Árið 1942 - S.B. Um Óskar Halldórsson
Óskar Halldórsson, frumkvöðull að stofnun Síldarverksmiðja ríkisins.
Siglfirðingur 7. ágúst 1942
SVEINN BENEDIKTSSON skrifar:
Tuttugu og fimm ára starfsafmæli
Hinn 10. júní 1942, voru ár liðin 25 síðan Óskar Halldórsson hóf fyrst starfrækslu sína hér i Siglufirði.
Hann kom hingað öllum ókunnur í þeim tilgangi að kaupa hér þorskalifur og bræða hana sjálfur, áhöldin hafði hann með sér, en þau voru 2 lifrarbræðslupottar, 10-15 tóm föt, díxill og drífholt.
Auk þess hafði hann í fórum sínum nokkur hundruð krónur peningum. Strax sama morguninn og hann kom, keypti hann lóð fyrir 300 krónur af Bessa gamla, við Álalækinn, undir lifrarbræðsluskýlið, keypti í það efni, fékk smið til að reisa það, og um kvöldið var "fabrikkan" komin upp og í fullum gangi.
Sveinn Benediktsson. Lósmynd: Kristfinnur
Óskar Halldórsson gerði sjálfur allt í senn, keypti lifrina í samkeppni við Helga Hafliðason og Gránu, sótti hana á stöðvarnar um alla eyrina og inn undir Bakka, bræddi hann og setti lýsið á föt og var sinn eigin beykir. Lifrina varð hann að flytja til "fabrikkunnar" með þeim hætti, að setja hana á fat og velta þeim síðan eftir bryggjum og blautum götunum að bræðsluskýlinu, því að um vagna, og því síður bíla, var ekki að ræða á þessum tíma, til slíkra flutninga. Óskar vann bug á öllum örðugleikum, fékk mikla lifur að bræða, réði sér aðstoðarmann við bræðsluna og hafði af henni allgóðan hagnað
Tuttugu og fimm ár eru liðin síðan þetta gerðist. Óskar Halldórsson hefir meiri hluta þess tímabils verið einn helsti atvinnurekandi á Siglufirði. Hann hefir rekið síldarsöltun og útgerð í stórum stíl, og frystingu á beitusíld í stærri stíl en nokkur annar.
Hann keypti stöðina í Bakka, ystu stöðina við fjörðinn. Þar brotnuðu bryggjurnar og söltunarpallarnir árlega. Umfram þau vandræði, sem aðrir áttu við að stríða, og mörgum riðu að fullu, varð Óskar, eins og Egill Stefánsson hefir komist að orði: “að byggja nýja síldarsöltunarstöð árlega", og var það sannarlega ekki heiglum hent á þeim árum.
Hann hefir átt drjúgan þátt í byggingu og rekstri íshúsa og hraðfrystihúsa í Siglufirði, Ólafsfirði, Reykjavik, Sandgerði og Vestmannaeyjum. - Hann lét byggja hafskipabryggjuna í Keflavík. - Allt þetta nægir til þess að setja Óskar á bekk með athafnamestu mönnum á landinu.
Óskar hefir tekið mestan þátt í þeim hluta atvinnuvega landsmanna, sem voru áhættusamastir fjárhagslega, síldarsöltun og síldarútgerð, enda hefur hann oft átt við mjög mikla fjárhagsörðugleika að stríða. En hann hefir aldrei látið hugfallast. -
Óskar er allra manna hugkvæmastur, og sér alltaf aðrar leiðir út úr ógöngunum. Óskar hefir ekki aðeins fundið leiðir til þess að geta haldið rekstri sjálfs síns gangandi þau mörgu kreppu- og vandræða ár, sem hann hefir verið atvinnurekandi og koma honum á réttan kjöl, heldur hefir hann einnig fundið úrræði fyrir aðra.
Allir sáu það vandræða ástand, sem ríkti í síldarútvegi landsmanna, meðan hann byggðist eingöngu á síldarsöltunni og hinum smáu síldarbræðslum útlendinga. Þeir, sem við útveginn fengust, urðu flestir gjaldþrota annað eða þriðja hvert ár. Enginn sá leiðina út úr ógöngunum fyrr en Óskar Halldórsson.
Hann, lagði, vorið 1924, fram tillögur sínar til úrbóta í ítarlegri blaðagrein, sem hann birti í dagblaðinu Vísi í Reykjavik. þar leggur Óskar til, að ríkið reisi síldareiksmiðjur, sem taki við síldinni til vinnslu af framleiðendum, sjómönnum og útgerðarmönnum og greiði sannvirði fyrir hana, miðað við afurðaverð og vinnslukostnað. Óskar fylgdi málinu fast eftir, ritaði um það margar greinar og ræddi um það á fundum útgerðarmanna og Fiskifélagsins.
Þótt málið mætti mikilli mótspyrnu frá fyrrverandi forseta Fiskifélagsins og tómlæti hjá öðrum, tókst Óskari fljótlega að vinna marga áhrifamenn til fylgis við málið, þar á meðal Magnús heitinn Kristjánsson, síðar ráðherra. Hann bar fram þingsályktunartillögu um rannsókn málsins árið 1927.
Rannsóknin var síðan falin Jóni heitnum Þorlákssyni, sem leysti hana fljótt og vel af hendi. Lögin um byggingu fyrstu síldarverksmiðju ríkisins voru samþykkt 1928 og verksmiðjan reist 1930.
Ég fullyrði. að án frumkvæðis og íhlutunar Óskars Halldórssonar hefði þessi fyrsta ríkisverksmiðja ekki verið reist á þessum tíma, og þar sem þá fóru krepputímar í hönd, sé algerlega óvist, hvort orðið hefði úr byggingu ríkisverksmiðjanna, enn sem komið væri, ef ekki hefði þá verið riðið á vaðið.
Með þessu frumkvæði sínu hefir Óskar Halldórsson unnið síldarútvéginum og þjóðinni í heild, ómetanlegt gagn. Fyrir þetta afrek verður nafn hans skráð efst á blaði, er þeirra verður minnst. sem unnið hafa að framförum og eflingu síldarútvegsins síðustu 25 árin.
Óskar Halldórsson festi í fyrra kaup á þeim hluta Bakkevig stöðvarinnar gömlu, sem enn var eftir, og nú fyrir skömmu hefir hann keypt íshúseignina af Ásgeiri Péturssyni fyrir 300 þúsund krónur. Hann er nú búinn að fá leyfi ríkisstjórnarinnar til þess að reisa á þessum stað nýja síldarverksmiðju með 5.000 mála afköstum á sólarhring.
Ég vil að lokum óska þess, og ég veit að ég mæli fyrir munn margra, að Óskari takist að koma upp þessari nýju verksmiðju, og að hún verði honum jafn gagnleg, að sínu leyti, og ríkisverksmiðjurnar, - sem byggðar voru samkvæmt tillögum hans, hafa orðið öðrum.
Óskar Halldórsson - Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson
Óskar Halldórsson - Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson