Kominn langleiðis
Vegurinn um Siglufjarðarskarð kominn langleiðis
Tíminn 21 ágúst 1946
Verður væntanlega bílfær nú í haust
Nú fer að sjá fyrir endann á vegagerðinni yfir Siglufjarðarskarð. Hefir hún verið á döfinni í mörg ár, en von er til, að í haust verði unnt að gera leiðina bílfæra til bráðabirgða, ef snjóar leggjast ekki því fyrr að. Tíðindamaður blaðsins átti í gær tal við vegamálastjóra um þessa miklu samgöngubót, sem nú er að komast á, og sagðist honum svo frá.
Vegslóðinn vestan við Skarðið – og hestakerrur – Ljósmynd. Kristfinnur
Tveir flokkar verkamanna hafa unnið að vegagerðinni á Siglufjarðarskarði í sumar, sinn hvoru megin, og á það nú orðið skammt í land, að vegirnir mætist. Að vísu eru vinnuflokkarnir ekki ýkja fjölmennir en hafa dágóð vinnutæki, meðal annars eina stóra jarðýtu. Geri ég mér vonir um, að unnt verði að ljúka við undirbyggingu og ræsi og bera að einhverju leyti ofan í veginn, svo að komast megi á bílum alla leið yfir skarðið í haust. Þó veltur það nokkuð á því, hversu snemma snjór fellur og vetur leggst að.
Með erfiðustu vegagerðum. Aðstaða til vegagerðar yfir Siglufjarðarskarð er með allra erfiðasta móti að flestu leyti. Meðal annars er þar illfáanleg möl, sem nothæf sé til ofaní- burðar, og veldur það miklum töfum á vegagerðinni og eykur kostnaðinn við hana stórum. Fjárveiting sú, sem heimiluð er til vegarins yfir Siglufjarðarskarð á þessu ári, er 450 þúsund krónur. En hún verður sennilega ekki fullnotuð. Stafar það með- al annars af því, að ekki hafa fengizt eins margir menn til vinnunnar og þurft hefði, þótt annars hafi gengið allsæmilega að fá menn í vegavinnu yfirleitt. Síldarvinna á sjó og landi dregur að vonum svo til sín vinnuafl að sumrinu á þessum slóð- um. Þess vegna var til dæmis enga verkamenn að fá á Siglufirði.
Svo sagðist vegamálastjóra frá.
Þýðingarmikil samgöngubót. Því mun verða fagnað af fjölmörgum, að þessari vegagerð er senn lokið. Með henni er eitt af mestu og blómlegustu héruðum landsins tengt við stærsta og þýðingarmesta iðjuverið, sem hér er til, auk þess sem það léttir stórlega ferðalög þess mikla fjölda fólks, sem árlega leitar norður á Siglufjörð úr öðrum landshlutum til starfa að sumrinu, einkum héðan frá Faxaflóa, og þó raunar miklu víðar. Hingað til hefir það verið mikill skaði, að slíkur bær sem Siglufjörður, með þeim mikla síldariðnaði, sem þar er, skuli ekki hafa átt að baki sér fjölmennt byggðarlag, er greiðar samgöngur væri við og gæti hagnýtt sér margt, sem þar fellst til, og miðlað bænum í staðinn margs konar afurðum, er þar er brýn þörf á, auðvitað þó fyrst og fremst um síldveiðitímann. Nú er svo langt komið, að úr þessu verður bætt, eftir því sem staðhættir leyfa, þegar á næsta sumri að minnsta kosti. Þegar sér Þorleifur Skaftason vígði Siglufjarðarskarð.
Siglufjarðarskarð hefir löngum verið illræmdur fjallvegur. Þar hafa margir átt hinztu hvílu á liðnum öldum — örmagnazt og orðið úti í vetrarhríðum, hrapað í gljúfur af hjarni eða svellglottum eða látið lífið með öðrum voveiflegum hætti. Fyrr á tímum var það almannatrú, að þar væri reimt, og draugar og forynjur yllu mannsköðum. Sáust þar iðulega ískyggilegir skýjabólstrar, er unnu mönnum grand, að því er segir í árbókum Espólins.
Og það var ekki aðeins fáfróð alþýða, sem þessu trúði, heldur einnig og ekki síður stétt lærdómsmanna á þeirri tíð. Gekk trúin á forynjurnar á Siglufjarðarskarði og ódæði þeirra svo langt, að Steinn Hólabiskub fékk einn mesta klerk átjándu aldarinnar, séra Þorleif Skaftason stiftprófast að Múla í Aðaldal og tvívegis starfandi biskup, til þess að vígja skarðið og reka þannig óvættina brott úr vígi sínu. Það hefir þótt mikið við liggja. Eftir því, sem sagnir herma gafst vígslan vel. Þetta gerðist árið 1735.
Vígsla nútímans. En nú er baráttu íslenzku þjóðarinnar við hin erfiðu náttúruskilyrði svo langt komið, að hún er í þann veginn að veita Siglufjarðarskarði aðra og raunhæfari vígslu en þá, sem guðsmaðurinn og fjandafælan beitti fyrir röskum tvö hundruð árum. Nú eru það stritandi vélar og glaðir og prúðir starfsmenn tuttugustu aldarinnar, sem vígsluna framkvæma. Eftir margra ára starf er verkinu senn svo langt komið, að menn fái notið ávaxtanna af því.