Koparklöppin

trolli.is 5. desember 2021 Jón Ólafur Björgvinsson


KOPARKLÖPPIN, KOMMAHÖLLIN,
NÖRGAARD OG FL. SKRÍTIÐ

SÖGUR ÚR LJÓSMYNDUM
Ljósmynd: Bjarnveig Guðlaugsdóttir.

Forsíðu ljósmyndin hér fyrir ofan ber í sér mikla sögu. Hún er lituð í tölvu af meistara Steingrími Kristinssyni og sýnir okkur rauðar æðar í Koparklöppinni frægu sem nú er löngu horfin undir KOMMÚNISTAHÖLLINA sem stendur við Suðurgötu 10 á Siglufirði.

Upprunalega myndin, hér fyrir neðan, sem líklega er tekin á árunum 1946-48 í svarthvítum litum, lítur svona út og enginn veit hvaða litla sæta stelpa þetta er sem situr þarna við klöppina.

Koparklöppin við Suðurgötu 10.
Ljósmynd: Bjarnveig Guðlaugsdóttir.

Skemmtilegar viðbótar upplýsingar bárust pistlahöfundi 7 desember 2021 hér fyrir neðan:

Pistlahöfundur lenti á spjalli við Siglfirska sögumanninn Leó Ólason hér um daginn og vorum við þá að tala um ýmsa hlaðna Siglfirska grjótgarða og fleira skemmtilegt og þá barst þessi Koparklettur og fl. á tal, sem og þessi ljósmynd úr Ljósmyndasafni siglufjarðar.

Þessi dularfulli klettur, sem og auð lóðin við Suðurgötu 10 var þekkt leiksvæði fyrir börnin í nágrenninu á sínum tíma og þegar hann var sprengdur burt til þess að skapa pláss fyrir þriggja hæða höll kommúnista, gerðist þarna hörmungar slys sem seinna skapaði aðra merkilega sögu um einkennilegan íkveikjuatburð fyrir handan fjörð.

Leó bætti síðan við söguna að þetta var kannski álagaklettur, því sagan segir að einhenti einsetumaðurinn Aage Nörgaard, hafi misst hluta af sínum hægra handlegg við vinnu við að sprengja burt þessa kommúnista Koparklöpp.

En meira um það seinna og hér undir er slóð á samansafn af sögum með fjölda ljósmynda frá Leó á trölli.is.

AUTHOR: LEÓ ÓLASON  Þessi tenill til greinarinnar á trolla.is er ÓVIRKUR: Sorry, No Posts Found

ÞRIGGJA HÆÐA KOMMÚNISTAHÖLL VIÐ RÁÐHÚSTORGIÐ

Gríðarlegar breytingar eiga sér stað við Ráðhústorgið á Siglufirði á árunum 1945-50. Nær öll húsin sem við sjáum í bakgrunninum á forsíðumyndinni eru löngu horfin. Til hægri í mynd sjáum við þrjú horfin hús, Ráðhústorg 1, 3 og 5 og bak við klöppina er Suðurgata 8, en eigendur þess hús gáfu Kommúnistum lóðina Suðurgötu 10.

Tvær Siglfirskar HALLIR!
Ljósmynd: Gestur Fanndal.
Þriggja hæða Kommúnistahöllin við Suðurgötu 10 og stóra húsið við Suðurgötu 12, var líka uppnefnt HÖLL.
Það hús er reyndar stórglæsilegt þegar nánar er athugað og stendur líklega á flottasta lóðar stæði Siglufjarðar. 

Við skulum kíkja á nokkrar ljósmyndir úr fyrri hluta myndasyrpu sögunnar um Torgið til þess að átta okkur betur á sögusviðinu.
Smelltu á svæðið hér fyrir neðan, RÁÐHÚS-TOTGIÐ....

Jarðarför frá Suðurgötu 8 á Siglufirði, júlí 1949 —
Kommúnistahöllin hálfkláruð í bakgrunninum við Suðurgötu 10 og
Prentsmiðjuhúsið þar sunnan við fyrir breytingu.
Ljósmynd Kristfinnur Guðjónsson.
 

Guðlaugur skósmiður látinn. (1874-1949) Hann bjó og rak veitingasal og skósmíðavinnustofu á neðri hæðinni í Suðurgötu 8 ásamt Óskari syni sínum. Kistan á vörubílspalli framan við Suðurgötu 6, ( Hús Gests Fanndal ), en þarna er verið að byggja við suðurhluta hússins.
Guðlaugur var sannur sósíalisti og gaf einmitt lóðina undir Suðurgötu 10, Kommahöllina.

Á sjötugsafmæli Guðlaugs 1944, birtist eftirfarandi hylling í Mjölnir, málgagni Sósíallista á Siglufirði.

“… Guðlaugur er maður greindur vel og víðsýnn. Hefur hugur hans jafnan hneigst til fylgis við baráttu alþýðunnar og baráttu framfara aflanna í þjóðfélaginu gegn kúgun og afturhaldi. Honum er öðruvísi farið heldur en mörgum jafnöldrum hans, sem gerzt hafa bölsýnir og afturhaldssamir með aldrinum.

Það er eins og jafnvel, að hann hafi orðið frjálslyndari, skynjað betur hræringar hins nýja tíma eftir því, sem árin hafa færzt yfir hann. Það er hressandi að hitta fyrir sjötuga menn, sem ennþá eiga eld æskunnar, sem fylgjast af áhuga með baráttunni, er fram fer í kringum þá og eiga ennþá óslökkvandi þrá eftir sigri hins unga og framfarasinnaða. Það eru menn, sem ekki eldast, þótt árin færist yfir þá. Slíkur maður er Guðlaugur.

Mjölnir flytur Guðlaugi einlægustu árnaðaróskir í tilefni af afmælinu og óskar honum langra lífdaga, svo að hann fái að sjá sem mest af ávöxtum þeirrar baráttu, er hann hefur jafnan fylgt af lífi og sál.

Og í minningar og kveðjuorðum í Neista 1949, málgagni jafnaðarmanna segir:

… Guðlaugur heitinn var fróður maður og skynsamur vel og fær í sinni iðn. Hann var maður glaðlyndur, fyndinn og skemmtilegur félagi. Guðlaugur heitinn hafði átt við mikla vanheilsu að stríða, sem hann bar með sérstakri þolinmæði.

1.   desember í vetur hætti hann með öllu að vinna á skósmíðaverkstæði þeirra feðga, og hafði þá unnið við iðn sína í rúm 59 ár.

Með Guðlaugi Sigurðssyni er hniginn í valinn og til moldar borinn einn af þeim athafnamönnum, sem Siglufjörður stendur í ómetanlegri skuld við. Blessuð sé minning Guðlaugs Sigurðssonar. (Neisti)“
Heimildir lánaðar frá Heimildarsíðu Steingríms Kristinssonar.

Sjá meira skemmtilegt hér um Siglfirska pólitík og Kommahöllina frægu og fl: Smelltu á svæðið hér fyrir neðan SOVIET

Myndin sýnir okkur götu umhverfið við Suðurgötu 2 – 10 um og eftir 1950.
Líklega skrúðganga hjá stúkufélaginu Eyrarrós 68.
Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson.

Hið sögufræga hús, Brúarfoss, sést til vinstri. En þar var um tíma rekin “illræmd” knattborðstofa.  

BILJARDINN ER MIKIÐ BÖL!

Hér kemur stutt ágrip úr KS blaðinu (Knattspyrnufélag Siglufjarðar) frá 1939….

… þessi texti hér fyrir neðan minnir nokkuð mikið á áhyggjur nútímafólks varðandi tölvuleikjafíkn barna og unglinga og augljóst er að knattborðsleikur er ekki talinn mannsæmandi íþrótt.

“… Það er sorglegt að mönnum eftirlitslítið líðast að gera sér það að atvinnu sinni að reka siðspillingarstarfsemi í bænum og meðal bæjarbúa…”

… Það er skammarlegt, að nokkrir Siglfirðingar hafa naut af því að gjörspilla sjálfum sér, andlega og líkamlega með taugaæsingi og óreglu, sem alltaf sveima kringum kjuða og kúlur hvar í veröldinni sem er. Enda má þekkja úr og það í fjarlægð, þá sem hafa það að atvinnu að láta trekkja sig upp. Þá sem liggja kengbognir yfir kjuðanum allan daginn og gefa sér ekki einu sinni tíma til að borða, sem og þá sem eru lagstir andlega til sinnar hinztu hvíldar, andlega komnir undir græna torfu…”

Knattborðs spillingarbælahúsið Brúarfoss
Húsið virðist hafa staðið skáhalt inni á sjálfu Torginu og var skráð sem Ráðhústorg 1.
Ljósmynd: Gestur H Fanndal. 

“… Það er krafa íþróttamanna að þessu tóttabroti andlegrar niðurlægingar verði lokað með lögregluvaldi…”

“… Bærinn ætti líka að sjá sóma sinn í að fólk ekki viljandi hrörni og eldist fyrir tíman, sem er óhjákvæmileg afleiðing sífelds taugaóstyrks og vinsvika, en þess eru því miður nokkur dæmi…”

Dæmi:

“… Auralítill unglingur sem allt sitt hefir misst í billjardinn, hefir selt utan af sér fötin til þess eins að að geta spilað, en langar til þess að halda áfram en hefir ekki peninga. Honum dettur þá í hug hvað amerísku barnaræningjarnir gera til að afla sér fjár.
Hann tók tvær kúlur þegar tækifæri gafst og fer. Hann kemur aftur eftir dálitla stund og segir yfirmanni stofnunarinnar að hann viti um kúlurnar, en auðvitað segir hann það ekki nema að hann fái að spila útá 50 krónur. Yfirmaðurinn býður til samkomulags 5 krónur og tilboðið samþykkt. Drengurinn fer heim og sækir kúlurnar og heldur áfram að spila…”

“… Margt fleira hef ég heyrt, sem ef til vill á eftir að fréttast ef þetta nægir ekki… “
K.S – ingur. Heimildir: (K.S. blaðið 4 tbl. 6 apríl. 1939.

Smá fróðleikur frá Steingrími: Við lestur ofanritaðs, get ég ekki orða bundist. Þennan stað komum við, ég og Valbjörn Þorláksson oft og fengum að spila biljard ókeypis með leyfi húsmóðurinnar sem hét Ólína Kristjánsdóttir, yndisleg og barngóð kona. Ekki man ég nákvæmlega hvernig við komust inn á þetta ævintýri, sennileg vegna þess að við höfðum farið niður á bryggju fyrir hana til að kaupa fisk af trillu körlunum, hún lét okkur hafa pening til þess. Og ýmsar sendiferðir og jafnvel smá aðstoð, bæði fyrir hana og mann hennar Kristján.
Og fyrir kom að við fengum í laumi að fylgjast með þegar húsið var opnað seinnipart dags, þó aldrei til að spila.
Við sáum að sumir spiluðu upp á peninga, aðrir bara sér til gamans.
Hvernig peningaspilin virkuðu, eða afleiðingar hefi ég ekki hugmynd um.