Quo Vadís brennur

Siglufjarðar Bíó brennur.  -
Kviknaði út frá „filmuspólu"

Morgunblaðið 30. Júní 1936

Húsið og vörubirgðir vátrygðar fyrir 201 þúsund' Krónur

ELDUR braust út í Bíó-húsinu í Siglufirði á meðan á kvikmyndasýningu stóð á sunnudagskvöld. Eldurinn magnaðist afar fljótt í göngum og sýningarklefa. Mesta tilviljun og hepni er talin að ekki skyldi hljótast mannskaði af brunanum. 

Fátt manna var í kvikmyndahúsinu, því verið var að sýna gamla kvikmynd, „Quo vadis?" Bíóhúsið hefir eyðilagst allmikið og vörubirgðir í þremur sölubúðum, sem voru í húsinu eyðilögðust af eldi, reyk og vatni. Blæjalogn var á er eldurinn braust út og því auðvelt að verja næstu hús, Eldurinn kom upp í filmspólu.

"Dauði yfir Neró, dauði yfir brennuvarginum"

Frjettaritari Mbl. í Siglufirði símar í gær; Eldurinn í Bíó-húsinu kom upp klukkan 7 1/2 á sunnudagskvöld og var þá verið að sýna kvikmyndina „Quo vadis?"
Alt í einu „slitnaði" myndin og eldur kom um leið upp í filmspólunni. 

Sýningarmaðurinn, Kristinn Guðmundsson tók logandi spóluna og ætlaði að kasta henni út. En Kristinn var ekki kominn lengra en fram í ganginn, þegar spólan sprakk í höndum hans.

Eldurinn læsti sig á augabragði um ganginn, sýningarklefann og inn á svalir í salnum. Björguðust nauðulega, í sýningarklefanum var auk Kristins sýningarmanns, unglingspiltur, Ragnar Thorarensen. 

Hann er sonur húseigandans, Hinriks Thorarensens lyfsala. Þeir Ragnar og Kristinn björguðust nauðulega úr eldhafinu út um glugga. Ragnar ómeiddur, en Kristinn mikið brendur á höndum og sviðinn í andliti og hári.

Sár hans eru þó ekki talin hættuleg. Björgunarmaður særist. Fyrir neðan gluggann, sem þeir Ragnar og Kristinn komust út um, var maður að nafni Alfreð Jónsson, til að taka á móti þeim. En gluggi fell í höfuð honum og skarst hann svo að sauma varð sárið saman. Hinir særðu eru á fótum og við sæmilega líðan. 

Eldurinn kæfður

Meðal hinna fáu kvikmyndahúsgesta voru nokkrir Færeyingar. Flestir þeirra töpuðu klossunum, og stígvjelunum sínum, sem þeir höfðu farið úr á meðan á sýningunni stóð. Slökkviliðið kom fljótt á vettvang og tókst að kæfa eldinn eftir klukkustundar vinnu. 

Skemdir og tjón. Bíóhúsið í Siglufirði er stórt steinhús í tveimur álmum, áfast við Apótekið og er brunagafl á milli. Apótekið sakaði ekki. Í norðurálmu hússins var sýningarsalurinn, tvær hæðir. Í vesturálmunni eru sölubúðir niðri, en kaffihús, „Bíókaffi" á efri hæð. Þrjár verslanir voru í byggingunni: 

Fataverslun Jóns Valfells, „Skóbúðin" og „Bíóbúðin", tvær þær síðartöldu eign Hinriks Thorarensen, eiganda hússins. Nokkru af vörum var bjargað úr Skóbúðinni og Fataverslun Valfells. Vörurnar eru afar mikið skemdar af reyk og vatni. Sama sem engu varð bjargað úr „Bíó- búðinni".

Alt vátrygt. Bíóhúsið var vátrygt hjá Brunabótafjelagi Islands fyrir 96 þús. krónur. Sýningarvjelar Thorarensens, húsbúnaður og vörubirgðir hans hjá Sjóvátryggingarfjelaginu fyrir 57 þús. kr. Áhöld, sem sýningarmaður átti voru vátrygð fyrir 1000 kr. og vörubirgðir Valfells voru vátrygðar hjá Sjóvátryggingunni fyrir 47 þús. kr.
--------------------------------------------------------------------

Neisti 1. júlí 1936      Frétt

 Á sunnudagskvöldið var, kviknaði í Bíóhúsinu hér. Stóð sýning yfir og slitnaði filman en kviknaði um leið í  henni, af geisla bogaljóssins. Slökkviliðið kom fljótt á vettvang og tókst að slökkva eldinn  en byggingin mun hafa skemmst mikið.

Vörubirgðir Bíóbúðar eyðilögðust að mestu, en vörum úr Skóbúðinni og vörubirgðum  Vöruhússins, var bjargað, þó mikið skemmdum af reyk og vatni.

Byggingin var vátryggð hjá Brunabótafélagi Íslands fyrir 96 þúsund krónur.

Vörubirgðir Vöruhússins fyrir 47 þúsund krónur.

-----------------------------------------------------------

15   Neisti, miðvikudagur 15. júlí 1936

NÝJA BÍÓ 

Að lokinni bráðabirgðaviðgerð og að öllu forfallalausu, hefjast sýningar í bíó á morgun  fimmtudaginn 16. júlí. Fyrst um sinn verða 2 sýningar á hverju kvöldi, hefst hin fyrri kl.  8½ stundvíslega en hin síðari kl. 10¼

Annað kvöld verður sýnt kl. 8½  Ungverskar nætur.

Afbragðsgóð hljóm og talmynd með GITTA ALPAR, hinni heimsfrægu söngkonu, í  aðalhlutverkinu.  kl. 10¼  "Harmóniku-Susi".  ANNY ONDRA leikur.

XXXXXXXXXXXXXXXXXXX

Eldur í Nýja Bíó - Nero keisari:

Heimild:  Steingrímur Kristinsson, samkvæmt munnlegri frásögn Kristins Guðmundssonar sýningarstjóra (faðir minn) ásamt eigin minningum síðar 

Atburður sem varð Sunnudagskvöldið 28. júní 1936:

Verið að sýna kvikmyndina Quo Vadis sem var ein af þöglu myndunum fyrir fullu húsi, þar á meðal voru 2-3 áhafnir Færeyskra skúta.
Faðir minn var að sýna og hjá honum var Ragnar elsti sonur Thorarensen, filman (spólan) sem verið var að sýna, slitnaði (fyrir ofan ramma), svo illa vildi til að filmuræman rúllaði inn í kolbogahúsið (ljósgjafann), 

Á þeim tíma voru filmurnar úr efni sem kallað var nitrit, samsvarandi efni og var notað í skotfæri í stríðinu, og ekki af sökum að spyrja það kviknaði í og áður en varði, og varð af eldhaf, faðir minn rauk að Ragnari og kom honum út hið snarasta og fór síðan inn slökkti á sýningarvélinni og í fátinu opnaði hann spólukassann og ætlaði að freista þess að koma logandi filmunni út um glugga

Hann greip um spóluna, bar hana út að glugga, en um leið og aukið súrefni umlukti spóluna varð allt alelda og faðir minn brann inn að beini á höndum og brenndist illa á andliti. 

Það gleymdist í látunum að kveikja ljósin í salnum, en áhorfendur komust ekki hjá því að sjá hvað var að ske, fyrst þegar slitnaði og síðan af eldbjarmanum, og allir þutu um í myrkrinu hver um annan til dyra.

Engin alvarleg meiðsl urðu þó á fólki ef undan er skilin, sýningarmaðurinn. Síðar var sagt frá því að tréklossar sem Færeyingarnir áttu hefðu verið á floti um allan salinn eftir slökkvistarfið, en þeir höfðu flestir skilið þá við sig í látunum við að komast út. Sagnir herma að það hafi verið spaugilegt að fylgjast með þeim daginn eftir, er þeir reyndu að þekkja og endurheimta skótau sitt, sumir kröfðu “bíóið” um nýja skó, eða bætur, sem þeir fengu. 

Það urðu ekki mjög miklar skemmdir á húsinu og hófust sýningar aftur nokkrum mánuðum  síðar. Faðir minn stjórnaði uppsetningunni og lagfæringum á tækjabúnaði, en gat lítið annað gert þar sem hann var með reifaðar hendur, en hann hóf þó sýnangar að nýju þegar húsið var tekið í notkun aftur. 

Þegar ég var kominn til vits og ára, þá var þessi atburður rifjaður upp fyrir mér og faðir minn brýndi fyrir mér að það eina rétta, sem hann gerði þetta örlagaríka kvöld var að koma Ragnari út en þó ekki alveg í réttri röð, hann hefði átt að byrja á því að slökkva á vélinni, því vélin hélt áfram að keyra filmuna inn í sjóðandi heitt og logandi kolbogahúsið, og ná í slökkvitækið. 

Hann hefði aldrei átt að opna spólukassann, og alls ekki er víst að eldurinn hefði komist þangað upp á milli “rúllanna”, hann hefði átt, eftir að hafa tæmt slökkvitækið forða sér út og loka á eftir sér,  því klefinn átti að vera “eldtraustur” en þar sem hann tók spóluna úr spólukassanum, þá missti hann hana og eldur komst í aðrar spólur og þá var andskotinn laus og ekki tími til annars en að forða sér. Föt hans brunnu að mestu að framanverðu, en hann slapp með örfáar brunablöðrur á líkama, sem og á höndum og andliti sem áður er getið. 

Ég á minjar um þennan atburð, en það er filmubútur sá er hér sést  mynd af hér efst. 

Þennan filmu bút fann ég mörgum árum síðar í skúffu hjá pabba, en búturinn hafði verð lítt brenndur fastur í filumramma er eldurinn kviknaði. Þá 14 ára, er ég hafði fengið það verkefni að þrífa sýningavélina, yfirfara og síðar mála hana. En nýjar sýningarvélar komu í húsið árið 1947 -
En Thórarensen hafði selt vélina til Raufarhafnar. 

Filmubútur áðurnefndi var föst í myndrammanum, ein heil mynd, (það eina sem ekki brann af kvikmyndinni) lítils háttar sviðinn og á svörtum fleti standa þessi orð: “Død over Nero! Død over Brændstifteren” 

En einmitt á þeirri stundu  í bíómyndinni sjálfri, stóð yfir sviðsetning á bruna Rómarborgar á dögum Neros, eins og sagan segir,- og á tjaldinu í salnum var einmitt eldsvoði, borgin í ljósum logum sýnd,- og textinn er tilkominn þar sem fólkið “hrópaði” formælingar yfir Nero keisara, en þetta var ein af “þöglu myndunum” eins og fyrr segir, sem verið var að sýna og þá kom alltaf á milli hreyfimyndanna hvítur texti á svörtum fleti, sem skýrði frá hvað leikarar myndanna voru að fjalla um hverju sinni, eða skýring á því sem fram fór á tjaldinu.

Á þessum tíma og raunar mikið lengur, einnig eftir að talmyndirnar komu, var textinn ávalt á dönsku, þar sem ekki var farið að texta kvikmyndir á íslenska tungu, fyrr en upp úr 1950 minnir mig. 

Thorarensen flutti margar myndanna, sem sýndar voru í Nýja Bíó, inn frá Danmörku allt frá árinu 1930 (sc) eða þar til síðari heimsstyrjöld hófst.

Steingrímur Kristinsson