Steingrímur Magnússon

Steingrímur Magnússon verkstjóri

Steingrímur Magnússon frá Hlíð Fæddur 3. október 1918

Dáinn 7. júní 1987 

Mig langar með fáum orðum að kveðja kæran fósturbróður minn, Steingrím Magnússon, sem jarðsettur var frá Siglufjarðarkirkju fimmtudaginn 18. júní. 

Steini bróðir, eins og ég kallaði hann, fæddist í Ólafsfirði 3. október 1918. 

Foreldrar hans voru hjónin

Jóna Stefánsdóttir og

Magnús Ólafsson. Þau eignuðust 8 börn. Magnús lést í janúar 1922. 

Í febrúar sama ár komu 2 barna þeirra til Siglufjarðar. 

Þau 

Sólveig Jóhannsdóttir og Sigfús Ólafsson í Hlíð tóku í fóstur, Steina þá þriggja ára, en Lóa, sem þá var 5 ára fór til Marsibil Ólafsdóttir og

Kristinn Þorsteinsson og voru bæði systkinin alin upp á þessum heimilum til fullorðinsára.

Ég, sem skrifa þessar línur, var 5 mánaða gömul, þegar Steini kom í Hlíð til ömmu og afa.

Móðir mín, Þorfinna Sigfúsdóttir, einkadóttir þeirra, bjó þá heima. 

Steini byrjaði snemma að hjálpa afa við búskapinn því í þá daga voru flest heimili með kindur, kýr og hesta. Steini fór ungur að vinna í síld á sumrin. En þegar hann var 15-16 ára vildi amma að hann lærði trésmíði því hann var mjög laghentur.

Steini sagði mér fyrir nokkrum árum þegar við vorum að rifja upp minningar frá liðinni tíð að amma hefði verið búin að fá pláss fyrir hann hjá Guðmundur Jóakimsson trésmíðameistari.

Búið var að ákveða daginn sem hann átti að byrja að læra.

Steini fór á tilsettum tíma að heiman um morguninn en hann fór framhjá verkstæði Guðmundar og beina leið niður í Síldarverksmiðju ríkisins og bað þar um vinnu og vann hann hjá því fyrirtæki til dauðadags.

Þar sem aðeins voru þrjú ár á milli okkar Steina hafði ég mikið af honum að segja í uppvextinum. Okkur kom alltaf sérlega vel saman og dæmi um gæði hans við mig varað þegar hann fékk fyrsta kaupið sitt í verksmiðjunum þá gaf hann mér alla smáaurana úr umslaginu sínu og sagðist ekkert hafa með þá að gera. 

Þetta gerði hann í mörg ár eða þar til ég fór að vinna sjálf. Þetta voru miklir peningar í mínum augum og lýsir jafnframt vel hans góða innræti.

Árið 1942 giftist Steini eftirlifandi konu sinni, 

Ester Sigurðardóttir frá Siglufirði. 

Þau eignuðust 4 mannvænleg börn: 

1) Sigfús Steingrímsson,

maki: Sædís Eiríksdóttir,

2) Ólöf Steingrímsdóttir,

maki: Jónas Jónsson

3) Sólveig Steingrímsdóttir

maki: Jón Bjargmundsson  

4) Sigurður Steingrímsson

maki: Sólveig Þorkelsdóttir 

Eru þau öll gift og búa dæturnar í Reykjavík en synirnir í Siglufirði. Steini var mjög heimakær maður og umhyggjusamur um velferð konu sinnar og barna. 

Þau hjónin voru mjög samstillt um að fegra og prýða heimili sitt. Steini var mjög laghentur og vandvirkur við allt sem hann tók sér fyrir hendur og það eru ófáir hlutir á heimili þeirra hjóna sem bera vott um þá alúð sem Steini lagði í handverk sitt.

Það var alltaf gott að heimsækja þau hjón, Ester með sínar rausnarlegu veitingar og hlýja viðmót og Steini svo rólyndur og traustur. Að leiðarlokum vil ég þakka Steina fyrir að hafa átt hann að bróður og vini. Ég og fjölskylda mín sendum Ester mágkonu minni, börnunum, tengdabörnum og barnabörnum innilegar samúðarkveðjur. 

Magga í Hlíð

Steingrímur Magnússon