvegsnefndar? 

Mér er kunnugt um, að þessar tölur hafa ekki verið birtar fyrr en mörgum mánuðum eftir starfsárslok og við það er vitan­lega ekkert að athuga. 

Ég get þó upplýst, að stjórnin hefir að undanförnu unnið að því að athuga möguleika á fullri stækkun verksmiðjunnar upp í 10 þúsund mála verksmiðju, og er ekki ósennilegt, þrátt fyrir allt, að takast megi að koma þessu í kring, en um það fullyrði ég ekkert að svo stöddu. 

Ásakanir um, að mér hafi verið það sérstakt áhugamál, að taka að mér formennskuna í aprílmánuði eru ósannar. Mun ég láta of hendi þessa formennsku þegar bæjarstjórn óskar þess, með sama gerðum Erlendar, birtir hann í 17. jafnaðargerði og ég tók við henni. En eitt vil ég að lokum benda bæjarbúum á, og það er, að það var á valdi meirihluta bæjarstjórnar að fela einni eða annarri stjórn að fara með rekstur verksmiðjunnar, lántökur, veðsetningar og annað í því sambandi, og var það sýnilegt eftir 20.apríl, að þennan starfa mundi hún ekki fá í hendur annarri stjórn en aprílkosinni, enda gerði hún það. 

Hvernig hefði farið ef aprílkosin stjórn hefði þverkallast við að taka að sér þennan starfa? Menn hugleiði þetta. 

Jú, þá var einmitt búið að skapa ástand, það sem Alþýðublaðið gerði sér svo tíðrætt um: “Óstarfhæf bæjarstjórn”, ,megnasta öngþveiti,” “nýjar kosningar” o.s.frv. Eða var það þetta sem Erlendur og fógetinn vildu? 

Er svo að sinni lokið skrifum mínum um þessi mál.

Siglufirði 31/10 1945  A. Schiöth 

----------------------------------------------------------

Einherji 11. nóvember 1945

AUMINGJA SCHIÖTH kemst í óþægilega mótsögn við sjálfan sig og víða í langlokugrein í 41. tölublaði Siglfirðings, út af Rauðkumálinu, enda telja jafnvel kunningjar hans, að greinin sé að mestu skrifuð af öðrum.

Hún er a.m.k. víða rætnari en búast má við af manni eins og honum, sem talinn hefir verið drenglyndur, þótt kappsfullur væri. 

Hann telur janúarkosna Rauðkustjórn hafa verið löglega kosna, en af því að hún sé undirnefnd, geti bæjarstjórn vikið henni frá, þegar hún vilji. 

Hann gleymir því, sem Einherji hafði minnt hann á, að janúarkosin Rauðkustjórn væri kosin eftir sérstakri reglugjörð staðfestri af stjórnarráðinu með kjörtímabili eitt ár. 

Fyrr en það kjörtímabil er liðið gat bæjarstjórn ekki breytt til um löglega kosningu Rauðkustjórnar, nema þá með því að breyta reglugjörðinni með samþykki ráðuneytisins, en það var ekki gert. Ætti þetta að vera auðskilið mál. 

En svo kemur hér til í viðbót, að dómsmálaráðuneytið hefir úrskurðað, að janúarkosin Rauðkustjórn væri lögleg, en sú aprílkosna ekki. 

Þessum úrskurði bar bæjarstjórn að hlýða, en hún gat lagt hann fyrir dómstólana og reynt að fá honum breytt, en bæjarstjórn gerir hvorugt. Hún hvorki hlýðir úrskurðinum né fær honum breytt hjá dómstólunum, heldur hefir hann að engu og vísar til sinna "færu" lögfræðinga, eins og þeir væru eitthvað æðra stjórnarvald! 

Ráðuneytið er æðra stjórnarvald en bæjarstjórnin og í siðuðu þjóðfélagi verður óæðra valdið að hlýða því æðra, uns úr sé skorið af enn æðra stjórnarvaldi á löglegan hátt, í þessu tilfelli af dómstólunum. 

Þessa hefir meirihluti bæjarstjórnar ekki gætt, heldur látið Þormóð og kommana narra sig til þess að brjóta þessa sjálfsögðu reglu. 

En engu líkara er, eftir grein Schiöth, en að hann skilji ekki þessa mikilvægu reglu, hvers siðaðs þjóðfélags. 

Maður hefði nú getað trúað kommunum til þess, að þeim flökraði ekki við að rísa gegn úrskurðum ríkisvaldsins án þess að fá þeim breytt á löglegan hátt eða a.m.k. gera tilraun til þess. 

Hitt þótti ótrúlegra, að bæjarstjóri, sem væri Sjálfstæðismaður, léti narra sig út í slíkt ævintýri, og að jafnheit Sjálfstæðiskempa og Schiöth okkar skyldi gerast skósveinn þess óheillavættis, er þannig flekaði Sjálfstæðishetjurnar tvær. 

Hinn greindi kommúnisti Gunnar Jóhannsson sagði líka um þetta á bæjarstjórnarfundi: 

“Við gerum þetta til þess að kljúfa borgaraflokkana.” Er það út af fyrir sig athyglisvert og sýnir m.a. stjórnmálahyggindi bæjarstjórans og Schiöth, en hitt er enn verra, ef það kynni að draga dilk á eftir sér fyrir bæjarstjórnina í öðrum málum, ef henni yrði ekki trúað fyrir því að ráða málum sínum innan þess réttarsvæðis, sem henni að lögum, er afmarkað.

Blaðið vonar, að svo margir sanngjarnir og vitrir menn megi hér eftir jafnan skipa bæjarstjórn Siglufjarðar, að við slíku sé ekki hætt, en hinsvegar er rétt að leggja niður fyrir sér, hverjar afleiðingar það getur haft fyrir bæjafélagið í framtíðinni, ef oft er höggvið í sama óheilla knérunn heimskulegra ofbeldisverka. 

Mun bæjarstjórinn og Schiöth varla græða á frekari umræðum, en eigi verður því neitað, að fullhugi er Schiöth að fara með slíkum rökum að hreyfa þessu máli aftur og tæplega mun flokkur hans kunna honum þakkir fyrir. 

Er svo útrætt um þetta mál af hendi Einherja