Sigrún Þorleifsdóttir

Sigrún Þorleifsdóttir (Dúdú), 

Hún fæddist á Siglufirði 16.4. 1926. Hún lést á öldrunardeild Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða á Ísafirði þann 13.6. 2015.

Foreldrar hennar voru 

Þorleifur Sigurðsson, f. 28.10. 1897, d. 16.1. 1986 og 

Soffía Davíðsdóttir, f. 7.12. 1904, d. 9. 5. 1981.

 Systur Sigrúnar eru: 

Ingibjörg, f. 23. 3. 1934 og 

Áslaug, f. 22. 5. 1943. 

Sigrún giftist 31.12. 1947 Páli Janusi Þórðarsyni, f. 23.2. 1925, d. 1.4. 2010. 

Börn þeirra eru: Þorleifur, f. 1945, kvæntur Guðlaugu Stefánsdóttur, þau eiga 3 dætur og 8 barnabörn. Þórður, f. 1948, kvæntur Sveinfríði Högnadóttur, þau eiga 3 syni og 1 barnabarn. Hilmar, f. 1952, kvæntur Guðbjörgu Skarphéðinsdóttur, eiga þau 2 syni, dóttur og 3 barnabörn. Sigrún, f. 1956, gift Jóni Þorleifssyni og eiga þau 3 syni og 6 barnabörn.

Sigrún lauk almennri skólagöngu á Siglufirði. Eftir að hún giftist sá hún að mestu um barnauppeldið og heimilisstörf, enda oft gestkvæmt á heimilinu. Eftir að börnin voru farin að heiman vann hún utan heimilis, m.a. við fiskvinnslu, í mötuneyti og sælgætisgerð. Hún var söngelsk og söng í kirkjukór. Hún ásamt eiginmanni sínum tók þátt í fjölda leiksýninga áhugaleikfélagsins á Suðureyri og starfaði einnig í kvenfélaginu Ársól. 1975 fluttu þau hjónin til Reykjavíkur þar sem þau bjuggu í 30 ár. Á þessum árum áttu þau sér einnig sælureit í Skammadal þar sem stunduð var mikil blóma- og kartöflurækt. Einnig voru þau dugleg að ferðast innanlands og erlendis.

2005 fluttu þau á Hlíf 2 á Ísafirði og bjuggu þar á meðan heilsan leyfði. Síðustu árin dvaldi hún á öldrunardeild Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, Ísafirði.

Útför Sigrúnar fer fram frá Ísafjarðarkirkju í dag, 20. júní 2015, kl. 14.

Á fallegu sumarkvöldi eftir fallegan sumardag kvaddi amma Dúdú okkur skyndilega. Eftir sitja góðar minningar hjá fjölskyldunni í Hafraholti 24.

Kjúklingur frá Suðurveri, Gullsmárinn, Skammidalur, sleikjó í jólaboxi, öldrunardeildin, ákveðnar fataskoðanir, krossgátur, útvarpið á maganum, alltaf fín um hárið, yatzy, allt fína dótið á glerborðinu, litli styttuapinn og margt fleira. Amma Dúdú var líka alltaf glöð að sjá okkur og var það ofarlega í huga stelpnanna í fjölskyldunni þegar sest var niður til að ræða um (lang)ömmu Dúdú hvað hún ljómaði þegar þær birtust. Hún var stolt af sínu fólki og reyndi að fylgjast vel með því fram á síðasta dag. Þó það sé erfitt að kveðja vitum við að hennar tími var kominn og afi Palli hefur tekið svo vel á móti henni eftir 5 ára aðskilnað en þau voru einstaklega samrýnd og falleg hjón. Við vitum að þau halda áfram að passa upp á okkur og fylgjast með okkur.

Látum hér fylgja með eitt erindi úr ljóði sem heitir Svefninn og er eftir afa Palla.

Þá kemur svefninn, sigrar hverja önd

signandi hendi, lífsins gleði og sorgir.

Sálirnar þreyttar líta draumalönd,

ljósgeislasindur reifa dimmar borgir.

Svefninn er gjöf frá Drottins

dýrðarveldi,

dagsins að græða vonbrigði og trega.

Ylur af kynslóða kærleikseldi,

hvarmana strýkur hljótt og yndislega.

(Páll Janus Þórðarson).

Sofðu rótt og hvíl í friði, elsku amma Dúdú. Fjölskyldan í Hafraholti 24,

Páll Janus, Elísa,

Hrefna Dís, Soffía

Rún og Emilía Rós.