Árið 1937 - Ólafsfjörður

Tilfinnanleg vöntun á síldar- og beinamjölsverksmiðju í Ólafsfirði.

Neisti, 21. ágúst 1937                                     

Ólafsfjörður er allstórt þorp. Þar búa nú um 700 íbúar og verða þeir að langmestu leyti að lifa á þeirri björg, sem sjórinn gefur. 

Í vor og sumar hafa verið gerðir út þaðan 12 mótorbátar og 35-40 trillubátar og hefir afli verið sæmilega góður, bæði af þorski og síld. 

Nú síðastliðin tvö sumur hefir verið síldasöltun i Ólafsfirði og voru saltaðar þar um 7.000 tunnur í fyrra, en nú er búið að salta þar 6.522 tunnur. 

Alla þessa síld hafa Ólafsfirðingar aflað að mestu leyti á sína eigin báta. Bátarnir eru frekar litlir og hafa þess vegna orðið að vera 2-3 saman um nót. 

Í vetur var hreyfing fyrir því í Ólafsfirði, að koma upp verksmiðju til að vinna úr öllum úrgangi og var búið að fá vilyrði fyrir vélum, sem áttu að greiðast með þeim afurðun, sem ynnust, eða hluta af þeim. 

Úr þessu varð þó ekki, eftir því sem mér er sagt, vegna þess að innflutningsleyfi fékkst ekki og má það furðu sæta. 

Nauðsyn á slíkri verksmiðju er mikil og verður hún að komast upp í haust eða vetur. Á undanförnum árum hafa Ólafsfirðingar getað selt fiskbeinin þurrkuð til Ísafjarðar, þangað til nú í ár, og hefir öllum hausum og hryggjum og öðrum fiskiúrgangi verið fleygt. 

Þarna er verðmætum hent sem nema þúsundum króna. Ef verksmiðja væri komin þarna, svo hægt væri að vinna fiskimjöl úr öllum þessum beinum, mundi útgerð bátanna betur borga sig, hlutur skipverjanna verða meiri, atvinna skapast við vinnsluna og gjaldeyrir fást. 

Eins má segja að ekki sé vansalaust, að á þessum stað, þar sem síldarsöltun er orðin jafnmikil, að ekki skuli vera hægt að hirða síldarútgang og það sem ekki er hæft til söltunar, heldur verði að henda því öllu. 

Það má óhætt fullyrða, ef miðað er við það verð, sem nú er á mjöli og lýsi, að í Ólafsfirði einum hafi verðmætum verið fleygt í vor og sumar fyrir svo skiptir tugum þúsunda. 

Svona er ástatt í fleiri veiðistöðvum, bara vegna þess, að ekki eru til vélar til vinnslunnar. 

Nú á tveim síðustu árum hefir mikið verið flutt inn i landið af allskonar vélum, hagnýting aflans hefir orðið betri og meiri og iðnaður hefir mikið aukist, en betur má ef duga skal. 

Takmarkið á að vera: Góð og ný skip með fullkomnum útbúnaði til að afla fiskjarins og fullkomin tæki til að vinna verðmæti úr öllum aflanum.

Rányrkjan verður að hverfa. 

Ólafsfirðingar eiga við óblíð kjör að búa, af völdum náttúrunnar hafa þeir oft orðið fyrir skaða á bátum og öðrum eignum. 

Höfn er ekki góð, fjörðurinn opinn fyrir austan og norðaustan átt og hefir því hafaldan frían aðgang alla leið að bryggju. 

Um háveturinn, meðan tíð er verst, er ekki hægt að sækja sjó nema á trillum, sem hægt er að taka upp að kvöldi og setja niður að morgni, stóru bátana er of mikil áhætta að hafa liggjandi á legunni, það hefir reynslan kennt Ólafsfirðingum. 

Tíminn, sem hægt er að vera við róðra, er stuttur og verður því að nota hann af fullu, en það verður ekki gert á meðan þarf að fleygja þriðja eða fjórða hluta aflans, vegna ónógra vinnslutækja.

Með góðum samtökum geta Ó1afsfirðingar hrundið í framkvæmd að upp komist verksmiðja, og það verða þeir að gera.

J. S