Þórhallur Björnsson kaupmaður
Þórhallur Björnsson kaupmaður
Þórhallur Björnsson, frá Siglufirði Fæddur 19. nóvember 1912
Dáinn 2. júlí 1992
Í dag er kvaddur hinstu kveðju Þórhallur Björnsson, frændi minn og vinur. Hann lést í Vífilsstaðaspítala 2. júlí sl. Í lok desember greindist hann með illvígan sjúkdóm sem varð honum að aldurtila. Þeirri frétt tók hann með æðruleysi og stillingu og hafði oft á orði er ég kom í heimsókn að biðin væri nú orðin nógu löng en illa gengi sér að komast yfir.
Þórhallur fæddist á Hóli í Siglufirði 19. nóvember 1912, sonur hjónanna
Björn Jónasson, jafnan nefndur Björn keyrari, og konu hans,
Guðrún Jónasdóttir. Svo sem venja var með siglfirsk ungmenni, fór hann snemma að vinna við síld, og upplifði að sjálfsögðu allt síldarævintýrið. Var hann lengi starfsmaður Síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði.
Árið 1953 gerðist hann framkvæmdastjóri Verslunarfélags Siglufjarðar hf., sem rak umfangsmikla verslun jafnt við bæjarbúa og aðkomuskip. Gekk sá rekstur mjög vel undir stjórn Þórhallar, enda var hann með afbrigðum hjálpsamur og vinsæll af öllum sem höfðu samneyti við hann.
Eftir að Þórhallur flutti til Reykjavíkur tók Ásgeir Björnsson bróðir hans við stjórn verslunarinnar. Fyrir nokkrum árum var félaginu slitið og var þá eigendum greiddur út verulegur arður, eftir að allar skuldir voru greiddar að fullu. Mun þetta vera næsta óvenjulegt með verslun á landsbyggðinni.
Eftir að Þórhallur flutti til Reykjavíkur gerðist hann starfsmaður tollstjórans í Reykjavík og vann þar af sömu trúmennsku og allt annað sem hann tók að sér.
Sem ungur maður vann Þórhallur hjá frænku sinni, Rannveig Bjarnardóttir á Hótel Gullfossi á Akureyri.
Þar kynntist hann konuefni sínu
Hólmfríður Guðmundsdóttir frá Nýja-Bæ í Kelduhverfi. Þau gengu í hjónaband 20. desember 1934.
Mest allan sinn aldur bjuggu þau á Siglufirði eða þar til þau fluttu til Reykjavíkur 1973.
Fríða og Þórhallur voru einstaklega samrýnd hjón, ákaflega gestrisin og skemmtileg heim að sækja. Hólmfríður andaðist árið 1982 og var hennar sárt saknað.
Einkadóttirin
Anna Laufey Þórhallsdóttir fæddist 21. nóvember 1944 og varð augasteinn foreldra sinna, og það sem allt snerist um. Anna Laufey giftist Lúðvík Lúðvíksson, hafnsögumaður og
eiga þau 3 dætur,
Fríða Sjöfn Lúðvíksdóttir,
Hanna Þóra Lúðvíksdóttir
Margrét Halla Lúðvíksdóttir.
Einstaklega gott samband var á milli þeirra tengdafeðga, og bjó Þórhallur síðustu árin á heimili þeirra hjóna á Bollagörðum 41 við besta atlæti. Að vonum hafði hann mikið dálæti á dótturdætrum og vildi hag þeirra sem mestan.
Mikill samgangur og vinátta var milli heimila okkar frænda. Jafnan var gripið í spil er við hittumst, því bæði hjónin voru ágætis bridgespilarar, og var það þeirra besta skemmtun að slá í slag. Áttum við hjónin ógleymanlegar stundir með þeim á þessum árum.
Þórhallur var vinamargur, með afbrigðum hjálpsamur og vildi hvers manns vanda leysa. Lengstum vorum við frændur á öndverðum meiði í pólitíkinni, ekki alltaf sammála, en alltaf lauk þessum rispum okkar í mesta bróðerni og báðir höfðu gaman af.
Við Guðný sendum Önnu Laufeyju, Lúðvík og dætrum innilegustu samúðarkveðju, um leið og við minnumst góðs vinar.
Sigurður Njálsson.
-----------------------------------------------
Þórhallur Björnsson
Ljósmynd: Kristfinnur
Hólmfríður Guðmundsdóttir, Þórhallur Björnsson og Anna Laufey Þórhallsdóttir dóttir þeirra - Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson