OLE O. TYNES 

Mjölnir 24. jan. 1945

OLE O TYNES útgerðarmaður lézt hér á Siglufirði 13. desember.

Var hann á leið heim til sín neðan úr bæ og féll niður á Suðurgötuna, skammt frá heimili sínu og var þegar örendur. Ole Tynes var fæddur 7. febrúar 1878 í Sökkelven á Sunnmæri í Noregi. Sá staður er í námunda við hinn mikla útgerðarbæ Álasund og þangað fluttist hann um fermingaraldur.

Til Siglufjarðar kom Tynes árið 1905 en búsettist hér í firðinum 1910. Ole Tynes var einn mesti atvinnurekandi Siglufjarðarkaupstaðar, rak hér síldarsöltun í stórum stíl, hafði útgerð, meðal annars gerði hann út 2 eða fleiri línuveiðara.

Hann var afgreiðslumaður Bergenska gufuskipafélagsins og mörg önnur störf hafði Tynes með höndum. Ole Tynes var gleðimaður mikill og þótti hrókur alls fagnaðar á gleðisamkomum. Hann var vel látinn sem atvinnurekandi meðal verkafólks, sem sem hann hafði í sinni þjónustu, og margir af sömu verkamönnunum unnu hjá honum í ár eftir ár.

Tynes var íslenzkur ríkisborgari og unni Siglufirði mikið sem hann áleit að ætti mikla framtíð sem útgerðarbær.
Héðan vildi hann ekki fara, því hér hafði hann starfað mestan hluta starfstímabilsins.
Hann hafði séð Siglufjörð vaxa úr smá sjávarþorpi upp í það að verða stór útflutningsbær miðað við íslenzka staðhætti. Jafnframt því, sem Tynes var orðinn Islendingur, var hann Norðmaður.

Hann unni ættjörð sinni af alhug og tók sér mjög nærri hinar miklu hörmungar, sem dundu yfir Noreg og norsku þjóðina með hernámi Þjóðverja. Hans heitasta ósk var, að norska þjóðin gæti sem fyrst losnað úr heljarklóm glæpamannanna, sem nú ráða í Noregi með blóðugu og grimmdarfullu ofbeldi, og undir þá ósk hans munu allir Siglfirðingar vilja taka af heilum hug.

Ole Tynes var giftur Indíönu Pétursdóttur, hinni glæsilegustu konu. Eignuðust þau eina dóttur, sem nú er gift Jóni Sigtryggssyni dósent í tannlækningum við Háskóla Islands.

Jarðarför Tyness fór fram 22. des. s.l. að viðstöddu fjölmenni. Siglfirðingar kvöddu þar í síðasta sinn einn af fremstu brautryðjendum kaupstaðarins í atvinnumálum.