árið 1946 - Niðursuðan - 3

Ætlar Sósíalistaflokkurinn
að byggja stóra niðursuðuverksmiðju á Siglufirði?

Neisti 17. janúar 1946

Í síðasta tölublaði Mjölnis er grein undir fyrirsögninni: 

 “Tekst Sósíalistaflokknum að fá byggða stóra niðursuðuverksmiðju hér næsta sumar.” 

Á grein þessi að vera svar við nokkrum línum, sem ég skrifaði útaf tvískinnungshætti og yfirborðsmennsku Þóroddar í þessu máli. Greinin er óundirskrifuð en ber öll höfundarmerki Þóroddar. 

Er ekki annað sýnilegt en að flokkurinn ætli að byggja verksmiðjuna og starfrækja, en þó kemur fram síðar í greininni að ríkissjóður á að leggja til peningana. Það virðist eiga að halda markvist áfram á þeirri braut að byggja fyrirtæki til stuðnings fyrir flokkinn með framlagi frá því opinbera eða hálfopinbera og þróunin, áframhaldandi og stighækkandi. 

Fyrst Gilslaug og söltunarstöðin með framlagi kaupfélagsins og fyrir þess peninga, síðan “falkurútgerðin” og Gilslaug aftur með framlagi bæjarsjóðs og síðast stór! niðursuðuverksmiðja með framlagi frá ríkissjóði. 

Erlendur Þorsteinsson - Ljósmynd: Kristfinnur

Þessi grein sýnir glögglega að aldrei hefur vakað fyrir Þóroddi að koma málinu fram, heldur aðeins að sýnast. Heppilegustu leiðina fyrir flokkinn að sýnast í þessu máli hefur verið talin að leggja fram órökstudda tillögu í verksmiðjustjórn. Fylgja henni ekki eftir, bera hana síðan fram í frumvarpsformi á Alþingi svo að landsmenn gætu fylgst með umbótahug þeirra Sósíalistanna.

Þóroddur telur að Sveinn Ben. hafi verið tillögunni fylgjandi og viljað greiða atkvæði með henni strax. Ég veit að náin samvinna er á milli þeirra Sveins og Þóroddar. 

En annað sagði þó Sveinn við mig í símtali, sem hann átti við mig um þetta. En ef að Sveinn hefur verið málinu fylgjandi, hversvegna boðar hann þá ekki til fundar í verksmiðjustjórn strax og afgreiðir málið? 

Athafnir þeirra Sveins og Þóroddar bera þess glögg merki, að þeir hafa ekkert viljað gera til þess að koma málinu í örugga höfn. Um afgreiðslu áframhaldandi tilrauna í stórum stíl með niðursuðu er það rétt, eins og ég tók fram áður, að Þóroddur var ekki við. 

En hann vissi að málið var á dagskrá, og formaður verksmiðjustjórnar hafði sýnt honum eða sagt honum frá tillögu í þessa átt, og taldi hann henni fylgjandi. 

Í tillögu Þóroddar er ekkert um rekstursfyrirkomulag þessa fyrirtækis. Átti að taka halla ef yrði af bræðslusíldarhlut sjómanna, og þannig rýra enn hinn skarða hlut sem þessi stétt ber frá borði? 

Niðursuðan út af fyrir sig er heldur engin vetraratvinna fyrir Siglfirðinga, þar sem hún fer fram aðeins yfir síldartímann. Niðurlagning síldar að vetri til, þarf að verða í stórum stíl, ef um vetraratvinnu á að vera að ræða. En um þetta er ekki einn staf að finna í tillögu Þóroddar. 

Þóroddur telur nú atvinnumálaráðherra það til gildis, að hann hefur hlutast til um að frumvarp yrði flutt um þetta á Alþingi. Nú veit Þóroddur það að mjög miklar deilur hafa verið um það hvar þessi verksmiðja ætti að standa. 

Þess vegna hefði verið miklu öruggari leið að fá þetta mál samþykkt í verksmiðjustjórn og vinna því öruggt fylgi þar. Ef að hreppapólitík kemst inn í málið á Alþingi, getur það orðið því til mestu óþurftar. 

En í sambandi við fyrirtæki sem þetta er nauðsynlegt að sem mest reynsla sé fengin um fjárhagslega afkomu fyrirtækisins og sölumöguleika afurðanna. Stofnun miljónafyrirtækis, sem síðan væri ekki hægt að reka mundi verða öllum til tjóns og engum til gagns. Það væri flan en hvorki fyrirhyggja eða nýsköpun. 

Til þess að koma fyrirtækinu á stofn þarf því samvinnu sem flestra aðila, sem um málið vilja hugsa skynsamlega og leggja sem mest til hliðar pólitískar “spekulationir.” 

Enda mundi þá meira verða hugsað um framkvæmdir og öryggi fyrirtækisins, heldur en það að sýnast. Persónulegt hnútukast let ég mig litlu skipta. 

En leyfi mér aðeins að benda á þær staðreyndir sem fyrir hendi eru, um afskipti mín af “Rauðkumálinu” og þá fyrirgreiðslu, sem ég hefi látið í té, á öllum tímum, þrátt fyrir margskonar ýting og hnútuköst af þeirra hálfu, sem þóst hafa haft forgöngu í því máli.Siglufirði 

12. jan. 1946 Erlendur Þorsteinsson