Árið 1945 - Lýrisherslustöð á Siglufirði !
Lýsisherslustöð á Siglufirði.
Einherji 25. janúar 1945
Alþingi hefir nú þegar samþykkt að koma upp lýsisherslustöð, eftir því er frést hefir frá þinginu. Félagsmálaráðherra Finnur Jónsson átti frumkvæðið að málinu á þingi og ber honum þakkir fyrir. Málið hefir að vísu áður verið reifað í blöðum, einkum í tímariti verkfræðingafélags Íslands. Í umræðunum um málið á þingi kom í ljós, að lýsisherslu stöðin bæri að setja á Siglufirði.
Er þó enn ekkert fast ákveðið um það, vonandi tekst ekki Reykjavíkurvaldinu að gera of lítið úr því, að í Siglufirði einum fellur til innan 2ja ára miklu meira síldarlýsi en lýsisherslustöð gæti annað, er væri af stærri gerðinni, sem verkfræðingar hafa lagt til (T.Ó. 50 smálestir lýsis á sólarhring), að ég nú ekki tali um 25 smálesta afköst á sólarhring eins og einn góður og gegn borgari Siglufjarðar skrifaði um, fyrir nokkru í “Siglfirðing” og gerði ráð fyrir að komi.
Mikið hefir verið gert að því að gera sem mest úr rafmagnsþörf herslustöðvarinnar. Er það mjög orðum aukið, þótt auðvitað nokkurs rafmagns sé þar þörf, en það vegur þó ekki upp á móti því, að hráefnið - lýsið - þurfi ekki að flytja til framleiðslustaðar lýsisherslunnar. Sá, er þetta ritar, hefir góðar heimildir fyrir því, að í hinu umtalaða framleiðslu- og tæknilandi Bandaríkjunum, sé notuð koks frá Englandi við framleiðslu lýsisherslustöðva í Bandaríkjunum.
Að vísu skal það játað, að ég ber eigi nægilegt skynbragá á þetta mál. Varla ætlandi, að aðrir en sérfræðingar geti hér um fjallað, a.m.k. um sum atriði málsins. Verður því eigi rætt eins ýtarlega um málið og ella myndi.
Það er og góðsviti að eigi mun verða tekið á máli þessu af flokkasjónarmiðum. Munu allir flokkar vera hlynntir máli þessu og gott til þess að vita, að flokkssjónarmiðin eitri ekki fyrir málinu. Í stjórn síldarverksmiðja ríkisins mun og áhugi fyrir þessu.
Erfitt mun að rannsaka markaðsskilyrði slíkrar framleiðslu eftir stríð, en þess er að vænta, að Íslendingar hafi haft vit á að koma ár sinni vel fyrir borð í toll og viðskiptaefnum, er hin fyrstu skipti Íslendinga og Bandaríkjamanna hófust við hersetu þeirra hér í landi.
Væntir Einherji, að þessu máli muni vel reiða af og verða einn besti “nýsköpunar” velfarnaður þjóðarinnar, þótt komið hefði til tals áður en “nýsköpun”-in, í gæsarlöppunum hófst.