Síldarbræðslur

Frjáls verslun - 1961 21. árgangur 1961, 4. tölublað 

Kristinn Halldórsson:

Siglfirzkar síldarbræðslur. 

Þegar þessar línur eru ritaðar, er liðin hálf öld frá því að fyrstu síldarbræðslurnar í Siglufirði tóku til starfa. 

Á okkar dögum þykir ef til vill ekki mikið til þess atburðar koma, en upphaf þessarar starfsemi varð þó einkar mikilvæg á sínum tíma og átti stóran þátt í uppbyggingarsögu þess byggðarlags er hér um ræðir, Siglufjarðar. Þessar fyrstu verksmiðjur, er 

Norðmenn reistu, voru jafnframt fyrstu síldarbræðslurnar, er byggðar voru á Íslandi. 

Þessi atvinnugrein, bræðsla síldar, byggðist einkum á herpinótaveiðinni og þeim stórauknu veiðimöguleikum er hún skapaði, og vinnsla síldar í mjöl og lýsi er mjög stór þáttur í atvinnusögu Siglufjarðar á þeirri hálfu öld, sem liðin er, síðan atvinnurekstur þessi komst á legg.

Kristinn Halldórsson

Það er ekki kunnugt að þessara tímamóta í siglfirzkri atvinnusögu hafi verið að neinu getið, og er slíkt tómlæti lítt viðeigandi, gagnvart hinum gamla og fagra síldarbæ, Siglufirði, og sögu hans, og það stutta yfirlit um starfsemi þessa, er hér fer á eftir, er ritað til að bæta að einhverju úr því tómlæti, og ætti engan að saka.

Öflun heimilda og frumgagna um upphaf og aðdraganda að starfsemi þessari, er nú orðið ærið torvelt verk, einkum þar sem frumherjarnir voru allir erlendir menn, og slík öflun verður því örðugri, sem lengra líður og er því bezt að hver tjaldi því, er hann veit sannast og réttast um þessa hluti, aðrir geta svo bætt þar við sögu.

Undirritaður hefir haft af því nokkra fyrirhöfn að viða að sér óprentuðum frumgögnum um upphaf þessa rekstrar, og hefir hann þar notið velvildar ýmissa góðra og sannfróðra manna, innlendra og erlendra. Gömul sendibréf, minnisbækur mínar, höfuðbækur, samningar og viðskiptabréf, allt eru notadrjúgar heimildir, auk fáeinna prentaðra gagna og umsagna þeirra manna, er við þetta unnu á sínum tíma, en þeim fækkar óðum, og þessi efniviður gefur þó enn tækifæri til að rissa upp nokkrar útlínur í upphafi og fyrstu sporum þessa rekstrar hér í firðinum. Að sjálfsögðu voru hinar fyrstu síldarbræðslur hér ekki nema að litlu leyti „verksmiðjur" í nútímaskilningi þess orðs. Þær voru t. d. reistar mjög skömmu áður en stórfelld tækniframför ruddi sér til rúms í síldariðnaði.

Því var helzta orka þeirra mannshöndin, handafl verkamannsins. Flest þau störf, er rafdrifnar vélar afkasta nú orðið, voru í þá daga að öllu unnin með handaflinu einu saman. Þessar fyrstu bræðslur höfðu hvorki yfir að ráða rafdrifnum snekkjusjóðurum,1) né heldur snigilpressum2) af amerískri gerð. Ekki þekktust þá rafknúnar lýsisskilvindur, því síður sjálfhverfir mjölþurrkarar, og löndun síldar var eingöngu framkvæmd með handkerrum, eða á vögnum, er ýtt var eftir járnteinum, er lágu eftir endilangri löndunarbryggju, frá skipshlið til síldarþróarinnar.

Sá, sem þessar línur ritar, hefir innt tvo sannfróða starfsmenn, sem unnu í tveim þessara bræðslna, eftir fyrirkomulagi þeirra, tækjum og vinnubrögð um. Eftir frásögn þeirra að dæma er ljóst, að þeim ber saman í aðalatriðum og styður það sannleiksgildi hennar.

En í stuttri tímaritsgrein er of langt mál að tilfæra þau atriði frá orði til orðs, því hér er fljótt farið yfir sögu, en í mjög samþjöppuðu máli var bræðsla í byrjun þessa rekstrar framkvæmd svo sem hér segir, og á þetta við flestar fyrstu bræðslurnar hér í Siglufirði.

Síldarþróin var jafnan staðsett fast við bræðsluhúsið, en suðukerin í rishæðinni. Síldin var „hífuð" í tunnu, með afli frá gufuvindu, upp á rishæðina og soðin í stórum kerum, og var gufa leidd í þau frá gufukatlinum. Síldarmaukið, sjóðheitt, rann út um op við botn kersins í strigadúk, er breiddur var á pall við opið. Þegar hæfilegt magn af mauki var komið í dúkinn, voru endar hans brotnir saman og hann settur á pressuvagninn, og var sett járnplata ofan á dúkinn. Þannig var settur hlaði af dúkum á vagninn, ca. 1.1/2 meter á hæð, og ætíð járnplata ofan á hverjum dúk, en á hornum vagnsins voru teinar, er studdu við hlaðann. Svo var ekið undir pressuna, „dúkapressuna", og hún skrúfuð upp og látin þrýsta á hlaðann og pressuhjálminn, og pressaðist þá lýsið undan dúkunum í rennu er var í kring um hana. Þetta var starf pressumannsins og erfitt mjög og óþrifalegt. Lýsið rann í lýsisker og var látið setjast til, svo var fleytt ofan af, úr einu kerinu í annað, til að losa það við sora og vatn. Hinar pressuðu síldarkökur voru teknar úr dúkunum og settar í þurrkofninn. Ofnar þessir voru hlaðnir og hitaðir með spíralrörum frá gufukatli bræðslunnar. í þeim voru rimlahillur og voru kökurnar reistar á rönd á meðan á þurrkun stóð.

Að þurrkun lokinni voru kökurnar teknar úr ofninum og tættar í sundur í stórtenntu áhaldi, er nefnist rífari. 3) Þessu næst var hið tætta efni sett í mjölkvörnina og malað og loks sekkjað sem síldarmjöl. Mjölkvörnin og rífarinn voru drifin af gufuvél bræðslunnar, en lýsið var tappað á föt, og vinnsla lýsis og síldar og meðferð öll að öðru leyti unnin með handafli.

Hér fer á eftir örstutt, almennt yfirlit um þessar fyrstu bræðslur og þá menn, er stóðu fyrir þeim.

Bakkevig

Maður er nefndur Thormod Bakkevig, ættaður frá hinum kunna síldar og siglingabæ, Haugasundi. Fornafn hans er einkar norskt, en hefir jafnan verið skakkt ritað hérlendis, og ættarnafn hans hljómar danskt, einkum síðara atkvæðið, því í norsku er „vik" jafnan notað en ekki „vig". Frá Noregi er mér skrifað að nafnendingin „vig" komi fyrir í Suður-Noregi, og munu það vera dönsk áhrif á norska tungu, er þessu valda.

Séra Bjarni Þorsteinsson ritaði nafn hans „vig" og í gömlum verzlunarbókum föður míns er ritað skrautlega: Thormod Bakkevig. Þessi skýring á nafninu er sennileg og læt ég hana nægja.
Maður þessi var allstór reiðari og athafnamaður í lok fyrri aldar og kom fyrst til Austfjarða, er landnótaveiðin var þar, og hafði þar „nótabrúk" og bækistöð á Reyðarfirði á þeim árum. 

Séra Bjarni Þorsteinsson ritaði nafn hans „vig" og í gömlum verzlunarbókum föður míns er ritað skrautlega: Thormod Bakkevig. Þessi skýring á nafninu er sennileg og læt ég hana nægja. Maður þessi var allstór reiðari og athafnamaður í lok fyrri aldar og kom fyrst til Austfjarða, er landnótaveiðin var þar, og hafði þar „nótabrúk" og bækistöð á Reyðarfirði á þeim árum. Hingað kom hann 1904 og tók á leigu stóra sjávarlóð á miðri austanverðri Siglufjarðareyri. Hann lét reisa þar platningu og bryggju og tvö allstór síldar- og íveruhús og hóf þar síldarsöltun. 

Árin 1910—11 hóf hann að reisa litla síldarbræðslu, þarna á malarkambinum. Sjálft bræðsluhúsið var allstórt, tvær hæðir og ris með allkostulegum minni viðbyggingum, en nyrðri hluti þaksins hafði hálfu lengri fláa en sá syðri, og gerði þetta byggingu þessa nokkuð óvenjulega að útliti. Síldarþróin var steypt og stór um sig og aflvélin var 16 hestafla gufuvél.

Thormod Bakkevig -    Mynd af netinu

Raforku framleiddi bræðslan til ljósa og það gerðu og allar hinar fyrstu bræðslur hér. Hún tók til starfa sumarið 1911 og gekk undir nafninu „Sildeoljefabriken T. Bakkevig", en eigendur voru tveir, og hét fyrirtækið Gjerdsjö & Bakkevig, en frá 1918 átti fjölskylda Bakkevigs ein þennan rekstur og var nafninu breytt í Bakkevig & Sön A. S. 

Kunnáttumenn í síldariðnaði, er unnu þarna, voru norskir, en margir hérlendir menn voru og þar við störf. Verkstjórinn hjá fyrirtækinu hét Ehristoffer Eide frá Haugasundi, hann var maður vinsæll og af öllum vel látinn, er til þekktu. 

Bakkevig átti allmarga síldarbáta, gufuskip, t. d. „Atle", „Elin" og „Magna", og urðu þau síðar ísIenzk eign. Hann hafði lengi framskipið „Glygg" í förum fyrir rekstur sinn hér, skipstjórinn hét Iversen, hnellinn karl, sem hrópaði hátt úr brúnni fyrirskipanir sínar. „Glygg" flutti kol, tunnur og síldarafurðir fyrirtækisins árum saman. Bræðsla þessi var reist í hinum gamla stíl, og norskir kunnáttumenn á sviði síldariðnaðar vildu ekki viðurkenna að hún væri „verksmiðja", þeir kölluðu hana „kokeri", sögðu hana gamaldags. Um 1919 lézt Bakkevig, og skömmu síðar hætti rekstur hans og eignirnar komust á hendur annarra útlendinga og síðar í eigu íslendinga. Mun engin útgerðarstöð hér í firðinum hafa skipt oftar um eigendur en þessi. 

Um 1925 var bræðslu hætt þarna, og upp úr 1930 voru settar upp tunnugerðarvélar í húsið, en sá rekstur stóð stutt, vorið 1932 brann húsið ásamt miklum birgðum af tunnuefni. Þegar þetta er ritað standa enn tvö af síldarhúsunum þarna, annað stórt, súðbyrt geymsluhús, er hefir þolað vel tímans tönn. Bakkevig var í hópi hinna rosknari Norðmanna, er námu land hér í Siglufirði eftir aldamótin. Kann það að vera orsök þess, hve bræðsla hans stóð langt að baki bræðslu þeirri, er reis hér upp austan fjarðarins um sama leyti og sem með ágætum getur borið nafnið „verksmiðja", þar eð hún markaði tímamót í síldariðnaði hérlendis, og skal nú sagt frá því myndarlega fyrirtæki. Þess má geta að bræðsla þessi gat ekki fullunnið síldarmjöl. Hinar þurrkuðu síldarkökur lét Bakkevig flytja til Noregs, þar sem þær voru tættar og malaðar og mjölið sekkjað.

Evanger 

Gustav Evanger og Olni Evanger

Hingað komu árið 1905 bræður tveir, er hétu Gustav og Olaf Evanger. Þeir voru ættaðir frá síldarútgerðarbænum Eggesbönes á vesturströnd Noregs, en þar átti faðir þeirra stóra útgerðarstöð. 

Þetta voru ungir og dugmiklir menn og þá dreymdi stóra drauma um síldina og Siglufjörð, en landnám hans var þá að hefjast af fullum krafti.

Fyrstu ár aldarinnar höfðu verið tilraunaár, þegar Norðmenn voru að þreifa sig áfram með notkun rekneta hér fyrir Norðurlandi, og árið áður hafði Mannes skipstjóri fiskað fyrstu herpinótasíldina, 300 tunna kast á Grímseyjarsundi, og var þá auðsætt að veiðitæki framtíðarinnar yrðu reknet og herpinætur og höfuðbækistöðin til verkunar aflans Siglufjörður, en landnótaveiðin fyrir austan og á Eyjafirði hafði þegar fyrir aldamótin verið farin að bregðast að miklu leyti. Á undan þessum bræðrum voru komnir hingað landar þeirra, Bakkevig, Söbstad, félagarnir Johan Hareide og Lars Garshol, og ennfremur H. Hinriksen, og höfðu þeir allir keypt sér sjávarlóðir á austanverðri Siglufjarðareyri, norðan lóðarmarka Gnánufélagsverzlunar, er átti stóra sjávarlóð sunnan og austan til á eyrinni og náði hún suður fyrir tangann. 

Sjávarlóðum undir Hafnarbökkum var þá óráðstafaða, en ekki þótti tryggt að dýpi væri þar nægilegt, því síldarstöðvar þeirra tíma urðu að vera staðsettar þar sem bæði veiðiskip og flutningaskip gátu affermt og fermt framleiðsluna, því hafskipabryggja var hér engin, en upp- og útskipun á þungavöru bæði seinleg og dýr, ef flytja þarf varninginn i vöruprömmum og ferma í skip úti á sjálfri skipalegunni. En þeir bræður voru mjög áræðnir og stórhuga og höfðu miklar fyrirætlanir í huga og þurftu rúmgott athafnasvæði fyrir hinn fyrirhugaða rekstur hér á staðnum. Það varð því að ráði að þeir Evangersbræður tóku á leigu stóra sjávarlóð austan fjarðarins, í landi jarðarinnar Staðarhóls, er Ehr. Havsteen fyrrum faktor í Gránu átti. Þar reistu þeir síldarstöð og hófu síldarútgerð og söltun. En þeir létu ekki þar við sitja. Þeir höfðu hug á að reisa stóra og fullkomna síldarbræðslu þarna, stóra verksmiðju, búna beztu tækjum þeirra tíma. Um þetta leyti var að hlaupa mikill vöxtur í síldariðnaðinn í Noregi og voru margar bræðslur reistar þar um og fyrir 1910. En síldin hér var að jafnaði stærri og feitari en þar, og því líkleg til að vera betra hráefni í mjöl og lýsi. 

Og 1910 hefjast þeir handa um pöntun á vélum og útbúnaði til fyrirtækis þessa. Til að geta klofið hinn mikla stofnkostnað, fengu þeir bræður í lið með sér fyrirtækið Thomas Morgan & Sohn í Hamborg, og mynduðu þeir hlutafélag um bræðsluna, þessi tvö fyrirtæki, Morgan og firmað G. & O. Evanger í Eggesbönes. Félagið hét „Siglufjords Sildolje & Guanofabrik A. S.", og gekk greiðlega að reisa verksmiðjuna, en hún tók til starfa sumarið 1911, og með starfrækslu hennar hefst stórrekstur í síldariðnaði á íslandi. Bræðslan var reist sunnan og neðan Staðarhólsins, þar sem landið nefnist einu nafni Staðarhólsengi. í lítilli kvos á milli sjálfs Staðarhóls og engisins, rennur lítill lækur, er nefnist Rjómalækur. Þaðan fékk verksmiðjan ferskt vatn. Sjálf verksmiðjan var þriggja hæða stórhýsi á steyptum grunni og var síldarþróin, steinsteypt, fyrir framan húsið og síldin flutt upp í suðukerin á þriðju hæð með færibandi. Öll íveru og geymsluhús voru reist á stóru svæði fyrir norðan og sunnan bræðsluna.

Sjávarbakkar eru þarna lágir og undirlendi nokkuð, gott dýpi við löndunarbryggjur og landrými mikið. Aflvélin var 140 hestöfl, gufuvél, er knúði pressur og kvarnir og færibönd, og ljósavél framleiddi raforku. Um þetta leyti voru fyrstu amerísku snigilpressurnar komnar í notkun í bræðslum í Noregi, og þeir bræður lögðu til að snigilpressur yrðu pantaðar, en fyrirtæki Morgans, er átti að fá til sölu síldarmjölið, hélt því fram að mjöl úr dúkapressum væri gæðameira og því verðmeira, og því fór svo að átta hydroliskar dúkapressur voru settar niður í verksmiðjuna, og skiluðu þær liðlega 800 hektólítra afköstum á dag. Snigilpressur þóttu ekki nægilega reyndar um það leyti. Að öðru leyti var verksmiðjan útbúin beztu tækjum og áhöldum, er kunn voru í slíkum rekstri á þessum árum. Fimmtíu starfsmenn unnu í verksmiðjunni og var unnið á vöktum. Að sjálfsögðu voru allir kunnáttumenn í iðnaði þessum norskir, þar sem landsmenn voru með öllu ókunnir slíkum rekstri, en margir íslendingar lærðu skjótt handtökin í þessari fyrstu stóru bræðslu, er hér var rekin. 

Hinir geðþekku Evangersbræður stjórnuðu fyrirtækinu til og með 1914, en mágur þeirra, Anton Brobakke, var fyrstu árin „kontoristi" hjá þeim, en 1915 varð hann „disponent"4) þarna og hafði veg og vanda af rekstrinum ásamt þeim. Brobakke var maður ötull og einarður, að góðu kunnur mörgum Siglfirðingum, því hann varð síðar verksmiðjustjóri hjá Dr. Paul, þýzkum manni, er reisti bræðslu norðantil á kaupstaðarlóðinni, utan við Söbstad. Evangerverksmiðjan hafði á leigu farmskipin „Marie", „Agnes" og „Argo" um lengri og skemmri tíma til flutninga á afurðum og vörum til rekstrarins, og jafnframt bræðslunni höfðu þeir bræður eigin síldarsöltun þarna svo sem fyrr segir.

Af kunnáttumönnum í síldariðnaði, er störfuðu þarna, auk Brobakkes, má nefna Arnfinsen vélstjóra, P. Vaaren og Knut Sether, verkstjóra, sá síðastnefndi með ársbúsetu sem eftirlitsmaður hér austan fjarðarins. 

Mannvirki Evangers voru stór um sig og einkar myndarleg. Geymslu- og íveruhús fyrir starfsmenn voru rammbyggð bjálkahús í norskum stíl. Bræðsla þessi var virt á fjórðung milljónar, hús, vélar og tæki, og var það geysihá upphæð á þeim lággengistímum, er hún var reist á, en ekki hefi ég getað fengið í hendur þá matsgjörð, þótt fróðlegt hefði verið á fá glöggt yfirlit um hin ýmsu tæki og matsverð þeirra.

Ofurlítið þorp myndaðist þarna austan fjarðarins, og þessi byggð þarna neðst á Staðarhólsengi var hin mesta prýði bæjarins, blasti beint við eyrinni, og setti einkar reisulegan svip á hinn ört vaxandi Siglufjörð. 

Margir eldri Siglfirðingar minnast þess hve lífvænlegt var að líta austur yfir fjörðinn á kyrrum síðsumarkvöldum, þegar tekið var að rökkva, og þar gat að líta stórhýsi Evangersbræðra og ljóshafið frá því blika á lognsléttum firðinum, en gráhvítur gufumökkurinn úr þurrkurunum steig hátt í loft upp og hnyklaðist upp eftir fjallinu, þar til eimyrjan dreifði úr sér uppi undir Skollaskál, — kvosinni, — er varð örlagabikar þessa fyrirtækis. Þessi bræðsla var reist með það fyrir augum að hún gæti staðið þarna um áratugi. En fáa mun hafa grunað, eða þá ekki sinnt um þá hættu er vofði yfir þessum myndarlegu mannvirkjum. Og á bjartsýnisárum eru menn fljótir að gleyma og hlusta ógjarnan á varúðartal gamalla manna. Og það geta liðið margir áratugir á milli þeirra náttúruhamfara er snjóflóð nefnast.

En veturinn 1919 var mjög snjóþungur og þann 12 apríl féll snjóflóð mikið úr Skollaskál í Staðarhólsfjalli og olli gífurlegu tjóni á mönnum og mannvirkjum. Flóðið sópaði með sér verksmiðjuhúsinu og íveru- og geymsluhúsum og miklum birgðum af tómum síldartunnum og einum þúsund áfylltum lýsisfötum, langt út á fjörðinn, en síldarþrær og steyptar undirstöður húsanna stóðu einar eftir. Snjóflóð þetta náði allt suður að Ráeyri og varð níu manns að fjörtjóni. Meðal þeirra er fórust var eftirlitsmaðurinn Knut Sether og kona hans. Jón Jóhannesson málflm. og fræðimaður í Siglufirði samdi skilmerkilega ritgerð um þessar miklu náttúruhamfarir og birti hana í tímaritinu Grímu, 18. árg., og vísast til hennar fyrir þá, er vilja vita nánari skil á þessum örlagaríka atburði.

Olaf Evanger hafði á eigin spýtur reist litla síldarstöð nokkru áður, sunnar á þessu svæði, nær Ráeyri, en hún eyddist og í þessu flóði.

Bræðsla Evangersbræðra var ekki endurbyggð, en 1922 komu þeir bræður aftur á fornar slóðir og reistu síldarstöðina að nýju og komu upp lifrarbræðslu og íveruhúsum. Olaf sá þar um mikla síldarsöltun í mörg ár og firma þeirra reisti síldarverksmiðjur á Dagverðareyri og á Raufarhöfn, þær bræðslur seldu þeir svo nokkru síðar, og eru þær utan við ramma þessarar greinar. Löngun þeirra bræðra að reisa að nýju verksmiðju hér í Siglufirði brann jafnan í þeim, en minningin um reiðarslagið mikla hamlaði því að meiri háttar mannvirki risu að nýju á sjávarbökkum Staðarhólsengis. Þeir gerðu tilboð í Roaldsstöðina á sínum tíma og höfðuí huga nýja bræðslu, en tilboð Gustavs var of lágt, aðrir hrepptu þá eign. Þetta telur Olaf að hafi orðið þeim dýv mistök. Olaf Evanger og A. Brobakke eru nú líklega einir á lífi (1961), þeirra manna, er voru hér frumherjar í síldinni á fyrsta tug aldarinnar.

Ég hef átt ánægjuleg bréfaskipti við Olaf um rekstur þeirra bræðra her í Siglufirði og í Noregi og orðið fróðari af, og nýt ég þess að þeir voru hér góðir vinir föður míns. Olaf var sá yngri þeirra, fæddur 1887, og því innan við tvítugt er hann kom hingað til að gegna ábyrgðarstörfum. Ég hefi getað sannprófað margar af frásögnum hans og verð að undrast hið góða minni hans og áreiðanleik í meðferð heimilda. Fyrirtæki þeirra bræðra í Eggesbönes fór halloka á árum heimskreppunnar. Gustav fluttist til Nýfundnalands, og þar starfaði hann og lézt þar 1954, varð 73 ára. Brobakke er á lífi, er þetta er ritað, 78 ára, en er nú hættur störfum sakir aldurs. Olaf fluttist til Danmerkur 1938 og setti upp lifrarbræðslu í Esbjerg og keypti og seldi fiskafurðir. Þetta gekk allvel, en fyrir nokkrum árum seldi hann eign sína og hætti starfi þessu sakir aldurs. Hann á nú búgarð og hefir ofurlitla garðyrkju sér til hugarhægðar. Hann var síðast við störf her í Siglufirði sumarið 1933. Bróðir þeirra Gustavs og Olafs, fyrrum sjómaður, og ógift systir þeirra hafa rekið verzlun og skipaafgreiðslu í húseignum fjölskyldunnar í Eggesbönes, en verksmiðja og vöruskemmur, er firmað G. & 0. Evenger átti, fóru yfir á annarra hendur. 

Samkvæmt yfirliti þessu, má ljóst vera, að lýsingin í upphafi þessarar greinar á hinum fyrstu bræðslum hér í firðinum á ekki nema að litlu leyti við um Evangersverksmiðjuna, sem var þeirra langstærst og stóð þeim framar hvað snertir afköst og útbúnað allan. 

Sören Goos 

Ekki verður sagt að Danir hafi verið stórvirkir við að grundvalla síldarútveginn hér á landi, þótt þeim stæðu allar dyr opnar til að svo mætti verða. 

Þeir voru þegnar sömu ríkisheildar og við og síðar sambandsþjóð, en það var gömul hefð að Danir fengust mest við vörudreifingu og kaupsýslu hér á íslandi. Þó eru til einstaka undantekningar frá þessari reglu. 

Ein hin helzta þeirra er starfsemi Sören Goos í Siglufirði. 

Hann kom hingað til lands árið 1907 og hóf starfsemi á Eyjafirði, en í Siglufjörð flutti hann sig fjórum árum síðar og hóf bræðslu síldar á skipsfjöl, um borð í stóru járnskipi, er lá fyrir festum hér í höfninni. Danskt félag átti þennan rekstur. En hann sá strax að fótfesta á þurru landi var óhjákvæmileg, ef framhald skyldi verða á starfseminni, og því réðust hann og félagar hans í að kaupa eignir þær og lóðir, er Sigurður Helgi Sigurðsson átti fyrir sunnan tangann á Siglufjarðareyri. 

Á þeirri lóð reisa Goos og félagar hans síldarstöð og bræðslu 1913, og hét hlutafélag þeirra „A. s. Siglufjords Sildoliefabrik". Bræðslu þessa margstækkaði hann og endurbætti þegar fram í sótti.

Þetta félag færði brátt út kvíarnar, gerði út eigin skip og leiguskip til síldveiða og rak mikla síldarsöltun, bæði þar á tanganum og eins úti við Hvanneyrará. Goos rak hér og kolasölu, stofnsetti veiðarfæraverzlun og hafði leiguskip í förum á sumrin og haustin fyrir rekstur sinn. Þegar hinar „Sameinuðu ísl. verzlanir", hættu starfsemi 1926, keypti hann Gránuverksmiðjuna af þeim, en hún hafði verið reist 1919—20. Goos var mesti dugnaðarforkur og óefað í hópi dugmestu athafnamanna hér í firðinum um tveggja áratuga skeið. En kreppan eftir 1930 batt endi á starfsemi hans. Af erlendum starfsmönnum hans má nefna verkfræðinginn Vestesen, er byggði hér íbúðarhús úti við Hvanneyrarhlíð, og vélfræðinginn Gustav Blomkvist, norskan mann, sem ílentist hér og rak síðar skipaverzlun. Af Siglfirðingum, er störfuðu hjá honum til margra ára, má nefna Hannes Jónasson, Snorra Stefánsson og Einar Eyjólfsson. 

Hér verður ekki rakin starfsemi Goos, en telja má líklegt að þeir menn, er gegndu trúnaðarstörfum hjá honum, geri það, svo merkur er þessi rekstur í siglfirzkri sögu. Það er kunnugt að Goos hafði gertáætlanir um aukna afkastagetu bræðslnanna, þegar verðfall og sölutregða á lýsi og mjöli stöðvaði áform hans. Sören Goos var vinsæll og vel kynntur atorkumaður, fjörmaður mikill og frár á fæti, og hann vingsaði göngustafnum með ákafa, þegar hann hafði hraðann á. Hann var mikill hestamaður og hafði mætur á íslenzku hestunum, og ein bezta skemmtun hans var sú að fá sér gæðinga og þeysa suður í fjörðinn með kunningjum sínum. Goos bjó hér ásamt fjölskyldu sinni á sumrin í snotru eigin íbúðarhúsi við Tjarnargötu, „Gooshúsi". Heimilisbragur var þar fágaður og marga bar að garði. Heimili foreldra minna og Goosfjölskyldunnar voru hér hlið við hlið, og því kynntist ég þessu fólki, en allar þær minningar eru of persónulegar til þess að þeirra verði getið hér, Það er þó óhætt að staðhæfa að Goos var mætur borgari og einkar vinsæll af hinum mörgu starfsmönnum, er unnu hjá fyrirtækinu. 

Söbstad

Einn mesti atorkumaður í hinu nýja landnámi í Siglufirði í byrjun tuttugustu aldar var skipstjórinn Hans Söbstad. 

Hann er ættaður frá Kristiansundi í fylkinu Mæri. Hann kom fyrst til Eyjafjarðar, er landnótaveiðin var stunduð þar, og átti þar „nótabrúk", en hingað kom hann 1904 og tók á leigu stóra og mikla sjávarlóð norðarlega á Siglufjarðareyri, norðan lóðarmarka Bakkevigs, og byggði þar strax síldarstöð og íveru- og geymsluhús. 

Á þessu svæði standa nú hinar miklu byggingar Síldarverksmiðja ríkisins. Söbstad átti þrjá litla gufubáta, er báru nöfn sona hans og hétu „Haakon", „Harald" og „Erling". Þeir týndu þó fljótlega tölunni, tveir þeir fyrstnefndu strönduðu. Síðar eignaðist hann vélskipið „Brödrene", gott og þekkt vélskip á þeim tímum.

Hann hóf hér útgerð og síldarsöltun, eins og aðrir landar hans, og hann jók við bryggjur sínar og hús, því nær árlega, eftir því sem reksturinn leyfði. Atorka hans og dugnaður er mjög rómaður af öllum, er til þekktu, og það, sem einkenndi hann, var hugrekki og drengskapur.

Um það bil ári eftir að Bakkevig hafði reist bræðslu hér, hóf hann að reisa samskonar fyrirtæki. 

En hann fór að öllu með gát, því að margar torfærur var yfir að fara. Gamall og góðkunnur Siglfirðingur, er lengi starfaði hjá honum, m. a. sem skipstjóri á „Brödrene", Kristján Ásgrímsson frá Kambi, hefir sagt mér meðal annars um þessa bræðslu hans fyrstu árin, hvernig Söbstad reisti hana í áföngum. Hún hafði fyrst í stað ekki yfir að ráða dúkapressu né þurrkofni, heldur aðeins gufukatli. Síldin var brædd og lýsið var fleytt ofan af suðukerunum og úr einni ámunni í aðra, en sjálfu síldarmaukinu var fleytt út í tjörnina, er þá var vestan bræðslunnar, því var hent. En hann kom sér fljótlega upp dúkapressu og þurrkofni og gat þá hagnýtt síldarmaukið til mjölgerðar.

Rekstur hans jókst smátt og smátt, síldarþró var steypt, hús voru járnklædd o. s. frv., eftir því sem getan leyfði hverju sinni. 

Eftir góðærin 1915—16 kom hann á fót tunnuverksmiðju, hinni fyrstu hér í firðinum, og var hún staðsett á neðri hæð íbúðarhúss hans og hóf tunnugerðin starfrækslu sumarið 1917. Afköstin voru talin 250 tunnur á dag. Það bagaði nokkuð hve erfitt var að fá gott og þurrt efni til smíðinnar vegna stríðsins. Það er einnig all lærdómsríkt að kynna sér hversu fór um þennan rekstur, þennan vísi að nýjum iðnaði, sem vissulega átti fyllsta rétt á sér og var einkar nauðsynlegur fyrir síldarbæ eins og Siglufjörð, þar sem atvinnulífið var mjög einhæft og allur þorri manna gekk iðjulaus mestan hluta vetrarins. Söbstad hafði gerzt. Siglfirðingur 1910 og hafði hér fasta búsetu. Hann kunni vel við sig hér og átti marga vini, og allt aflafé hans fór til að auka reksturinn á eignum hans, og því hafði hann sterka löngun til að efna til þeirrar nýbreytni er tunnusmíðin var. Þar að auki var ástandið í Siglufirði mjög alvarlegt þetta ár, sökum þess að norski síldarflotinn gat ekki komið hingað til veiða, vegna afarkosta Englendinga, sem kröfðust þess að norsku skipin hefðu viðkomu í enskri höfn á upp- og heimleið, en slíkt var að bjóða hættunni heim, því Norðmenn stóðu utan við stríðið. Þessum skilyrðum höfnuðu Norðmenn, allir sem einn, og síldárfloti þeirra lá í heimahöfnum, aðgerðalaus, þetta sumar. Þessi ákvörðun var þungt áfall fyrir Siglfirðinga. 

Hin mikla atvinna og verzlun og þjónusta, er Siglfirðingar létu Norðmönnum í té gegn skilvísri greiðslu, allt hvarf þetta óvænt, og menn hér fundu fyrir þeirri tómleikakennd, er þessi tekjumissir olli.

Og þær raddir, er höfðu amazt við starfsemi Norðmanna hér, hljóðnuðu nú með öllu. Aflatregða gerði og vart við sig og kol fengust ekki keypt né flutt til landsins vegna stríðsins, og jók þetta á vandræðin. Því var aðeins ein bræðsla starfrækt hér 1917, nefnilega Goos-verksmiðjan. 

Söbstad lagði nú áherzlu á tunnugerðina og hafði samið um að fá raforku frá stöðinni í Hvanneyrarhlíð, þar sem hreppsbúar þurftu ekki orku til ljósa á meðan nótt er albjört. Hann fékk þó ekki heimild til raforkunota, nema til 1. ágúst, en sendi nokkru áður beiðni um frekari heimild til að fá enn um skeið raforku fyrir tunnugerðina. A fundi hreppsnefndar seint í júlí var samþykkt að fresta umsókn hans, og 27. ágúst er umsóknin loks tekin fyrir og henni vísað til rafmagnsnefndar hreppsins, sem svo 3. sept. synjar um raforku og ber við að mælir hafi ekki verið útvegaður, er mæli notkunina. Söbstad stóð því uppi með tunnugerðina óstarfhæfa en ærinn kostnað og þannig kól þennan iðnaðarnýgræðing í fæðingu.

Ráðamenn hér virðast ekki hafa metið alls kostar rétt þessa viðleitni til iðnaðar. Að vísu var rafstöðin lítil, en með nokkurri tilhliðrunarsemi hefði þessi rekstur getað lifað lengur og veitt drjúga atvinnu. Um þetta leyti hafði Söbstad fleiri áform á prjónunum. Hann vildi ráðast í að fylla upp tjörnina fyrir vestan hús sín og ætlaði að koma upp kaðalbraut, „snörebane", er hvíldi á stauraröð, neðan frá lóð sinni og upp í fjall og flytja þannig grjót í tunnum, er áttu með sérstökum útbúnaði að renna eftir strengnum. En einhvern veginn voru agnúar á þessu og úr framkvæmd varð ekki. Þess má geta að starfsmenn Evangers komu upp slíkri grjótferju, „snörebane", í Staðarhólsfjalli, þegar bræðslan þar austur frá var reist. Gaf sú kaðalbraut góða raun.

Hákarlaútgerð var hér enn mikil um þetta leyti, og gaf hún oft drjúgar tekjur. Söbstad gerði út á hákarl allmargar vertíðir, bæði „Brödrene" og leigubáta. Hans Söbstad var maður hár vexti og myndarlegur á velli og sístarfandi að áhugamálum, og hann var glettinn og gamansamur, ef því var að skipta, í hópi kunningja og vina. Einhverju sinni hafði einn kunningja hans orð á því að grútarlyktin úr bræðslunni hjá honum væri ekki sem bezt. „Ja," svaraði Söbstad og hugsaði sig um, „men pengenelugter ekki stygt." Skyldi þetta tilsvar ekki vera upphaf þess að Siglfirðingar fóru að kalla grútarlyktina „peningalykt?"

Þegar faðir minn, Halldór Jónasson, safnaði hér hlutafé fyrir stjórn Eimskipafélags íslands við stofnun þess, vakti það athygli hér í byggðarlaginu, hve framlög Siglunesbænda og Söbstads voru myndarleg. Söbstad kenndi sjóndepru á fullorðinsaldri, og hún ágerðist með aldrinum. En hugrekkið og atorkan virtust vaxa að sama skapi. Vorið 1919 var mikill undirbúningur undir síldarvertíðina hér í kaupstaðnum. Stríðinu og siglingateppunni var lokið og ljóst að þátttaka innlendra og erlendra skipa í síldveiðunum yrði gífurleg.

Og Söbstad lét ekki sitt eftir liggja. Þá um veturinn sendi hann „Brödrene" til Akureyrar, og var skipið endurbyggt, það var lengt, og ný vél sett í það og það var mjög álitlegt að aðgerð lokinni. 

Og hér heima lét hann reisa stóra viðbyggingu við bræðsluna og gerði ýmsar endurbætur aðrar. Var þessu að mestu lokið í byrjun júlí. Hann var þá orðinn nær alveg blindur, en hann fetaði sig upp í rjáfur og þuklaði á sperrum og stoðum til að ganga úr skugga um að vel væri frá öllu gengið. Það virtist tryggilega um allt búið. Bræðslan var nú orðið mikið mannvirki, og sænskur maður hafði boðið honum 300 þúsund krónur í eignirnar en hann ekki viljað selja. Leið nú að vertíð, og var þess beðið, að síldin færi að vaða. 

En þá — hinn 7. júlí — dynur reiðarslagið yfir.

Eldur verður laus í bræðslunni, og brennur hún og íbúðarhúsið til kaldra kola, en steinsteypt geymsla stendur ein eftir. Vatnslítið var um þetta leyti og slöngur í ólagi. Við ekkert varð ráðið. Allt var lágt tryggt, nýja viðbyggingin ótryggð og dýrtíð hafði stórvaxið eftir stríðið, en trygging húsa ekki enn hækkað að sama skapi. Mun Söbstad aðeins hafa fengið um 50 þúsund krónur í brunatjónsbætur. Hinn blindi maður varð þarna fyrir voðalegu tjóni. Hann sá ekki eldinn, er eyddi húsum hans, en fann hitann af hinu mikla báli slá fyrir andlit sér, og hann tárfelldi, eins og lítið barn, og var leiddur á brott. Margra ára sparsemi og atorka varð þarna á skammri stundu að dufti og ösku. En kjarkur hans var óbugaður. Í blaðinu Fram frá þessum tíma standa þessi orð: „Ekki mun kjarkur Söbstads hafa bilað meira en svo, þótt farinn sé að eldast og blindur, að strax er farið að hressa upp á sementsteypuveggi sem lítið skemmdust og mun hann strax ætla að reyna að koma upp einhverju skýli yfir verkafólk sitt og salta síld í sumar."   

Síldarvinnslustöð H. Söbstad brann þann 7. Júlí 1919  Ljósmyndari: Sveinbjörn Jónsson byggingameistari Akureyri - Ólafur Magnússon ljósmyndameistari í Reykjavík (Mbl.) stækkaði og litaði myndina árið 1924 –
Heimild: Handskrifað aftan á ljósmyndina í ramma, varðveitt hjá Saga Fotografica

Hann hafði áhuga á að endurreisa bræðsluna en hafði ekki bolmagn til þess: mikill hluti af höfuðstól hans fór forgörðum í hinum mikla eldsvoða. Hann gerði út og saltaði síld næstu árin eftir brunann, en brátt lauk starfi þessa víkings, því 1921 varð hafnarsjóður eigandi lóðarinnar og þeirra mannvirkja, bryggja og platninga, er á henni voru. Eigi mun hann hafa farið með gildan sjóð frá þeirri sölu. Um syni hans og fjölskyldu hefir Kristján frá Kambi tjáð mér eftirfarandi: Erling starfaði hér lengi með föður sínum við reksturinn. Harald lézt 1915 og var jarðsettur hér. 

Pétur varð síðar verksmiðjustjóri á Hesteyri og lézt hér á landi. Kona Söbstads og Hanna dóttir hans voru á leiðinni hingað til Siglufjarðar frá Noregi þegar brann, og komu þær að húsunum föllnum, er þær stigu hér á land. Ég hefi gerzt nokkuð fjölorður um þennan landnámsmann, enda var hann einn hinna „stóru" í hinum gamla Siglufirði. Og því nær ekkert hefir verið um hann ritað. Geta má þess að í hinni svo kölluðu „síldarsögu", sem gamla einkasalan sendi frá sér, er Söbstads að engu getið, en hins vegar eru þar birtar myndir af dönskum síldarkaupmönnum, er aldrei hafa hætt eyrisvirði í síldarútveg á Íslandi, og þeir örfáu menn, er lítillega hafa ritað um fyrstu bræðslurnar hérna, virðast hafa sótt fyrirmyndina í það rit: að geta Hans Söbstads að engu. En ekki þurfa Siglfirðingar að fylgja þeirri tízku. Það er sanngjarnt að siglfirzk saga veiti minningu hans þann sess, sem hann ávann sér sjálfur. Söbstad var ættaður frá Bremnesi við Kristiansund, og þangað hvarf hann og þar lézt hann, að mér er tjáð, árið 1926.

Ath. Allar myndirnar hér fyrir ofan (nema litaða myndin) eru afritaðar frá gömlum blöðum og eða tímatitum.
Myndir sem flestar hafa verið frekar grófar og óskarpar, eins og þáverandi prenttækni bauð upp á.
Og hafa hér verið lagfærðar með gerfigreindartækni (AI) af eiganda Heimildasíðunnur SK