Furðuleg skrif

Skemmtanirnar, kaffihúsin,
kvikmyndahúsið og kirkjan.

Furðuleg  grein, (vægt til orða tekið) um skemmtanir, kaffihúsin, kvikmyndahúsið, kvikmyndir og tillaga um að hið opinbera reki kvikmyndahús í Siglufjarðarkirkju. 


Einherji 10. apríl og 11. maí 1935

Greinin birtist í blaðinu í tveim áföngum. ( hér í heild)

Ég hefi verið á nokkrum skemmtunum hér á Siglufirði og hefi haft þar  afleiðandi aðstöðu til að vega og meta gildi skemmtana.

Verður mér þá fyrst litið til hins dæmalausa stjórnleysis undantekningarlaust á  öllum dansleikjum. Það þekkist ekki að einn sérstakur maður stjórni dansleik.  Það þekkist ekki að hafa dömufrí og ekki í eitt einasta skipti hafi ég orðið þess var að sá gamli og góðkunni háttur væri  iðkaður að Marsera.

Semsagt, gömlu og góðkunnu og taktföstu dansarnir eru með öllu horfnir. 

Ég kem þá að því atriði. sem ég einkum og sér í lagi vil fram taka, en það er  hið slælega eftirlit lögreglunnar með ölvuðum mönnum á dansskemmtunum.  Það er hart að verða að þola það að fáeinar fyllibyttur skuli ráða því hvenær  dansleiknum er slitið, samanber á gamlárskvöld.

Í öll þau skipti, sem nokkuð er  um ölvun að ræða, eru það undantekningarlaust hinir ölvuðu menn. sem ráða  mestu á dansleiknum.

Þessir menn eru sannir vargar í véum siðaðs þjóðfélags, sem oft og mörgum  sinnum geta látið sér sæma að spilla skemmtanafriðnum. Spilla einmitt þeim  stundum. sem menn vilja lyfta hug sínum upp yfir hversdagsleikann, yfir starfið  og dægurþrasið og lifa frjálsir, óháðir og glaðir.

Með allri virðingu fyrir lögreglunni, verð ég að taka það fram að mér finnst  alltof vægilega tekið á þessum mönnum. Það væri engin goðgá þótt þessum  ölvuðu sveinum yrði algerlega neitað um inngöngu td. á næstu dansleiki og  algerlega neitað um inngöngu ef þeir ekki sætu á sér síðarmeir eftir að hafa  tekið út fyrstu hegningu.

Bílstjórar verða að þola það að mega aldrei taka í  bílstýri eftir að hafa alvarlega orðið brotlegir við lögin.

Hví ekki beita sambærilegri  hegningu við þá menn sem eru valdir að því að rjúfa skemmtanir. brjóta borð  stóla og glermuni og jafnvel veitu fólki áverka? 

Mér virðist lögreglan fara að þessum mönnum með of mikilli hógværð og taka  því undur vægum tökum.

Það eru haldnir dansleikir í kring um hverja helgi. Og þeir eru búnir að fá á sig  allt of mikinn hversdagsbrag og magnleysi Og dansleikirnir eru orðnir  nokkurskonar uppeldisstofnanir þeirra, sem aldrei láta sig vanta á slík samkvæmi,  því oftast vill það alltaf svo til, að það er mikið til sama fólkið. 

Árið 1932 var ég ásamt fleirum riðinn við samsöfnun muna fyrir  Ungmennafélag. Við gerðum ráð fyrir að leyfi fengist hjá viðkomandi  sýslumanni, en þegar til kom, var svarið á þá leið að ráðherra hefði bannað sér að leyfa allt slíkt, er lokkað gæti  fjármuni út úr mönnum og óþarft mætti teljast meðan kreppan stæði yfir.

Það  væri ekki úr vegi að bæjarfógetinn, sem veitir leyfi til allra dansleikja, sæi um að  dregið yrði úr fjölda þeirra og komið þannig í veg fyrir óhæfilega eyðslu hlutaðeigandi einstaklinga. 

Ég vík mér þá að kaffihúsunum. Þau eru nú sem: stendur fimm að tölu í  bænum, þegar gert er ráð fyrir að Hótel Hvanneyri hafi músík.

Öll þessi kaffihús eru mjög vanbúin, loftræsting td. alveg óbærileg og annar  aðbúnaður þeirra, er frá heilbrigðislegu sjónarmiði ekki forsvaranlegur og inn í  þau er troðið svo mörgu fólki að fram úr hófi keyrir.

Slík hús, með slíkum  útbúnaði mundi trauðla fá leyfi til þess að starfa í Reykjavík.

Á öllum þessum  kaffihúsum spiluðu síðastliðið sumar 10-12 menn og keppti hvert við annað og  kostaði offjár í að halda óbærilega dýra músík. Svo dýra, að það var ómögulegt  að hugsa sér það, að jafn dýr músík gæti borgað sig og annan kostnað. 

Nú er því svo varið, að samstillt þriggja manna hljómsveit er þess fullkomlega  umkomin að dómi þeirra er vit hafa á, að spila fyrir öllum þeim fjölda  samanlögðum, sem sátu kaffihúsin til jafnaðar á hverju kvöldi innan fjögurra veggja.

Þar sem ekki er fyrir hendi einstaklingur, sem mundi hafa bolmagn til þess að  reisa svo vandað og fullkomið kaffihús sem forsvaranlegt þætti, lægi næst að  bærinn léti byggja kaffihús, sem fullnægði með öllu kröfum tímans. 

Fengju þá  bæjarbúar um leið íhlutunarrétt, um hvenær þeir vildu hafa húsið opið og hve  dýrt veitingar yrðu seldar. Einnig fengju þeir ríkari íhlutunarrétt með að  fullkomnara siðferðis og menningar yrði gætt jafnframt því, sem ráðin yrði bót á  öllum ytri umbúnaði.

Það þýðir ekki að neita því, að kaffihúsin eru þegar fyrir löngu farin að hafa  verulega spillandi áhrif. Þau eru orðin nokkurskonar uppeldisstofnanir, sem  hljóta að hafa varhugaverð áhrif á ungdóminn. Hér er því verkeini fyrir foreldra  og þó einkum kennara að láta til sín taka og heimta þær endurbætur og afskipti  frá bæjarins hálfu, sem með þarf.

Kennarar og foreldrar hljóta að hafa orðið  þess varir, að þeirra áhrif, sem miðað hafa í þá átt að sá fræi manndóms og  siðgæði í hjörtum ungdómsins, hafa dvínað og kaffihúsin hafa átt sinn ríka þátt í því að leiða æskumanninn inn á braut nautna og gjálífs, drykkjuskapar, tóbaksnotkunar og annarskonar nautnalífs, og siðferðislestir hafa  þróast í skjóli þeirra stofnana. 

Þá er rétt að víkja lítillega að kvikmyndahúsinu hér á Siglufirði. Eins og  kunnugt er, eru sýndar myndir á hverju kvöldi að sumarlaginu. Meiri hluti þeirra  mynda sem hér eru sýndar eru nauða ómerkilegar og hafa blátt áfram spillandi  áhrif. Það er td. ekki ósjaldan sem sýndar eru myndir sem leika snilli  glæpamanna og það liggur nærri mér að halda að kvikmyndahúsin eigi  laundrjúgan þátt í því að auka á veilur mótstöðulítilla unglinga. 

Athugasemdir mínar eru í stultu máli þessar: Ytri aðbúnaður er ekki góður,  inngangseyrir er seldur við of hátt verð og myndirnar eru lélegar.

Hér eins og annarstaðar þarf bæjarfélagið að taka í taumuna og sjá um  framkvæmdir rótækra endurbóta, enda virðist aðstaðan til þess að koma á  endurbótum vera ákjósanlega góð. Þar sem bæjarbúar eiga stórt og myndarlegt  hús sem gnæfir hæst allra húsa hér í bæ og stendur autt mest allt árið að  undanskildum örfáum skiptum.

Húsið, sem ég á hér við er kirkjan. Mörgum finnst  það kannski hrópleg misnotkun á guðshúsi að nota það sem kvikmyndahús, en  ég lít svo á að einmitt mætti gera kirkjuna að enn voldugra og áhrifaríkara  guðshúsi með því td. að sýna trúfræðilegar myndir eins og td. myndir "Friður á  jörðu" ofl. Kirkjan er of stórt og myndarlegt og dýrt hús til þess að standa auð  allt árið og storka námsfúsum févana verkalýð.  (leturbreyting mín, sk)

Hér þarf ákaflega litlu til að kosta, húsið er til og með því að taka það í sína  þjónustu mundi margt ávinnast. Ytri aðbúnað værri hægt að hafa ákjósanlega  góðan.

Inngangseyririnn mundi vera hægt að selja við lægra verði. Og með því að  lækka inngangseyririnn mundi skapast snöggt um meiri aðsókn og almennari not og skilyrði, vara þá um leið fyrir hendi til þess að fá fullkomnari, lærdómsríkari og göfgandi  myndir. Sennilega mundi bærinn þéna á því að taka rekstur kvikmyndahússins í  sínar hendur.

Tilhlýðilegt væri að verja ágóðaum til stofnunar barnagarðs og  ræktunar trjáa og blóma. Væri það vel til þess fallið að ein uppeldisstofnunin gæfi  af sér aðra, hægt og hægt með frjálsu framlagi fjölmargra einstaklinga, sem  skapaðist í raun og veru þeim óafvitandi.

Vér Íslendingar þörfnumst kvikmynda er sýna þróun í iðnaðarmenningu,  íþróttamenningu, landbúnaðarmenningu og einnig uppeldisfræðilegra og  trúfræðilegra kvikmynda

Taki ráðandi menn bæjarfélagsins ekki þetta mál til ýtarlegrar yfirvegunar og  rannsóknar, verða bæjarbúar að taka sig saman, um háværar kröfur á hendur  þeim mönnum sem umgetnar stofnanir reka, því það erum við Siglfirðingar sem  beint og óbeint höldum þessum stofnunum uppi og höfum þar af leiðandi fullan  rétt til þess að heimta að einhverju leyti kröfur okkar uppfylltar. 

Það ætti að vera okkur Siglfirðingum metnaðarmál að skipa þessum málum  svo að til fremdar mætti þykja. Þessi umgetnu menningarmál, séu þau rækt,  eiga laundrjúgan þátt í því að móta og skerpa dómgreind manna og veitu  straum lífsgleði og hamingju í einstaklingana. 

Á sumri hverju kemur hingað fjöldi útlendinga frá ýmsum þjóðum og þessir  útlendingar eiga margir hverjir ekki aðstöðu til þess að koma á land annarstaðar en hér. Þeir verða því  að mynda sér ákveðna skoðun um menningu landsins út frá þessum eina stað  og mér leikur grunur á því, að ýmsir útlendingar skapi sér fáránlegar skoðanir  um félagslíf og menningu íslensku þjóðarinnar einmitt frá þessum eina stað.

H. K. H.
---------------------------------------------------------

Athugasemd ritstjóra Einherja

Ritstjóri er ekki greinarhöfundinum samþykkur í ýmsum atriðum, en fann þó  ekki ástæðu til að neita um upptöku greinarinnar í blaðið.