Hedvig Andersen

Hedvig H. Andersen, Siglufirði ­ 

Fædd 9. maí 1914 -  Dáin 29. desember 1991

 Árið 1920, þegar síldarævintýrið var að setja svip sinn á íslenzkt samfélag, sezt danskur vélsmiður, Georg Ágúst Andersen, fæddur í Kaupmannahöfn árið 1886, að í Siglufirði. Þar ól hann síðan aldur sinn meðan ævint entist honum; þar lézt hann árið 1970; þar hvílir hann í kirkjugarðinum undir fjallsrótunum ásamt fjölmörgum öðrum gengnum heiðursmönnum, sem settu svip sinn á Siglufjörð meðan vegur hans var hvað mestur. 

Andersen var sérstæður og skemmtilegur persónuleiki og hann var góður Íslendingur og sannur Siglfirðingur. Frá honum er kominn traustur ættbogi sem teygir sig vítt um land.

Í dag, laugardaginn 4. janúar 1992, verður til grafar borin norður í Siglufirði dóttir Georgs Andersen og fyrri konu hans, Kristínar Kristinsdóttur frá Grænhól í Kræklingahlíð, Hulda Hedvig Andersen, fædd 5. maí 1914, dáin 29. desember 1991. Eftir lifir eitt alsystkina hennar og fimm hálfsystkina frá síðara hjónabandi Georgs Andersen.

Fyrri maki Hedvigar Huldu var Karl Stefánsson, vélsmiður, fóstursonur þeirra merkishjóna Önnu Jóhannesdóttur og Stefáns Ólafssonar, sem kennd voru við Hlíðarhús í Siglufirði. Karl var lengi starfsmaður Síldarverksmiðju Siglufjarðarkaupstaðar, Rauðku, en forstjóri hennar í áratugi var Snorri Stefánsson, Hlíðarhúsum. Karl lést árið 1955. 

Börn þeirra, Hedvigar Huldu og Karls voru: 

Anna, gift Kristjáni Sigurvinssyni, framkvæmdastjóra, Kópavogi. Þau eiga eina dóttur: 

Hersteinn, vélsmiður í Siglufirði, kvæntur Maríu Karlsdóttur. Þau eiga tvö börn; 

Haukur Georg, sjómaður í Sandgerði, kvæntur Önnu Aðalsteindóttur. Þau eiga tvo drengi.

Síðari maki Hedvigar Huldu var Árni Árnason, lengi starfsmaður Siglufjarðarkaupstaðar. Hann lést árið 1983.

Hulda Hedvig Andersen var kona hógvær og hlédræg, en harðdugleg, heiðarleg og vel látin. Hún var þeirrar gerðar sem hreykir sér ekki hátt í samfélaginu en skilar sínu dagsverki og ævistarfi af vandvirkni og samvizkusemi. Ævi hennar var ekki alltaf dans á rósum, en hún bar hlutskipti sitt með reisn og myndugleika. Það kom bezt í ljós síðustu misserin þegar hún háði baráttu við erfiðan sjúkdóm, sem sýnt var að ekki yrði yfir unninn.

Ævisól Hedvigar Huldu sígur í djúp eilífðarinnar á vetrarsólhvörfum, þegar íslenzka skammdegið umvefur Siglufjörð og aðrar byggðir landsins. En þegar myrkrið er mest er ljósið skærast. Á vetrarsólhvörfum hefst árvisst kraftaverk, þegar sólin og birtan varða veg til nýs vors og nýs gróanda. Megi rísandi sól náttlausa sumars, sem fyrirheitin boða, mæta Huldu Hedvigu á nýjum leiðum.

Við Gerða sendum vinkonu okkar, Önnu og öðrum aðstandendum Hedvigar Huldu innilegar samúðarkveðjur.

Stefán Friðbjarnarson