Ýmsar umsagnir (1)

Umsagnir ritstjóra blaða og misvitra einsteklinga

FRAM 11. mars 1918,  í dálknum Bæjarfréttir:

Leikfimisal Barnaskólans, hefur hreppsnefndin leigt Jens Eyjólfssyni kaupmanni hér til kvikmyndasýninga. Er ráðlegt að það taki til starfa strax í sumar. 

----------------------------------------------

Fram, 20. júlí 1918,  í dálknum Bæjarfréttir:

Bíó.

Nú er langt komið útbúnaðurinn við bíóið hér og verða byrjað sýningar mjög fljótlega. Eru 2 menn  komnir hingað úr Reykjavík er að því vinna.

-------------------------------------------- 

Fram, 9. nóvember 1918, Pistill:

Óholl skemmtun.

    Ég sá auglýst á laugardaginn, að dansskemmtun ætti að verða í Leikfimishúsinu.  Ég leit þar inn um það leyti sem átti að byrja, og sá ég þá - mér til mikillar  gremju og undrunar - að þrír drengir voru þar inni að sópa gólfið í ákafa og þyrluðu rykinu svo upp að hálfdimmt var í húsinu þrátt fyrir öll ljósin.

    Svo átti dansinn að hefjast þegar þessari hreingerningu var lokið! þá áttu  menn að taka til fótanna, hringsnúast um gólfið, og soga þetta holla og hreina loft niður í lungun! ­

    Ég sárkenndi í brjóst um þessi ungmenni, sem voru látin vinna þetta óþrifaverk,  og það á þennan hátt, því að vafalaust hefði mátt láta eitthvað það á gólfið t. d.  blautan sand), sem hefði komi í veg fyrir að rykið þyrlaðist upp.

    Annars finnst mér  ekkert vit í að dansa í slíku húsi, án þess að þvo gólfið áður, því allir vita að þar  er oft fullt og hálffullt af fólki þegar kvikmyndir eru sýndar, og bera menn þá inn  með sér for af götunni eins og eðlilegt er, og þar að auki - því miður fara margir  ekki eins varlega með hráka sína sem skyldi.

    Ég skrifa þessar línur vegna þess að mér finnst þetta íhugunarefni fyrir alla þar  sem berklaveikin er óðum að breiðast meir og meir út og finnst mér ekki ólíklegt  að dansskemmtanir sem fara fram í öðru eins ryki, eins og síðast í Leikfimishúsinu, gefi henni enn meiri byr í seglin.

S. B. K.

Fram, 22. mars 1919.

YfirlýsingÍ gær kom til mín nefnd frá Kvenfélaginu "Von" til að fá að vita skilyrði sem ég setti fyrir hönd okkar félaga, fyrir láni á húsi okkar handa Kvenfélaginu til sjónleika. Kvað ég skilyrði eigi önnur en þau að aðhúsið fengist gegn greiðslu á andvirði þess og þeirra véla, sem í því eru  ef Brunabótafélag Íslands einhverra orsaka vegna ekki greiddi brunatjón í tilfelli ef húsið  brynni þann tíma sem félagið hefði það að láni. Húsaleiga yrði engin tekin. Að þessum skilyrðum kvaðst nefndin ekki geta gengið.

Í von um að enginn efi þetta.

Siglufirði 21. mars 1919

Matthías Hallgrímsson

--------------------------------------------------------

Fram, 10. maí 1919,  í dálknum Bæjarfréttir:

Byggingarbeiðni frá Jens Eyjólfssyni, um að Bíofélaginu yrði leyft að byggja skúr fyrir framan dyr leikfimishússins 4x5  alin að stærð, með upphækkuðu steinsteyptu gólfi til þess að varna vatnsrennsli í  húsið, og að bærinn bæri allan kostnað við steypugólfið. 

Var leyft að byggja  skúrinn með öllum greiddum atkvæðum, en að bærinn skyldi bera allan  kostnað við gólfið samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3. Tillaga kom frá G. T. H. að  bærinn kostaði aðeins einn þriðja hluta gólfsins, en sú tillaga var feld.

---------------------------------------------------------

Fram, 17. apríl 1920, frétt í pistlinum "Vikan" 

H. Thorarensen læknir er eð flytja hingað búferlum, kona hans og sonur  komu hingað í nótt alkomin með m.s. "Helgu" frá Akureyri.  Læknirinn flytur í Landsbankahúsið uppi næstu daga. 

(Hinrik Thorarensen læknir, er sá sami sem reisti kvikmyndahúsið Nýja Bíó 3-4 árum síðar, vígt 1924)

----------------------------------------------------

Fram, 6. mars 1920, auglýsing: (stutt og laggóð)

Bíó

annað kvöld kl. 9.

--------------------------------------------------------

 Siglfirðingur 18. júlí 1924, Fréttapistillinn: Siglufjörður

H.f.Valur, hélt fyrstu bíósýninguna í hinu nýbyggða húsi sínu í gærkvöldi og bauð  þangað fjölda bæjarbúa. Auk sýningarinnar voru ræðuhöld, söngur og dans.

------------------------------------------------------

Siglfirðingur 24. júní 1936

Nýja-Bíó. Quo Vadis?

Nýja Bíó hefir undanfarna daga sýnt myndina “Quo Vadis”, Aðalhlutverkið, Nero, vitfirringinn í hinu rómverska keisaradæmi, leikur karektaleikarinn Emil Jannings af mikilli snilld.  

Fólk ætti ekki að láta ónotað tækifærið til að sjá þessa mynd, ef nokkur tök eru á, því þar fæst rétt lýsing á því villta munaðarlífi sem yfirstéttirnar lifðu og lifa enn i dag.

Myndin sýnir einnig betur en nokkuð annað þær ógnir og hörmungar sem fasismi og einræði hefir í för með sér.

Áhorfendur fyllast viðbjóði og skelfingu að horfa á alla þá grimmd, ofsóknir og pyntingar sem beitt er við kristna menn af blóðhundum Neros, en fullvíst er, að viðbjóðurinn yrði ekki minni ef bíógestum væri gefið tækifæri á að sjá þær kvalir og pyntingar sem jafnaðarmenn, kommúnistar og Gyðingar hafa orðið að þola af blóðhundum Hitlers í "þriðja ríkinu".

Myndin verður sýnd í kvöld kl, 8½.

-------------------------------------------------------

Siglfirðingur 27. apríl 1929, Fréttapistillinn "Úr bæ og byggð":

Skemmtanir

---- Frúarfélagið hélt skemmtun síðasta vetrardag til ágóða fyrir sjúkrahúsið.

---- Kvenfélagið Von hélt sumarfagnað í fyrrakvöld við ágæta aðsókn. 

---- Bíó sýndi 1. sumardag Borgarættina. Myndin var lélegri en vér höfðum vænst.

-------------------------------------------------

Siglfirðingur 16. febrúar 1929, Fréttapistillinn "Úr bæ og byggð":

Nýja Bíó sýndi um síðustu helgi: "Greifann af Monte Cristo" Myndin er ágæt og væri óskandi að fólki gæfist aftur kostur á að sjá svona góða mynd.

[Þessi mynd, "Greifann af Monte Cristo" (eintakið) virðist ekki vera sama eintak og myndin sem sýnd var í Siglufjarðar-Bíó, 1922, en það eintak var alls 8 þættir, um 6 klukkustunda mynd í heildina] 

-------------------------------------------------

Siglfirðingur:  Bæjarfréttir 14. júní 1930

Nýja Bíó - Hefur engar sýningar í kvöld. Á morgun kl. 6 veður sýndur Leyndardómur Lundunarborgar. Ágæt mynd um átakanlegustu viðburði lífsins. Klukkan hálf níu verður sýnd Ævintýri vopnasmyglarans, bráðskemmtileg mynd frá byrjun til enda, gerist á Suðurhafseyjum-------------------------------------------------------

Siglfirðingur:  Bæjarfréttir 21. júní 1930

Nýja Bíó

Sýnir í kvöld og klukkan 6 annað kvöld hina heimsfrægu mynd Sigrún á Sunnuhvoli. Mynd þessi hefur áður verið sýnd hér, en er ein þeirra mynda sem alltaf er ný þó gömul verði. Klukkan hálf níu annað kvöld verður sýnd spennu og efnismikil mynd Naðran í paradís. Þar fá börn ekki aðgang.

---------------------------------------------------

Siglfirðingur 31.maí 1930, 

Fréttapistillinn "Bæjarfréttir"

Nýja Bíó - Engin sýning í kvöld

Á morgun kl. 6 verður sýndur Þrælaskipið. Ágætis mynd um ástir og útlegð 

Kl. hálf níu verður sýnd ný mynd Leðurblaðkan. Spennandi leynilögreglumynd.

Börn fá ekki aðgang að síðar myndinni.

------------------------------------------------------  

Bæjarfréttir 17.janúar 1931

Talmyndir verður byrjað að sýna hér í Bíó í kvöld.

-------

Tilvitnun mín sk: Ekki hefur fréttamanni eða ritstjóra Siglfirðings þótt mjög mikið til koma, hvað varðar talmyndaþróunina, ef marka má fréttina sjálfa, sem vart getur verið snauðari en raun ber vitni, hér fyrir ofan.  SK

------------------------------------------

Siglfirðingur: Bæjarfréttir 27. júní 1931  

Nýja Bíó

sýnir Örkin hans Nóa.

Söng- tal- og hljómmynd, í 11 þáttum

--------------------------------------------------------------------

Tilvitnun mín: Úff, - sýningarmaðurinn hlýtur að hafa verið þreyttur og sveittur eftir þessa sýningu, þar sem sýningarvélin var handknúin með sveif. Á þessum tíma voru filmuspólurnar frekar litlar og tók um 10-15 mínútur að sýna hverja spólu (sem hér er nefnd „þáttur“) "Í dag" eru filmuspólurnar að jafnaði stærri og tekur um 20 mínútur að sýna hverja spólu, en frá 1932 voru sýningarvéla orðnar tvær, og knúðar rafmótorum og skipt á milli véla, svo varla sást á tjaldinu, en fyrstu sýningavélarnar handknúnar og yfirleitt ein í sýningaklefum kvikmyndahúsa.  SK

-----------------------------------------------------

Einherji 11 febrúar 1932

BÆJARFRÉTTIR  (fréttapistill um bæjarmál.)

"Talið þér þýsku", heitir mynd sú sem Gamla-Bíó í Reykjavik sýndi á jólunum síðast liðnum og eru Litli og Stóriaðalleikendurnir. Myndin er tekin af  þýsku film félagi og mjög til hennar vandað, enda er sagt að þetta sé  skemmtilegasta myndin sem Litli og Stóri leika í og er þá mikið sagt, því þeir  eru meðul hinna vinsælustu gamanleikara í heimi.

Efni myndarinnar er það, að alþjóða flökkumannaþing er háð í Berlín og þar  mæta hinir frægu flækingar Litli og Stóri vitanlega. Aðal umræðu- og  viðfangsefni þingsins er að fá ráðna bót á hinni miklu og háskalegu umferð á  öllum þjóðvegum, sem öllum flökkulýð er til mikils trafala.

 Litli og Stóri eru eftir  þjark nokkurt kosnir til þess að bera fram umbótakröfur stéttarinnar, þótt sá  ljóður sé á þeirra ráði að þeir kunna.ekki þýsku.

Síðan fá þeir sér kennara í  málinu, en það er auðvitað ástleitin piparkerling sem ólm vill klófesta Litla-karl.  Hann lætur samt ekki "plata" sig sá stutti, heldur stinga báðir félagarnir af, lenda síðan hjá öðrum kvenmanni - yndislegri stúlku - og þá er nú ekki um að  spyrja  þar lenda þeir í ýmsum skringilegum ævintýrum ...

Nýja-Bíó hér hefir nú fengið myndina og mun hún verða sýnd bráðlega. Mun  margan fýsa áð sjá: Spectator, en svo heitir myndin á frummálinu.

------------------------------------------------

Einherji 14. september 1932

Tilkynning frá Siglufjarðar-Bíó.

Þar sem ómögulegt hefir reynst, þrátt fyrir margítrekaðar tilraunir, að fá  börnin til að tala ekki saman og vera ekki með hávaða meðan á sýningu  stendur, neyðumst vér til að hætta sölu barnaaðgöngumiða að öllum  kvöldsýningum.

Á sunnudögum og fimmtudögum kl. 6 verða sýningar fyrir börn, og verða  aðgöngumiðar barna aðeins seldir að þeim sýningum -- (ath.þetta kom frá Nýja Bíó)