Erlendur Þorsteinsson 

Erlendur Þorsteinsson fyrrv. Skrifstofustjóri

í dag fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík, útför Erlends Þorsteinssonar, fyrrverandi skrifstofustjóra, sem lést 10. júlí 1981 að Borgarsjúkrahúsinu í Reykjavík á sjötugasta og sjötta aldursári.

Erlendur Þorsteinsson fæddist 12. júní 1906, á Búðum, Fáskrúðsfirði í S-Múlasýslu. Foreldrar hans voru hjónin Þorsteinn Sigurðsson, sjómaður og Helga Erlendsdóttir. Móður sína missti Erlendur á unga aldri og var þá komið í fóstur. Æskuárin liðu við ýmis störf til lands og sjávar, brotist til mennta við lítil efni, svo sem títt var ungum mönnum í þá daga með Ungmennafélagsanda að veganesti og eldmóð aldamótastraumsins í hjarta.

Erlendur varð gagnfræðingur með lofsamlegum vitnisburði frá Akureyrarskóla árið 1925, stundaði þar síðan framhaldsnám um hríð, en hvarf frá frekara námi og hóf lífsstarfið, tilbúinn til átaka, hlaðinn krafti jafnaðarstefnunnar. Siglufjörður varð starfsvettvangurinn með búsetu um tuttugu ára skeið, sem hófst 1927, er Erlendur gerðist skrifari bæjarfógetaembættisins og fulltrúi bæjarfógeta, ári síðar. Erlendur vann sér miklar vinsældir í því starfi, vel liðinn og vandaður embættismaður, þrátt fyrir sterkar stjórnmálaskoðanir, sem ekki áttu hugi allra. Litríkur persónuleiki, fylginn sér, greindur og málsnjall vann hann sér brautargengi í stigaþrepum stjórnmálanna.

Bæjarstjórnarfulltrúi og bæjarstjórnar forseti í áraraðir, síðar varaþingmaður og landskjörinn þingmaður um árabil

Erlendur Þorsteinsson.
Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson

Á  Alþingi gat Erlendur sér mjög góðan orðstír sem annars staðar og eru orlofslögin eitt af þeim góðu málum, sem hann bar þar fram ástamt Sigurjóni heitnum Ólafssyni.

Árið 1927 kvæntist Erlendur, Guðlaugu V. Hallsdóttur. Þau slitu samvistum. 

Árið 1939 kvæntist Erlendur eftirlifandi eiginkonu sinni, Ástu Kjartansdóttur. 

Árið 1936 gekk Erlendur þjónustu Síldarútvegsnefndar og var skrifstofustjóri hennar um þriggja ára skeið, en framkvæmdastjóri nefndarinnar svo um mörg ár. Erlendur átti sæti í Síldarútvegsnefnd í áraraðir, ritari og varaformaður, en lengst af formaður nefndarinnar. Dugnaður Erlends Þorsteinssonar í öllum störfum hans fyrir síldarútveginn er viðurkenndur af öllum, sem best til þekkja enda voru honum þráfaldlega falin hin þýðingarmestu störf fyrir síldarútveginn. 

Kosinn var hann í stjórn og varaformanns stöðu Síldarverksmiðja ríkisins, í stjórn og formannsstöðu Tunnuverksmiðju ríkisins og fulltrúi ríkisstjórna í milliríkjasamningum frá 1947 í tólf ár. Naut hann þar þekkingar sinnar á málefnum síldarútvegsins, sjálfmenntaður tungumálamaður, harður og fylginn sér í samningum og sölumálum fyrir land og þjóð. 

Árið 1958 breytir Erlendur lífsstílnum. Stjórnmálavindar og erill manndómsáranna að baki. Fimmtíu og tveggja ára réðst hann til skrifstofustjóra starfa hjá Brunabótafélagi íslands. Uppgjör tjóna framkvæmd af festu og lífsreynslu embættismannsins, hæverskur heimsmaður eins og einn viðskiptamaður félagsins komst að orði nýlega. Undirritaður minnist fyrstu kynna 1958 og samstarfs hjá Brunabótafélaginu í 18 ár, drengskapar og vináttu. Heimili Erlends og Ástu hefur lengst af staðið að Eskihlíð 21, hér í borg. Þangað var ánægjulegt að koma. 

Reisn og höfðingsskapur einkenndi húsbændur, veitul og samhent hjón, góðir félagar hvors annars og vina sinna. Þar bjó Ásta manni sínum glæsilegt og friðsælt heimili. Er Erlendur lét af störfum 1976 hjá Brunabótafélaginu, þá fyrir aldurs sakir, slitnaði ekki vinartaug við okkur samstarfsmennina. En nú síðustu árin breyttist umræðan. Nú töluðum við ekki lengur um það sem var . Mildur blær ævikvöldsins færðist yfir, sjúkdómur hefti sporin hans og síðasta heimsóknin rann upp. Þá varð umræðan um það, sem mundi verða. Kveðjustundin var komin. Kjarkmaðurinn Erlendur Þorsteinsson með glettni í augum ræddi um endurfund í öðru lífi og brosti. Sterki hláturinn ómaði ekki lengur. Baráttuglaður og harðskeyttur við manninn með ljáinn til hinstu stundar. Og nú er hann allur, lífshlaupinu lokið. Blessuð sé minning hans. Góður drengur gengur nú á ókunnum leiðum. Vinir hans óska honum góðrar ferðar. Frú Ástu og fjölskyldunni sendum við hlýjar samúðarkveðjur. 

Hilmar Pálsson
-------------------------------------------   

Kveðja frá starfsfólki Brunabótafélags íslands Okkur, gömlum samstarfsmönnum Erlendar Þorsteinssonar, kom ekki á óvart þegar Ásta tilkynnti okkur lát hans. Hann hafði átt við langvarandi veikindi að stríða og allir vissu að hverju stefndi. Erlendur varð skrifstofustjóri Brunabótafélags íslands í ársbyrjun 1958 þar til í árslok 1976 að hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Starf hans, auk skrifstofustjórnar, fólst mest í uppgjöri á tjónum á fasteignum og innbúi, sem alltaf hefur verið viðamesta tryggingargrein félagsins. 

Þetta var erilsamt starf, sem krafðist oft á tíðum mikillar nærfærni og háttvísi í samskiptum við ótalda viðskiptavini. Það var almælt, að Erlendur væri ákaflega farsæll í þessu starfi, hann gaf sér alltaf tíma til að hlusta á viðskiptavinina og heyra hvað þeir höfðu til málanna að leggja. Hann fékk það orð, að hann væri sanngjarn, hann flanaði ekki að neinu, en komst að niðurstöðu, sem lang oftast allir gátu sætt sig við. í gegnum árin unnum við mikið saman við uppgjör og frágang á tjónum. Það var ekki erfitt verk að ganga frá því, sem Erlendur hafði farið höndum um. Ég hefi fáa menn þekkt, sem voru jafn vandvirkir og agaðir við sitt starf. 

Aldrei fékk ég frá honum neina skýrslu öðruvísi en rækilega hefði verið athugað að allt stemmdi eins og best væri á kosið. Meðal samstarfsfólks var hann ákaflega vinsæll, hann lét sér mjög annt um velferð hvers og eins og hvers manns vanda, sem til hans leitaði, vildi hann reyna að leysa. Eftir að Erlendur lét af störfum, hafði hann oft samband við okkur. Fyrst eftir að hann lét af störfum, kom hann nokkuð reglulega í heimsókn. Eftir að heilsu hans hrakaði, varð hann að láta sér nægja að hringja og rabba smá stund í síma.
Alltaf var áhugi hans jafn mikill fyrir gömlum kunningjum og vinum. 

Þegar Erlendur Þorsteinsson er nú kvaddur, þá vill samstarfsfólk hans hjá Brunabótafélagi íslands flytja honum þakkir fyrir ánægjulegt samstarf í mörg ár. Ástu, börnum Erlends og öðru skyldfólki, viljum við votta hluttekningu okkar og biðjum góðan guð að styrkja þau í sorg þeirra.

Þórður H. Jónsson