Guðmundur Jóhannesson

Guðmundur Jóhannesson

Guðmundur Jóhannesson frá Siglufirði Hann "afi" minn, er dáinn 11. janúar 1987. Hann sem alltaf var svo yndislega góður við mig, sat með mig á hnjánum á sér og sagði mér sögur. 

Hann bjó í næsta húsi við mig á Siglufirði og einhverra hluta vegna hændist ég strax að honum sem barn.

Þar sem okkur leið svona vel saman gerðum við með okkur samkomulag. Hann skyldi breytast úr Guðmundi og í "afa" minn.

Upp frá því vissu foreldrar mínir hvar mig var að finna þegar ég hvarf tímunum saman. Svo núna átti ég tvö heimili. Eitt hjá mömmu og pabba og systrum mínum tveimur og hitt hjá honum "afa" mínum í kyrrðinni. Afi hafði alltaf tíma fyrir mig. Stundum sat ég á tröppunum hans og beið eftir honum þegar hann var í vinnunni.

Aldrei leiddist mér að bíða. Þegar ég sá mannveru með hatt og nestisbox lengst úti hjá húsinu hans Ólafs læknis, (Ólafur Þ Þorsteinsson) vissi ég að nú yrði gaman, hann "afi" væri að koma heim. "Afi" stökk inn til sín með nestis boxið og kyssti hana Ólu, konuna sína, (þá varð ég afbrýðisöm, bara að ég væri eina konan í lífinu hans afa hugsaði ég þá).

Síðan röltum við "afi" okkur út í skúr. Þar voru kettlingarnir okkar" eins og við kölluðum þá, þó svo að við ættum ekkert í þeim. Og alltaf voru að fæðast nýir og nýir kettlingar og nóg að gera hjá okkur afa.

Svo leið tíminn og ég stækkaði og flutti frá Siglufirði en áfram héldum við "afi" sambandi. Alltaf kallaði ég hann "afa" minn þó oft hafi það valdið misskilningi innan fjölskyldu minnar því mínir raunverulegu afar dóu þegar ég var barn. En ég var staðráðin í að kalla hann afa, því hann var "afi" minn.

Guðmundur Jóhannesson

Oft langaði mig norður og var ég þá ávallt velkomin á heimili þeirra hjóna. Þar ríkti virðing, kyrrð og jafnvægi. Tókum við þrjú þá í spil og rifjuðum upp gamlar minningar.Ég þakka "afa" mínum þessar dýrmætu stundir sem við áttum saman og votta fjölskyldu hans mína dýpstu samúð.

Hanna Birna

Guðmundur starfaði í áratugi hjá SR sem skilvindumeistari (sk)