Villikettir og..

trolli.is 6. febrúar 2021 Jón Ólafur Björgvinsson 

SIGLFIRSKIR VILLIKETTIR
OG ROTTUR HIMINSINS


Kötturinn Busen -- Ljósmynd Jón Björgvinsson

Það er með eindæmum hvað okkur manneskjum getur þótt vænt um gæludýrin okkar og þar virðist mér að kötturinn hafi ákveðna sérstöðu. Sagt er að yfir helmingur alls myndefnis á alnetinu séu myndir og upptökur af sætum kettlingum og sniðugum köttum.

Það er svo sem ekkert skrítið enda hafa kettir fylgt mannskepnunni í fleiri þúsund ár og augljóst er að þessi dýrategund kom einnig til Íslands strax í upphafi landnáms.

Athyglisverðar staðreyndir um íslenska ketti er að finna á vísindavefur.ís en þar segir meðal annars:

Með því að beita skyldleikagreiningu á erfðaefni hefur verið sýnt fram á að íslenskir kettir eru náskyldir köttum frá Skáni í Svíþjóð, Færeyjum og Hjaltlandseyjum en mun fjarskyldari köttum annars staðar á Bretlandseyjum. Rétt er að taka fram að kettir í íslenskum sveitum eru upprunalegri en kettir í þéttbýli sem hafa blandast við síðari tíma innflutta ketti

Þetta eru þau svæði sem norrænir víkingar fóru aðallega um á 9. og 10. öld.“

Og til viðbótar má nefna þessa furðulegu staðreynd úr sömu grein:
„Að lokum má geta þess að Dr. Stefán Aðalsteinsson og bandarískur samstarfsmaður hans Bennett Blumenberg að nafni, gerðu athyglisverða rannsókn á uppruna katta í norðausturhluta Bandaríkjanna og birtist niðurstaðan í þýska vísindatímaritinu Zeitschrift für Tierzüchtung und Züchtungsbiologie fyrir mörgum árum.

Þar var meðal annars sýnt fram á að sama kattarstofn er að finna í Boston í Bandaríkjunum og í sveitum á Íslandi. Svæðið þar sem Boston stendur nú kemur mjög vel heim við lýsingar í sögu Leifs heppna á Vínlandi og því er hugsanlegt að þessi „íslenski“ kattastofn í Ameríku séu leifar af landnámi Leifs heppna.“

(Vísindavefur.is. 9.2.2005/ Svar við spurningu. Hvað er talið að kötturinn sé búinn að vera margar aldir á Íslandi?
Höfundur svars: JÓN MÁR HALLDÓRSSON, Líffræðingur)


Kettlingur á leik.
Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson. 

Siglfirskur villiköttur við Slippinn á Siglufirði. Ljósmynd: Ernst Kobbelt.


Einkennileg Siglfirsk katta kynblöndun

Strokukettir frá erlendum skipum og bátum sem komu á Sigló í áratugi skruppu eflaust oft í land og skemmtu sér og blönduðu geði við virðulegar Siglfirskar heimiliskattar- LÆÐUR.

Mér er það einnig minnisstætt hversu margir villikettir voru til á Siglufirði í minni barnæsku og það er líklega tengt því að enginn skortur var á skjólgóðu húsnæði fyrir villiketti og þá sérstaklega á árunum 1970 – 1990, því þá stóðu brakkar, bryggjur og verksmiðjur auðar og yfirgefnar.

Við krakkarnir vorum alltaf að finna munaðarlausa kettlinga niður á bryggju og við tókum þá heim og svo grátbáðum við foreldra okkar með tárin í augunum um að fá að hafa þessa sætu svöngu kettlingakisur heima hjá okkur. 

„Þurrkaður köttur á færibandinu færist nær….”

Þessi stutta saga minnir mig á hræðileg örlög Siglfirska villikatta sem földu sig og festust á milli þilja í síldarbröggum og skúrum á Siglufirði, því það kom oft fyrir að við bryggju- og brakka krakkarnir fundum þurrkaðar katta og kettlinga múmíur allt eftir sem veggir og þil rotnuðu, grotnuðu og hrundu meira og meira á þessum árum niðurníðslu síldarminja bæjarins. 

Ég vill sverja af mér alla þátttöku í þessu fyndna en hræðilega illkvittins atburði. En ég veit hvað þessir ungu bryggjuguttar heita, þeir eru allir virðulegir miðaldra menn í dag og þess vegna verða enginn nöfn nefnd.

Einn fallegan sumarævintýradag um miðjan áttunda áratuginn eru þrír eða fjórir góðir félagar að þvælast í einhverjum leynierindum í brakka rétt hjá gamla Ísafoldar frystihúsinu.
Þeir finna þar þurrkaða stóra gulbröndótta kattarmúmíu og ég veit ekki hvernig þeim datt þetta í hug en þeir læddust óséðir inn í Ísafold með þetta þurrkaða kattarlík og köstuðu því á færibandið sem færði flökin í hendurnar á flakasnyrtingardömum á öllum aldri.

Þeir sáu þetta ekki…. en heyrðu þvílík öskur og orð allt eftir því sem kattarmúmían ferðaðist á færibandinu innar í frystihúsið.

Ó Guð… Jesús minn eini… þvílíkur viðbjóður… o.s.f.v.“ Síðan öskruðu dömurnar allar í kór á verkstjórann:
Danni, Danni… Daníel, viltu gjöra svo vel og koma þér hingað, núna strax“…

Danni Bald var ekki par hrifin af þessari hryðjuverkaárás á sína vinnslulínu. Því hann neyddist til að senda flesta heim og restin af deginum fór í að sótthreinsa allt Ísafoldar frystihúsið.   

Kettlingur og dúfa á Ljósmyndastofu.
Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson.

Förum á Ljósmyndastofuna og látum taka mynd af okkur með dúfuna þína og köttinn minn”
Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson.

Upplýsingar frá Steingrími Kristinnsyni: Ljósmyndin af dúfunni og kettinum ásamt drengjunum: Þeir heita Eiður Indriðason (Sonur Indriða kokks og Níu ) og Steinar Hallgrímsson, sonur Hallgríms Márussonar klæðskera. ----

Ég hef minnst aðeins á þetta villikatta fyrirbæri, sem og dúfurnar fallegu áður í göngutúra greinum mínum sem birtust á Sigló.ís fyrir nokkrum árum.

Sjá meira hér:
Göngutúr um heimahaga, 7 hluti, SIGLFIRSKT ! 80 myndir

Villikettir voru líka út um allan bæ og blönduðu sig við alkyns strokuketti frá síldarbátum sem komu frá öllum heimsins hornum. Það voru mörg merkileg litabrigði af köttum og ég man eftir einum “albínóa” með rauð augu.“

„Dúfurnar í bænum hjálpuðu til við að gefa Siglufirði þennan stórborgarbrag, þær bjuggu á loftum í mörgum síldarbrökkum bæjarins og þær eru örugglega innfluttar, hafa líklega ekki flogið hingað af fúsum og frjálsum vilja.

En Siglufjarðar dúfurnar fallegu eru auðvitað ekki „rottur himinsins“

Dúfnaveisla á bárujárnsþaki.
Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson.


Síðustu dúfurnar á Íslandi ?


Fyrir liðlega 10 árum setti Bergþór Morthens saman þessa grein á sigló.is um dúfurnar á Siglufirði þegar þær voru að flytja af loftinu í bryggjuhúsi Njarðar og yfir í Ásgeirsskemmu sunnan við Síldarminjasafnið.

Dúfurnar á Siglufirði eru fyrir margra hluta sakir merkilegar og er Siglufjörður sennilega eini bærinn á landinu þar sem eitthvað er af dúfum.

Örlygur Kristfinnsson sendi siglo.is þessa góðu grein um dúfurnar á Siglufirði (2010) “ :

„….Þessar dúfur eru jafnmiklir Siglfirðingar eins og þú og ég – eða krummarnir og allir hinir fuglarnir sem hafa valið fjörðinn sem heimkynni sín. Margir gera sér grein fyrir þessu og þó nokkrir góðhjartaðir bæjarbúar færa þeim brauð daglega.

Ekki er vitað hvenær þær komu fyrst hingað en líklegt er að þær hafi verið fluttar á staðinn snemma á 20. öld til ræktunar eins og gerðist í flestum þorpum og bæjum.  Nú eru þær nálægt 50 að tölu, villtar en þurfa húsaskjól og eru háðar matargjöfum.

Fyrir allmörgum árum var verið að setja upp eitthvert leikrit hjá Leikfélagi Akureyrar. Einn ,,leikaranna” var dúfa. Þegar til átti að taka fannst engin slíkur fugl á Akureyri. Og ekki heldur í öðrum bæjum á Norðurlandi – nema á Siglufirði! Þannig að í það skiptið fór einn Siglfirðingur með hlutverk á fjölum gamla samkomuhússins á Akureyri.

Við athugun kom það í ljós að Árni nokkur Logi eigandi fyrirtækisins ,,Meindýravarnir Íslands ehf” hafði ekið um landið á jeppa hlöðnum byssum, gildrum og hverskyns eiturefnum og samið við sveitarstjóra um útrýmingu á öllum meindýrum þ.m.t. dúfum.

Aðeins einn bæjarstjóri samþykkti ekki útrýmingaráætlunina – það var Björn Valdimarsson á Siglufirði – þökk sé honum!

Um áratugi hafa bræðurnir Pétur Guðmundsson og Ólafur Guðmundsson gætt dúfnanna í bryggjuhúsi gömlu Njarðarstöðvarinnar. Nú þegar húsið hefur verið rifið eiga þær nýtt aðsetur í Ásgeirsskemunni, syðst á lóð Síldarminjasafnsins…..

…. Þótt sumir amist við þessum blessaða fiðurfénaði og hafi trúað áróðrinum um að þetta séu ,,rottur himinsins” þá er full ástæða til að dúfurnar njóti áfram verndar okkar. -- Ljósmynd: Örlygur Kristfinnsson

Siglfirskar dúfur fljúga í hádegismat við “dúfu pallinn” við Síldarminjasafn íslands.
Ljósmyndari: Kristín Sigurjónsdóttir.

Og ekki eru nein vandræði að finna þeim nokkrar málsbætur: Fáir fuglar éta eins ,,hreint” fæði, þ.e. brauð og kornmeti. Þær eru fallegar í augum margra  og börnum þykir yfirleitt vænt um þær. Dúfur eru eitt helsta torgtákn margra borga útí heimi – og við sem erum stolt af torginu okkar – einu af fáum bæjartorgum landsins! – eigum náttúrlega að ala þær á torginu og undirstrika það að Siglufjörður var lengi kallaður höfuðborg (síldarinnar) og hefði enn nokkuð alþjóðlegt yfirbragð eins og áður“. (Ö.K. 2010)

Kristinn Steingrímsson stoltur með tamda Siglfirska dúfu. Það var lengi vinsælt tómstundaáhugamál að krakkar væru með dúfukofa á Sigló í denn. Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson. 

En frægasta Siglufjarðarköttinn að mínu áliti átti hún Gunndóra mín og Hebbi málari.

Í greinaseríunni HEBBI MÁLARI OG NORRÆN SÍLDARSÖGU VINÁTTA. 2 HLUTI“ lánaði ég kveðjuorð frá Brynju Stefánsdóttur en hún er systurdóttir Gunndóru og þessi fallegu orð lýsa henni vel og hversu ótrúlegur karakter kötturinn hennar var:

Henni varð ekki barna auðið, en kött einn átti hún til margra ára og þótti sérlega vænt um hann. Til marks um það er, að þegar hann dó var hann settur í kistu og Nýja testamenti með honum og hann jarðaður með viðhöfn í garði þeirra hjóna á Siglufirði.

Það komu einnig viðbótarupplýsingar fljótlega eftir birtingu um að þessi dásamlegi köttur hafi heitið “Grilli?,” annar sagði “Grissi?”

Ég fékk einnig þær fréttir að líkkistan var mikil völundarsmíði og var fóðruð að innan og alles, kistan var smíðuð af Páli frá Ljótstað.
 

Síðan segir sagan líka að Hebbi Málari eiginmaður Gunndóru, hafi klætt sig í presta hempu sem hann líklega lánaði hjá leikfélaginu og fór hann með messuhald í þessari virðulegu katta jarðarför.

Frank Haraldur Sinatra ”Don Franco” … og fartölvan hans. Ljósmynd: Kristín Sigurjónsdóttir. 

Hérna eru þær vinkonurnar Alma og Perla.
Perla lét sér margt lynda, t.d. að vera klædd í barnaföt og keyrð um í dúkkuvagni. Ljósmyndari og myndaskýringar texti: Jóna Möller. 

Krúttleg mynd af henni elsku Gunndóru minni
og köttinn “Grilli?”.
Ljósmynd Kristfinnur Guðjónsson:>>>>>


Í fyrrasumar skrifaði og sendi mér þessi spænski, sæti bláeygði KÖTTUR löng skilaboð á Messenger. En hann er í daglegu tali kallaður ”Don Franco” en heitir fullu nafni Frank Haraldur Sinatra. Þessi einstaki köttur er af Siglfirsk/Spænskum ættum og býr í helli með foreldrum sínum á Kanaríeyjum.
Sjá meira um þennan merkilega kött hér:
SPÆNSKUR KÖTTUR SKRIFAR SKILABOÐ

Kötturinn á forsíðumyndinni er sænskur og hann heitir “Busen” sem þýðir hrekkjalómur á íslensku.
Ljósmynd: Jón Ólafur Björgvinsson.

Busen var að verða 13 ára þegar hann lést í slysi í fyrravetur.
Svakalegur karakter sem fáir máttu kela við, nema eigandinn sem er góður vinur minn og hann heitir Ásgeir Ásgeirsson

Busen var kolsvartur og vígalegur og þrátt fyrir að það væri búið að skera undan honum “jólakúlurnar” þá róaðist hann ekkert við það.
 

Ó Nei, hann fitnaði bara og stækkaði og passaði vel uppá sitt umhverfi. 

Veiðihundurinn minn, Cindý heitinn, var skíthrædd við hann og ég líka. Einu sinni kom hann heim allur blóðugur og draghaltur með kattarkló fasta í hausunum á sér. 

Busen

Ég sagði við Ásgeir: … og hvernig ætli útlitið á andstæðingum hafi verið ???

Hans er sárt saknað, en til að létta sorgina tóku Ásgeir og fjölskylda að sér kolsvarta systkinaparið Sótis og Zelda. Ótrúlega sætir og skemmtilegir kettlingar. Miklir klifurkettir og þau eru stanslaust að reyna að drepa krákurnar sem stríða þeim mikið í garðinum hér heima í NOL.

Klifurkatta systkinin Sótis og Zelda upp í eplatrénu hjá nágrannanum.
Ljósmyndari: Jón Ólafur Björgvinsson. 

Ef þú lesandi góður villt vita meira um ketti, þá er gaman að skrifa leitarorðið KETTIR á vísindavefurinn.is.

Þá birtast þér fleiri hundruð skemmtilegar spurningar og svör. 

Að lokum, fyndnar kattarmyndir af netinu


Myndir lánaðar af katta alheims netinu.