Aðalheiður

sksiglo.is | Söfn og sýningar | 14.07.2017 | 10:00 | Jón Ólafur Björgvinsson

5 ára Afmælishátíð og opnun

skúlptúrgarðs í Alþýðuhúsinu 

14 - 16 júlí

Afmælishátíðin hefst með opnun skúlptúrgarðs kl. 17.00 föstudaginn 14 Júlí á grasfletinum sunnan við Alþýðuhúsið og lýkur á sunnudaginn 16 með fjöllistasýningu kl.17 á sama stað.

Sjá dagskrá hér neðar.

Í desember 2011 keypti Aðalheiður S. Eysteinsdóttir Alþýðuhúsið á Siglufirði með það að markmiði að gera þar vinnustofu og leikvöll sköpunar af ýmsum toga. Hafist var handa við endurgerð hússins með hjálp vina og vandamanna, og var Alþýðuhúsið formlega tekið í notkun sem vinnustofa og heimili með menningarlegu ívafi 19. júlí 2012.

Síðan hafa 120 viðburðir verið settir upp í Alþýðuhúsinu á Siglufirði og 751 skapandi einstaklingar tekið þátt. Ekki eru til nákvæmar tölur um fjölda gesta sem sótt hafa viðburðina en þeir skipta þúsundum. Það er tími til að fagna og þakka öllu þessu frábæra fólki.


Aðalheiður hlaut Menningarverðlaun DV 2015 meðal annars fyrir starfið í Alþýðuhúsinu. Og Alþýðuhúsið valið af Eyrarrósinni 2017, eitt af þremur framúrskarandi menningarverkefnum á landsbyggðinni.

Í tilefni af árunum fimm verður efnt til þriggja daga menningarveislu með þéttri dagskrá alla dagana. 

Dagskrá.

✘ 14. júlí.
17:00 Ávarp - Aðalheiður S. Eysteinsdóttir
Skúlptúrgarður opnaður
21:00 Raftónlist - Arnljótur Sigurðsson
22:00 Raftónlist - Áki Sebastian Frostason
22:30 Vélarnar Þeytir skífum.

✘ 15.júlí
14:00 Kompan sýningaropnun - Guðjón Ketilsson
15:30 Húlladúllan sýning og námskeið á túninu við Alþýðuhúsið - Unnur María Bergsveinsdóttir
16:30 REITIR Workshop Kynning - Arnar Ómarsson
17:30 Matargjörningur - Aðalheiður S. Eysteinsdóttir
21:00 Djasshljómsveitin LAND - Óskar Guðjónsson, Matthías Hemstock , Eyþór Gunnarsson, hugsanlegir leynigestir

✘ 16. júlí
14:00 Frásögn og spjall - Guðrún Pálína Guðmundsdóttir
14:15 Ljóðadagskrá - Jón Laxdal, Hekla Björt Helgadóttir, Guðbrandur Siglaugsson, Páll Helgason, Margrét Guðbrandsdóttir
16:00 Gjörningur - Andrea Elín Vilhjálmsdóttir, Lóa Björk Björnsdóttir
17:00 Fjöllistasýning - Kyle Driggs, Andrea Murillo

Eftirfarandi eru upplýsingar um þá sem fram koma í þeirri röð sem atriðin eru í dagskránni.

► Aðalheiður S. Eysteinsdóttir
Aðalheiður er listamaður og eigandi Alþýðuhússins á Siglufirði.
Aðalheiður mun í upphafi afmælisfagnaðarins fara létt yfir þau fimm ár sem liðin eru frá því hún keypti húsið og þakka öllum sem að hafa komið.

Undanfarið ár hefur Aðalheiður unnið skúlptúra sem staðsettir eru á flötinni sunnan við Alþýðuhúsið. Verkin marka upphafið af skúlptúrgarði sem þar mun vaxa á komandi árum. Aðalheiður mun opna garðinn formlega og segja frá verkunum.

► Arnljótur Sigurðsson
Ljótur er listamannsnafn Arnljóts Sigurðssonar, sem hefur verið iðinn við kolann í tónlistarsenu Reykjavíkur um árabil og hefur komið fram í ýmsum formum. Hann er einn prímusmótorinn í hljómsveitinni Ojba Rasta auk þess sem hann leggur öðrum tónlistarmönnum lið í öðrum verkefnum á ýmis hljóðfæri (Sin Fang, Skúli Sverrisson, Teitur Magnússon, Samúel Jón Samúelsson Big Band o.fl.). Á börum borgarinnar er hægt að finna hann í plötuþeytingum sem hann gerir undir nafninu Krystal Carma. Þegar hann byrjaði að stunda myndlist opnaðist samtímis gátt inn í heim raftónlistarinnar. Undir sínu eigin nafni hefur hann gefið út plöturnar Listauki (2008), Línur (2014), Til Einskis (2015) og Úð (2016). Ljótur maríneraði sig í þýsku raftónlistarsenu áttunda áratugarins, Kraftwerk, Cluster, Tangerine Dream og fleiru, en innanlands hefur hann sótt innblástur í Inferno 5 og Evil Madness. Á þessum tónleikum mun Ljótur spila nýja raftónlist.
arnljotur.bandcamp.com
www.soundcloud.com/ljotu

► Áki Sebastian Frostason
Áki mun spila efni af væntanlegri plötu sinni sem ber heitið 7. Um er að ræða raftónlist, sjö lög sungin á sjö tungumálum.

► Arnar Ari Lúðvíksson
Vélarnar er listamannsnafn Arnars Ara þegar hann þeytir skífum á sinn einstaka máta og tekur viðstadda með sér í ferðalag. Hann mun standa vaktina í Alþýðuhúsinu á afmælisfagnaði.

► Guðjón Ketilsson (f. 1956)
Býr og starfar í Reykjavík. Hann stundaði myndlistarnám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Nova Scotia College of Art and Design í Kanada.Guðjón hefur frá upphafi unnið í margvíslegan efnivið – jöfnum höndum með eigið handverk, málverk, teikningar, leir, keramik og fundna hluti sem oft hafa persónulega þýðingu fyrir hann - efnisval hverju sinni ræðst af inntaki verkanna.
Í verkum Guðjóns skipar fortíð efnisins iðulega stóran sess. Ólíkar vísanir í líf fólks og sögu. Það má segja að mörg verka hans vísi inn á við. Þau beina athygli okkar að efninu og hinu efnislega umhverfi. Hann vinnur oft með hluti sem hann tekur úr upprunalegu samhengi sínu og setur í nýtt. Úr fundnum hlutum má lesa ýmis skilaboð sem öðlast merkingu eftir samhengi þeirra. Maðurinn og samband hans og samskipti við umhverfi sitt hefur verið lengi verið viðfangsefni Guðjóns. Einnig hefur mannslíkaminn oft verið í forgrunni í verkum Guðjóns, nærvera hans eða fjarvera.

Guðjón hefur haldið yfir þrjátíu einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga á Íslandi og í Evrópu, Bandaríkjunum, Kína og Ástralíu. Verk Guðjóns eru í eigu allra helstu listasafna á Íslandi, svo og nokkurra erlendis. Auk þess að vera boðið að vinna að list sinni á ýmsum alþjóðlegum vinnustofum, hefur hann verið valinn til þátttöku í samkeppnum um gerð listaverka í opinberu rými og má sjá verk hans í opinberu rými í Reykjavík og á Seyðisfirði.
Guðjón hefur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir list sína, s.s. Menningarverðlaun DV árið 2000 og verðlaun Listasafns Einars Jónssonar árið 1998.

► Unnur María Bergsveinsdóttir
Húlladúllan mætir á svæðið, slær upp stuttri húllasýningu þar sem hún sýnir hversu fjölbreytt og skemmtilegt húllahoppið er og býður viðstöddum í kjölfarið í húllafjör! Húllafjörið er húllasmiðja þar sem þáttakendum er mætt á getustigi hvers og eins. Þáttakendum er boðið að koma og prófa að húlla og Húlladúllan mun ganga á milli, gefa góð ráð og kenna skemmtileg trix. Engrar kunnáttu er þörf til þess að vera með og þáttakendur læra á sínum hraða. Húlladúllan verður með heila hrúgu af húllahringjum; litla krakkahringi, hringi fyrir fullorðna og nokkra risahringi. Húllahopp hentar bæði börnum og fullorðnum og er fyrirtaks leið fyrir fjölskylduna að skemmta sér saman. Markmið viðburðarins er að allir skemmti sér vel og gangi í burt stolt af því að hafa uppgötvað nýja hæfileika!

► Arnar Ómarsson
REITIR workshop hefur á árunum 2012 til 2016 rekið árlega tveggja vikna smiðju í Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Áherslan hefur verið á samstarf starfsgreina og almenningsrýmið, en frá upphafi hefur smiðjan verið ákveðið rannsóknaverkefni sem lauk með útgáfu yfirgripsmikillar bókar í lok 2016. Samtals hafa 92 aðilar tekið þátt frá 21 landi, en hvert ár hafa Arnar Ómarsson og Ari Marteinsson stofnendur smiðjunnar, valið þátttakendur úr hópi umsækjenda. Í þessari kynningu munu þeir skyggjast á bakvið tjöldin, og draga fram áhugaverðustu atvikin, mikilvægusta lærdóminn og horfa svo til framtíðar.

► Aðalheiður S. Eysteinsdóttir
Aðalheiður hefur stundað gjörningalist meðfram annari listsköpun síðastliðin 15 ár og matargerð verður æ umfangsmeiri með árunum. Á Réttardagssýningunum fór hún markvisst að blanda saman þessu tvennu og hefur síðan sett upp matargjörning á Gjörningalistahátíðinni A á Akureyri.

Í til efni af 5 ára afmælisfagnaði Alþýðuhússins á Siglufirði mun Aðalheiður flytja matargjörning ásamt völdum einstaklingum, og verður viðstöddum svo boðið að
snæða.

► Eyþór Gunnarsson, Matthías Hemstock og Óskar Guðjónsson
Hljómsveitin LAND leggur undir fætur sína söngdans sem heilla til könnunnar. Hvert farið verður, kemur í ljós en hlustunarrætur þeirra Eyþórs Gunnarssonar, Matthíasar MD Hemstocks og Óskars Guðjónssonar liggja í Jazztónlist. Amerískar og hugsanlega íslensk sönglög verða fyrir valinu og ef allir slá í takt verða fumsamin lög einnig brúkuð sem stökkpallur í spuna.
Eyþór byrjaði snemma að spila á píanó. Eftir að hafa gælt við trompetinn um skeið eignaðist hann Yamaha-orgel og hóf fljótlega feril sinn sem hljómborðsleikari. Skólabróðir Eyþórs, gítarleikarinn Friðrik Karlsson, kynnti fyrir honum tónlist bræðingshljómsveita á borð við Return to Forever og Weather Report og í kjölfarið stofnuðu þeir félagar Mezzoforte ásamt bassaleikaranum Jóhanni Ásmundssyni og trommaranum Gunnlaugi Briem. Þegar lag Eyþórs Garden Party sló rækilega í gegn árið 1983 opnaðist heimurinn fyrir Mezzoforte og hljómsveitin hefur allar götur síðan ferðast um Evrópu og Asíu og haldið tónleika í yfir 40 löndum.
Á undanförnum árum hefur Eyþór snúið sér í meira mæli að órafmögnuðum píanóleik. Hann hefur leikið með flestum fremstu djassleikurum landsins og ber nafnbótina „mest hljóðritaði tónlistarmaður í íslenskri djasssögu“. Einnig hefur hann spilað með mörgum erlendum djassleikurum sem hafa sótt Ísland heim og má nefna Frank Lacy, Jens Winter, Mads Vinding, Doug Raney og Tommy Smith. Árið 1991 fór hann í tónleikaferðalag með hinni víðfrægu bandarísku söngkonu Randy Crawford.
Eyþór hefur ennfremur starfað sem upptökustjóri og útsetjari fyrir fjölda tónlistarmanna á Íslandi og erlendis. Hann hefur oftsinnis hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin sem djassleikari og hljómborðsleikari ársins.
Óskar Guðjónsson saxófnleikari hefur starfað talsvert með bassaleikaranum Skúla Sverrissyni, og er einnig þekktur fyrir þátttöku sína í hljómsveitinni ADHD sem nýlega lauk upptökum á fimmtu breiðskífu sinni. Hann hefur tekið þátt í yfir 300 alþjóðlegum tónleikum í 40 löndum í 5 heimsálfum, með hljómsveitum á borð við Jim Black, ADHD, Mezzoforte, Óskar Guðjónsson og Skúli Sverrisson duo og Sören Dahl Jeppesen quartet.
Matthías Hemstock trommuleikari hefur á síðustu tuttugu og fimm árum spilað og hljóðritað tónlist með fjölda íslenskra tónlistarmanna og hljómsveita. Hann nam tónlistarleik í hinum virta háskóla Berkley college of Music í tvö ár, og gekk til liðs við jass- og rokkbraut Tónlistarskóla FÍH þegar hann kom heim árið 1991. Þar hefur hann smitað margan ungan tónlistarmanninn af djassbakteríunni.

► Guðrún Pálína Guðmundsdóttir
Guðrún Pálína er listamaður og listunnandi. Hún hefur fylgst afar vel með því menningarstarfi sem Aðalheiður hefur staðið fyrir í gengum árin og mun í þessu spjalli tala um kynni sín af því.

► Jón Laxdal, Hekla Björt Helgadóttir, Guðbrandur Siglaugsson, Páll Helgason, Margrét Guðbrandsdóttir.
Í tilefni af fimm ára afmælisfagnaði Alþýðuhússins býður Aðalheiður góðum vinum, sem jafnframt eru hennar uppáhalds ljóðskáld til samfundar. Þessi fimm munu lesa til jafns úr eigin verkum.
Jón Laxdal hefur gefið út þrjár ljóðabækur sem heita Myrkur á Hvítri örk - Stofuljóð og Kvöldstund í Populus Tremula.
Guðbrandur hefur gefið út 12 ljóðabækur. Eitraður orðum, - Tækifærisvísur – Kvæði – Þvert á rennibrautina – Drög að kvöldi – Tvö skáld og gítar – 8 ljóð, 12 á miðnætti – Til athugunar síðar – Rauð talnagrind - Höfuð drekans á vatninu og Þúfnatal.
Hekla Björt helgadóttir stefnir að útgáfu fyrstu ljóðabókar sinnar á þessu ári, en hún hefur komið fram opinberlega með upplestri og listsýningum þar sem ljóðin spila lykilatriði. Páll Helgason hefur prentað þrjú kvæðakver í samstarfi við Örlyg Kristfinnsson, Hinrik K. Aðalsteinsson og Guðný Róbertsdóttur. Kverin heita Frá hafi til hófsemdar – Frá einsemd til upphefðar og Frá getnaði til grafar.
Margrét Guðbrandsdóttir hlaut verðlaun ungskálda 2015 og hefur vakið þónokkra athygli fyrir ljóðin sín.


► Andrea Elín Vilhjálmsdóttir og Lóa Björk Björnsdóttir
Sónað út/Space out Gjörningur með Andreu Elínu Vilhjálmsdóttur og Lóu Björk Björnsdóttur, Þær viðra sviðslist í sinni einföldustu mynd. Mynda mótspyrnu við kapitalisma og nýfrjálshyggju og öllu sem fyllir upp í tímanna safn. Þær koma saman og sóna út sem hreyfiafl. Hið persónulega verður pólitískt með póstískri stóik. Komdu og vertu með!
Andrea Elín Vilhjálmsdóttir og Lóa Björk Björnsdóttir eru performance listamenn og hafa þær unnið saman síðan 2015 að ýmsum verkum. Í verkum sínum viðra þær pólitískar og persónulegar afstöður sínar sem manneskjur í efnislegum mannmiðjuðum heimi. Þær hafa sett upp verk sem eru allt frá því að vera heimilissýning fyrir plöntur eða einstaklings þátttökuverk á kaffihúsi til níu klukkustunda langrar feminiskrar sviðslistasýningar. Þær eru einnig hluti af Sviðslistahópnum M sem samanstendur af dönsurum, leikkonum og sviðshöfundum. Báðar hafa þær lagt stund á nám við Sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands en auk þess eru þær miklar áhugakonur um gróðurrækt, samfélagsmiðla, Grafarvoginn og póst-húmanisma.

► Kyle Driggs, Andrea Murillo
"Same Picture, Different Poses" er saga byggð á okkar eigin sambandi og upplifunum sem dregur upp mynd af einstakri nánd. Með samband okkar sem viðfangsefni höfum við skapað þessi viðkvæmu augnablik einingar og aðskilnaðs. Í gegnum þetta verk vörpum við ljósi á önnur sjálf undirmeðvitundarinnar sem þrífast í sambandi okkar tveggja og fjöllum þannig um tvíþættingu veruleika og ímyndunar. Umgjörð verksins er stofa, og þar ígrundar par innviði samvistar sinnar í gegnum myndrænar hreyfingar. Fínleg augnablik óræðra upplifanna koma fram þegar sagan skýrist. Töfrar og veruleiki flæða saman á þann hátt að parið verður heltekið af sínu ofurnáttúrulega öðru sjálfi. Þegar persónurnar leita lausnar komast þau aftur heim í stofu -og átta sig á að þau fóru aldrei raunverulega þaðan.