ÞEGAR CHRYSLER kom til Sigló

Skrifað í október 2015

ÞEGAR CHRYSLER WINDSOR KOM TIL SIGLUFJARÐAR 

Chrysler framleiddi Windsorinn frá 1939 og eitthvað fram á sjöunda áratuginn. Þessi eðalvagn var (og er) m.a. með hálfsjálfvirkri gírskiptingu (Fluid drive) sem var algjör nýlunda á sínum tíma þegar framleiðslan hófst. Hún virkar þannig að ef bíllinn er settur í fyrsta gír, þá skiptir hann sér sjálfur í annan gír, og úr þeim þriðja í þann fjórða. Bíllinn er glæsilegur í alla staði, verulega stór og rúmgóður, sætin yfirleitt klædd plussi, mælaborðið er með því fallegasta sem sést hefur og húddið er langt og mikið. 

Einn slíkur var fluttur inn alveg splunkunýr árið 1947 af Ludvig Storr Chryslerinn sem var kaupmaður og aðalræðismaður Dana hér á landi. 

Hann var ljósgrænn í upphafi, en hefur einu sinni verið sprautaður. Plusssætin eru drapplituð og mælaborðið með viðarlit. Ludvig Storr átti þennan bíl lengi, fór á honum víða um land með konu sinni Svövu Storr, og voru þá gjarnan erlendir gestir með þeim í för. Þessum bíl tengist veröld sem var, þegar þéringar tíðkuðust og góðir mannasiðir voru iðkaðir af yfirstéttinni. Menn opnuðu undantekningalaust dyr fyrir dömunum og tóku ofan hattinn þegar mæst var á götu. 

Þessi heimur er með öllu horfinn, einhver myndi segja illu heilli, en upp er runnin öld gallabuxna og stuttermabola þar sem allir eru alltaf að flýta sér. Á þessum tíma var frú Bodil Begtrup sendiherra Dana á Íslandi og fyrsti kvenkyns sendiherra heims, gift fyrrverandi sendiherra, Bolt Jörgensen, sem m.a. var sendiherra Dana í Rússlandi. 

Á milli Storrhjónanna og sendiherrahjónanna var góður vinskapur og þau ferðuðust oft saman. Eitt sinn lá leiðin til Siglufjarðar og erindið var að heimsækja danska konsúlinn Aage Schiöth. Þetta var löngu áður en Strákagöng voru gerð, svo ekki var um annað að ræða en aka yfir Siglufjarðarskarð sem þá var mun erfiðara yfirferðar en nú er, þrátt fyrir að það hafi verið lagt af að öðru leyti en því að vera í besta falli túristavegur yfir hásumarið. 

Hinum fyrrverandi sendiherra, Bolt Jörgensen, leist hreint ekkert á ferðina upp í skarðið og vildi komast út úr bílnum og ganga upp. Frú Svava Storr bauðst þá til að koma aftur í til hans og lesa fyrir hann íslensk ljóð á uppleiðinni. Þá sagði Bolt: "Hvis du kan oversætte det på dansk er det í orden, ellers ikke." Þá sagði frú Bodil Begtrup: "Ved du at det er en Chrysler og oveniköbet kört av General Konsulen?" Við þessi orð tveggja glæsikvenna lét Bolt sig og upp í Siglufjarðarskarð ók generalkonsúllinn á sínum Chrysler Windsor með glæsibrag. Þegar upp var komið, beið þar konsúll Aage Schiöth til að bjóða gestina velkomna og bauð upp á kærkomna hressingu eftir svaðilförina. 

Ef einhver skyldi hafa áhuga að eignast svona glæsikerru, þá er því miður ekki mikið um þær á bílasölum nú orðið. Þó var einn seldur á nýliðnu ári, á hann var sett kr. 800 þús., en sá mun hafa þarfnast verulegrar aðhlynningar. Ég rakst hins vegar á 1947 árgerðina á amerískri síðu, en þar var toppeintak boðið á $94,500 eða u.þ.b. 11,7 millur. 

Og ein lítil viðbótarsaga í lokin: Eitt sinn sem oftar var konsúlnum og Chrysler Windor Ludvig Storr boðið til veislu að Bessastöðum, en hann var aðeins í meðallagi sleipur í íslenskunni. Frá forsetabústaðnum er fallegt útsýni og stutt niður í fjöru, en mjög var útfallið þegar veislan stóð sem hæst. Ludvig Storr stendur þá við gluggann, horfir á fjöruna og segir: "Það er mikið fjör hér á Bessastöðum." - 

Auglýsingamynd af alveg eins Chrysler Windsor og var fluttur hingað til lands 

Ludvig Storr ásamt Svövu konu sinni og gestum í Almannaskarði. 

Uppgerður bíll Ludvig Storr notaður til að flytja tilvonandi brúðhjón til kirkju í miðbæ Reykjavíkur