Eberg Elefsen
Eberg Elefsen vatnamælingamaður
Eberg Elefsen f. 20.5.1926 - d. 15.11.1989
- Í dag 28. Nóvember 1989 verður til moldar borinn Eberg Elefsen, vatnamælingamaður.
Lát hans kom ekki á óvart, því að rúm tvö ár eru nú liðin frá því að sá sjúkdómur uppgötvaðist, sem nú hefur leitt hann til dauða löngu fyrir aldur fram.
Lengst af hefur starfsvettvangur Ebergs verið á Orkustofnun og á forvera hennar Raforkumálaskrifstofunni þar á undan. Þar hefur hann unnið við vatnamælingar í 33 ár. Hún var því orðin löng starfsævin hjá Eberg og margs að minnast frá þessum tíma.
Eberg var Siglfirðingur að uppruna, fæddur þar 1926 og uppalinn til fullorðinsára. Hann gekk í Menntaskólanum á Akureyri og lauk þar stúdentsprófi 1947. Hann hóf nám í verkfræði við Háskóla Íslands og í Þrándheimi og einnig byrjaði hann á lögfræði við Háskóla Íslands. En hvorugt námið átti við hann og hætti hann því háskólanámi fljótlega.
Eberg kvæntist 1950 eftirlifandi eiginkonu sinni,
Inga Magnúsdóttir, og áttu þau 6 börn.
Þau eru:
1) Sigríður Elefsen líffræðingur,
2) Una Elefsen söngkona, nú látin, fædd 1951 dáin 1984
3) Sighvatur Óttar Elefsen (Sighvatur Elefsen) vélaverkfræðingur,
4) Sigrún Ásta Elefsen, fædd 1965
5) Þórður Elefsen fæddur 1965 - og
6) Sverrir Elefsen fæddur 1971 -
Barnabörnin eru nú 7. Þau hjónin byggðu sér hús á Álfhólsvegi 97 og hafa búið þar í um 30 ár. Eberg var mikill fjölskyldumaður og var einstaklega farsælt einkalíf þeirra hjóna og barnanna allra. Söngur og tónlist almennt var mikið áhugamál fjölskyldunnar. Sum barnanna hafa lagt stund á söng og tónlistarnám. Tónlistaráhuginn og hæfileikinn kom frá þeim hjónum.
Eberg starfaði sjálfur ekki mikið í söngmálum, en var mikill neytandi listarinnar og hlustaði mikið á söng og átti hann gott safn af plötum, sem mikið voru notaðar. Fyrir nokkrum árum féll mikill skuggi á líf þeirra á Álfhólsvegi 97 er dóttir þeirra, Una, lést úr samskonar sjúkdómi og nú hefur leitt Eberg til dauða. Una var þá í söngnámi og var álitin mjög efnileg söngkona.
Upphaflega hóf Eberg starf á Vatnamælingum sem sumarmaður en festist í starfi eins og svo al gengt er á vaxandi stofnunum. Hann hafði einnig alla þá eiginleika til að bera, sem góðan vatnamælingamann einkenna. Starfi Ebergs hér á Orkustofnun má skipta í 3 tímabil. Á fyrsta tímabilinu var hann aðstoðarmaður Sigurjóns Rists við vatnamælingarnar. Starfsliðið var ekki fleira og voru þeir því nánast alltaf saman á ferðalögum.
Síðar varð Eberg miklu sjálfstæðari í starfi þegar starfsfólki Vatnamælinga fjölgaði og var hann þá oft verkstjóri og hönnuður viðbyggingu vatnshæðarmæla og mælikláfa. Seinasti hluti starfsævinnar fór í að þjálfa og kenna þeim ungu mönnum, sem við tóku. Úthaldsdagar hafa oftast verið margir, um 100 dagar á ári utanbæjar, er sennilega algengasta árs verkið. Í öllum sínum störfum var hann einstaklega samviskusamur og vandvirkur.
Hann var góður smiður á tré og járn og kunni vel með vélar og tæki að fara. Allir þessir eiginleikar nýttust einstaklega vel í starfinu á Vatnamælingum. Þar eru byggð stór mælinga mannvirki, vatnshæðarmælar og mælakláfar oft á mjög erfiðum stöðum. Þar er farið í leiðangra inná hálendi í allskonar færð og á engan er að treysta nema sjálfan sig. Síðast en ekki síst, verður að mæla með það í huga, að þú mælir ekki aftur vatnið, sem runnið er til sjávar.
Þótt mikil saga fari af færni og samviskusemi Ebergs í starfi, hygg ég að hans verði ekki síður minnst af samstarfs- og samferðamönnum fyrir óvanalegan persónuleika. Starfið bar hann um land allt og hafði hann töluverð samskipti við fólk. Hann hlustaði á frásagnir þessa fólks og endursagði yfir kaffibolla í kaffistofunni eða við önnur tækifæri þegar slakað var á hinu daglega amstri. Yfirleitt voru þetta kímnisögur og hann sagði þær af mikilli snilld.
Eberg hafði mikinn áhuga á íslenskri tungu. Vildi hann þar hvergi halla réttu máli. Hann gerði mikið af því að búa til grínyrði utan í ensk orð, sem mikið eru notuð í fagmáli okkar, sem vinnum við virkjanir og undirbúning þeirra. Þessi enskublanda stafar af því að útboðsgögn eru gerð fyrir alþjóðleg útboð og þess vegna á ensku.
Þessi grínyrði eru oft nefnd ebergska, og hafa nú ýmsir aðrir reynt að spreyta sig á þessari orðasmíð. En einnig hefur Eberg skapað í fullri alvöru mörg nýyrði í fagmáli Vatnamælinga og eru sum þeirra í almennri notkun án þess að nokkur hugsi til uppruna þeirra.
Það er stórt skarð fyrir skildi nú þegar Eberg er fallinn frá. Við samstarfsmenn söknum góðs drengs og skemmtilegs félaga. Ingu, börnum og barnabörnum óska ég huggunar í sorg.
Haukur Tómasson
Eberg Elefsen - Ljósmynd: Kristfinnur