Siglósíld
trolli.is 1. maí 2021 Jón Ólafur Björgvinsson
SIGLÓ SÍLD!
ÚR MYNDASAFNI BJÖRGVINS
VERKSTJÓRA.- 60 MYNDIR
Sigló Síld og Hrímnir HF eru tvö sögufræg Siglfirsk horfin fyrirtæki sem eru pistla höfundi kær.
Á einhvern merkilegan máta fæddist maður hreinlega inn í þessar fyrirtækja sögur og minningar um allt það góða fólk sem var að vinna þarna eru sterkar og mér og mörgum öðrum mikilvægar og kærar.
“Hér er vísa eftir Jóhann Sigurðsson, sem hefur sennilega verið flutt á árshátíð Sigló Síldar á Hótel Höfn 1. apríl 1967.
Þetta er samið við lagið : Af konum sínum hafa karlmenn gaman af.” Vísa úr gömlu Sigló Síld
sksiglo.is | Almennt | 26.01.2014 | Jón Hrólfur Baldursson |
Konuvísur
Já lífið það er rómantískt í Sigló-síld
og sést þar aldrei vera nokkur kerling fýld.
Þær eru alltaf brosandi og blikka karlana
og biðja stundum Magga sinn að brýna hnífana
en Fella við þær fara í dans,
já fyrir hann er aldrei stans
hann ógiftur nú enn þá er
enginn veit nú hvernig fer
hann eina bara eðlilega ætlar sérNú komin upp á lofti efri deild
þó allt sé kallað Sigló Síld í einni heild,
Já þarna eru skrifstofur með skraut á veggjunum
og skenki borð og vínbar líka handa forstjórunum
En Rússum verður mikið mál
að mega segja þarna skál
og kanarnir svo koma í ljós
og kaupa af okkur eina dós
enn allir fá svo fyrir þetta mikið hrós.
Þessi skemmtilega vísa segir ALLT um þennan tveggja hæða vinnustað og eftirfarandi ljósmyndir segja flestar sömu sögu.
Já, hann “Felli” (“Filli”) heitinn frændi minn, var þarna enn þá og reytti af sér sögur og brandara alla daga, seinna þegar ég sjálfur fékk að læra að vinna í Sigló Síld.
Jú… hmm, gott ef hann hann ekki fann góða konu þarna líka á sama Síldargaffalbita niðursuðu dósavinnustað.
Myndirnar koma að mestu leyti úr myndasafni verkstjórans, en faðir minn Björgvin Sigurður Jónsson vann þarna frá fæðingu Sigló Síldar til nær endaloka þessarar sögufrægu niðursuðuverksmiðju. Það skal skýrt tekið fram að þó svo að myndirnar séu úr safni Björgvins þá er hann alls EKKI myndasmiðurinn sem tók allar þessar yndislegu myndir.
Líklega er Steina Bergs verkstjóri (Steinunn Bergsdóttir) sá ljósmyndari sem á heiðurinn af flestum myndunum, síðan fylli ég upp í með frábærum ljósmyndum frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar. og fl. (Ljósmyndir Steingríms)
Okkar elskulega Steina Bergs að jafna sig eftir veikindi.
Mynd lánuð frá BjörnVald.is. Ljósmyndari: Björn Valdimarsson.
Sjá einnig áhugavert viðtal við Steinu verkstjóra sem birtist í MBL 1983 og annað áhugavert Sigló Síldar söguefni á sömu síðu á tímarit.is.
Skilyrði að fyrirtækið verði í höndum heimamanna. Segir Steinunn Bergsdóttir verkstjóri hjá Sigló-síld.
Faðir minn skannaði vissulega inn margar af myndunum, en gerði smá mistök með þeirra tíma tækni og skannaði svarthvítar myndir inn í lit.
Því miður, þá skannar maður inn gula aldurs litun og áratuga skít sem er fastur á myndunum. Pistla höfundur hefur þess vegna tölvu endurunnið allar myndirnar, lagað gæði, yfir og undirlýsingu og ekki minnst tekið burt svokallaða flassþoku sem liggur eins og þokuslikja yfir því sem á að sjást. Okkur þykir líka oft gaman af því að sjá betur það sem felur sig í bakgrunninum.
Margar af þessum Sigló-Síldarmyndum hafa birst áður í tveimur hlutum á sigló.is 2014. Hér birtast þær ykkur í betri gæðum og sameinaðar í einum hluta, en líka sem hilling og minning okkar um alvöru verkafólk sem margir hverjir unnu þarna í áratugi. Samtímis er þessi myndasyrpusaga þakklætiskveðja til allra þeirra sem kenndu mér að vinna, þá sérstaklega öllum þessum yndislegum konum sem voru að vinna þarna, á lengi vel líklega stærsta kvennavinnustað Siglufjarðar.
Sagan birtist ykkur mest í myndum, en líka með allskyns minningahliðarsporum og að lokum fáið þið að sjá nokkrar myndir sem Margrét Steingrímsdóttir tók í skemmtilegri útileguferð starfsmanna sumarið 1976.
Hulda Kobbelt og mamma hennar og á milli þeirra situr Soffía Káradóttir.
Útilega hjá starfsfólki Sigló Síld, við Leynishóla í Eyjafirði sumarið 1976.
Ljósmynd: Margrét M Steingrímsdóttir
SiglóSíld… niðursuðuverksmiðja?
Síld frá Sigló….IN WINE SAUCE! Gríðarlega flott og fallegt vörumerki.
Ljósmyndari: Jón Ólafur Björgvinsson.
Reyndar var ekkert SOÐIÐ í þessu húsi, annað en rauðvínssósa, en jú, síldin var vissulega lögð varlega niður í síldardósirnar, sem flestar ferðuðust síðan í kössum til Rússlands.
Ég minnist þess að úr munninum á einum af þessum… minnst þremur skemmtilegum “Jónum í sósunni” sem unnu við sósugerð hafi dottið eftirfarandi Sigló síldar setningin:
“Í háskólann skaltu helv… þitt, eða beint í sósuna… nægar hefur þú gáfurnar!“
P.s. Hann var ekki að meina mig! 🤣 😉
Norðmaðurinn heitir : Bernt T Björnsen
Faðir minn var oftast vinsæll, skilningsríkur og góðhjartaður verkstjóri, hann var nú reyndar bara nokkrum árum eldri en sumir sem voru þarna í sumarvinnu. Einn ónefndur sagði mér um daginn, eftirfarandi stuttu sögu:
“Ég var bara 16 vetra og nýbyrjaður á föstu með sætri stelpu, vann þetta sumar í Siglósíld og stóð mig bara vel, held ég.
Vikuna fyrir verslunarmannahelgina spyr ég Björgvin verkstjóra hvort ég megi fá frí komandi mánudag. Því ég ætlaði að fara með kærustu og vinum á blauta útihátíð…. sjálfur drakk ég ekkert á þessum tíma. En ég hlýt að hafa hitt eitthvað illa á hann, því hann sagði blankt NEI.
Kannski var ég of seint úti og kannski var hann þegar búinn að segja JÁ við of marga. Við sumarkrakkarnir vorum nú reyndar að leysa af reynsluríkt starfsfólk sem var í sumarleyfi.
Hann kannski sá fyrir sér að þurfa að loka verksmiðjunni þennan mánudag sem var frídagur verslunarfólks en ekki verksmiðju unglinga, ef enginn nennti eða vildi vinna.
Þrátt fyrir þetta stóra nei, kom ég ekki í vinnuna fyrr en á þriðjudagsmorgun og hann RAK MIG samstundis.” haha..
Viðbótar upplýsingar frá Margréti Steingrímsdóttur: “Pabbi ég er nokkuð viss um að þessar myndir voru teknar 1977 eða 78 því að þau voru öll á Leikskólanum þegar þessi mynd var tekin. Björgvin fékk okkur mömmurnar til að mæta í vinnuna kl. 7 í staðinn fyrir kl. 8. Hann keyrði þau svo á leikskólann kl. 8. Þau höfðu öll gaman af þessu og elskuðu að fá að líma miðana á dósirnar, þau voru sko í vinnunni.” 🙂 -- Ljósmyndir: Steingrímur Kristinsson
Björgvin S Jónsson verkstjóri, á spjalli við Siglósíldar dömurnar á efri hæðinni.
Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson.
Ólafur G Jónsson og norðmaðurinn Bernt T Björnsen . -
Þeir störfuðu fyrstu mánuðina hjá Sigló Síld.
Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson
Nonni og Siggi Tommi Björgvins verkstjórasynir. Jól á neðri hæðinni Hverfisgötu 27. Líklega 1966. -- ATH. Pabbi var orðin þriggja barna faðir og verkstjóri í Sigló Síld 21 árs gamall.
Ljósmynd og texti: Salbjörg Jónsdóttir.
Faðir minn var oftast vinsæll, skilningsríkur og góðhjartaður verkstjóri, hann var nú reyndar bara nokkrum árum eldri en sumir sem voru þarna í sumarvinnu. Einn ónefndur sagði mér um daginn, eftirfarandi stuttu sögu:
“Ég var bara 16 vetra og nýbyrjaður á föstu með sætri stelpu, vann þetta sumar í Siglósíld og stóð mig bara vel, held ég.
Vikuna fyrir verslunarmannahelgina spyr ég Björgvin verkstjóra hvort ég megi fá frí komandi mánudag. Því ég ætlaði að fara með kærustu og vinum á blauta útihátíð…. sjálfur drakk ég ekkert á þessum tíma. En ég hlít að hafa hitt eitthvað illa á hann, því hann sagði blankt NEI.
Kannski var ég of seint úti og kannski var hann þegar búinn að segja JÁ við of marga. Við sumarkrakkarnir vorum nú reyndar að leysa af reynsluríkt starfsfólk sem var í sumarleyfi.
Hann kannski sá fyrir sér að þurfa að loka verksmiðjunni þennan mánudag sem var frídagur verslunarfólks en ekki verksmiðju unglinga, ef enginn nennti eða vildi vinna.
Þrátt fyrir þetta stóra nei, kom ég ekki í vinnuna fyrr en á þriðjudagsmorgun og hann RAK MIG samstundis.” haha..
Vinna við grunninn haustið 1961
Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson.
Bryndís Sif Guðbrandsdóttir sendi inn upplýsingar 14. júlí 2009 -
Maðurinn með hvítu húfuna er faðir minn Guðbrandur Þ Sigurbjörnsson. -- Þarna má einnig sjá frá vinstri; Stefán Friðleifsson, Óla Björnsson, Guðbrand og Óskar Garðarsson.
Sigló Síld í byggingu. ATH.Gamla “Smurstöðin” og önnur horfin hús sjást í bakgrunninum.
Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson.
Í Byggingu. ATH. Takið eftir óvenjulega lítið hallandi þaki… sem mun valda miklum vandræðum seinna. Menn eru greinilega fljótir að gleyma hvernig fór fyrir veðurfarslega rangt hönnuðu þaki Mjölhússins sem stendur þarna beint fyrir ofan. Sjá meira hér: HRUN OG BRUNI – MYNDASYRPUSAGA
Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson.
Nýtt þak… myndin er líklega frá þeim tíma sem Sigló Síld breyttist í Pólar Hf rækjuvinnsluverksmiðju.
Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson.
Vinnsluferlið í stuttu máli og myndum
Dagurinn byrjar eldsnemma með því að örfáir karlar og konur mæta á undan hinum. Tunnur eru sóttar í sérstaka tunnukæligeymslu sem var í norðurhluta Mjölhússins stóra. Fjórum tunnum í einu er keyrt þaðan framan á sérútbúnum tunnulyftara gaffli. Tunnur slegnar upp og pækill aðskilin frá síldinni. Hún er jafnóðum gæðaskoðuð og skrá er úr hvaða tunnum þær koma. Síðan er flakað og safnað í vænan haug áður en síldarflaka snyrtidömurnar mættu á neðri hæðina. Það kom fyrir að það leyndist “þrái” í síldinni. Gulir ljótir blettir sem stundum var hægt að skera burt úr flökunum, en ef þetta var of mikið þá þurfti að henda öllu tunnuinnihaldinu í mörgum tunnum.
Þessari þráasíld var reyndar ekki hent, því þessi síld, sem og afskurðarúrgangur var saltaður aftur í tunnur og innihaldið var síðan selt sem herramanns matur á þorrablót hjá hrossum og kindum inní Fljótum. Þeirra tíma lífræna endurvinnsla.
Kindur og hestar og kannski kýr líka ropuðu og ráku við með síldarbragði og tilheyrandi lykt… en sem betur gerðust þessi furðulegheit að mestu leyti inní Fljótum og kannski að einhverjum litlum hluta í kindakofum Siglufjarðar.
Ég minnist þess að við Björgvinssynir vorum annað slagið að vinna í skólafríum við að bæta pækli á tunnur uppi í Mjölhúsgeymslunni.
Þar réði ríkjum Viðar Jóhannsson og þrátt fyrir að hann aðstoðaði okkur mikið með lyftaranum, þá var þetta nokkuð krefjandi vinna.
Það þurfti að snúa öllum tunnum ofan á öðrum tunnum svo að tappinn snéri upp. Tappinn slegin af, pækli bætt á sem kom gegnum slöngu tengdum stórum pækiltanki.
Nýr tappi settur í og svo tók Viddi 4 tunnur í einu og færði í nýja stafla og skráði umpæklunardag í leiðinni
Á myndunum sést vel að í upphafi fór næstum allt vinnsluferlið fram á neðri hæðinni áður en fullkomnari tæki og tól komust í gang á efri hæðinni. Minnist þess að það voru tvær lyftur á milli hæða í sitthvorum enda hússins.
Eitt af einmitt mínum fyrstu vinnuverkefnum sem óstálpaður unglingur var að keyra þessum síldarflaka bökkum á stórum margra hæða vagni í vesturlyftuna og síðan skila þessu af mér skilvíslega að gaffalbita skurðarvélinni á efri hæðinni. Eitt sinn missti ég vagninn á hliðina.
Úps… var síðan í fleiri tíma vinnu við að skola og raða upp síldarflökum aftur. Góðhjartaðar konur hjálpuðu mér reyndar mikið. Björgvin verkstjóri var ekki par hrifinn af þessum klaufaskap hjá syni sínum, því það varð strax mikil flakaskortur uppi, sem næstum orsakaði vinnslustopp.
Sósugerðarherbergið á neðri hæðinni var heilagt herbergi, þarna var alltaf svo góð lykt og þetta var mikil nákvæmnisvinna sem lá á bakvið rauðvínssósur og annað gott sem var soðið í stórum pottum þarna áður allt var kælt niður og dælt upp á efri hæð.
Ég man eftir Jóni Rögnvalds, yndislegur og skemmtilegur karl.
En svo man ég líka eftir bræðrunum stóru, Gugga (Guðfinnur, fósturfaðir Robba Guðfinns) og Eysteini og daglega stakk ég inn hausnum og andaði að mér góðri lykt og sagði:
“Eitthvað gott í matinn í dag strákar?”
og þeir svöruðuð alltaf: “Já vinur, sama og í gær…
… í rauðvínssósu…”
Reyndar komst ég seinna að því að það voru stórhættuleg efni í þessari helv.. sósu sem var næstum búinn að drepa mig heima í kjallaranum á Hafnartúni 6.
Ég var að leita að bensíni á skellinöðruna mína, flotta bláa Hondu SS 50 sem ég keypti fyrir sumarlaunin í Sigló Síld.
Finn stóran 10 lítra plastdunk og sveimerþá, ég held að það sé smá bensín í botninum, pabbi var með fullt af allskyns bremsuvökva dunkum og hinu og þessum vökvum sem vélar þurfa á að halda.
Skrúfa af tappann og rek nefið ofan í og dreg inn andann …. svo man ég ekki meir… ranka við mér á gólfinu með svakalegan hausverk, gufan frá þessum Sigló sósugerðar dunk gáfu mér hreinlega einn gomorron á kjaftinn, ég stein lá, hef ekki hugmynd hversu lengi.
Þegar verkstjórinn þreytti kom heim, þá húðskammaði ég hann, öskureiður og sagði honum að hann gæti fjandinn sjálfur drullast til að skola þessa helvítis
EDIKSÝRU sósugerðareiturefna bauka úr niðrí Sigló Síld áður en kæmi með þetta helv.. heim… svo bætti ég við í aðeins mildari táningafrekjutóni… geturðu ekki líka bara reynt að merkja dunkana sem þú geymir bensín í… ha pabbi?
Pistla höfundur hefur líka slæma reynslu af því að innan í þessari litlu til sýnis saklausu gaffalbita skurðarvél er flugbeitt 30 blaða hnífasett.
Við bræðurnir 6 og 7 ára gamlir fórum um helgi með pabba í bíltúr niður í Sigló, pabbi þurfti eitthvað aðeins að kíkja á kæliklefann eða eitthvað svoleiðis… gleymir okkur smástund og við læðumst inn í lítið herbergi og þar lá eitt svona nýslípað hnífasett með örþunnum flugbeittum blöðum.
Eins og vanalega gat ég ekki stillt forvitni mína og lagði aðra höndina laflaust ofan á blöðin.
Fann ekki fyrir neinu og sýndi litla bróður að þessir hnífar sem hann var svo hræddur við væru bara alls ekki beittir. Siggi Tommi gargar yfir sig með skelfingarsvip og hleypur og nær í pabba.
Ég kíki í lófann á mér og það fossblæddi úr mér, það var eins og að 30 kettir hefðu klórað mig samtímis.
Stakk blóðurgi hendinni í vasann og reyndi að fela þetta fyrir pabba, sem síðan neyddist til að klára plástralager heillar verksmiðju á báttin á syni sínum.
Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson
Þarna er fyrst flökum raðað á rifflaða plast bakka áður en þeim var stungið inní skurðarvélina og svo fóru bitarnir áfram á færibandi í hendurnar á eldsnöggum konum í langri röð sem röðuðu nákvæmlega 200 g. (minnir mig) af síldarbitum í hverja dós, áður en þær sendu hana frá sér á efra færibandinu, skelltu þær dósinni á vog. Þær þurftu flesta sjaldan að bæta við eða taka úr… mældu þetta bara með augunum.
Akkúrat þessi mynd er mér mikið kær, þarna var gaman að drolla aðeins þegar ég skilaði af mér nýsnyrtum síldarflökum við gaffalbita skurðarborðið hjá og Ásu Ólageirs og Biddu Björns og sem stendur þarna við borðsendann Ferðaútvarpið í gangi og kannski ómuðu óskalög sjúklinga með skemmtilegum lögum úr tækinu. Bidda var og er enn svo skemmtileg, hún er líklega heimsins mest ljósmyndaða persóna Siglufjarðar, sem síldarsöltunar stúlkur á bryggjuböllum Síldarminjasafns Íslands. Biddu gat allt í einu dottið í hug að dansa við mig unglinginn og svo plataði hún mig til að segja sér einhvern ljótan brandara og svo hló hún svo hátt og innilega að allar konurnar við dósalagningarbandið litu upp og amma mín Nunna (Unnur Möller) móðir Björgvins Siglóverkstjóra.
“Jón Ólafur, viltu gjöra svo vel vera ekki að drolla svona og mundu að þú ert í vinnu hérna….”
En pabbi sagði reyndar aldrei við neinn að það væri bannað að skemmta sér í vinnunni í Sigló Síld.
Á þessari mynd má sjá mína uppáhalds vél, TRIO TAF 3. Sem litlum gutta sem kom í heimsókn til að skoða vinnustað pabba síns fannst mér þessi dósalokunarvél mikið galdratæki.
Á þeim tíma stóð Steina Bergs oft þarna með könnu af rauðvínssósu í hendinni og bætti sósu í sumar dósir sem höfðu ekki fengið nóg í sig úr sjálfvirka sósubarnum sem kom með dælu úr sósu herberginu á neðri hæðinni.
Steina leyfi mér að prufa að fylla á dósalok og útskýrið þetta allt saman með einstakri umhyggju og þolinmæði fyrir spurulu barninu.
Þessi austurendi á dósaþvottavélinni er í rauninni dósa hárþurrka.
Þarna stóð hún Magga (Margrét Steingrímsdóttir) í stuttermabol alla daga og það blés á hana heitur suðrænn vindur allt vinnuárið.
Ég minnist þess hversu fljót hún var að raða 100 dósum í 10 röðum í kassa og svo ýtti hún kassanum til mín sem hafði það einfalda verkefni að loka kassanum. Hún var svo snögg að hún fyllti tvo á meðan ég lokaði einum….
Svo hjálpaði hún mér að loka kössunum áður en ég fór með þá niður í kæligeymsluna á vagni í austurlyftunni og svo tókum við smá pásu og fórum út á brunastiga pallinn á suðvesturhorninu og kældum okkur niður og fengum okkur smók… eða nei, hún fékk sér smók, ég reykti ekki opinberlega á þessum tíma.
DÓSAGERÐ OG LÍMMIÐAR
Á mörgum myndum sést fólk á öllum aldri og jafnvel Leikskólabörn vinna við að líma miða á dósir.
Upprunalega komu þessar dósir ómerktar frá dósaverksmiðju í Stavanger.
Um tíma minnir mig voru framleiddar (Stansaðar) blikkdósir og lok á neðri hæðinni.
Seinna komu áprentaðar flottar dósir frá útlöndum. Það getur mikið vel verið að Björgvin Jónsson hafi upprunalega verið ráðinn til að sjá um þessa dósagerð, því hann hafði reyndar minnir mig tekið sveinspróf í blikksmíði.
Stundum gerðist það líka að það þurfti að endurmerkja dósir, líklega vegna þess að það átti þá að selja þær á annan markað en Sovétríkja markaðinn stóra, þar sem við skiptum síld í rauðvínssósu á móti LADA bílum.
Stundum þurfti að rífa upp nokkur hundruð kassa og stimpla og merkja dósir uppá nýtt ef að mistök voru gerð í framleiðsluferlinu.
AÐ LOKNUM VINNUDEGI VAR ALLT…
… Smúlað hátt og lágt með klórblönduðu heitu vatni með háþrýstingarvatnsbyssum. Frá upphafi til enda Sigló- Síldar voru ætíð gerðar háar kröfur um hreinlæti og gæði.
LÍFIÐ Í SIGLÓ-SÍLD
Jón Rögnvaldsson aðstoðar flakasnyrtinga dömurnar. Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson.
Smá hliðarspor.
Sami Jón Rögnvalds í Sigló síldar sósunni er allt í einu komin út á sjó og er að salta síld um borð í Haferninum.
En útskýringin á því, kemur kannski í texta undir næstu mynd.
Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson.
ATH. Takið eftir stóru hringlóttu dósinni fyrir miðri mynd.
Í þessar dósir voru lögð heil flök af MATJES síld, sem er sérverkuð í tunnum í öðruvísi söltunarferli.
Þykir mikill herramannsmatur t.d. hér úti í Svíþjóð.
Leki og svört mygla í loftinu á neðri hæðinni.
Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Þessi svartmyglu vandi og leki getur að hluta til hafa stafað af þessu kannski of lítið hallandi upprunalegu þaki, en líklega líka af vatnsgufum sem komu þegar þrifið var loknum vinnudegi.
Það myndaðist einhverskonar eigið “monsún” gufurigninga veðurfar eftir heitavatns háþrýstiþvottinn.
Sama svarta mygla á þakinu á efri hæð.
Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
SIGLÓ-SÍLDAR STARFSMANNA ÚTILEGA VIÐ LEYNISHÓLA 1976
Myndirnar eru allar teknar af Margréti Steingríms sem tók mynd af myndum með snjallsímanum sínum og sendi pistla höfundi sem síðan reyndi eftir bestu getu að laga gæði og liti… en það eru ekki myndgæðin sem skipta máli, heldur miklu meira samheldnin og vináttan sem skín í gegnum stemminguna í myndunum.
Skemmtilegur Sigló-Síldar andi ræður þarna ríkjum. Starfs-konur og menn og makar.
Sums staðar er erfitt að þekkja alla á myndunum og þið sem þekkið fólkið betur mega gjarnan senda inn viðbótar upplýsingar í spjallþráð hér undir pistlinum.
Rassinn á Biddu Björns, Fríða, Abbý og Eysteinn með hendina í fatla. Ljósmynd: Margrét Steingrímsdóttir.
Sigrún og Svenni.
Ljósmynd: Margrét Steingrímsdóttir.
Rúnar rútubílstjóri og Ingi Bald vörubílstjóri.
Ljósmynd: Margrét Steingrímsdóttir.
Sína (eiginkona Aage Johansens) og Hulda Kobbelt.
Ljósmynd: Margrét Steingrímsdóttir.
Elsku Júlla, eiginkona Bjössa Þórðar og ein af auka ömmum mínum í suðurbænum.
Ljósmynd: Margrét Steingrímsdóttir.
Elsku Bigga Páls (Birgitta Pálsdóttir) og ? Þín er sárt saknað elsku skemmtilega Bigga okkar allra.
Ljósmynd: Margrét Steingrímsdóttir.
Gréta Árna, Sigrún og Steina Bergs.
Ljósmynd: Margrét Steingrímsdóttir.
Elsku Fríða, (mamma Huldu Friðgeirs) og ? og
líklega Helga eða Birna (þær eru tvíburasystur)
með þeirra tíma “permanent” hárgreiðslu.
Ljósmynd: Margrét Steingrímsdóttir.
Spænska orðið SIGLO þýðir ÖLD á íslensku og hefur auðvitað engin tengsl við hvorki síld eða Siglufjörð……
ATH: Pistla höfundur selur ekki þessa sögu dýrara en hann keypti hana!
Sagan segir að nokkrir Siglfirðingar í sólarlandaferð á Spáni hafi séð vínflöskur þar með þessu Sigló nafni. Sigló (Síld) nafnið var skrá sem vörumerki út um alla heim og forráðamenn síldarverksmiðjunnar á norðurhjara veraldar klöguðu yfir þessum nafnastuldi og frekju við Spænska alsaklausa óvitandi sólbrennda rauðvínsbændur.
Sagan segir að þetta hafi síðan verið fyrirgefið og gert upp í góðu og sem skaðabætur birtust allt í einu nokkrir kassar af þessu góða Sigló strigapoka klædda rauðvíni heima á Sigló….
… og það var EKKI notað í síldar gaffalbita sósur.
Skemmtileg stutt viðbótarsaga:
Björgvin Jóns og Tuk-Tuk bíllinn
Siglósaknaðarkveðjur til ykkar allra.
Nonni Björgvins.
Höfundur texta og myndvinnsla:
Jón Ólafur Björgvinsson
Forsíðu ljósmynd:
Steingrímur Kristinsson.
Aðrir ljósmyndarar:
Steinunn Bergsdóttir
Steingrímur Kristinsson.
Björgvins S Jónsson
Salbjörg Jónsdóttir
Jón Ólafur Björgvinsson
Björn Valdimarsson
Margrét M Steingrímsdóttir
Allar ljósmyndir eru birtar með leyfi ættingja og núlifandi myndasmiða sem og frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.
Heimildir:
Eigin minningar höfundar, samtöl við vini og ættingja sem og aðra sem hafa unnið í Sigló-Síld.
Vísað er í aðrar heimildir gegnum slóðir í pistlinum.
Aðrar sögur, myndasyrpur og pistlar eftir sama höfund finnur þú hér á trölli.is:
AUTHOR: JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON
Aðrar áhugaverðar nýlega birtar myndasyrpur og sögur með mörgum Siglfirskum minningum og myndum:
ÖRSÖGUR ÚR MYNDAALBÚMI ÁSTVALDS (50 MYNDIR)
SUNNUDAGSPISTILL: ÖÐRUVÍSI SIGLFIRSKT FÓLK OG… SÖGUR
HRÍMNIR H/F. SÍLDARTUNNUR UPPÁ ÞAKI OG SUNDLAUG Í KJALLARANUM. 35 MYNDIR
HAUGASUND Á SIGLUFIRÐI VAR EITT AF HÚSUNUM Í HJARTA BÆJARINS
PÓLITÍSKT UPPELDI Í SÍLDARLAUSUM SÍLDARBÆ. 50 MYNDASYRPUSAGA
HAFÖRNINN! EIGIN HEIMUR OG ÓVÆNT HEIMSÓKN. 70 MYNDIR.
1993 – ÞÖKK SÉ FÁUM, GETA ALLIR DRAUMAR RÆST!
ERT ÞÚ ÁTTAVILLTUR SIGLFIRÐINGUR? X
TÍMASPEGILLINN Á MILLI ÁLFAKIRKJU OG ÁLAGABOLLA
MARGRÉT SI 4 OG FYLLERÍ ALDARINNAR SEM LEIÐ
RÁÐHÚS- TORGIÐ OKKAR FYRR OG NÚ… 1 HLUTI og 2 hluti 60 MYNDA-SYRPUSAGA
UM SIGLFIRSK VIÐURNEFI: ÉG HEITI EFTIR AFA MÍNUM…
Lagmetis verksmiðjan Sigló Síld
Viðbótar upplýsingar frá
Steingrími Kristinssyni:
Byggingavinnan, grunnurinn undir verksmiðjuhúsið Sigló Síld, hófst um haustið árið 1961. Unnið af starfsmönnum Trésmíðaverkstæðis SR á Sigló, undir stjórn Páls G Jónssonar byggingameistara.
Fimm mánuðum síðar, þann 8. mars árið 1962 hófst vinnan við framleiðsluna í húsinu.
Myndir má skoða á frá tenglinum hér fyrir neðan, á gamalli heimildasíðu síðu minni:
https://sk2134.is/gamli/01-62-mbl.htm