Slæmt og vanhugsað

Eftirfarandi frásögn: Eldur og.....

Eitthvað breytt eins og gengur þegar margir hafa sagt frá henni. En grunnurinn er sannur og átti sér stað í raunveruleikanum fyrir mörgum árum.

Þeir voru góður vinir allt frá barnæsku til fullorðins aldurs, nánast óaðskiljanlegir áður en þeir kynntust konum og giftu sig eins og gengur, en vináttan var þó hin sama þó samverustundum þeirra fækkaði. 

Við skulum kalla þá Albert og Brand. 

Annar þeirra, Albert efnaðist vel og var heppinn fyrirtækjaeigandi. Albert átti sumarbústað en Brandur ekki, en hann var láglaunamaður, Brandur starfaði einnig í slökkviliði heimabyggðar sinnar.

Eitt sinn er þeir hittust var Albert nýkominn ásamt fjölskyldu sinni úr sumarbústað þeirra hjóna. Eftir að þeir höfðu rifjað upp yfir kaffibolla, ýmsar gamlar minningar og í lokin frásögn Alberts um hina dásamlegu dvöl í sumarbústaðnum, stakk Albert upp á því að vinur hans færi með fjölskyldu sína og nyti dásemdanna, hann rétti honum lykla af sumarbústað sínum og sagði að hann mætti dvelja þar eins lengi og hann vildi. Sannur vinur. 

Brandur var í fyrstu tregur til að þiggja þetta rausnalega boð, en lét svo undan þrákelni vinar síns.

Ekki segir frekar frá fyrr en í bústaðinn var komið seinni part dags. Fjölskyldan í skýjunum af tilhlökkun og ákveðin til hins ýtrasta að njóta vel.

Bústaðurinn var hinn veglegasti utan sem innan og ekki voru húsgögnin af verra taginu. Stórt og mikið útigrill var á veröndinni og ákveðið var að húsbóndinn grillaði kvöldverðinn, sem tókst með ágætum. 

Fram eftir kvöldi sat fjölskyldan á veröndinni og fylgdist með sólinni setjast allt þar til blóðrauð sólin hvarf bak á við skugga fjarlægra fjalla. Þá var sest inn í sófa sem var framan við stórann og veglegan arin. Börnin fengu ís sem þau fóru með afsíðis og hjónin fengu sér rauðvínsglas af flösku sem Albert merkti þeim og bað þau að njóta, sem þau gerðu og nutu í leiðinni friðsældarinnar.

Það kólnaði nokkuð eftir að sólin var sest svo Brandur ákvað að kveikja upp í arninum. Þarna var allt tilbúið, litlum tilsöguðum trjábútum hafði verið raðað snyrtilega í stafla inni í arninum og hálmi hafði verið komið þar fyrir undir svo ekki var erfitt að kveikja upp og ylurinn frá eldinum var fljótur að velgja hjónunum og ná úr þeim smá hrolli sem hafði gripið þau. 

Þau ræddu um ýmisleg, t.d. um hvað það væri yndislegt að eiga svona bústað ofl.  Nokkru síðar fóru þau að huga að krökkunum en þau höfðu ekki heyrt í þeim um tíma. Þau fundu krakkana steinsofandi í svefnplássi uppundir risi í bústaðnum, þau breiddu yfir þau og fóru svo niður, konan á undan. Þegar Brandur var um það bil að fara niður brattann stigann á eftir konu sinni, þá rak konan upp angistar vein og hrópað Brandur, Brandur það er kviknað í. 

Brandur var fljótur niður og sá fljótt að teppi sem var á milli arins og sófans var alelda. Hálf brunnin trjábútur hafði rúllað út frá arninum fram á teppið og kveikt í því. Brandur hugsaði sig um í skyndi. Hvar sá hann slökkvitæki ? Jú úti frammi við anddyrið, hann rauk þangað og greip tækið og gerði það klárt á leið sinni að eldinum sem talsvert hafði magnast.

Augnablik áttaði hann sig á sem slökkviliðsmaður að innsiglið á slökkvitækinu var rofið en hugsaði ekki frekar út í það heldur hleypti á fullu af tækinu að rót eldsins. 

Ekki minnkaði eldurinn við það heldur jókst það mikið að upp var komið mikið eldhaf. Hann lokaði fyrir útstreymið og lyktaði af stútnum 

Honum brá, hann fann megna steinolíulykt, það var steinolía á hinu meinta slökkvitæki. Hann hljóp að dyrunum og henti tækinu langt út og hljóp svo upp til krakkanna og þau hjónin hjálpuðust við að koma krökkunum út. 

Enginn farsími var til á þessum tíma frekar en sími í bústaðnum og langt til næstu byggðar. Klukkustund síðar var þakið fallið, rétt í þann mund sem fólk fór að streyma að og síðar slökkvilið frá næsta byggðarkjarna. Sumarbústaðurinn brann til kaldra kola ásamt öllu sem innandyra var.

Þetta allt saman var auðvitað mikið reiðarslag fyrir þau hjón og ekki síður fyrir krakkanna. Hvað ætli vinur hans Albert muni segja hugsaði Brandur. Báðir höfðu jú gert mistök sem orsakaði í sameiningu þennan eldsvoða. 

Það fyrsta sem Brandur hefði átt að gera var að vöðla saman teppinu og bera það út, þá hefði að líkindum ekki orði mikið meiri skaði og alls ekki eldsvoði. 

En á hinn bóginn og það alvarlega. Það var steinolían á „slökkvitækinu“ sem hafði hangið á þar til gerðu statífi við veröndina. 

Brandur og fjölskylda fóru á bíl sínum til byggða og á fund Alberts og sögðu honum tíðindin. 

Ekki varð Albert félaga sínum reiður og þakkaði fyrir að þau skyldu sleppa ómeidd frá brunanum, hann sagði þetta vera alfarið sér að kenna, Brandur sem var vanur slökkviliðsmaður sá í hendi sér að auðvelt væri að slökkva eldinn með slökkvitæki af þeirri stærð sem við dyrnar voru, raunar má segja allt þetta vera svolítið broslegt.
Hann hefði gert sér ferð í bústaðinn með vistir og raðað eldivið í arinn til að gera þetta sem þægilegast fyrir þau hjónin, meir að segja hefði hann keypt slökkvitæki til að skipta um í stað þessa sem hann hefði notað til að auðvelda við uppkveikju við grillið, sem mætti segja að væri glæpsamlega heimskulegt. 

Hann hefði verið svo upptekin við að laga til í bústaðnum að hann hefði gleymt slökkvitækinu í skottinu á bíl sínum og þar væri það enn. Sumarbústaðurinn væri  vel tryggður og allt í fínu lagi. 

Hann bað þó um að Brandur nefndi ekki, að minnsta kosti ekki af fyrra bragði að steinolía hefði verið í „slökkvi brúsanum,“ svona til að losna við þvarg frá tryggingafélaginu.