Árið 1936 - Fleiri þrær

Fleiri þrær vantar við verksmiðjurnar   

Neisti, 8. júlí 1936  

Það hefir komið skýrt í ljós, bæði i fyrra og þó sérataklega í sumar, að þrær verksmiðjanna eru alltof litlar. 

Þrær hinna tveggja stærri verksmiðja ríkisins hér, taka til samans um 32 þúsund mál og með afkastagetu verksmiðjanna er það ekki nema 6 sólarhringa vinnsla.  

Nú síðustu daga hafa skipin þurft að bíða stórkostlega mikið, svo mikið að nú fyrir skömmu biðu rúm 50 skip með rúmlega 30 þúsund mál samanlagt. 

Sum þessara skipa eru búin að bíða 4 til 5 daga. Veiðitíminn er stuttur hjá okkur hér fyrir norðan og veitir ekki af að mokað sé upp eins og hægt er þann stutta tíma sem veiðin gefst. 

Sunnan við syðri þróna er nægilegt lóðarpláss sem verksmiðjan á. Þar mætti byggja þró sem tæki allt að 20 þúsund málm og væri það mikil bót frá því sem nú er.

Ef svo stór þró væri komin til viðbótar því sem nú er, væri í þrónni 9-10 daga vinnsla og væri þá síldin betur varin en nú er. 

Með því að liggja í skipunum 5-6 daga er síldin orðin 10-12 daga gömul þegar hún kemst í bræðslu. 

Ef þetta stór þró yrði byggð ynnist tvennt:  

1. Skipin þyrftu ekki að bíða eins lengi eftir löndun og öfluðu meira sem þessu svaraði. 

2. Þegar síldin liggur þetta lengi í skipunum í svona hita eins og undanfarna daga, þá sjálf bræðist síldin talsvert og tapast þá mikið lýsi, sem nást myndi að öllu leiti ef síldin lægi i þró. 

Það er auðsætt mál að þró verður að byggja og því betra því fyrr sem það er gert.

Rúm blaðsins leyfir ekki meiri skrif um þetta að þessu sinni, en það mun verða nánar rætt síðar og þá fleira í sambandi við þau mál.

----------------------------------------------------------

Neisti, 15. júlí 1936  

Fleiri þrær vantar. 

Í síðasta Neista var minnst á það, hversu mikil knýjandi nauðsyn væri á, að fleiri þrær kæmi við verksmiðjurnar. Þar var aðeins minnst á eina þró, sem byggja mætti sunnan við þró þá, sem Nýja verksmiðjan vinnur úr. 

Sú þró ætti að geta tekið allt að því 20 þúsund mál. Vitanlegt er, að þó stórlega væri bætt úr með verkmiðjuþrærnar, sem þá yrði safnað í og saltað vel og geymt þar til minna bærist að. 

Lóðarpláss fyrir þrærnar er til - og skal bent á það ef óskað er. Það getur vel verið, að mikið kosti að byggja þessar þrær, en það kostar ábyggilega mikið meira að byggja þær ekki. 

Enn er eitt sem benda má á, og það allþýðingarmikið upp á vinnslu verksmiðjanna að gera, og það er að þrærnar séu yfirbyggðar. 

Sé rigningarsumar kemur mikið vatn í síldina, vinnsla verður miklu erfiðari, sem munar því, að allt að því helmingi minna fer í gegn en ella. 

Sama er að segja, ef miklir hitar eru og sólarsterkja, síldin grotnar og verður erfiðara að vinna hana. Eins losnar úr henni lýsi sem tapast að einhverju leiti. 

Þá má nefna eitt atriði enn og ekki það veigaminnsta. 

Ef framtíðar karfavinnsla verður hér, sem verður að vinna að, að geti orðið, er nauðsynlegt að sá staður, sem fólkið vinnur á við innanúrtöku lifrarinnar sé yfirbyggður.

Helst yrði karfavinnslan að vori og hausti og er þá oft kalsaveður hér á Siglufirði, og er algjörlega óforsvaranlegt að láta fólkið standa úti við dútlvinnu, eða réttara sagt vinnu sem ekki er hægt að hita sér á þó unnið sé af kappi. 

Það mun ekki langt frá, að yfirbygging mundi borga sig á einu ári, í betri vöru, meiri afköstum verksmiðjanna og meiri vinnu fólksins við karfann.  

Að þessum málum mun frekar verða vikið síðar.