Árið 1936 - Dettifossdeilan og

Dettifossslagurinn og skrif út frá því atviki.     

Borðeyradeilan. Stéttar dómar.

Brautin, 15. maí 1936                  

Guðmundur Hannesson bæjarfógeti, hefur nú kveðið upp dóm í málaferlunum út af Borðeyrardeilunni.  

Nokkrir tugir verkamanna og kvenna eru dæmd í 1 til 5 mánaða fangelsi. Dómurinn er skilorðsbundinn á öllum nema Þóroddi Guðmundssyni, Aðalbirni Péturssyni og Gunnari Jóhannssyni er voru dæmdir í 5, 4 og 3 mánaða fangelsi. 

Af sumum heimilum eru allir dæmdir í fangelsi nema börnin. 

Það er margt athyglisvert við þessa dóma. Í fyrsta lagi voru undirskrif­aðir samningar þegar deilunni lauk og þar tekið fram að málshöfðanir skyldu niður falla á báðar hliðar. 

Í öðru lagi var það bæjarfógetinn hér sem stjórnaði lögreglunni og liði því, sem barðist við verkfallsmenn. 

Það segir sig því sjálft að hann getur ekki skoðast hlutlaus dómari í málinu, - máli sem hann sjálfur er annar aðilinn í. 

Hin svokallaða rannsókn hans er líka öll tilraun til að koma allri sökinni á hendur verkfallsmönnum.Þessum hneykslanlegu málaferlum og dómum verður nú áfrýjað til hæstaréttar.

Blaðið mun skrifa nánar um mál þetta seinna.

======================================

Brautin, 22. maí 1936 

Réttvísi G. H. að verki. 

Ennþá hefir Guðmundur Hannesson kveðið upp dóm. 34 menn ákærðir útaf Borðeyrardeilunni, allir sekir fundnir. 

Þóroddur Guðmundsson, Gunnar Jóhannsson og undirritaður, eru dæmdir í fimm, þriggja og fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi.
Hin öll í eins til fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi, nema tvö í fjársektir. 

Þetta dæmist rétt vera af Guðmundi Hannessyni. 

Margir borgararnir og flestir verkamennirnir, er létu hafa sig til hinnar eftirminnilegu árásar á verkalýðinn 13. maí 1934, munu iðrast þess og ekki verða til slíks aftur. 

Engum kunnugum kemur til hugar að nefna iðrun eða afturhvarf hjá G. H. Til þess er hann alltof verðugur fulltrúi afturhaldsins. 

Dómurinn samsvarar allri réttarrannsókninni hjá G. H. Dómurinn er aðeins höfuðið á skömminni. 

G. H. hefur ekki þessa rannsókn eftir kröfu aðila eða yfirboðara, heldur ef eigin hvöt.

Rannsóknin öll ber með sér ákveðinn tilgang. Þann að ná sér niðri á pólitískum andstæðingum. 

Annar aðilinn í deilunni er Verkalýðssamband Norðurlands og ákveðin verkalýðsfélög er mynda þetta samband og hlýða fyrirskipunum þess. Ef um einhvern annan aðila var að ræða, að áliti dómarans, þá átti rannsóknin eð leiða slíkt í ljós. 

En rannsóknina innleiðir dómarinn með svofelldum orðum: “Fyrirtekið: 

Að halda rannsókn út af árásum kommúnista ..." o, s. frv. Og þessi fyrirfram uppkveðni dómur G. H. gengur eins og rauður þráður gegn um alla rannsóknina, sem tekur yfir á annað hundrað vélritaðar blaðsíður. 

Fjöldi spurninga er hann leggur fyrir sakborninga og vitni eru í þessum anda óslökkvandi hatur og hlutdrægni í garð kommúnista. Hann reynir að fá sakborninga til að viðurkenna sekt kommúnista sem árásaraðila. 

Hann hlerar eftir og pumpar eins mikið af illyrðum upp úr vitnunum eins og frekast er hægt. 

Ekkert illyrði um kommúnista var of ljótt til bókunar. Til samanburðar skal þess getið, að við rannsókn hakakrossmálsins neitaði þessi sami dómari að bóka nokkurt hnífilyrði um Hitler eða þýsku brennuvargana, og vængstýfði hverja setningu hjá okkur sakborningunum. 

Rannsóknin að öðru leyti: 

Til sönnunar þessu síðasta skal ég aðeins til smekks nefna: 

Þrír hvítliðar sjá verkamann berja einn varnarliðsmann í andlitið með stórri, naglrekinni spýtu. Varnarliðsmaðurinn varð ekki var við það.
Báðir sverja. Einn hvítliðinn sér verkakonu kasta steini í hnakkann á sér sjálfum – og hann sver. 

Þrír hvítliðar meðganga óaðspurðir, að þeir hafi kastað grjóti, en ein frúin í bænum sver að svo hafi ekki verið. 

Meinsæri hafa jafnan þótt blettur á réttarfarinu, þegar framleiðslan á þeim hefir keyrt úr hófi fram. 

G. H. tókst að stofna þarna heila verksmiðju og borgurunum svelgist ekki einu sinni á, þegar þeir eru að kenna börnum sínum að meinsærismenn fari til Helvítis. 

Þá er ekki rúm til þess hér í blaðinu að fara nánar út í það, en það mun gert annarstaðar og nánar. Þetta mál er ekki enn til lykta leitt. 

Aðilarnir í þessu máli höfðu sætts, en “réttvísin” tók upp rannsóknina “laganna” vegna. 

1932 veitti sóttvarnarnefndin hér, með G. H. í broddi fylkingar, skarlatsóttar ófögnuðinum yfir bæjarbúa, með því að gjöra ekki það, sem henni bar að gera. 

Dauði og örkuml urðu afleiðingarnar. Hæstiréttur dæmdi að embættisfærsla G.H. í sóttvarnarmálunum væri verulega ábótavant. Sjúklingarnir, sem fyrir áverkanum urðu, hafa ekki sæst við árásarsegginn G. H. 

Hversvegna tekur ekki réttvísin upp rannsókn þess máls, “lagana” vegna ? 

Það er vegna þess, að lögin eru ekki jafnt fyrir alla. En lögin geta breytast, Guðmundur minn, og dómarar koma og dómarar fara. 

Þér hljótið að hafa heyrt nefnt nokkuð sem heitir samfylking verkalýðsins. Sú samfylking er engin tilviljun. Hún er heldur engin sápukúla, heldur ægilegt vald fyrir yfir­stéttina. sprottið upp af ískaldri nauðsyn baráttunnar gegn óvininum, auðvaldinu, og þó sérstaklega þessu svartasta og nýjasta fyrirbrigði þess, fasismanum, sem þér eruð svo oft fulltrúi fyrir hér á Siglufirði. 

En árásum yðar eru takmörk sett, en samfylkingin sigrar, og hve ört hún vegs, - á því veltur það, hvort þessir stéttardómar yðar verða framkvæmdir. Árásin er ekki hafin á okkur aðeins, sem dæmdir hafa verið, heldur á verkalýðsstéttin. Og verkalýðurinn mun svara nú - og áframhaldandi, uns hann tekur völdin í þjóðfélaginu, og þá verður réttur settur G. H.

Aðalbjörn Pétursson