Árið 1918

Ritað 1918                                                                

Fram, 3. ágúst 1918

Enska síldin. (grein)

Hitinn er afskaplegur. Tuttugu og tvö stig í forsælu. Enginn blær berst, sem gæti svalað og létt. Þess mun þó ekki lengi að bíða að hafgolan hrein og fjörgandi leiki um líkamann, þá léttist hitabyrðin og verkin ganga hraðar.  

En því miður er það fleira en hitinn sem hafgolan þarf að vinna bug á hér í Siglufirði. Loftið er þrungið af ódaun og fýlu er leggur af síld Englendinga, þeirri er liggur hér alstaðar umhverfis, jafnvel fast upp að húsdyrum sumstaðar.  

Ódaunn þessi eitrar loftið svo mjög að mönnum verður þungt um andardrátt, má gera sér í hugarlund hversu heilsusamlegt er  að anda að sér slíku ólyfjan, og er hrapalegt til þess að vita að vera neyddur til að þola þá spillingu er líkaminn hlýtur að verða fyrir, af áhrifum þessa eiturs. 

Ég segi neyddur, það er ég og margir, en líklega ekki allir, því þeir sem hlaða síldinni hringinn í kring um hús sín, eru líklega frekar glaðir yfir henni, og yfir því að geta hirt aurana er þeir fá í grunnleigu. Það er annars nokkuð einkennilegt, að vera að hafa hér heilbrigðisnefnd, er á að hafa nákvæmt eftirlit með ýmsu, en sem annaðhvort gjörsamlega vanrækir að gjöra skyldu sína eða er valdlaus þegar mest liggur á. 

Síðan síldarbræðsluverksmiðjurnar komu hér upp hafa ýmsir kvartað undan ólofti frá þeim, og heilbrigðisnefnd hefir stundum áminnt um óþrifnað við þær,  en þeir sömu sem einmitt hafa látið í ljósi við mig óánægju sína yfir lyktinni frá  verksmiðjunum hlaða nú hvað mest að húsum sínum, og lyktin og óþrifnaðurinn  frá verksmiðjunum kemst ekki í hálfkvisti við það af síldinni, má minna á úldnu leðjuna sem barst um göturnar í vor úr forarþollunum þar sem síldin lá. 

Haldist sá hiti sem nú er lengi sumars, má búast við að hér komi upp pest, stafandi af rotnun síldarinnar og ef svo æri að hreppsnefnd og heilbrigðisnefnd gætu gert eitthvað til þess að síldin lægi ekki hér og úldnaði, þá ber þeim að láta koma til bráðra framkvæmda.

Hannes Jónasson

----------------------------------------------------------------------------------------

Fram, 19. október 1918  (Hreppsnefndarfundur)

Sören. Goos

hefir fengið leyfi hreppsnefndar til þess að mega reisa síldarbræðsluverksmiðju á lóð sinni í Hvanneyrarkrók. Óvíst mun þó vera að hún verði byggð fyrst um sinn.

------------------------------------------------------------------------------------------------

Fram, 16. febrúar 1918 

Siglufjörður nú, og í framtíðinni.  (grein)

Eins og getið hefir verið um í "Fram" er hundrað ára afmæli Siglufjarðar sem verslunarstaðar þann 20. maí 1918. Hvernig litið hefir út í Siglufirði fyrir 100 árum get ég ekki borið um, en það er áreiðanlegt, að þá hefir verið fámennt hér, á móti því sem nú er.  

Fjörðurinn sjálfur hefir verið álíka útlits og hann er nú, að því undanskildu, að eyrin hefir náð nokkru lengra norður eftir fyrir utan Kamb, einnig sýnir sjávarbotninn að eyrin hefir náð um 40 föðmum lengra fram að austan eftir boga, sem telja má frá  Söbstaðs byggingum og inn fyrir framan Borðeyrarbryggju. Þó má vel vera að þessi lögun eyrarinnar liggi lengra aftur í tímann en 100 ár. Ennfremur hefir pollurinn þá verið frá 4-8 metum dýpri, og þar af leiðandi um þriðjungi stærri.  

Hvernig Siglufjörður lítur út á fyrsta aldarafmæli sínu, getum vér nokkurn veginn sagt um, en um útlit hans á því næsta, er erfitt að gera Sér hugmynd, vantar oss til þess hæfileikana að geta lesið hinar huldu rúnir framtíðarinnar, en það eitt er víst, að þeir, sem taka þátt í hátíðahaldinu á fyrsta aldarafmælinu fá ekki að njóta þess heiðurs að vera boðnir til þess næsta, þó að margir verði þeir, sem fylgjast með fram eftir veginum.  

Á hundrað ára afmælinu verða í Siglufirði sem næst 920 íbúar, 209 hús, virt til brunabóta á 1 og einn fjórða miljón króna, 4 síldarbræðsluverksmiðjur, og  25 síldarsöltunarstöðvar, skipt á 22 eigendur, og eru þar af 10 íslenskir, 10 norskir, 1 danskur og 1 sænskur. Söltunarstöðvar þessar eru um 2 og hálf miljón króna virði, þegar tilheyrandi lóðir eru reiknaðar með. Við þessar stöðvar geta legið 105 stærri og minni veiðigufuskip, og starfi þau að veiðum með fullum krafti, er hægt að salta á síldarstöðvum þessum um 400,000 tunnur af síld, er þá ótalið það sem síldarbræðsluverksmiðjurnar geta tekið á móti.

 Sé reiknað eftir eðlilegum ástæðum ættu aðfluttar vörur til og útfluttar vörur frá Siglufirði, að nema um 10 miljónum króna. Skipastóll Siglufjarðar er því miður ekki í samræmi við ýmislegt annað. Hér eru 7 stærri og minni skútur, þar al 5 með mótor 1 veiðigufuskip, og 16 minni mótorbátar. 

Af opinberum byggingum eru í Siglufirði: 1 kirkja, stórt og vandað barnaskólahús með áföstu leikfimishúsi, á þeirri byggingu er ennfremur samkomusalur fyrir hreppsnefnd. Í Siglufirði má telja 12 verslanir og á sumrin eru þær að jafnaði fleiri því hingað flytja ýmsir með vörur, meðan síldveiðatímabilið stendur yfir. 

Sem dæmi um, hve mikið líf og fjör er hér í Siglufirði, má geta þess að árið 1916, sem má telja sem gott meðalár, komu hér á höfnina 300 stærri og minni skip, bæði innlend og útlend, og stendur Siglufjörður þar sem númer 1 á öllu landinu.

Það er einnig talandi sönnun fyrir þeirri starfsemi sem hér er, að sama árið 1916 voru afgreidd af símastöðinni hér til útlanda 1721 símskeyti frá útlöndum 1111 samtals 2832 , innanlandskeyti send 5032, tekið á móti 3698 símskeyti hafa þá alls verið afgreidd 11500 Á sama ári voru útfarin viðtalsbil 5417 innkomin viðtalsbil 5536, Viðtalsbil alls 10,953 Á þessu ári, 1916 voru brúttó tekjur símastöðvarinnar yfir 30,000 kr. Hinn 20. maí 1918 byrjar ný öld fyrir Siglufjörð, og þann dag stendur hann á tímamótum. 

Sú spurning hlýtur að vakna hjá manni: Hefir Siglufjörður möguleika til að ná meiri þroska? Eða er hann svo upptekinn að því er pláss snertir að ekki megi búast við meiri framþróun? Fyrri spurningunni má óhikað svara játandi, og hinni síðari jafn ákveðið neitandi. Sé tekið hið óbyggða svæði, sem er innan bæjarmakra þeirra, sem tiltekin hafa verið, að viðbættri hinni nýu bryggjubyggingu O. Tynæs inni á Leirunni, þegar hún en fullbyggð, þá er í Siglufirði rúm fyrir 310 stærri og minni veiðigufuskip, sem öll í einu geta afhent veiði sína, eftir því er hægt, ef aðrar ástæður leyfa, að salta í Siglufirði 800 þúsund - 1 miljón tunnur af síld, þá ótalið það af síld sem verksmiðjurnar geta tekið á móti. 

Vel má vera að menn efist um að þetta sé rétt, en það er hægt að sanna lið fyrir lið. En svo kemur ný spurning: Er rúm fyrir svona mörg skip á Siglufjarðarhöfn?  

Svarið verður já, þegar búið er að byggja hafnarbryggjuna, ásamt hafnarkampi, á þeim stað sem fyrirhugað er, ennfremur búið að grafa upp pollinn, þá er engin hætta á að höfnin verði ekki nógu stór, þvert á móti, það kemur fyrir, að sá er lítið þekkir til Siglufjarðar, hvort sem hann er útlendur eða innlendur, spyr hvaða þorp Siglufjörður sé og hver sé aðal atvinnuvegur þess. Þessum spurningum er létt að svara.

Siglufjörður er sjávarútvegsþorp,  og sjávarútvegur aðalatvinnuvegur íbúa þar, og að svo er, geta menn enn betur sannfært sig um með því að líta í landabréf af Íslandi, því þar sést, að lega Siglufjarðar bendir á hann sem sjálfsagða miðstöð alls sjáfarútvegs fyrir norður Íslandi, hverju nafni sem nefnist. Jafnt með öðrum framförum í Siglufirði, mun skipastóllinn einnig vagsa bæði að því er fjölda snertir og einnig í því fjölda snertir  og einnig í því að stærri skip verði útveguð, með þeim útbúnaði sem tímar og ástæður krefja, svo jafnist geti við aðkomandi skip, þarf þessa einnig til þess að geta sótt veiði á fjærliggjandi stöðvar, því þess mun með þurfa í framtíðinni. 

Byggingarlag hinna norsku selveiðaskipa, þar sem hjálparvél er notuð með seglum, er álitið hið allra hentugasta nú á tímum til ýmiskonar  veiða og líkindi til, að svo verði um langt skeið, allir Íslendingar, og sérstaklega Siglfirðingar ættu því að kappkosta að eignast svoleiðis skip,  þar sem þau eru nothæf og einkar hentug til allrar veiði sem stunduð er hér við land, að undanskilinni botnvörpuveiði. 

Með framför Siglufjarðar, vegs einnig íbúatalan smátt og smátt með hverju ári, svo vel má vera, að við hátíðahald á öðru aldarafmæli verði minnst 8-10,000 manns, sem heima eiga á staðnum. Þá verður líka Siglufjörður orðinn stærsti bær á norður Íslandi. Af hinum mörgu verkefnum sem liggja fyrir Siglufirði á næstu 100 árum má nefna: 

Fyrir utan þetta mætti nefna margt annað, auk þess getur margt nýtt komið fram smátt og smátt, sem verður að gjörast, svo vér megum búast við því, að mega ekki halda að oss höndum heldur allir vinna hver eftir mætti eins og hverjum heiðarlegum manni ber að gjöra. 

Það sem fyrst stendur á dagskrá og sem kemur til með að þurfa mest peninga til, er hafnarbryggja; má búast við að hún komi til með að kosta 300 - 400 þúsund kr. ef hún, -- sem þarf -- á að byggjast svo, að hún fullnægi vaxandi kröfum bæjarins, og sé höfninni til varnar gegn þeim náttúruöflum, sem hér er við að stríða. Hvar á hafnarbryggjan að standa? Hún verður áreiðanlega sett nær því yst á framhlið eyrarinnar, á grunni þeim, er hafnarnefnd og hreppsnefnd keypti af H. Söbstað haustið 1917. 

Að því er snerti dýpkun á höfninni, sem aðallega kemur til að framkvæmast á pollinum þá mun hún ekki hafa svo afar mikinn kostnað í för með sér. Í fyrsta lagi mun O. Tynæs dæla upp á allstóru svæði til þess að fá uppfyllingu við bryggjubyggingu sína, kostar það bæinn ekki neitt, í öðru lagi munu allir þeir er grunna eiga að pollinum, dæla upp hver hjá sér, svo áætla má, að helmingur af öllum kostnaði við dælingu pollsins komi á  einstaka menn. 

Þá kemur að næsta málefni: Skólprennur og sorphreinsun.  Hvernig það verkefni skal komast til framkvæmda, er ég ekki fær um að skera úr, en áreiðanlegt er, að það verður erfitt verk, því op rennanna kemur til með að verða í hæð við sjávarmál um háflóð, og jafnvel lægra og þar af leiðandi þyrfti eyrin að hækka um 1 og hálfan til 2 metra, til þess að fá hæfilegan halla á rennurnar. 

Uppfylling sú senn til þyrfti yrði afar dýr, og ókleift á annan hátt en þann, að hið opinbera tæki að sér nokkurn hluta af þeim kostnaði. Ætti hver lóðareigandi að fylla upp á sinni lóð á eigin kostnað, yrði það flestum um megn. Það er eigi að síður fast og víst, að skólprennur verðum vér að fá, annars má búast við að drepsótt komi hér upp innan skamms, svo á einn eða annan hátt verður að vinna verkið. 

Í sambandi við þetta er einnig annað atriði, sem hlýtur að koma til greina þegar talað er umheilbrigðisskilyrði í Siglufirði nú og í framtíðinni, og það er: að menn verða að fá að vita hvað gjöra skal af sorpi og, öðru sem skólprennurnar geta ekki tekið á móti. 

Menn spyrja: Hvar er heilbrigðisnefndin? Á að gjöra Siglufjörð að gagngjörðu svínabæli? 

Vilji menn að vordegi, þegar snjórinn er að hverfa, ganga um bæinn og taka eftir hvað fyrir augun ber, og kemur í ljós eftir hinn langa vetur, þá munu þeir verða fyrir þeim áhrifum, sem eru bænum til lítils sóma. 

Fyrsta hugsunin mun verða, að bærinn enga heilbrigðisnefnd hafi; því er ekki svo varið, en að hún hafi legið og liggi enn í aðgjörðalausum sætum svefni, sannar það sem menn sjá, en ég ætla ekki að lýsa hér. 

Samt vona ég að Siglufjörður verði ekki  gjörður að gagngjörðu svínabæli, því ætla má að á eftir hinum langa svefni renni loks upp sá dagur, er notaður verði til dyggilegra starfa, og æskilegt væri, að hin heiðraða heilbrigðisnefnd, með tilstyrk annarra góðra manna, vildi sjá um, að Siglufjörður yrði svo hreinn og prúðbúinn á aldarafmæli sínu, sem föng eru á, og lengur en þann daginn. 

Það er ekki sýnilegt, að sérstakar hindranir þurfi að verða á veginum með flutning sorps úr bænum, það hlýtur að vera hægt að framkvæma hér sem svo víða annarstaðar. Fyrsta skilyrðið er að ákveða stað sem sorpið skuli flytjast á, og þar næst, að hverjum húseiganda sé gjört að skyldu að hafa sorpkassa við hús sitt, ættu allir kassarnir að vera af sömu gerð.

Hreppsnefnd, eða bæjarstjórn réði svo einn eða tvo menn til að aka sorpinu á sinn stað. Gjald fyrir flutning þennan mætti svo taka af hverjum húseiganda, á líkan hátt og vatnskatturinn er tekin nú.

Á líkan hátt mætti fara að með hreinsun salerna og annað er að þessu máli lítur.

Þá er að snúa sér að hvar hentugan stað er að finna fyrir sorpið, stað sem ekki kemur í bága við íbúa bæjarins, eða höfnina. Má álíta að hentugasti staðurinn sé lóð sú, sem nú er eign hreppsins, milli  lóðar O. Tynæs og hins svokallaða Hafnarnefs. Lóð þessi þarf og á að fyllast upp, og á þennan hátt fengist uppfylling sú sem í sorpinu liggur fyrir ekki neitt. 

Til þess að geta flutt sorpið þarna inneftir, þarf að leggja götu undir bökkunum, er gengur útúr götu þeirri er nú liggur suður bakkana, kæmi hún til með að byrja fyrir utan og neðan hús Einars Halldórssonar og lægi alla leið inn að Hafnarnefi. Með lagningu þessarar götu mælir einnig annað, og það er, að þegar búið er að fylla upp á milli O. Tynæs og Helga Hafliðasonar, og ennfremur frá þeim síðarnefnda niður að E. Jacobsen, hvar á þá að taka sand til bygginga? 

Svarið verður á hinni áðurnefndu lóð hreppsins. Vera má að mönnum sýnist löng leið að aka sandinum hér út á eyri, en það er þó að minnsta kosti létt ara en að sækja hann út á Siglunes, eða vestur á Breiðuvík. 

Að því er snertir götu þessa, þá þyrfti að vinda bráðan bug að því að leggja hana, því hugsanlegt er, að þeir sem lóðir eiga meðfram bökkunum byggi svo, að ómögulegt verði að koma götunni fyrir, nema með því að taka eignarnámi bæði hús og lóðir. 

Þörfin á sjúkrahúsi hér í Siglufirði er nú orðin svo augljós, að um hana geta tæplega verið skiptar skoðanir. Bygging þess er því eitt af þeim verkefnum er liggja fyrir og það þarf að komast á sem allra fyrst. Sannanir fyrir þessu þarf ekki að tilfæra aðrar en þær, að í Siglufirði eru um 1000 búsettra manna 6 mánuði af árinu, og hina 6 mánuðina eru hér um 5-6000 manns. 

Stofa sú, sem ætluð er fyrir sjúklinga í hinu Norska sjúkrahúsi hér getur rúmað 10 15 sjúklinga, og getur verið nokkur hjálp að henni, en þó ekki til frambúðar. En á meðan ekki er byggt nýtt sjúkrahús ætti hreppsnefndin að tryggja sér afnot þessarar stofu þegar Norðmenn eru ekki hér, og eru það vanalega 6 – 8 mánuðir af árinu. Þegar þetta er ritað liggja 2 sjúklingar á stofu þessari, og þeim getur  fjölgað. Þessu er hægt að koma í framkvæmd, hefði ekki mjög mikinn kostnað í för með sér, en gæti orðið stór hjálp fyrir bæinn. Húsið er að vísu aðallega útbúið sem sumarbústaður en mun þó vera eins vandað eins og íbúðarhús hér almennt gjörast. 

Um hvar hið fyrirhugaða sjúkrahús ætti að standa, geta að sjálfsögðu vertíð skiptar skoðanir. Að mínu áliti er hentugasti staðurinn fyrir sunnan hús Theódórs Pálssonar á hæðinni spölkorn fyrir ofan götuna. Í útlöndum má sjá, að opinberar byggingar, og þá ekki síst sjúkrahús, standa ekki nærri öðrum húsum, heldur ef svo mætti að orði kveða sem mest áberandi stöðum, það er að segja þær byggingar, sem byggðar hafa verið nú á seinni tímum og að svo miklu leyti sem staðlegar ástæður hafa leyft Það er líka augljóst, að sjúkrahús verður að byggja þar sem bæði er kyrrð og ró, og ennfremur þar, sem best eru heilbrigðisskilyrði, og hvað það snertir, er hvergi ákjósanlegri staður í Siglufirði en einmitt þarna. 

Hver og einn getur hugsað sér, að hann, eftir lengri eða skemmri legu fengi leyfi læknisins til þess að vera á fótum litla stund. Fengist ekki leyfi til að fara út þá er að sitja við glugga, þá sem væri útsjónin fögur yfir bæinn, höfnina, og langt út á haf. Lífsþrótturinn fengi nýjan styrk, glaðlyndið, sem lamast hefði við veikindin vaknaði aftur til lífsins, og það er besta meðalið. Þegar batanum væri svo langt komið að útgönguleyfi fengist, þá má heita svo að sjúklingurinn sé i sveit, að minnsta kosti þarf ekki langt að ganga til þess, að fjallablærinn fái yfirhönd yfir bæjarloftinu.

Vera má, að ýmsum finnist, að ekki sé gott, að skólprennur frá sjúkrahúsinu liggi fram í innhöfnina, en þar til má svara, að í útlöndum, bæði í stórum og litlum bæjum, og eins hér á landi, liggja skólprennur frá sjúkrahúsum inn í rennur sem koma annarstaðar frá, liggja svo op rennanna hér og þar út að höfninni, er því ekkert við þetta að athuga hér frekar en annarstaðar. 

Þar við bætist, að þegar innrihöfnin verður dýpkuð, verður byggður brattur veggur meðfram ströndinni frá húsi Helga læknis Guðmundssonar, - eða þar nálægt því alla leið niður að eyrarodda. Veggur þessi verður hafður svo hár að 4 5 fet standi yfir mesta flóð, getur þá ekkert á land rekið á þessu svæði, heldur berst allt með straumnum fram hjá oddanum og út til hafs. 

Engin hætta ætti því að geta stafað af skólprennunum, hvorki frá sjúkrahúsinu, né öðrum húsum. Að því er snertir byggingarlóð undir sjúkrahúsið þá er ekki ástæða til að ætla, að erfiðara yrði að fá hana á hinum framangreinda stað, en annarstaðar innan takmarka bæjarins. Þá kemur kirkjubyggingin. Það mál er þegar nokkuð á veg komið þar sem búið er að veita fé af hreppssjóði til byggingarinnar, og sérstök nefnd verrið kosin til að starfa að því máli.

Ástæðan fyrir því, að Siglufjörður þarf að fá nýa kirkju, er ekki sú hin sama sem svo víða annarstaðar að kirkjan sé orðin svo gömul og hrörleg, heldur sú, að hún er of lítil, og fullnægir ekki bænum. Jafnframt því, sem talað hefir verið um að byggja nýa kirkju, hefir einnig verið talað um að byggja hana á öðrum stað en kirkjan stendur á nú, og það þarf skilyrðislaust að gera, og er fyrsta ástæðan sú, að plássið þar er of lítið. 

Önnur ástæða er sú að kirkjan, alveg eins og sjúkrahúsið, verður að byggjast á áberandi stað, svo sést geti, að kirkja er í Siglufirði, og það hvaðan sem litið er, hvort heldur er af höfninni eða úr bænum. Ég minnist þess, að farþegar sem ég hefi hitt á skipum, hafa oft spurt mig hvar kirkjan væri, þeir gætu ekki komið auga á hana. 

Þá er þriðja ástæðan, og hún er, að bærinn þarf að fá autt svæði fyrir skemmtigarð, og leik eða íþróttavöll fyrir æskulýðinn, líkt eins og í öðrum bæjum. Staður sá, sem kirkjan stendur á nú, er sá hentugasti sem hægt er að fá hér, og jafnvel sá eini. Er vonandi að hreppsnefnd og sóknarnefnd hafi þessa þriðju ástæðu hugfasta - og þó allar - þegar kemur til úrslita kirkjubyggingarmálsins. 

Að hafa kirkjuna á sama stað í framtíðinni, kæmi líka í bága við byggingarniðurskipun i bænum, en fengi bærinn svæðið til umráða má óhætt segja, að Siglufjarðarbær sé fullkomlega byggður samkvæmt nútíma skipulagi, og heiðurinn fyrir að svo er, ber séra Bjarna Þorsteins syni einum, og hefir hann með því reist sér óafmáanlegan minnisvarða, svo lengi sem bærinn stendur. 

Mér datt í hug í fyrra, þegar þeir háu herrar voru að gefa götum bæjarins nafn, að þeir hefðu átt að hafa svo mikið  vit í kolli, að láta eina götuna bera nafn þessa manns, mannsins sem frá því fyrsta, að farið var að byggja hér að nokkru ráði og fram á þennan dag, hefir ráðið um götulagningu og niðurskipun húsa í bænum. 

Hvort honum hefði þótt nokkuð í það varið, get ég ekki sagt, en ég álít að flestir Siglfirðingar séu mér samdóma um þetta, og eins viðkunnanlegt og hljómfagurt er að segja ég bý í Bjarna Þorsteinssonar götu, eins og að tilnefna Vetrarbraut, Tjarnargötu, Eyrargötu, eða hvað þær nú heita. Það mun hafa komið til tals, að byggja hina nýju kirkju upp á túni Jóns Guðmundssonar verslunarstjóra og er sá staður að mörgu leyti góður, en viðkunnanlegast og tilkomumest væri að hafa hana upp á túni Jóns Brandssonar. 

Yrði kirkjan byggð þar, þyrfti bærinn að kaupa bæði hið svokallaða Skólahús, og byggingar Jóns Brandssonar þetta bakaði bænum talsverð útgjöld, en þá væri líka kirkjan á þeim fegursta stað sem fáanlegur er, ennfremur er þar ágætt kirkjugarðsstæði. Þykir mér alllíklegt að í framtíðinni beinist hugir manna að þessu kirkjustæði. Færi þó samt sem áður svo að kirkjan yrði sett á tún Jóns Guðmundssonar, þá verður að gæta þess að setja hana ofarlega á túnið